Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Þá gæti "alltaf" orðið að veruleika

 

Seint um kvöld rís nóttin upp úr gjánni

neðst í dalnum, tygjar sig til ferðar:

dustar myrkurpilsin, hnýtir dimma

hyrnu um axlir, kveinkar sér og felur

inni á barmi brunasára fingur

og stikar svo af stað

 

með gusti nokkrum, þrammar upp með ánni

til að inna þunga skyldu af höndum,

með djúpa skugga í augum, myrkar brúni

og hrafnsvart hár í síðum, þungum fléttum,

og dregur yfir vötn og kjarr og engi

dimman slóða,

 

ein og þögul, stefnir upp til fjalla,

þar sem loga sólskinsbál á tindum,

og kæfir eldinn hvern á fætur öðrum,

beygir sig og dýfir sviðnum höndum

á kaf í sindrið, réttir úr sér , eys

hnefafylli af stjörnum út  í geiminn.

 

Jón Dan

 

 

   Við sofnuðum allir kútarnir snemma í kvöld en sá gamli hrökk upp aftur enda ólokið nokkrum verkefnum.  Ég sit við eldhúsborðið og gat ekki stillt mig um að hella upp á eins og eina könnu og tók mér ljóðabók í hönd.  Hún virkar einmana nóttin, að minnsta kosti í þessu ljóði Jóns Dan og þannig er mér innanbrjóst þótt því fylgi ekki sá sársauki sem nísti mig inn að beini á dimmum liðnum vetri. 

     Nú er það bara einmanaleiki eða söknuður eftir einhverju sem ég vil þó bara njóta um stund, einmanaleikastund, eða hvað?  Orðið „alltaf“ er ekki trúverðugt og öllum slíkum væntingum ýtt til hliðar og framaf.  Orðið „stundum“ vekur von og litla drauma sem enn eru þó of fjarlægir til að njóta megi þeirra utan drauma.   En þegar Nóttin leggur svörtu hyrnunni fyrir þá gráu gætu dagur og nótt mæst með mjúka vanga væntinga og tíminn tekið völdin.  Þá gæti „alltaf“ orðið að veruleika!

 

Góða nótt!

 


Við nafnleysingjar erum líka fólk!

     Ég velti því fyrir mér áður en ég byrjaði að skrifa hvernig ég ætti að byrja.  Ekki óalgengt en ef ég hugsaði mig ekki um myndu allir pistlarnir byrja eins.  „Enn einn yndislegi dagurinn runninn upp!“  Þeir geta ekki allir byrjað eins svo ég ætla að geyma þessa byrjun þar til síðar.  Ljóðin hafa bjargað þessu því gjarnan tengi  ég pistlana við ljóð eða öfugt; hugrenningarnar koma fyrst síðan pistillinn og þá ljóðin.   Stundum bara hálfur pistill og þá kemur ljóðlína upp í huga minn og þá hefst leitin að því ljóði sem í mér situr því mér finnst lóðin alltaf segja meira og orða betur líðan og vangaveltur en einfeldnislegur, einsleitur textinn í dágóðan hring þar sem ekki tekst að sýna allar þær tilfinningar sem bærast í brjóstinu.  Ég held að það væri lífsins ómögulegt að þekkja mig af skrifum mínum, því efn einhver teldi sig kannast við efnistök og lýsingar gæti ég samt verið settur til hliðar af lista grunaðra því allir eru í raun tveir menn, annar hið ytra og hinn hið innra.  Þetta er þó aðeins það sem ég held því upp í huga minn koma strax mörg atvik þar sem Júdas, bljúgur og miskunnsamur, heiðarlegur og tilfinningaríkur hefur komið upp á yfirborðið og setningar eins og „þú ert sjálfum þér líkur“ hafa staðið í brjósti mínu en vafalaust er hann öðrum ókunnur með öllu og jafnvel aldrei inni í myndinni.  Ég segi þetta vafalaust til bloggvina minni, því ég finn að mörgum þeirra þykir vænt um mig ókunnan manninn en látum ekki blekkjast.  Tálsýnir eru hættulega og Júdas er einn sá mannlegasti í það minnst af þeim sem ég þekki. 

     Að vera góður við börnin sín er ekki dyggð.  Það er flókið  tilfinningaspil sem vaknar daginn sem lófinn finnur fyrsta sparkið og hugurinn nemur að þarna er lifandi vera af Guði sköpuð en okkur gefin til skemmri tíma en við sjálf viljum.  Að horfast svo í augu við sjálfan sig og sína og meðtaka þetta kraftaverk lífsins getur aldrei annað en fyllt mann djúpum tilfinningum sem fá mann til að uppgötva það að þetta er af náð en ekki verðskuldað.  Ég held að þar komi Júdasinn til sögunnar hjá mörgum, af hverju ég en um leið löngunin til að gera alla hluti betur og réttar en hingað til.  Móðurást er óútskýranleg og eitthvað sem enginn skilur nema móðir.  Föðurást er það líka!  Þótt mörgum feðrum sé bölvað þarf það ekkert að vera að ást þeirra sé lítil eða ekki til staðar.  Ef til vill er það hæfileiki föðurástar að geta stígið til baka og haldið sig til hlés svo móðurástin blómstri og ekki komi til átaka en sprettur svo upp þar sem móðurástin hefur orðið undir eða aðstæður örðuvísi en væntingarnar.   Reynum ekki að skilgreina þetta en hugsið þetta aðeins.

     Umfram allt er Júdas aðeins miðlungsmaður,  „sekur“ hversdagsmaður.  Sekur við sjálfan sig og sekur gagnvart Guði.  Heiðarlegur við menn og heiðarlegur bloggari.   Við nafnleysingjar erum líka fólk!  Þess vegna bið ég sjálfskipaðan dómstól „æðri“ bloggara að hugsa sinn gang.

 

 

 

Nú er brostið band,

brugðust vonir þér.

Eftir ljúfan leik

lokið öllu var.

Hófstu yfir allt,

ein í sælli trú,

kosti miðlungsmanns,

meðan dýrðin stóð.

 

Þar sem goðið glæst

gnæfði fyrst í stað

sástu síðar meir

sekan hversdagsmann.

Hann var samur samt,

sínu eðli trúr.

Hitt var hugarsýn,

henni giftist þú.

 

Heiðrekur Guðm.

 

Njótið samt þessa fallega dags, einnig miðlungsmenn, sekir hversdagsmenn

og jafnvel nafnleysingjar.


Við hjarta míns innstu rætur

     Hann gat ekki verið betri sumardagurinn fyrsti.  Regndropar féllu og þegar þeir fyrstu féllu á rúðurnar hjá mér fylltist ég ólýsanlegri gleði.  Þannig er vorið og án regns er ekkert vor.  Loftið verður hreint og tært og ljósbrotin í dropunum engu lík.

     Unglingskúturinn minn kom heim í gær með ný strauma og nýjar vonir.  Háleit markmið og greinilegt að hann fékk það sem hann vildi og þurfti.  Ég fékk tár í augun þegar ég sótti hann og sá hann standa í vegakantinum með tösku eins og í amerískri bíómynd.  Einn með tösku og eitthvað svo berskjaldaður.  „Pabbi,  ég tek bara einn dag í einu, þú veist það!  Ég er bara fæddur svona! „   „Nákvæmlega vinur.“  Hann er góður strákur og í raun hafa aldrei verið vandræði með hann.  Hann hefur alla tíð virt útivistartíma, alltaf svarað mér í síma, aldrei tekið það sem hann á ekki,  alltaf verið mjög samúðarfullur og samviskan mjög sterk.   Allaf þurft að tala um alla hluti, hugrenningar sýnar, langanir og meira að segja trúað mér gömlum manninum fyrir vandamálum sínum tengdum „kvennamálum“ og áhyggjum þeim tengdum.  Minn er góður í því.  Hann er yndislegur.

     Litli kútur kom til okkar í gær og þá hafði ég ekki séð hann í nokkra daga sem er mjög sjaldgæft.  Orðaforðinn hafði aukist rosalega og hann stækkar svo ört.  Kútarnir voru einir heima í gærkvöldi og þegar ég kom heim lágu þeir í faðmlögum og sváfu.

Við munum standa saman í blíðu og stríðu og þrír erum við  sterkari!  Við erum greinar á sterkum stofni samvisku okkar og við vitum hvar rætur okkar liggja.  Við þökkum Guði.

 

 

Þú færðir mér litla græna grein

með geislandi hvítum blómum.

Þá brosti vorsól og við mér skein

en veröldin fylltist hljómum.

 

Þótt laufin féllu og fölnuðu blóm -

ég finn um koldimmar nætur -

ilm þeirra höfgan-sem helgidóm

við hjarta míns innstu rætur.

 

Og þannig lifir mín ljósa þrá

lauguð vitund þinni-

síðan ég greinina fékk þér frá

forðum - í draumsýn minni

 

Steingerður Guðm.


Þá lægist hver stormur

     Þá er ég mættur aftur en vegna vinnunnar þurfti ég að yfirgefa þetta annars ágæta land og eyða nokkrum dögum í stórborg og hafði gaman af.  Er samt þreyttur og frekar andlaus eftir þetta.  Það skyggði á ferðina að vita af kútunum mínum svona langt frá mér og örlítil sektarkennd gagntekur mig í dag yfir því að hafa skemmt mér vel. 

     Mér skildist að litlikútur væri búinn að vera svo var um sig á nóttunni að ef unga konan snýr höfðinu á koddanum rumskar hann og snýr á henni höfðinu til baka.  Hún „á“ að liggja eins og hann vill, andlit við andlit.

      Ég er búinn að heyra nokkrum sinnum i unglingskútnum mínum og það hefur legið misvel á honum.  Hann kemur heim síðar í vikunni og hefst þá gangan þar sem frá var horfið, og jafnvel aðeins aftar.  Skref fyrir skref.   Við könnumst við okkur þarna og sjáum sporin okkar beint fyrir framan okkur.  Við þurfum að velta því fyrir okkur hvar það var sem ekki mátti stíga niður.  Hvar það var sem eitthvað brast.  Við tökum stefnuna á hamingjuna og munum leita hana uppi enda eigum við stefnumót við hana.  Það vitum við báðir.  Þá lægist hver stormur.

Þið megið gjarnan hugsa til okkar og jafnvel minnast okkar í litlu andvarpi til Hans.

 

 

Dagarnir koma sem blíðlynd börn

með blóm við hjarta,

Ljúfir og fagnandi lyfta þeir  höndum

mót ljósinu bjarta.

 

Og verði þeir þreyttir með liti og ljós

að leika og sveima,

við móðurbarm hinnar brosmildu nætur

er blítt að dreyma.

 

Þá lægist hver stormur, stundin deyr

og stjörnurnar skína.

Og jörðin sefur og hefur ei hugboð

um hamingju sína.

 

Tómas Guðm.


Björt og óvænt skuggaskil

     Þetta er ein af þessum vikum sem þakklæti gagntekur mig.  Þakka þetta og þakka hitt.  Þakka gott og þakka slæmt. Það virðist svo oft vera þannig að það slæma verður aðeins stökkpallur til þess góða.  Maður klöngrast yfir það stórgrýtt íklæddur von og þegar maður snýr sér við er þetta varla hindrun og maður skilur varla hvað það var sem vafðist fyrir manni.  Gleymum samt ekki að þakka því þakklætið gæti verið lykillinn að þessu og vanþakklætið því stærsta hindrunin og erfiðasti þröskuldurinn í lífi okkar.  Ekkert er sjálfsagt, ekkert er gefið, ekkert er ókeypis en sumt hefur verið verði keypt og því ber að þakka.

 

     Ég hef þakkað alla vikuna, meðal annars fyrir eldri kútinn minn.  Hvernig má það vera?  Hann gekk um og féll.  Á að þakka fyrir fallið?  Á að þakka fyrir mistökin?  Á að þakka fyrir brestina?  Á að þakka fyrir þolleysið?  Á að þakka fyrir ístöðuleysið?

Það gekk hratt fyrir sig- Það voru lítil mistök- Hann sá að sér-Hann snéri við- Hann lét vita- Hann slapp vel-Honum líður betur-Hann er bjartsýnn- Hann er reynslunni ríkari, Hann styrkist- Hann lærir—Það ber að þakka fyrir það-Það ber að þakka fyrir allt.

 

 

Ó, undur lífs, er á um skeið

að auðnast þeim, sem dauðans beið--

að finna gróa gras við il

og gleði í hjarta að vera til.

Hve björt og óvænt skuggaskil!

 

Ei sá ég fyrr þau skil svo skýr.

Mér skilst, hver lífsins gjöf er dýr

 --að mega fagna fleygri tíð

við fuglasöng í morgunhlíð

og tíbrá ljóss um loftin víð.

 

Og gamaltroðna gatan mín

í geislaljóma nýjum skín.

Ég lýt að blómi í lágum reit

og les þar tákn og fyrir heit

þess dags, er ekkert auga leit.

 

Ég svara, Drottinn, þökk sé þér!

Af þínu ljósi skugginn er

vor veröld öll, vort verk, vor þrá

að vinna þér til lofs sem má

þá stund, er fögur hverfur hjá.

 

Þorsteinn Vald

 

 

Þakka ykkur kæru vinir!


Kútamoppa

     Þá er ég loksins kominn fram, kaffið á leiðinni og óþægasti kútur norðan suðurpóls kominn inn í sófa.  Ég er búinn að slást við hann frá kl 6 í morgun en þá vildi hann fara fram en pabbinn taldi það  full snemmt bæði fyrir lítinn kút og gamlan þreyttan mann.  Bæði í morgun og gærmorgun var þetta svona, kúturinn barðist um, kastaði sér í svefnherbergisgólfið og hamaðist á hurðinni og var ekki á því að gefa sig.  Fram skyldi hann fara og taka þennan andstyggilega gamla mann með sér úr því að hann væri dæmdur til að dröslast með þessa skemmtanabremsu með sér hvert sem hann færi næstu 15 árin eða svo.  Þvílík byrði að bera.  Ætli það verði ekki það fyrsta sem hann googlar þegar hann lærir á tölvu hvernig losna megi við svona leiðindapúka.   Gæti best trúað því að hann ætti eftir að auglýsa mig á Ebay fyrr en mig grunar.

     Hann er líka búinn að láta til sín taka í verslunum borgarinnar.  Þessi annars gríðarlega dagfarsprúði engill er að breytast í lítinn frekjudall og pabbinn fer geys um veraldarvefinn í leit að lausnum.  Það er sama í hvaða verslun við fórum í gær, kúturinn endaði alltaf í gólfinu eins og moppa sannfærður um að hann ætti versta pabba í heimi og að klárlega væri verið að brjóta á honum samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðuþjóðanna og jafnvel Stjórnarskránni.  Hann náði að velta heilli rennibraut og tveimur reiðhjólum í Toys‘R us, og kastaði sér í gólfið þar þegar hann mátti ekki fara á rafmagnsbíl ofan af sýningarpalli og út á búðargólfið, kastaði sér í gólfið þegar hann mátti ekki rífa upp þriðja kexpakkann í Bónusverslun og lét öllum illum látum í hjólabúð af því hann mátti klifra upp á hjól sem hann langaðu upp á en var bara fyrir 25 ára og eldri.  Hvað er að gerast.  Stökkbreyting gena var það eina sem mér datt í hug í hvert skipti sem ég þrammaði með hann út í bíl og barðist við að óla hann niður í barnastólinn en svo þegar ekið var af stað varð hann aftur eins og engill, vildi syngja og klappa og fór að líkjast pabba sínum aftur.  En hann sefur eins og engill.............svo hljóður og ljúfur.  Hann var ekki fyrr kominn fram í morgun í fangi pabba síns og inn í stofu en hann faðmaði gamla manninn og vildi kúra í sófanum með honum.  Er hann bara svona klár þessi drengur og séður?   Sannar þetta ekki bara að hann á líka mömmu  J.............

 

     Jæja, hinn kúturinn sefur og ég búinn að fara inn til hans og horfa á hann.  Hann er að fara burtu frá mér í nærri tvær vikur allt skipulagt af honum sjálfum, var búinn að fara þangað og græja alla hluti í kringum sig áður en  hann settist niður með pabbanum og sagði honum leyndarmálið.  „Af hverju ertu að segja mér þetta núna?“ , „af hverju hélstu ekki áfram?“ , „pabbi, ég vil ekki að verða aumingi“, „ég vil ekki bregðast þér og litla kútnum“,  „ég vil halda áfram í námi og standa mig vel því ég ætla að verða eitthvað.“  Samviskan hefur talað!  Þegar ég var ungur fannst mér ég hafa sterkustu samvisku í heimi, ekki það að ég hlustaði alltaf á hana en hún var stöðugt að „ergja mig“, minna mig á og leggja mér línurnar.  Ég er þakklátur Guði fyrir það í dag og sé að unglingskúturinn minn fékk svipaða samvisku í vöggugjöf.  Alltaf að velta fyrir sér hlutunum og reyna að gera þetta og hitt til að öðlast innri frið.  „Mér líður ekki vel nema ég.......“  segir hann oft og reynir alltaf að leiðrétta alla þá hluti og athafnir sem íþyngja honum.  Hringir í mig og vill segja mér frá því sem íþyngir honum og hvað hann ætli að gera til að laga það.  Ég held að þetta sé kostur og eigi eftir að reynast honum gott veganesti út í lífið.

     Í gær fór hann að hitta mömmu sína og bróður sem stödd voru í borginni.  Hann sagði mér að hann langaði alls ekki en ætlaði samt að fara fyrir mömmu sína.  Þegar hún gifti sig í fyrra ákvað hann að mæta óboðinn því hann heyrði af því að enginn bræðra hans ætlaði að láta sjá sig.  Hann sagði mér að það væri virðingarleysi að mæta ekki og að móður hans myndi kannski sárna það.  Hann  mætti því í Þorpið í hvítum jakkafötum og ég neita því ekki að ég var mjög stoltur af honum.  Hann er góður unglingskútur á hraðri leið í það að verða fullorðinskútur með öllum þeim reglum og skyldum sem því fylgir.  Uppeldinu er næstum lokið,  innrætingin á síðustu metrunum.  Hver útkoman verður er óskrifuð saga þar sem samviskan og uppeldið spila stórt hlutverk.

 

     Úti  er farið að snjóa og greinilegt að reynt er að halda aftur af vorinu sem þó er á næsta leiti.  Það breytir þó ekki þeim vorhug sem svífur yfir vötnum og þeim ilmi sem berst mér að vitum.  Fullur af þakklæti og von fer ég inn í þennan dag í leit að skafti á litlu „kútamoppuna“ mína.

 

Njótið ilmsins.

 

 

Frá efstu lindum

ljóssins og hingað

er langur vegur

og langt er héðan til ósa.

 

Í breiðum streng

streymir það nú fram hjá

borginni, og ég krýp

á bakka þess og dýfi

þakklátur höndum

í hlýjan straum

lauga vanga mína

og augu.

 

lauga sál mína lífi.

 

Hannes Pét.


Hið nýja upphaf?

     Á þeim tíma var eins og allt hefði snúist við, endirinn var orðinn að upphafi og það haustaði en vorið á næsta leiti.  Hugsanir urðu dýpri og andardrátturinn hægari.  Sársaukinn var samt ekki eins djúpur, hann tók eftir því, vonin var sterkari og trúin var meiri.  Hann mundi að það gat rignt í sólskini og það átti kannski vel við.  Hann gat svo sem tekið á móti nýju upphafi því hið fyrra hafði hert hann. 

     Hann hafði hringt í hann og beðið hann að hitta sig.  Sagt að það yrði að gerast fljótlega því honum liði ekki vel.  Þeir settust niður, horfðust í augu og þögðu.  „Er það aftur að gerast?"  Sá eldri rauf þögnina.................  "Já pabbi, fyrirgefðu"

     Hið nýja upphaf og óséður endir.  Fortíðin var orðin að nútíð!

 

 

 

 

Í þurru regni þrauta

þýtur fortíð þín.

Nálægðin við nútíðina

nístir þig.

En von þín vinur

vísar þér til framtíðar

og sæludaga samtíðar.

J.I

 

 


Veikur kútur

     Það var þreytt ung kona sem kom á tröppurnar hjá mér í morgun, svefnvana með lítinn kút í fanginu.  Hann virtist hinn sprækasti en hafði þó ekki sofið vel heldur.  Móðirin hringdi í mig í gærkveldi og lét mig vita af veikindunum og við ákváðum að skipta með okkur deginum en það gerum við yfirleitt þegar svona stendur á.  Eitthvað þekki ég ferlið á þessu hjá honum og í augnablikinu er hann sprækur og búinn að leika hvolp í tuttugu mínútur.  Gamli maðurinn þarf líklega handklæði á eftir því svo mikið er búið að slefa á hann.  Ef allt gengur eftir verður hann farinn að nudda á sér eyrun innan klukkutíma en það gerir hann þegar hann verður þreyttur.

     Mér fannst það alls ekki eiga við í morgun þegar ég leit út um gluggann að snjóbreiða skyldi vera búin að breiða úr sér út um alla borg þrátt fyrir „loforð“ um annað.  Rigning hefði verið fyrirgefanleg en þetta þarfnast skoðunar.

     Einhverra hluta vegna leið mér í morgun eins og hulunni hefði verið svipt af mér, ég á berangri og jafnvel eftirlýstur.  Hvort draumfarir næturinnar hafi haft áhrif, dagdraumar jafnvel eða ólesin ævintýri veit ég ekki en ég þarf eitthvað að skoða þetta líka.

 

Njótið dagsins.


Fögnum heilbrigði og vitund

      Það voru samrýmdir feðgar sem sátu á steikhúsi í gærkvöldi og nutu matarins.  Mikið var skrafað og skuggar framtíðar dregnir upp á yfirborðið og skoðaðir að því marki sem hægt er.  Fortíðin fékk ekki heldur frið og  var vakin af svefni og látin mæta skuggum framtíðar og alveg ljóst að þessi „tvenning“ þótt þrenning sé lætur ekkert aftra sér frá því að njóta nútíðarinnar og hlakka til framtíðarinnar.   Það er spaugilegt hve eplið fellur nálægt eikinni því þegar ég pantaði borðið bað sá yngri þann eldri að biðja um að það yrði afsíðis og þegar við gegnum inn fannst honum ljósleysið og dimman þægileg.  Seinna um kvöldið fór hann svo í keilu með félögunum.

     Við ætluðum að gera þetta í fyrrakvöld en hann vildi fresta því um einn dag svo ég vakti hann í gærmorgun með karamellutertu en við sátum einir að henni og fórum létt með.  Það vekur athygli mína að þótt kunningjahópurinn sé stór er vinahópurinn það ekki.  Hann vildi ekki láta þá vita af afmælinu heldur halda það nákvæmlega svona, einn með pabba gamla en hafði orð á því að litla kút vantaði en bætti svo við að líklega hefði þurft að þrífa eldhúsið eftir hann ef hann hefði komist í kökuna.   Hins vegar fann ég að hann saknaði hringinga frá eldri bræðrum sínum og var með efa-semdir um að „staðið“ hefði verið eðlilega að hringingu frá móður hans sem kom um kvöldið.   Ég sá ekki ástæðu til að blanda því í umræðuna að sms-skilaboð geta jafnvel vakið hinar uppteknustu mæður upp af djúpum lífsgæðasvefni til vitundar um tilfinningar og skyldur.  Vitundarhvísl frá vini átti þátt í því.

     Við stefnum lífsglaðir út í nýja viku, fögnum heilbrigði og vitund, þökkum sterka samvisku sem oft á tíðum virðist þvælast fyrir okkur  hvert sem við förum en gæti verið lykillinn að þeirri vellíðan sem við finnum fyrir.  Þar féll eplið ekki heldur langt frá eikinni.

 

Njótið dagsins

 

Undir þáfjalli tímans

     Gleðin bankaði upp á hjá mér í gær alveg eins og í „gamla daga“.  Í umferðahnút án sýnilegrar ástæðu.  Þetta er það sem ég var að bíða eftir og er reyndar búinn að bíða eftir í allan vetur og auðvitað kom ég til dyranna eins og ég var klæddur og um mig hríslaðist gleðitilfinning.  Ástæðan.  Engin sjáanleg!

     Þannig var þetta alltaf og eftir þessari stund hef ég beðið.  Sú var tíðin að svona tilfinning kom yfir mig daglega og ég sagði alltaf að ef ég fyndi hana ekki einn dag færi ég að hafa áhyggjur.  Ég sagði þetta við unga-þunga konu til að útskýra fyrir henni gleðina sem alltaf var yfir mér og hún skyldi ekki.  Sá tími kom samt, unga konan hvarf og sólin með.   Ég beið, jú og bloggaði.   Góð bloggvinkona sagðist hafa tilfinningu fyrir því að þetta kæmi í vor og verð ég að taka litla bylgju fyrir henni þar sem ég sit við eldhúsborðið með kaffibollann og ljóða-bókina tilbúinn fyrir daginn.  Mér reynist samt erfiðara að finna glaðleg ljóð sem lýsa tilfinningum mínum en þung ljóð sem ég hef lesið í allan vetur.  Skammdegisþunglyndi myndi einhver segja en ég slæ á það.  Auðvitað er maður orkuminni í skammdeginu en þetta var tímabil sem ég hef áður gengið í gegn um en bara ekki svona lengi.  Konur koma og konur og þótt þetta hljómi eins og heill hópur er það ekki þannig.  Ég hef bloggað um tvær þeirra en  man ekki hvort ég var búinn að skrifa um þá þriðju en sambúðirnar eru víst þrjár á nærri tuttugu árum.   Við mætti bæta einni úr fyrndinni sem markaði djúp tilfinningaspor þrátt fyrir að um sambúð væri ekki að ræða og tíminn ekki langur.  Það mætti halda að ég væri svolítil drusla en ég elskaði þær.   Ef til vill hefði ég átt að þegja, en þetta er Júdas! 

Þetta er kútalaus helgi hjá mér og ég búinn að lofa mér í vinnu í dag því mikið er í gangi og við þurfum að funda með nokkrum aðilum.   Söknuðurinn er ekki eins djúpur og oft áður en ást mín á honum hefur þó ekki minnkað því hann er lík okkar og yndi þessi litli kútur.  Unglingskútur spurði mig í gær hvort hann yrði hjá mömmu sinni um helgina og þegar ég játti því sagði hann að hann yrði þá ekki vakinn með slefblautum kossi og sængin dregin af honum.

Unglingskútur stendur á tímamótum í dag,  afmæli sem alls ekki má halda uppá frekar en afmælisdaga hjá gamla manninum en ég þarf þó að upphugsa einhverja snilld í dag.  Fer og kaupi tertu og jafnvel eitthvað fleira.

Inn í daginn fylgir mér draumur næturinnar sem ég upplifði svo sterkt.  Ef til vill segi ég ykkur frá honum síðar.

 

 

 

Undir þáfjalli tímans,

stóð þögn mín

eins og þroskað ax.

 

Ég sá sólskinið koma gangandi

eftir gráhvítum veginum,

og hugsun mín gekk til móts við sólskinið,

og sólskinið teygði ljósgult höfuð sitt

yfir vatnsbláan vegg.

 

Ég sá myrkrið fljúga

eins og málmgerðan fugl

út úr moldbrúnum höndum mínum.

 

Og þögn mín breyttist

í þungan samhljóm

einskis og alls.

 

Meðan gljásvart myrkrið

flaug gullnum vængjum

í gegnum sólskinið.

 

Steinn Steinarr


Næsta síða »

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband