Bloggfærslur mánaðarins, mars 2015

Ég geri hvað sem er......

     Júdas gerði það fyrir hana.  Hann kom og þau sátu tvö fyrir framan þau.  Spurningar, vangaveltur, skoðanir, svör.  Júdasi fannst þetta óþægilegt en sannleikurinn lá samt í loftinu.  Hann var einlægur, öruggur en kannski alltaf jafn þrjóskur og staðfastur í því að hans leiðir séu réttu leiðirnar.  Þannig er Júdas,  þannig kemst hann af og þannig telur hann sig vernda fjölskylduna.  En sú hugsun læðist samt að honum hvort hann kúgi hana eða taki ákvarðanir fyrir hana í skjóli verndar eða eigin réttsýni.   Getur verið að Júdas sé á rangri braut og til séu leiðir sem séu greiðfærari og ljúfari í átt að frelsi og hamingju.  Hann taldi sig hamingjusaman, lífsglaðan, elskaðan, saddan þar til örvæntingin hélt innreið sína. 

     Unga konan sagðist elska hann og svo sem ekki í fyrsta skipi,   „Þú verður að trúa því, ég vil bara ekki koma fyrr en ég hef sigrað“.   Hún er svo falleg,  hún var svo góð.  Hvað gerðist ?  Verður einsemdin lengri, verða þær stundir þar sem gengið er um gólf áhyggjufullur og dapur mikið lengri ?  Það virðist vera.  En ef hún kæmist nú að því þegar djúpt í hugarfylgsnin er kafað að þessi gamli maður væri ekki sá rétti.   Að hann væri haldreipi og tilkominn út af eigin vanlíðan en ekki sá rétti…….Það óttast Júdas.

     Einn daginn glaður og fullur bjartsýni, hinn daginn dapur og söknuðurinn allsráðandi. Jafnvel hvoru tveggja sama daginn. 

     Júdas taldi sig hafa elskað áður en líklega hafði hann aldrei gert það. Birtingamyndir væntumþykju geta verið margslungnar.   Unga konan átti hjarta hans enn eftir öll þessi ár. 

Guð, ég elska hana eina,  taktu hana ekki frá mér……ég gerið hvað sem er!


Dagur sannleikans

     Júdas losaði sig við byrðarnar i dag.  Hann ákvað að hugsa um sjálfan sig í þetta skiptið.  Vera ekki uppbyggjandi, vera ekki hughreystandi,  vera ekki hvetjandi, vera ekki sá sem situr hjá og horfir á.  Hann heyrði í henni og hún  átti vafalaust von á fallegu uppörvandi samtali en komst ekki að.  Hún sagði nei en Júdas sagði jú.  Hún sagði seinna en Júdas sagði strax.  Út skildi þetta fara núna en ekki síðar. Hún gaf eftir og hlustaði, hlustaði og hlustaði………… Orðin streymdu frá Júdasi og hún hlustaði. Að endingu sagði hún „ég vissi það ekki,fyrirgefðu. Fyrirgefðu mér„

     Þetta voru orðin sem Júdas þurfti að heyra.  Hann var löngu búinn að fyrirgefa henni en hann heyrði aldrei orðin frá henni.  Nú voru flest spil á borðinu og þau síðustu féllu síðar þennan fallega dag. Dag sannleikans.  Hún átti síðasta orðið og sannleikurinn var fundinn.  Andi hans sveif yfir en þyngsli Ungu konunnar vegna hennar byrða voru mikil.  Sannleikurinn getur valdið sviða og það gerði hann svo sannarlega en hún er sérfræðingur í þessari glímu og hefur háð hana áður en nú með aðstoð Hans sem huggar.  Nú getur uppbyggingin hafist. 


Í dag er samt ekki tími værðar

     Það var eitthvað ljúft við þennan dag þótt hann færi höktandi af stað.  Kútínan grátandi út af öllu og hékk um hálsinn á Júdasi í leikskólanum eins og venjulega.  Kúturinn fór snemma á fætur eins og gamli maðurinn og talaði út í eitt. Júdasi fannst hann finna ilminn og hjarta hans fann til tilhlökkunar og gleði sem hefur vantað síðustu vikur.  Að minnsta kosti þessa stundina.  Kannski vegna þess að símtölum við Ungu konuna fjölgar og fullvissan um ást hennar eykst með degi hverjum.  Er á meðan er.  Júdas hefur oft sagt það að þótt hann ætti ekki eftir að hafa þessa fallegu ungu konu sér við hlið alla ævi yrði hann þakklátur almættinu fyrir þær stundir sem hann fengi með henni og myndi njóta þeirra til fulls.  Þetta voru þó orðin tóm og þegar kveðjustundin virtist komin var hann aldeilis ekki tilbúinn til að sleppa.  Júdas trúði því ekki að þetta væri tíminn, hann trúði því ekki að stundin væri kominn.  Harður Júdas varð sem leir og gæti hann grátið hefði þetta verið tíminn.  Örvæntingin gaf honum þó kraft. Drottinn gaf og drottinn tók hljómaði samt í huga hans en þetta gat ekki verið tíminn.  Hún gekk út í myrkrið og varð sú sem hún hræddist.      

     Í dag er samt ekki tími værðar.  Í dag er tími þakklætis og tími eftirvæntingar.  Allavega þessar klukkustundirnar þar til sársaukinn og söknuðurinn taka yfir.  Það er þó ekki víst því vegir almættisins eru jú órannsakanlegir og orð hans virðast streyma til Júdasar endalaust og alla daga til huggunar og áminningar.


Regnið sem áður var svalandi

     Nú vil ég að þú farir að koma Unga kona.  Ég þarf þig, ég þarf ilminn, ég þarf faðmlögin, ég þarf hlátur þinn og ég þarf grát þinn.   Ég þarf að finna fyrir þörf þinni, fyrir sál þinni, fyrir líkama þínum.  Finna fyrir því að þú þurfir á Júdasi að halda.  Komdu heim. 

Júdas þarf að fara að hugsa um sjálfan sig, hugsa um fjölskylduna, hugsa um kútinn og kútínuna.  Það fer að líða að síðasta útkalli.  Flótti frá sjálfri sér, hræðsla við að takast á við drauga fortíðar og löngun til að verða betri þarf að eiga sér stað í faðmi fjölskyldunnar.   Júdas gerir sér betur og betur grein fyrir því að gleðin verður að fá inngöngu .   Regnið sem áður var svo svalandi veldur sársauka í dag sem verðu að linna.  Komdu heim.

Nú þarf Júdas bara þor til að segja orðin.

Það var eins og Unga konan hafi vitað þessar hugsanir gamla mannsins, eirðarleysi hans og óöryggi, bráðlæti hans og eigingirni.  „Ég elska þig svo heitt en þú verður að vera þolinmóður við mig“ .   „Ég veit að þú vilt fá mig heim og ég vil það líka en ég vil vera heil“ .  Líklega er þráðurinn á milli þeirra sterkari en svo að hann verði slitinn í sundur og tilgangur með hverjum degi í þessari baráttu. 

     Glímunni við draugana var ekki lokið en margir þeirra þeirra orðið undir í baráttu góðs og ills.  Þar er Unga konan sterk og hefur alltaf leitað til almættisins þegar sálartetrið bugast.  Í dag er þetta þó öðruvísi því hver dagur er undir leiðsögn Hans og það veit Júdas vel.  Hann þekkir hann líka.


Mjúkur maður er ömurlegur

     Ég held ég hætti þessu.  Júdas virðist farinn að skrifa í hringi og veltir því fyrir sér hvort í þessu felist einhver huggun og hvort réttast væri að þegja.  Hann fer í taugaranar á sjálfum sér og gamla manninum á bak við hann.  Sjálfsvorkunn, örvænting, reiði og óöryggi eru tilfinningar sem Júdasi líkar ekki og að þær taki yfir sjálfsöryggi, jafnvægi, yfirvegun og rólyndi geta riðið honum að fullu.  Allt út af ungri konu.  Er það þessi virði?  Júdas er það að auki karlmaður og ætti líklega ekki að bera vandræði sín á borð fyrir aðra.  Þótt það sé undir fölsku flaggi.  Mjúkur maður er ömurlegur og ætti ekki að ala upp börn, sér í lagi stráka.  Nú er hann sjálfum sér líkur.  Júdas er hrokafullur og hortugur og lætur ekki vaða yfir sig.  Enginn getur hengt hann á þann sem hann er nema hann viti það!  Þeir eru bæði líkir og ólíkir.  

Hvað fær maður svo sem út úr þessu ?  og ef ég man rétt eru fallegar góðar konur úti um allt.  Júdas man strax eftir nokkrum og ef hann legði sig fram yrði tilfinningunum komið í annan farveg á stuttum tíma og lífsins notið á ný með fallegu tilhugalífi.  Er það ekki bara málið ?  Hljómar vel en……..

Of einfalt til að geta verið satt, of einfalt til að geta gengið upp.


Í höndum hennar verður hann leir

    Dagarnir líða en líklega er Júdas farinn að tjá sig í hring.  Sömu hugsanirnar sækja á hann aftur og aftur og þótt rödd hennar gleðji hann og fylli hann bjartsýni þarf lítið til að hjartað herpist  saman og nístandi stingurinn taki við og hann rifji upp hlaupin á hæðunum þegar hann hrópaði nafn hennar og hélt að hann hefði misst hana.   Þótt sársaukinn sé meiri er gleðin jafn lítil og hún var þegar leiðir skildu hér áður og Júdas tók eftir því að gleðiefni hversdagsins væru horfin og jafnvel regnið var hætt að vera svalandi.  Nú þegar sólin skín og vorhugur sækir á menn virðist hausta hjá gömlum manni sem veit þó að vorið er ekki langt undan.  Skyldi það vera óvissan sem ekki verður flúin eða hræðslan við að mistakast að raða saman þeim brotum sem liggja allt í kringum sálartetrið ? Júdas vill samt að Unga konan fái þann tíma sem hún þarf.   Það læðast þó að honum vangaveltur um það hvort það eigi alltaf að vera hann sem láti undan, hann sem gefi eftir, hann sem hugsi um aðra, hann sem jafnvel lætur ávíta sig fyrir það eitt að vera ekki eins og einhver vill að hann sé.  Geri ekkert, fari ekkert, vilji ekkert  og njóti hversdagsleikans of mikið. Eitt má þó Júdas eiga.  Hann Er.  Sé einhver ekki sátur við það getur sá hinn sami farið…………

 

Júdas veit samt að í höndum hennar verður hann leir, en það gerir samt ekkert til því hún er góð, ljúf og yndisleg.  Hún ilmar.


Tími uppbyggingar er framundan

     Loksins sofnaði Júdas og svaf af sér kvöldið og nóttina til morguns.  Áhyggjur af því sem var og yrði voru í höndum huggarans og auðmýkt og traust voru allt sem þurfti.  Júdas gerir sér samt grein fyrir því að þessu er ef til vill aldrei lokið og hvort tími huggunar sé kominn veit hann ekki en alveg ljóst að tími uppbyggingar er framundan, tími faðmlaga og tími sannleikans. Steinum hefur verið kastað og nú skulum við tína þá saman.  Við skulum tala og þegja ekki, við skulum elskast og stoppa ekki, við skulum byggja upp og láta ekkert stoppa okkur.

 

Sannleikurinn sem fellst í orðum Predikarans eru orðin Júdasi ljúf í eyrum.  Svona er einfaldleikinn, svona er hversdagsleikinn, svona er líf Júdasar og Ungu konunnar.

 

Að fæðast hefir sinn tíma og að deyja hefir sinn tíma,

að gróðursetja hefir sinn tíma og að rífa það upp,

sem gróðursett hefir verið, hefir sinn tíma,

að deyða hefir sinn tíma og að lækna hefir sinn tíma,

að rífa niður hefir sinn tíma

og að byggja upp hefir sinn tíma,

að gráta hefir sinn tíma og að hlæja hefir sinn tíma,

að kveina hefir sinn tíma og að dansa hefir sinn tíma,

að kasta steinum hefir sinn tíma

og að tína saman steina hefir sinn tíma,

að faðmast hefir sinn tíma

 

Júdas velti þessu líka fyrir sér í nóvember 2007,

 http://judas.blog.is/blog/judas/entry/361347

Hring eftir hring!


Þú munt faðma fortíð þína

     Loksins hefur Júdas sannfærst í hjarta sínu.  Unga konan elskar hann og það breytist aldrei. Loforð almættisins skulu alltaf standast og við bætum engu þar við. 

     Hún grét þegar hún kvaddi kútinn og kútínuna og þau líka, síðustu tárin þurrkaði gamli maðurinn af þeim sofandi. „Hvenær kemurðu aftur „  var spurt mörgum sinnum og ég sá það í augum Ungu konunnar að viljinn til að koma strax var að taka völdin.  „Ég kem fljótlega“ sagði hún og löngunin til að koma aftur sem hún sjálf, ný og betri mamma, endurfædd Ung kona, sú sem var, sú sem faðmar, sú sem ilmar, fyllti sálar Júdas. 

Við elskum þig mamma eins og þú ert!  Ég elska þig Unga kona eins og þú ert!

 

Guð mun gefa þér það æðruleysi sem þú þarf til að faðma fortíð þína

og sætta þig við það sem þú ekki getur breytt.

Kjarkinn hefur hann gefið þér nú þegar til að breyta því sem þú getur breytt

og þar hef ég alltaf dáðst að þér og engu haldið leyndu.

Vitið til að greina þar á milli er sem pálmi í höndum þínum af Guði gefinn

og ilmur þinn  er allsstaðar.


Hann sofnaði þegar hann átti að vaka !

     Er núna komið að tíma fyrirgefningar? Tíma auðmýktar og nýs upphafs?  Tíma uppgjörs og tíma afhjúpunar?  Tíma sannleikans?   Er hægt að fyrirgefa þeirri sem kom og hvarf?  Er hægt að ætlast til einhvers af þeirri sem var í raun aldrei til en kom þó og var?   Þeirri sem skildi eftir sig slóð sem enginn skildi og enginn vildi feta?  Er hægt að búast við einhverju öðru en því sem var áður en öllu var snúið við og upp varð niður og niður varð upp ?  Er hægt að búast við öðru en endurtekningum á fyrri misgjörðum? Er það augljósa ekki sú ástæða sem stingur Júdas meira en allt annað? 

     Hann sofnað á verðinum.   Hann sofnaði þegar hann átti að vaka.  Hann leit undan þegar hann átti að horfa,  hann leit upp þegar hann átti að horfa niður.  Hann sagði já þegar hann átti að segja nei.  Hann gleymdi þegar hann átti að muna.  Hann brást þegar hann átti að standa sterkur. 

     Var Unga konan ekki sú sem hann treysti?  Sú sem treysti á dómgreind hans, sem treysti á styrk hans, sem leitaði ásjár hans, sem sótti í yl hans?  Voru svik hans þá ekki meiri en svik hennar?  Hann var jú hann á meðan hún var ekki með.  Hann var á meðan hún hvarf.  Hann vissi og sá en horfði bara á……..  Þau töldu sig ætluð hvort fyrir annað en voru svo ef til vill bara fyrir einhverja aðra.

Allt hefur sinn tíma.

Er Júdas ekki bara sjálfum sér líkur og ber nafnið býsna vel.


Viltu bíða eftir mér eins og ég beið eftir þér ?

     Það fór eins og Júdas sagði og greinilegt að í huga hans takast á undarleg öfl örvæntingar, vonar og þrár.  Ást hans til hennar virðist stundum taka völdin og skynsemin sem ætla mætti að væri svo augljós látin fjúka fyrir ljúfum löngunum sem róa hugann og sefa andann rétt eins og fallegt regn á hlýjum sumarmorgni.  Unga konan hringdi og það var örvænting í röddinni.  Örvænting sem Júdas var að bíða eftir, örvænting sem hann hélt að væri ekki lengur til staðar,  ilmur sem Júdas þráði.   „ Ég elska þig en er svo hrædd um að missa þig.“  „Viltu bíða eftir mér eins og ég beið eftir þér og gafst ekki upp. Manstu það ? „

Auðvitað man Júdas eftir því og þótt Unga konan hafi einnig þá verið leidd í burtu af draugum fortíðar kom hún til baka og lagði snörur fyrir þrjóskan gamlan Júdas og gafst aldrei upp. 

Getur verið að þessu ljúki?  Júdas verður að skilja þetta og leita til hans sem skilninginn gefur, eða hvað ?


Næsta síða »

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband