Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Hvenær er það of seint?

     Líklega er ég búinn að vera með fingurna á lyklaborðinu í heila mínútu í von um að bloggandinn kom yfir mig en það virðist ekki vera að gerast.  Undarlegt er þetta.  Ég virðist eiga svo auðvelt með að blogga í vanlíðan eða óvissu en í mikilli vellíðan og fullvissu ætlar það ekki að ganga.  Furðulegt.  Það er ekki tímaleysi sem er að fara með mig því það er alltaf með svipuðu móti hjá mér svo afsakanir eru ekki að gera sig.  Minnkandi þörf á að hreinsa til í sálartetrinu gæti verið skýringin en hver sem hún er þá er ljóst að eitthvað fer á bloggið í dag og óvist um næstu færslur. 

     Nýtt ár markar alltaf upphaf og miklu meira en bara breytingu á einum tölustaf því loforðum tekur að rigna í allar áttir, bæði til vina og vandamanna, sögðum og ósögðum, gáfulegum og heimskulegum, þaulhugsuðum og vanhugsuðum, allar gerðir fljúga og svo er rokið af stað í ræktina.

     Ég setti mér engin áramótaheit þetta árið.   Í vellíðan og værð virðist eina heitið sem vit væri í setja sér það að „vera og viðhalda“ en það var einhvern veginn ekki ástæða til að setja það í útsendingu sem er svona augljóst og rétt og virðist vera í gangi nú þegar.  Ég fylltist hinsvegar miklu þakklæti eins og alltaf á tímamótum og upplifi mig enn sterkar getulítinn frammi fyrir almættinu og meðvitaðan um þá Náð sem ég hef þegið á liðnu ári og alla þá þolinmæði sem ég hef kallað fram í þeim sem stendur við stjórnvölinn. 

     Við kútar erum glaðir í bragði og getum ekki annað.  Ferskur blær vináttu og einlægni kryddar tilveru okkar og gefur lífi okkar enn meiri fyllingu en áður.  Tveggja ára helti sem einhverra hluta virðist hafa heillað suma er horfið og ljóst að Júdasi er ætlað að feta áður farnar slóðir en nú með öðru hugarfari eða í það minnsta með aðra fullvissu í brjósti.   Litli kútur,  ljósgeislinn á heimilinu fær okkur til að brosa og gleðjast allar stundir.  Svipbrigði og frasar gamla mannsins hafa stimplast í þann litla sem notar þá óspart og má sumar stundir varla á milli sjá hvor þeirra er húsbóndinn  á því heimilinu.

     Eldri kúturinn hefur greinilega blóð Júdasar í æðum og virðist þurfa að reka sig á sömu hlutina aftur og aftur áður en hann áttar sig á einföldum hversdagsleikanum.  Einlægni og undirgefni tekur þó völdin af og til og minnir hann á þessar staðreyndir.  Hann sér eigin spor, hringir í pabbann, við föðmumst og í auðmýkt er byrjað nýtt líf enn og aftur.  Nýja lífið byrjaði í gær og við sátum í sófanum til kl 3 í nótt.  Litli kútur svaf í fangi hans,  við eldri kútar spjölluðum , lögðum á ráðin og horfðum.  Ferski blærinn blés í aðrar áttir þá stundina en við kútafeðgar þurfum jú okkar stundir. 

Bjartsýni ræður því ríkjum því hvenær er það of seint að byrja nýtt líf?  Júdas gerir það daglega.

 

Njótið.


Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband