Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Ég boða nýjan dag

     Það er eins og bókin hafi verið opnuð aftur.  Bókamerkið fundið og hún opnuð á hárréttum stað og jafnvel á besta stað í bókinni þótt það verði auðvitað ekki vitað fyrr en síðar.  Ef þetta væri teiknimynd er ég sannfærður um að það hefð komið söngatriði og litskrúðug blóm og regnbogar flætt yfir skjáinn.  Í söngleik hefðu sennilega allir leikararnir stormað á sviðið í fjöldasöng og dansatriði, fólk faðmast og  Í leikinni mynd hefðu vafalaust komið tár í augun á margri konunni en við karlmenn hefðum bara fengið kökk í hálsinn og sagt eitthvað svalt með tvíræðan húmor til að halda „svalanum“ sem við erum svo háðir.  Þótt margt hafi verið sagt og skrifað í djúpum hugsunum og vangaveltum um lífið og tilveruna er það alveg ljóst í mínum huga að örlítil áhætta og jafnvel kæruleysi geti verið þess virði.  Við vitum hvort sem er ekkert um framtíðina og það að ætla alltaf að stíga skrefin, bakka svo og skoða sporin rækilega og íhuga það hvert þau gætu leitt mann og hvaða afleiðingar það gæti haft í för með sér að stíga þau áfram í þessa átt gæti leitt til þess eins að hvert skerf yrði  ógn við sjálfa gleðina sem fylgir því að geta tekið ný skref og notið alls þess sem nýir hættir, nýtt umhverfi og nýir staðir í lífinu hafa upp á að bjóða.  Við getum jafnvel gengið yfir grýtt land en notið þó umhverfisins og útsýnisins, sagt við okkur sjálf sem og aðra  „sjáið fjallið, þarna fór ég“  , því auðvitað spretta ekki blóm í hverju spori en við getum þrátt fyrir það notið lífsins og fundið gleðina í hjarta okkar.

    

     Fyrirhyggja skilgreind af særðum einstaklingi getur því farið út í þær öfgar að vera ógn og óhamingja en ekki sú stoð sem henni var ætlað í fyrstu að vera.   Ég fullyrði líka að seinna meir þegar um hægist og aldurinn segir til sín sé mikil gleði fólgin í því,  svo ekki sé talað um innlegg í reynslubankann, að geta litið til baka og séð þessi teknu spor frekar en að líta til baka og sjá bara ónotaða skó sem aldrei var farið í og engin spor tekin. 

     Fegurð hvers dags er nefnilega ekki það sem við sjáum þegar við lítum út um gluggann heldur það sem við finnum innra með okkur þegar við horfum út um hann. 

Ég rifja upp sem fyrr gamlar vangaveltur frá því í nóvember í fyrra en þá var staðan önnur.

 

 Nýr dagur og nýjar vonir.   Ef til vill er þetta dagurinn...................dagur efnda.  Kúturinn fer til mömmu sinnar í dag svo þetta gæti orðið dagur saknaðar eða dagur biðar.  Tæplega verður þetta dagur hryggða því hún hefur verið fjærri mér undanfarði og þar af leiðandi verður þetta ekki dagur depurðar því þær vinkonur haldast gjarnan í hendur.  Dagur ótta verður þetta ekki því hvað ætti ég að óttast og ekki sé ég fyrir mér dag skelfingar þótt vafalaust sé hann það einhversstaðar.  Dagur mæðu verður þetta ekki og dagur böls varla heldur því böl hefur verður blessunarlega fjærri mér alla tíð, og dag erfiðleika óttast ég ekki.  Í erfiðleikum hefur hinn þriðji óslítanlegi þráður haldið tilverunni í samhengi og reikna ég með því að svo verði áfram.  Varla dagur dulúðar því flestir hlutir eru ljósir eða hafa verið gerðir það.  Dagur væntinga verður þetta ekki því hvers ætti ég að vænta á degi eins og þessum?    Getur verið að þetta séu alltaf sömu vonirnar og þá spyr maður sig hvort verið geti að þetta sé alltaf sami dagurinn!   Við feðgar eldri göngum vængbrotnir inn í þessa helgi eins og fleiri......en ég valdi það og stend við það................................“ 

 

Ég boða því nýjan dag,  nýjan yndislegan dag.  Nýjan dag hjá okkur kútum.

 

Njótið dagsins og skrefanna.

   

Ilmur og værð hjá kútum

     Það er kominn jólahugur í mig og eldri kútinn.  Mér varð það hins vegar á í fyrradag að segja litla kútnum að nú færu jólin að koma og þá fengi hann jólapakka.  Allt það kvöld og allan daginn í gær var hann að spyrja eftir þessum pakka og ég reikna með því að það verði eins í dag.  Biðin verður greinilega erfiðust fyrir þennan þriggja ára kút sem veit ekkert um jólin en veit sko hvað pakki er!

     Það var gott að koma fram í morgun rólegur og fullur vellíðunar rétt eins og í „gamla“ daga.  Vita hvað ég á og hvað ég má.  Þakka Honum fyrir nýjan dag og endurnýjaða værð.  Það sofa allir nema Júdas gamli og stefnan strax sett á kaffiskápinn.  Þarna var síðasti kaffipakkinn af grýlukanil kaffinu sem ég er vanur að kaupa nokkra pakka af í desember ár hvert svo ég eigi þá út árið til notkunar á sérstökum stundum.  Þetta kaffi er bara framleitt í desember og til fram í janúar enda jólalegra kaffi varla til.  Kaffiilmurinn liðast um eldhúsið holið og mætir fallegum ilmi fegurðar sem áður tilheyrði skuggum fortíðar en tilheyrir nú fallegri tilveru kútafeðganna.    Vafalaust horfir Hann niður og brosir skilningsríkur og fer yfir það í huganum hversu oft hann hafi þurft að blása lífi í þennan þreytta svikula mann sem á það til að henda frá sér því sem hann unnir mest til að halda í stoltið en elta svo eigin skugga og spor hring eftir hring.  „Best að láta hann ná sér núna“ , hafur hann vafalaust  hugsað og brosað svo föðurlega og fylgst með.  Á einni helgi breyttist allt, þegar Júdas loksins fylgdi hjartanu.

     En kaffið er gott og eitt af því sem breytist seint.  Ein af þessum fáu nautnum sem ég hef ekki séð ástæðu til að losa mig við.  Ég hef alltaf haft þessa tilhneigingu að ef eitthvað nær tökum á mér og mér finnst ég verða háður því þá losa ég mig við það.  Vímuefni eru ekki í þessum hópi því þesskonar fíknir hafa aldrei herjað á mig.  Súkkulaði hinsvegar er í þessum flokki og þess vegna hefur sælgæti ekki farið inn fyrir varir mínar frá því í apríl og óvíst um framhaldið.

Allt hefur sinn tíma og ljóst að dagar einmanaleika og depurðar eru liðnir.  Við kútar erum glaðir og bjartsýnir og ég rifja upp pistil sem ég skrifaði 10.11. 2007.

„Ef maður hugsar of mikið um suma hluti er eins og allt fari á flug hjá manni og fleiri spurningar vakna en leitað var svara við í upphafi.  Gætum við verið að  leita svaranna aðeins of langt frá okkur og gætu svörin hugsanlega verið við tærnar á okkur?  Getur verið að sannleikurinn sé svo einfaldur að hann verði ekki skilinn eða er hann eins og jafna sem ekki gengur upp?  Ég er sjálfur í leit að einhverju og treysti því að það villist ekki einhver inn á síðuna sem haldi af fyrrihlutanum að ég sé með svörin því það er langur vegur frá því.  Mér skilst hinsvegar að allir hlutir hafi sinn tíma og því teysti ég á  að sorg og söknuður,  vanlíðan og depurð fari eða hverfi en geri mér það þó ljóst að það geti skollið á mér aftur síðar. Ekkert undir himninum er komið til að vera, allt virðist vera hverfult, en þetta er þó ljóst:   Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma, að gróðursetja hefur sinn tíma og að rífa upp það sem gróðursett hefur verið, hefur sinn tíma, að deyða hefur sinn tíma og að lækna hefur sinn tíma, að rífa niður hefur sinn tíma og að byggja upp hefur sinn tíma, að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma, að kveina hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma, að kasta steinum hefur sinn tíma og að tína saman steina hefur sinn tíma, að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma, að leita hefur sinn tíma og að týna hefur sinn tíma, að geyma hefur sinn tíma og að fleygja hefur sinn tíma, að rífa sundur hefur sinn tíma og að sauma saman hefur sinn tíma, að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma, að elska hefur sinn tíma og að hata hefur sinn tíma, ófriður hefur sinn tíma og friður hefur sinn tíma........................Ég hlakka til vinnáttunnar, værðarinnar og kærleikans.  Ég hlakka til angans,  augnatillitanna og glettninnar.  Ég hlakka til löngunarinnar, þrárinnar og væntinganna.  Ég hlakka til stoltsins, glæsileikans og djörfungarinnar.  Ég hlakka til kossanna, strokanna og blíðuhótanna.  Ég hlakka til þessa dags að ég finn hana eða hún mig.“  

 

 

Ég náði í svalan skugga trjánna

og fann þar ljúfa lind.

 Spegilmynd gamals manns

birtist mér svo kunnugleg.

 Ég leit til baka og  

að í yfirgefnum sporum mínum

hafði blómstrað.

Og svo kom regnið!

JI

   Njótið dagsins. 

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband