Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Haustið er komið enn á ný

   HaustFallið lauf

Jæja, þá er haustið komið og fer það ekki fram hjá nokkrum manni.  Rokið og rigningin allsráðandi og gróðurinn litríkari en nokkru sinni eins og verið sé að bæta manni það upp að veturinn er á næsta leiti.  Þetta fær mann til að hugsa um sambandsslitin því einhvern veginn hafa samböndin verið árstíðaskipt og endað í kulda sem ekki var við snúið.   Þótt síðustu sambandsslit hafi verið sameiginleg ákvörðun tekin í yfirvegun voru þau sár og kvalarfull þegar frá leið alveg eins og þau fyrri.  Hvernig er þetta eiginlega með mig?   Get ég virkilega ekki verið í sambandi til lengri tíma?  Tvö ár-fjögur ár-níu ár-fjögur ár, ég skammast mín fyrir þetta og myndi aldrei blogga um þetta undir nafni.  Það er eitthvað að hjá mér.    Ég er samt þakklátur fyrir kútana mína tvo sem gefa mér þrótt og gleði hvern einasta dag.  Við erum feðgar og ég þakka Guði fyrir það að við skulum fá að búa saman.  Reynslan segir mér samt að það vori aftur síðar og ný ást kvikni með allri þeirri fegurð, spennu og örlæti sem því fylgir og ég hlakka til.   Ég eyði samt svona hugsunum  eftir að hafa brosað í nokkrar mínútur yfir þeim því etv ætti ég að berjast á móti þessu vitandi að þetta tekur enda eins og þau hin.  Ég fæ ekki allt, hef mikið fengið en brugðist í þessu.  Júdas er réttnefni.............


Óregla er ekki til bóta

Jæja.  Þá er kominn tími og ró til að setja eitthvað á bloggið.  Ég hef ekki haft eirð í mér eða getu til að gera það því einhvern veginn var svo margt í ólestri hjá mér.  Eftir stress vikur og talsverðar áhyggjur af einhverju sem ég vissi ekkert hvað gat verið, þreytu og andleysi fattaði ég nokkra lykil punkta sem koma mér alltaf jafn mikið á óvart.  Sérstaklega kemur það mér á óvart að ég skuli ekki fatta það fyrr og láta það gerast.   Ég var hættur að borða,  hafði ekki æft í nokkrar vikur,  borðaði súkkulaði eins og mér væri borgað fyrir það og kaffidrykkjan orðin svakaleg.  Ein kanna fyrir kl 8 og önnur uppáhelling minni til að taka með í bílinn og svona hélt þetta áfram til miðnættis.   Ég sofna samt alltaf strax en var farinn að glað-vakna kl 04:30 á morgnana.   Þetta gerist c.a fjórum sinnum á ári og ég læt þetta koma að mér eins og þjófur að nóttu, fatta ekkert, og held að ég sé að verða þunglyndur.   Einn morguninn fannst mér nóg komið og ég dró fram blóðþrýstingsmælinn og viti menn.   Allt of hár.  Ég slökkti á kaffikönnunni,  tók fram hafragrautspottinn og setti í æfingatöskuna.    Nú skyldi blaðinu snúið við í hvelli.   Eftir nokkra daga tók vellíðan og öryggiskennd aftur völdin.   Kaffi er samt besti drykkur í heimi og ég  ætla sko ekki að hætta kaffidrykkju en bollar í tugatali á dag með stressi og æfingaleysi eru ekki til bóta.  En nú er þessu ferli snúið við og allt orðið betra.  Miðað við að þetta gerist fjórum sinnum á ári ætti þetta að gerast næst í janúar en ég reikna nú frekar með því í kringum jól.

Stysta bænin

Ég man ekki hvenær mér var kennt að spenna greipar og biðja til Guðs almáttugs en það er hinsvegar eitthvað sem hefur í gegnum tíðina hjálpað mér mikið og hef ég allt frá barnsaldri orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að gera það bæði í blíðu og stríðu. Ég kenndi eldri stráknum mínum þetta en man svo sem ekkert sérstaklega eftir því en man þó að eftir venjubundinn lestur á kvöldin báðum við saman en þegar hann var mjög þreyttur bað hann mig að biðja fyrir sig.  Ég er búinn að vera að kenna litla kútnum mínum að spenna greipar og finnst honum það frábær „aðgerð“ að vefja svona furðulega saman puttunum og frábært hvað pabbi er klár í þessu.  Bænirnar eru hinsvegar stuttar því sá stutti sem aðeins er tveggja ára má ekkert vera að þessu.  Oftast er bænin ein eða tvær setninga sem byrja á Góði Guð........og enda á  amen eins og venja er.  Litli vinurinn talar nú ekki mikið en bænin hans er vafalaust ein sú einlægasta því þegar ég segi við hann að við skulum spenna  greipar og biðja fer mestur tíminn í að spenna greiparnar en síðan kemur bænin á fullu:  „Guj-men“ .  Þetta eru einu orðin sem  hann man og getur sagt en eru sögð í einlægni og allt lagt í þau.  Ég er sannfærður um að góður Guð heyrir þessa stuttu bæn og skilur hana.  Ég rifja upp orð Jesú á þá leið að við kæmumst ekki inn í himnaríki nema við yrðum eins og börn.  Æ hvað þessar elskur gefa manni mikið, og er ég þakkátur fyrir það að mér skuli hafa verið gefinn svona lítill kútur á gamals aldri.

Litlu atvikin.........

RegndroparÞetta er dagurinn!  Hann rignir allavega svo þetta hlýtur að vera hann.  Einn af þessu góðu dögum sem byrja vel og enda í  tómri gleði.  Eða hvað?   Ég er búinn að vera að bíða eftir einhverjum atvikum sem vert er að færa inn á bloggið en ekkert markvert gerist svo líklega verð ég bara að skrifa um litlu atvikin og hlutina sem þó veita manni alla þá gleði sem er manni drifkraftur frá degi til dags þótt  fáir taki eftir þeim.  Í gærkvöldi lá ég á teppi á stofugólfinu hjá mér og söng fyrir litla 2ja ára kútinn minn sem strauk blíðlega á mér hárið á meðan en danglaði í mig ef ég stoppaði.  Þeir eru fáir sem gefa mér bendingu um að syngja.   Eldri strákurinn leit inn í stofu og lét einhver orð falla um að koma þessu á youtube í flokkinn „funny“ en hann er líklega búinn að gleyma því hvað ég söng mikið fyrir hann við góðar undirtektir fyrir nokkrum árum.   Það er furðulegt hvað maður verður meyr með  árunum því ég sýni ekki miklar tilfinningar hvorki í reiði eða gleði og er það víst ættgengt segir sagan.  Eitthvað gengur nú til baka í þessu því í seinni tíð nægir mynd af vannærðu barni eða umtal um fátækt fólk  á íslandi til að koma tárum fram að augum eða kökk í hálsinn.  Meira að segja þegar ég skil litla kútinn minn eftir á leikskólanum á morgnanna og hann veifa glaðlega til mín fer um mig mikill söknuður og ég fæ þessar tilfinningar yfir mig.  Ég myndi samt  krossa við það á krossaprófi að ég væri harður nagli sem léti væmin smáatriði ekki hafa áhrif á mig en svona er þetta nú samt.


Brotinn bolli.

Brotinn bolliÉg velti því fyrir mér í morgun hvort það væri yfir höfuð eitthvað sem ég gæti bloggað um varðandi sjálfan mig og var kominn á þá skoðun að það væri ekki.  Líf mitt er einfalt og uppákomulaust og þannig hefur það verið alla tíð.  Meira að segja sambúðaslit á 4-10 ára fresti virðast litlu raska fyrir utan örlítinn dapurleika sem fjarar út á nokkrum vikum.  Ég lít á það sem blessun hversu mikið logn hefur verið í kringum mig alla tíð, sjúkdómar, dauðsföll og slys verið fjærri og þótt happdrættis og lottóinningar, fjúkandi fimmþúsundkallar og óvæntur arfur hafi ekki heldur borið á fjörur mínar er það samt blessun því mig hefur ekki skort neitt. En núna kemur það.   Það gerðist nefnilega hjá mér í morgun að það brotnaði kaffibolli og það enginn venjulegur bolli.  Ég er nefnilega haldinn þeirri firru að geta ekki drukkið kaffi úr hvaða bolla sem er þó að  ég láti mig stundum hafa það utan heimilis og á aðeins eða átti tvo bolla af réttri stærð úr gömlu setti sem móðir mín átti en það var einmitt annar þeirra sem datt í gólfið hjá mér áðan og fór í tuttugu teljanlega mola.  Mig grunaði þetta ekki í morgun þegar ég vaknaði að svona skelfilegir hlutir myndu gerast og það í eldhúsinu hjá mér.  Bollar þessir eru 60 mm háir með 62 mm þvermáli,  35 mm háu haldi sem gengur 25 mm út frá bollanum í 15-50 mm hæð.    Fullkomnunin er algjör og vaflaust margar lélegar eftirlíkingar í gangi á markaðnum en engin þeirra sem ég hef þreifað á nær þessu.  Og nú er bara einn slíkur eftir og spurning um að festa á hann púða eða plussleggja eldhúsgólfið til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig.   Hryggð mín er þó ekki algjör en vekur upp spurningar um það hvernig ég eigi að taka á þessu.   Jæja, þetta er gott í bili og ég bíð spenntur eftir næstu uppákomu.


Samræður við sjálfan sig

Jæja þá er komið að því.  Farinn að blogga eða hvað.    Ég hef átt margar góðar stundir með sjálfum mér og einnig samræður bæði á léttum nótum og alvarlegum.   Hingað til hefur það dugað en því ekki að prófa þetta?  Etv léttir þetta meira á en argaþras við sjálfan sig innilokaður í bíl á leið heim úr vinnu.  Kemur í ljós. 


Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband