Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Finnst værðin í stíl eða stöku?

     Fallegur dagur runninn upp, og eiginlega lýsandi fyrir líðan mína og ekki síst líðan á þessu ári.  Afstaðið er mikið rok og rigning en á þessari stundu er úti værð og friður þótt ég viti ekki hvað verður í boði.  Værð er það orð sem ég tek með mér yfir á nýtt ár og svo auðvitað leitin að skuggum framtíðar sem mikið komu við sögu hjá mér á stuttri bloggævi eftir góða athugasemd hjá góðum bloggfélaga en þetta fyrirbæri er þó óútskýrt með öllu.  Engu að síður er yfir mér værð og vellíðan og vil ég það þakka góðum bloggvinum og þeirri vitneskju sem kom mér einna mest á óvart að nokkrir væru að lesa bloggið mitt af áhuga.  Takk fyrir það kæru vinir.  Ég læt hér fylgja með ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk sem var mér hugleikið í leit minni að værð en síðasta línan sem þó átti við í marga mánuði á ekki við í dag.

 

Segðu mér, vinur, er sælan

í sólgylltum lundi?

Er hún í ungmeyja örmum,

eða indælum blundi?

Er hún í ljóðanna línum,

á listanna brautum?

Býr hún í barminum mínum

og birtist í þrautunum?

 

Er hún í úthafsins öldum,

sem æðandi falla?

Eða í holum og hellum?

Á hátindum fjalla?

Er hún í vinnu og vöku?

Í vaxandi megni?

Finnst hún í stíl eða stöku,

stormi og regni?

 

Er hún í elskenda augum,

hjá æskunnar lýði?

Er hún í Bakkusar bikar,

eða blóðugu stríði?

Er hún hjá blóminu bláa,

sem brosir og grætur?

Eða undir leiðinu lága?

Við lausnarans fætur?

 

Er hún í auðugra anda,

eða öreigans hjarta?

Þeirra, sem langþreyttir leita

að landinu bjarta?

Er hún hjá blómanna álfum,

á ylríkum degi?

Býr hún í brjósti mér sjálfum,

Þótt birtist þar eigi?

 

Við feðgar þökkum hlýhug og vináttu á liðnu ári og greinilegt að margur er ríkari en hann hyggur.

Við þökkum Guði fyrir þolinmæði í þrautum og nýjar vonir, fyrir nýja vini og nýjan skilning, fyrir handleiðslu í átt til framtíðar og endurnýjaða værð.

 

Takk fyrir okkur!

 


Svik hans við sjálfan sig eru í fararbroddi

     Ég sit í eldhúsinu,  með kaffibolla ,38 gráðu líkamshita hita, kúturinn sefur á tveimur eldhússtólum hérna hjá mér og ég hlusta á veðrið.  Ég held að þetta verði góður dagur.   Ég fékk kútinn minn óvænt tvisvar í gær, fyrst í tvo tíma seinnipartinn og svo í gærkveldi en við fórum hinsvegar allt of seint að sofa. Við vorum bara svo vel vakandi og lékum okkur að lego-kubbum.  Ég þarf að vinna eitthvað í dag svo kúturinn fer til mömmu sinnar á eftir.

     Jólasamveran þótt ljúf væri hafði svolitla eftirmála svo við eldri feðgar verðum líklega einir á gamlárskvöld í matnum en svo reikna ég með að hann fari út til vina svo ég verð einn yfir blá áramótin.  Það er hinsvegar alveg ljóst að skemmtanir og áfengisáhrif verða ekki upp á pallborðinu heldur ætla ég að fara að sofa fyrir kl 02 og vakna þá snemma á nýársmorgun nema eitthvað „óvænt“ komi upp.  „Óvænt“ er hinsvegar orð sem ég nota nánast aldrei því einfeldningur sem lifir einföldu lífi þarf hvorki að hafa áhyggjur af eða reikna með einhverju óvæntu.  Meira að segja sambandsslit á fjögurra til níu ára fresti teljast ekki lengur óvænt.

     Einhver slæmska hefur blundað í mér frá föstudagsmorgni en núna virðast kvef og hálsbólga vera að skríða fram með lágum hita og slappleika en það er ekkert sem kaffi, rigning og rok vinna ekki á.  Ég þarf að ákveða í dag hvað við unglingskútur snæðum á gamlársdag en andabringur hafa verið ofarlega í kollinum síðan í gær.  Það gæti orðið ofaná en ég þarf auðvitað samþykki hans fyrir því.

     Ég ef verið svolítið liðtækur í konfektáti þessa dagana og ræktin verið hunsuð í ábyggilega þrjár vikur.  Full þörf er því á vasklegum áramótaheitum en þar kemur Júdas sterkur inn.  Svik hans við sjálfan sig eru í fararbroddi og áramótaheitin hrannast upp í einföldum hugrenningum hans.  Þetta verður gaman að sjá.  Ég fann einmitt margra ára gamlan miða um daginn, en hann datt úr bók sem ég var að glugga í.  Þar var reyndar hægt með smá lagni að svínbeygja nokkur heitanna svo hluti þeirra gæti þótt með illu móti væri flokkast undir að vera efnd og held ég að Júdas komi þar sterkari inn en margur.  Hver segir svo að hann sé alvondur?  Hann er langlyndur, góðviljaður, öfundar ekki, er ekki raupsamur, gleðst ekki yfir óréttvísinni og samgleðst oftast sannleikanum.   Ef vel er samt lesið eru nokkur atriði sem hann getur ekki talið þarna upp en þau eru ábyggilega nú þegar komin í ljós í þessum pistlum mínum.  

Njótið dagsins


Gott kvöld gamli maður

     Þetta ljóð er búið að vera ofarlega í huga mínum undanfarið, því mér finnst tíminn líða svo hratt.  Innra með mér er alltaf sama barnið eða ungi maðurinn í grunninn en í farteskinu er þroski og reynsla undanfarinna ára.  Ekki grunaði mig það hér áður þegar ég horfði á eldra fólk að innra með því væri jafnvel barn,  óháð tíma og rúmi.

 

 

Ég var lítið barn

og ég lék mér við ströndina.

Tveir dökkklæddir menn

gengu fram hjá

og heilsuðu:

Góðan dag, litla barn,

góðan dag.

 

Ég var lítið barn

og ég lék mér við ströndina.

Tvær ljóshærðar stúlkur

gegnu fram hjá

og hvísluðu.

Komdu með ungi maður,

komdu með.

 

Ég var lítið barn

og ég lék mér við  ströndina.

Tvö hlæjandi börn

gengu fram hjá

og kölluðu.

Gott kvöld, gamli maður,

gott kvöld.

 

Steinn Steinarr


Þá er þessum ágætu dögum lokið

     Þá er þessum ágætu dögum lokið.  Dögum sem setja allt á annan endann og þótt menn tali um að jólum sé ekki lokið fyrr en  á þrettándanum finnst mér allt þetta umstang snúast um  þessa tvo eða þrjá daga og þrátt fyrir áramótastemmninguna er hún einhvernvegin miklu afslappaðri á allan hátt.     Jólin fóru vel fram hjá okkur, síðasta skúringarstrokan var tekin um kl 15, og gamli sófinn borinn út rétt áður.   Unga konan mætti um hádegi og matseldin komin á fullt ekki löngu seinna.  Unglingurinn var ekki í neinu sérstöku jólaskapi enda coolið ofar öllu og varla hefur það verið til að auka það að hann fékk símhringingu eftir hádegi því móðir hans hafði gleymt að senda honum jólapakkana frá henni og hennar fólki svo ekki var von á þeim fyrr en eftir jól.  Ja hérna, og við erum bara að tala um Þorp úti á landi.  Vinurinn tók því bara vel að því er virtist en hver veit hvað leynist í sálarfylgsnunum.   Pabbi kútur var með varaleiðir í þessu eins og öllu öðru svo litlum pökkum frá kútnum og fleirum bættust í pakkastaflann undir trénu.  Annars er unglingskúturinn svo þroskaður í mörgu og nokkrum vikum fyrir jól nefndi hann það við mig að við feðgar ættum bara að sleppa öllu gjafaveseni, hann væri soldið blankur og honum fyndist að við ættum bara að njóta matarins og þess að vera saman og svo væri það alveg gefið að litli kútur þyrfti hjálp okkar við að opna alla þá pakka sem hann fengi og hefði varla orku í að opna.  Auðvitað keypti ég jólagjöf handa honum og það virtist koma honum á óvart en fyrr um daginn hafði einhver ónefndur „laumað“ að honum gjöf sem hann gat pakkað inn handa pabba sínum.  Ótrúlegt hvað hlutirnir geta gengið upp.     

     Eina vandamálið sem fylgdi þessum dögum var svona daginn eftir vandamál, en þá birtist unga konan aftur og erfitt þegar líða tók á daginn að verða einn aftur.   Margir hlutir rifjuðust upp fyrir mér og alveg borðliggjandi að einstæður faðir er ég og mun verða, allavega svo langt sem ég sé.  En það tókst á endanum.      

     Nú liggur þyngra á mér en margt annað hvort ég ætti ekki án þess að særa nokkurn að vera einn á gamlárskveldinu með unglingnum mínum og ef til vill kútnum ef okkur ungu konunni semst um það.  Við tekur hversdagsleiki, örlítið tómlegur en fegurð og birta undan genginnar snjókomu gæti lyft þessu upp.

   Njótið dagsins.  


Lítil jólasaga-Gleðileg jól kæru vinir

     Það var á aðfangadag fyrir mörgum árum í verslun í Stórþorpi úti á landi.  Erill undanfarinna daga hafði verði mikill, flestir þreyttir og ungafólkið í búðinni farið að telja niður mínúturnar í lokun og fáir eftir í versluninni.  Unga fólkið vissi að auglýstur lokunartími var afstæður og ekki yrði lokað fyrr en fólk hætti að koma inn og ef einhver bankaði á glerið var auðvitað opnað fyrir honum.  Þetta voru nú einu sinni jólin.  Þegar allt hafði verið kyrrt í dálítinn tíma gaf verslunarstjórinn bendingu um að leikfangaversluninni yrði lokað og gleði starfsfólksins var augljós.  Einhver benti þó á að inni á milli rekka í dótahorni væri hreyfing og við eftirgrennslan vissum við að þar var einhver enn að versla.  Tíu mínútum síðar var enginn farinn að koma fram að kössum svo verslunarstjórinn gerði sér ferð þangað til að veita aðstoð ef þyrfti.  Maður um þrítugt af erlendu bergi stóð þar vandræðalegar í víðri úlpu, niðurlútur og örlítið fát mátti merkja en hann stóð þó bara þarna eins og illa gerður hlutur.  „Get ég aðstoðað þig vinur“ sagði stjórinn en fékk ekkert svar,  „get ég hjálpað  þér vinur minn með eitthvað“ endurtók hann en maðurinn stóð bara kyrr og horfið niður en þó mátti greina öran andardrátt og vandræðalegar hreyfingar.........Verslunarstjórinn kom alveg upp að honum og leit örlítið niður eins og til að ná augnsambandi við hinn niðurlúta mann sem einhvern veginn virtist svo umkomulaus eins og hræddur fugl, titrandi og tárvot augu komu í ljós þegar augu þeirra mættust.  „ Er eitthvað að vinur“ sagði stjórinn en bætti svo við eftir að hafa rennt vökulum augum yfir manninn,  „ertu með eitthvað innan á þér“.   Sá umkomulausi renndi niður víðri úlpunni og þar glitti í eitthvað.   Út undan henni dró hann litla dúkku í pakkningu.  Skömmin var mikil og greinilegt að þessi maður var þjófur þessa stundina og hafði sett inn á sig dúkku sem kostaði ekki nema tæpar þrjúhundruð krónur,  hafði verð í ódýru grindinni, hálfgert drasl en þó einhverra hluta vegna verið að því er virtist þessum manni ofviða að greiða fyrir hana.  Unglingarnir í búðinni fylgdust hljóðir með úr fjarlægð og í útvarpskerfi búðarinnar hljómaði lag um kærleika og frið í anda jólanna.  Margir hlutir æddu í gegn um huga verslunarstjórans, reglur og reglubrot, samviskusemi og vorkunn, kærleikur og auðmýkt.

Mörgum sinnum í viku er lögreglan kölluð til vegna búðaþjófnaða enda reglur fyrirtækisins ljósar.  Allur þjófnaður skyldi kærður til lögreglu og unga fólkið í búðinni beið með öndina í hálsinum.  Fjórir tímar þar til jólabjöllur glymdu.  Hvað fær mann eins og þennan til að stinga inn á sig þrjúhundruð króna dúkku annað en eymd og fátækt einhvers sem hefur áhyggjur af því að lítil stúlka í lítilli íbúð einhversstaðar úti í Þorpi fái ekki jólagjöf.  Þetta var það sem upp kom í huga verslunarstjórans og hann greip í handlegg mannsins, leiddi hann að kössunum, gaf einni kassadömunni bendingu með höfðinu um að koma,  tók upp kortið sitt og setti á afgreiðsluborðið ásamt dúkkunni.  „Við skulum afgreiða þetta svona“ sagði hann og rétti svo manninum dúkkuna en sá erlendi starði bara á hann.  Tárin tóku að streyma og hann ætlaði ekki að vilja sleppa þéttu handartaki.  Þakklætið leyndi sér ekki.  Út fór hann, en allan tímann hafði hann ekki mælt eitt orð.  Þrjár kassadömur voru með glansandi tárvot augu en við brostum þó hvert til annars sannfærð um að þannig átti þetta að vera.  „Jæja, sagði stjórinn, „ við skulum taka léttan frágang og koma okkur heim“.  „Undantekningin sannar regluna og það eru nú einu sinni jól“.   Svik Júdasar í þetta skiptið voru ef til vill stærri en honum fannst sjálfum en það veit Guð að þetta myndi hann gera aftur við sömu aðstæður. 

     Mörgum árum seinna á öðrum vettvangi rakst hann á tvær stúlkur, orðnar ungar konur á förnum vegi.  Eftir smá spjall rifjaði önnur þeirra upp þetta atvik sem hafði gleymst í önnum hversdagsleikans.  Þetta var svo rétt, sagði hún og kenndi okkur svo mikið......ég gleymi þessu aldrei.......

    

     Við þurfum stundum að hlusta á samvisku okkar þótt erfitt sé í daganna önnum og treysta því að þar, í glímu góðs og ills, hljómi hin fallega réttláta rödd þess Guðs sem við höfum valið og getum leitað til og þakkað í blíðu og stríðu.  Við göngum upprétt inn í þessa komandi hátíð ljóss og friðar en munum að biðja góðan Guð að standa við bakið á þeim sem lítið eiga og minna mega sín og notum hvert tækifæri sem gefst til góðra verka og munum að lítið bros í hversdagsleikanum og leiðbeiningar samvisku okkar geta glatt marga.

Guð gefi ykkur öllum Gleðileg jól kæru vinir.  Njótið líðandi stundar.


Lét einhver orð falla um óskapnaðinn

     Þetta verða svo sannarlega Gleðileg jól í okkar hreiðri.  Það er ljóst.  Þegar ég læddist fram úr áðan eftir tæplega fimm tíma svefn staðráðinn í að vekja ekki kútinn grunaði mig ekki að snjór hefði lagst yfir borgina.  Ég hefði tárast ef ég hefði verið kona en Júdas veit nú hvað hann má og hvað ekki í þeim málum, en fallegt er þetta.  Annir undanfarinna daga hafa verið gríðarlegar og því hef ég ekki talið mig geta bloggað í tvo daga.  Ég settist í gær inn á kaffihús og ætlaði að fá smá kyrrðarstund með sjálfum mér og tölvunni og blogga en síminn hringdi án afláts og eftir 20 mínútna veru, einn tvöfaldan expresso og sex símtöl átti ég þó þrjú símtöl eftir sem ég ekki gat svarað.  Ég átti greinilega ekki að fá að setjast niður svo ég æddi út aftur, renndi niður á skrifstofu og í erilinn á nýjan leik.    Flestir hlutir voru á réttri leið í jólaundirbúningnum, aðeins ein gjöf ókeypt, pakkarnir í Þorpið komnir á hestapóst og búið að gera samning við ofurljúfa fullorðna konu um að þrífa kotið því við eldri feðgar erum búnir að vara svo önnum kafnir í vinnu að við hefðum þurft að gera þetta að nóttu til ef við hefðum átt að ná saman með það.  Hinsvegar þurfti ég að kóróna þetta allt, alveg eins og bjáni með því að storma inn í húsgagnaverslun í gær þegar allt var að ganga upp og versla mér leðurhornsófa án þess að vera búinn að koma hinum fyrir eða henda honum þannig að þegar ég kom heim í seint í gærkveldi með ofurþreyttan kút og níu poka af matvörum beið mín út um alla íbúð innpakkað ferlíki sem hvergi virtist eiga heima og það leit ekki út fyrir að það kæmist nokkur staðar fyrir með góðu móti.  Það er eins og maður þrífist best á hamagangi og látum og ef rofar til skal það fyllt með einhverjum nýjum verkefnum frekar en að slaka duglega á.   Kúturinn horfði rauðeygur á og ekki löngu seinna kom unglingurinn heim og lét einhver orð falla um óskapnaðinn.  „Ertu ruglaður pabbi“  Hvað ætlarðu að gera við hinn sófann?  Það tók okkur nokkra klukkutíma að koma þessu öllu fyrir og ekki var lagst til hvílu fyrr en rúmlega þrjú í nótt.  Ég verð samt svo bloggvinir haldi ekki að ég sé eyðslusamur yfirdráttar og vísa notandi sem fer hamförum í jólaeyðslunni að svo er ekki.  Vísakort eða yfirdrættir eru ekki notaðir á þessum bænum og gamla sófann keypti ég notaðan fyrir sex árum þegar rauðhærð kona flutti út frá mér og borgaði ég 25 þúsund íslenskar krónu fyrir hann.  Þá var ég nefnilega ekki viss um að ég yrði í húsinu áfram og stofan stóð auð.  Nýja sófann hef ég litið löngunaraugum í heilt ár og það að ég skildi kaupa hann núna kemur sjálfum mér á óvart því ég læt yfirleitt ekki eftir mér svona hluti sjálfum mér til handa svo þar hafið þið það.  Enga fordóma takk.  Júdasar eru líka fólk.

   Fyrir utan gamlan hornsófa á víðavangi var gott að koma á fætur í morgun,  værð yfir kotinu, stútfullur ísskápur, svo fullur að unglingurinn sagðist ekki hafa séð hann svona fullan frá síðustu jólum, snjóþekja yfir fallegri borginni......................og nú heyri ég neyðarhróp kútsins innan úr svefnherbergi svo ég læt þetta duga þar til síðar í dag.  Ég bíð með jólakveðjuna.


Tré sem voru ágætlega vaxin niður

     Stressdagar landans eru nú að renna upp og fyrsti í stressi líklega í dag.  Ég stend nokkuð vel að vígi í þessu og jólatréð keypti ég í gær.  Eftir nokkrar símhringingar í unglinskútinn þar sem uppeldið sagði virkilega til sín fór ég einn að kaupa jólatré.  „Hvað er eiginlega að þér pabbi.........heldurðu að ég láti ekki vinnuna ganga fyrir? Berðu enga virðingu fyrir vinnunni minn?“....................svo ég fór einn.  Ég rölti  inn í Blómaval og vappaði þar um í þó nokkurn tíma og skoðaði áður en ég fór að jólatrjáa sölunni.  Inn á milli allra trjánna stormuðu eiginkonur og unnustur sem greinilega stjórnuðu þessum innkaupum, gripu í tré og kölluðu á karlpeninginn þegar þær fundu tré sem uppfylltu drauma þeirra og væntingar.  Stingandi augnaráð og hvassar raddir varð ég líka var við þarna og öfundaraugnaráð á tré náungans sem þær héldu fallegra en það sem þær héldu í sjálfar.  Ég upplifði mikinn pirring og hörfaði frá þessum kaupum og út í bíl.  Þegar heim var komið var ég ósáttur við að hafa ekki bara hlaupið inn í hauginn og valið mér tré en þá væri þessu bara lokið núna.  Klukkutíma síðar var ég aftur lagður af stað og ákvað að reyna aftur.  Það var rólegra yfir staðnum í þetta skiptið og ég gat rölt þarna um í rólegheitum, horfði yfir öll trén og reyndi að ná tilfinningasambandi við þau en illa gekk.  Nú hefði ég viljað eiga eina, unnustu eða konu og allt í lagi þótt hún væri skapvond eða hortug bara ef hún gæti valið þetta blessaða tré á augnabliki og við trítlað með það heim í hreiður. Jafnvel þótt það hefði tekið nokkra tíma að vinna hana aftur til gleði og hver veit nema kvöldið hefði endað í endalausri hamingju og við svifið á........................Púff..............besta að fara ekki nánar útí það.

      Ég tók eftir því að þau tré sem ég náði „augnsambandi“ við voru tré sem voru greinilega eitthvað afbrigðileg.  Tré sem voru ágætlega vaxin niður en eitthvað að toppstykkinu.  Þau máttu ekki vera of umfangsmikil, hið neðra, urðu að vera frekar há, en þó varð mér meira starsýnt á þau lægri, ekki mátti glitta of mikið í stofninn þannig að það varð að samsvara sér nokkuð vel og vera vel „greinað“ en toppstykkið var alltaf eitthvað afbrigðilegt þegar öllu hinu var náð.  Mér finnst ég hafa upplifað þetta áður en bara á öðrum vettvangi sem ég man bara ekki hvar í augnablikinu.  Eftir hálftímaleit stökk ég inn í hrúguna og greinilegt að einhverjir straumar höfðu myndast.  Út úr henni dró ég þetta gullfallega tré með vankað toppstykki en þeir voru þrír talsins.  Þarna var það og gæti klárlega uppfyllt drauma mína og væntingar þessi jólin.  Þegar heim var komið var ég ekki viss um að ég ætti að skera netið utan af því en það liggur í augum uppi að ef ég gerði það myndi þetta tré taka öll völd á heimilinu hjá mér og í stofunni.  Skarta sýnu fegursta fyrstu dagana en fara svo halloka og verða til tómra vandræða í lok tímabilsins.  Ferlega minnir þetta mig á eitthvað og topparnir þrír þeir gera það líka?   Jæja, tréð er fallegt og ég hlakka til að skera utan af því og ætla bara að láta vaða.

Hlakka til dagsins og svo byrjar auðvitað kútavikan kl 17.

Eigið góðan dag.


Ef til vill fann Júdas leiðina

 

Nú andar næturblær um bláa voga.

Við bleikan himinn daprar stjörnur loga.

Og þar sem forðum vor í sefi söng

nú svífur vetrarnóttin dimm og löng.

 

Svo undarlega allir hlutir breytast.

Hver árin skipta svip og hjörtun þreytast.

Hve snemma daprast vorsins vígða bál.

Hve vínið dofnar ört á tímans skál.

 

Svo skamma stundu æskan okkur treindist.

Svo illa vorum draumum lífið reyndist.

Senn göngum við sem gestir um þá slóð,

sem geymir bernsku vorrar draumaljóð.

 

Og innan skamms við yfirgefum leikinn.

Ný æska gengur sigurdjörf og hreykin,

af sömu blekking blind, í okkar spor.

Og brátt er gleymt við áttum líka vor.

 

Og þannig skal um eilífð áfram haldið,

uns einhverntíma fellur hinsta tjaldið.

 

Tómas Guðm.

 

      Þetta ljóð sat í mér eftir ljóðalestur gærkveldsins og ef til vill vegna hugsana sem sóttu á mig eftir heimsóknina í Þorpið.  Ég keyrði þar um eins og vofa, þekkti engan og allsstaðar ný andlit, ný æska.   Stöku sinnum finnst mér ég þó kannast við einhvern en hann var ábyggilega ekki gráhærður eða sköllóttur og alls ekki svona hokinn svo líklega fór ég mannavillt.  Ég var ungur og þrek mitt óþrjótandi, glæstir draumar og ættarviðjar héldu í mig en þá mætti ég sjálfum mér, eða var það Júdas sem ég mætti?  Hver veit.

Ilmur stórborgarinnar gagntók mig og spor mín um þorpið hurfu.  Spor sem ég hélt að væru eilíf, spor sem ég hélt að yrðu fetuð af börnum mínum og komandi kynslóðum en ég hafði rangt fyrir mér eins og svo oft áður.   Ef til vill hef ég þó rétt fyrir mér með það að spor stigin til framtíðar liggi um sálarfylgsni sona minna eftir ljúfar stundir og ljúfa sigra í smábardögum hversdagsleikans.  Hver veit?

Ef til vill fann Júdas leiðina og hefur nú þegar lagt djúp spor sem ekki fennir yfir og ekki eru stigin til einskis.  Spor stigin í átt til skugga framtíðar,  spor til frelsis, spor til blessunar.

 

Njótið dagsins.

 


Hrokafullir bæjarbúar

     Ég ferðaðist í dag til Þorpsins og var þar að vinna í dag að ákveðnum verkefnum.  Fallegt þorp á margan hátt og íbúarnir búnir að jóla skreyta eins og höfuðborgarbúar.  Þetta er lítið samfélag sem þó er talið stórt af íbúunum sjálfum og jafnvel stórt á heimsmælikvarða,  halda þeir.  Óneytanlega spretta fram minningar þegar ég kem þangað en þær góðu sem eru í miklum meirihluta drukkna í biturleika sem þó snýst aðeins um það að hafa ekki flutt þaðan fyrr.  Furðulegt því það var ekki slæmt að alast þarna upp og allt var í rjómalogni.................í orðsins fyllstu merkingu.  Stöðnunin var algjör og er það jafnvel enn.   Það er þessi stöðnun sem pirrar mig.   Allt niðurnjörvað af íbúunum sjálfum sem meira að segja hafa hrakið burt úr bænum heiðursmenn og dugnaðarforka af því þeir brutu „stöðnunarreglurnar“ og sögðu eða framkvæmdu hluti sem ekki hentuðu hrokafullum bæjarbúum.  En við hverju er að búast þegar menn standa sperrtir, sjálfumglaðir, hrokafullir og sjálfselskir, pissa upp í vindinn og standa svo rauðeygir og hlandblautir,  svíðandi í augun og sjá ekki neitt.  Þetta eru Þeir og Þeir búa í Þorpinu.

     Bönnum þetta og bönnum hitt, þessi má en ekki hinn.   Vaknaðu Þorp, til lífsins.

     Ég rakst á nokkra gamlar skólasystur og þá meina ég gamlar.  Hvernig getur staðið á því að þær hafi elst svona hratt?  Miklu hraðar en ég.  Mér fannst þær bara reglulega gamlar en þó sjarmerandi nokkrar þeirra.  Ég rakst líka á tvo gamla skólabræður, báðir orðnir hárlausir með öllu og gamlir að sjá.  Ferlega líður tíminn í Þorpinu hratt.  Eins gott að ég kom mér í burtu í tæka tíð.

  

Konur ilma

     Ég var að koma heim rétt áðan úr vinnu,  ágætur dagur en einhver söknuður að þjaka mig.  Jólin eru næstum því tilbúinn hjá mér en eitthvað vantar.  Ég rölti inn í nokkrar búðir áðan og stóð þar eins og illa gerður hlutur og horfði yfir.   Upp í huga minn kom lagatextinn „konur ilma“...............     

     Ég veit það hljómar furðulega en alls ekki meint á slæmum nótum en þegar söknuður er mikill og dapurleiki vegna þess ríkjandi tekur maður eftir öllum smáatriðum í kringum sig sem lúta að því sem veldur söknuðinum, eins og maður sé utan við veröldina, áhorfandi og sjái hana jafnvel spilaða of hægt.   Fallegar konur fylgja mönnum sínum og ilmur þeirra eins og falleg ósýnileg slæða sem flagsast til og frá, og þær ilma.  Það er þessi ilmur sem ég sakna.  Ég rifja það upp núna að ég var að blogga um ilm fyrir nokkrum dögum en þetta er eitthvað svo ofarlega í huga mér þessa dagana.  Ég sakna þess svo óendanlega mikið, finna nálægðina , andardráttinn, léttar strokur jafnvel bara í búð eða biðröð, gripið í handlegginn á manni og jafnvel hvíslað í eyrað, stundum eitthvað sem litlu máli skiptir eins og  „æi, komum bara“ en einnig jafnvel án sérstaks tilefnis „ég elska þig“ eða , eða bara eitthvað...............

Konur ilma!

 

Í gulu sólskini gekk ég

um götur og torg,

og gróandans barkandi angan

barst mér að vitum.

 

Sál mín var hljóð og dimm

eins og djúpur brunnur,

og hönd mín var hvít og tærð.

 

Og ég, sem þekkti ekki mismun

á hamingju og harmi,

horfði með söknuði og trega

á eitthvað, sem ekki er til.

 

Steinn Steinarr


Næsta síða »

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband