Færsluflokkur: Bloggar

Þau gengu tvö að sá í sama akur

     Við þráum og vonum en vökvum ekki og hlúum ekki að.  Við æðum áfram opin fyrir öllu og náum ekki að njóta nokkurs að fullu því værðina vantar. Mér finnst þetta ljóð Hannesar Péturssonar svo grípandi og lýsandi fyrir mig sjálfan, marga í kringum mig og jafnvel marga hér í bloggheimum.  Ef til vill á þetta við þig líka.

 

Þau gengu tvö að sá í sama akur

og sama vonin ríkti í hjörtum tveim.

Í djúpa mold þau dreifðu fræjum sínum

við dagslok báru tómar körfur heim.

 

Og ársæld létu í akur þeirra drjúpa

hin ilmi þungu dægur sumarlöng

með hlýja skúr og bjarta sól, uns blærinn

í bleikum, stórum öxum þeirra söng.

 

Þau gegnu ei framar út á þennan akur.

Svo undrafljótt og þó ei tregalaust

þau kvöddust þegar kominn var sá tími

að kornið mætti skera þetta haust.

 

Og akur þeirra beið uns varð hann vindum

og vertarfrosti og þungum snjó að bráð.

Þau fundu bæði á öðrum stöðum aðra

með öðrum var í nýjar moldir sáð.

 

Og fundum þeirra bar ei síðar saman.

En seinna löngu ef gerðist vinafátt

um langveg bar þau hugurinn að heiman

um hraun og fjöll og sitt úr hvorri átt.

 

Því nú var orðin gleði þeirra að gista

hinn gamla og næstum týnda akur sinn

og hlusta á vindinn hvísla lágt í grasi:

hérna bjó forðum allur draumur þinn.

 

     Þessi akur gæti verið gamla Þorpið mitt, úti á landi þar sem draumar mínir voru mér innrættir og allt snérist um þá í áratugi.  Allt í einu varð mér það ljóst að þeim var aldrei ætlað að rætast og síðar velti ég því fyrir mér hvort Júdas hefði kannski svikið sjálfan sig enn og aftur, drauma sína og þrár er hann flutti burt og fann sér nýja drauma, nýjar væntinga, nýjar þrár og nýja konu.........unga konu án fortíðar.  Að snúa baki við skuggum fortíðar er ekkert mál, en gæti ég hafa snúði baki við skuggum framtíðar sem mér er svo tíðrætt um?  Á ég eftir að mæta þeim tvíefldum og verður það gott eða slæmt?

 Guð einn veit.

 


Líkur á sambúð aukast um 12%

     Það var mikið að gera í vinnunni í gær eins og við var að búast en eftir hádegi fékk ég símhringingu frá ungu konunni um að kúturinn væri orðinn veikur.  Kominn með hita svo ég græjaði nokkra nauðsynlega hluti í poka og færði þeim heim, og gat þá faðmað litla eldhnöttinn minn að mér en hann sendi mér örlítið máttlaust bros, þar sem hann lá í sófanum þreyttur og heitur.  Nóttin hafði verið þeim erfið og þau sváfu því fram að hádegi í staðinn. 

     Í óveðrinu í fyrradag keyrði ég fram á gamla konu með innkaupatösku á hjólum  og  hélt hún dauðahaldi í staur og vera greinilega auðskelkuð í þessu brjálaða veðri.  Ég snéri við og stoppaði við hliðina á henni, stökk út og dró hana upp í bílinn.  Sú sagðist aldrei hafa lent í öðru eins og  ekki áttað sig á þessu vonda veðri sem þó var búið að tilkynna í útvarpi á öllum stöðvum.   Hún sagðist vera á leið í Hagkaup og keyrði ég hana þangað og bauðst til að bíða eftir henni á meðan hún verslaði.  Eftir smá þóf lofaði gamla konan því að taka leigubíl heim og óskaði mér Guðs blessunar svo ég hélt áfram leið minni niður á skrifstofu.

      Eftir vinnu var unglingurinn að vesenast með  gjöfina handa kærustunni og var að íhuga það að fara í blómabúð til að láta pakka henni inn en pabbinn fussaði og sveiaði yfir því og taldi sig nú geta komið þessu í pappír á meistaralegan hátt.  Unglingurinn efaðist og sagðist alveg eins geta slitið sambandinu við hana strax eins og að færa henni gjöf sem liti út fyrir að hafa farið í gegnum meltingarveg á belju.  Yfirlýsingarnar voru allsráðandi í korter en síðan lét hann undan fullur efasemda.  Pabbinn setti sig í stellingar og innstillti sig á mjúku línuna, setti Pál Óskar á fóninn og fletti létt í gegnum bókina hans Þorgríms Þráinssonar og  að nokkrum korterum liðnum stóð pakkinn meistaralega innpakkaður á borðinu, hlaðinn borðum og krullum svo gullfallegur að líkurnar á því að móðir stúlkunnar eða amma myndu heillast og reyna að hafa upp á gamla með sambúð í huga jukust um 12% sem verður að teljast nokkuð gott.  Unglingurinn var sáttur og sagði að þessi pakki hlyti að hafa farið hina leiðina  því hann væri bara nokkuð góður.   Ég reiknaði með að þetta væri hrós en er ekki alveg viss.

     Á döfinni er að klára innpakkanir og senda það sem þarf að senda  en hinsvegar ákvað ég að senda engin jólakort þessi jól einfaldlega vegna þess að ég nenni því ekki.  Ég reikna með því að í staðinn verði þau öll í stafrænu formi.

      Sunnudagur í dag,  þreyttur og ljótur,  allt svo ég........Hef ekki farið á æfingu í nokkra daga en borðað konfekt þá alla svo þetta hlýtur að vera í lagi! Júdas er sjálfum sér líkur og smá svik við sig verða að teljast hluti af norminu. 


Tók mynd af ljóði

Tók mynd af ljóði áðan þar sem ég stóð við bókaborð í bókabúð og höndlaði ljóðabækur, en þetta ljóð heillaði mig strax.

Ég ætla að deila því með ykkur.

 

 

Óttinn við að draumurinn hætti er ekki sá

að draumurinn hætti um stund

heldur óttinn við að hann byrji alls ekki aftur.

 

Ótti við eftirsjá, eftirsjá eftir draumi,

draumi um fegurð sem nú yrði ráðstafað öðruvísi.

                                               Eða ekki ráðstafað.

 

Ástaraugum lokað í síðasta sinn, eins og dauðs manns

                                                                         augum.

Orðin á burt, þau sem voru nætursól og dagstjarna.

Daufur skugginn mér nær, eftir draum.

 

Steinunn Sigurðard.

 

     Kúturinn minn er farinn til mömmu sinnar og við tekur kútalaus vika.  Finn ekki til eins mikils sársauka og saknaðar og oft áður.   Ef til vill eykst það um helgina.   Ég hef stóra kútinn alltaf hjá mér en við eigum að vera þrír en ekki bara tveir.  Þetta er endurtekning á endurtekningu ofan.

En ljóðið er gott.

 


Ilm af henni fundum við allsstaðar

     Ég náði loks að klára að setja upp jólaskrautið í gærkveldi og búinn að kaupa eina jólagjöf.  Ekki slæmt það.  Er svo reyndar kominn með aðrar nokkuð á hreint í huganum allt nema unglinginn.  Þar er ég ekki endanlega búinn að ákveða mig.  Ég ætla að versla megnið í vikunni svo það verði ekkert stress síðustu dagana fyrir jól. Einnig verður ákveðið um helgina hvort notað verður gervijólatréð sem notað hefur verið undanfarin jól eða lifandi og svo ákvað um daginn að koma upp jólatrjám á báðum heimilum kútsins svo hann fái notið þess alla daga um hátíðina. Endalausar ákvarðanir og vangaveltur.  Unga konan verður hjá okkur feðgum á aðfangadag í matnum og um kvöldið svo  allir fái að njóta samvista við litla kútinn, pabbinn, mamman og stóri bróðir.  Miðað við hamaganginn í honum þegar hann reif upp pakkana á afmælinu sínu í haust má reikna með talsverðum látum en mér sýnist mesta tilhlökkunin vera hjá mér. 

     Ég reyndi í morgun að vekja áhuga kútsins á skónum hans sem stóð út í glugga með einhverju í en hann skildi ekkert í því í gærkveldi af hverju pabbi var að troða honum upp í glugga og kom þrisvar með hann fram í forstofu þar sem hann átti svo sannanlega heima.  Hvað er að þessum gamla manni.  Skórinn fór svo í gluggann þegar kúturinn var sofnaður en í morgun þegar honum var bent á skóginn og hann hvattur til að skoða hann var áhuginn  víðsfjarri og núna nærri klukkutíma síðar er skórinn þarna enn og mér sýnist kúturinn vera sofnaður aftur svo það verður taka tvö á þetta rétt á eftir.  Mér finnst þetta samt svo skemmtilegur siður að ég vil endilega koma honum á.  Ég man svo vel eftir því þegar stóri bróðir hans var að komast að hinu sanna í þessu öllu saman og með rök og fullyrðingar á hreinu þegar þrír jólasveinar bönkuðu upp á í hreiðrinu og færðu honum pakka.  Ég man ekki hvað hann var gamall en hann var svo himinlifandi að fyrri fullyrðingar gleymdust á augnabliki og brosið ætlaði ekki af honum.

Ég verð að játa það að þegar ég rifja þetta upp renna svitadropar ef enninu niður í augnkrókana enn og aftur og kökkur kemur í hálsinn..........þarna í Þorpinu bjó falleg fjölskylda og húsmóðirin á bænum, rauðhærð og rjóð fór eins og stormsveipur um húsið í jólaundirbúningi og okkur feðga skorti ekkert.   Hvar sem við fórum um húsið glitti í hana og ilm af henni fundum við allsstaðar.  Ég er ekki frá því að ég sakni þessa tíma þótt ég sakni ekki Þorpsins eitt augnablik.  Konur um jól eru yndislegar og ég sakna þess einna mest af öllu þessa dagana.  „Að vera einn hefur sinn tíma“ en ég hlakka til þess þegar þeim tíma lýkur.

 

 

Mín ljóð eru fræ í sál þér sáð,

þó sum bíði hel, ég á djarfa þrá,

að skjóti hin rót, verði skógur sá,

er skýlir, þá stormar næða,

með blaðskrúð, er gleður og betrar þinn hug,

og blóm, sem þér lífstrú glæða.

 

Kr. f.Djúp


Hann pissaði yfir mig

     Þetta var nú meiri nóttin.   Kúturinn alltaf að vakna, umla og leggjast yfir andlitið á mér.  Hann kórónaði nóttina með því að draga fermingarbróðurinn upp úr bleiunni og pissa svo yfir mig.....Ég vaknaði en hann ekki.  Þurfti að skipta um á rúminu, skipta á kútnum og þrífa okkur og þá svaf hann sem fastast.  Ekki skrítið þó ég hafi vaknað þreyttur í morgun.  Hafragrautur og kaffi komu þó hlutunum í þokkalegt stand.

      Dagur fundarhalda, en góður samt.  Hann var fljótur að líða og eftir að hafa náði í kútinn og verslað fórum við heim og elduðum svínalundir með brúnuðum kartöflum og smjörsteiktum sveppum.  Kúturinn sofnaði snemma og ég sem ætlaði að vera svo duglegur í kvöld er lagstur upp í sófa staðráðinn í að gera ekkert og vera latur.  „Að vera latur hefur sinn tíma“ og þetta er hann.  

 


Hún telur blöðin sem falla

Hún er konan, sem kyrrlátust fer

og kemur þá minnst þig varir

og les úr andvaka augum þér

hvert angur, sem til þín starir.

 

Hún kemur og hlustar, er harmasár

hjörtun í einveru kalla.

Hún leitar uppi hvert tregatár.

Hún telur blöðin , sem falla.

 

Og hún er þögul og ávallt ein

og á ekki samleið með neinum.

Því hún er sorgin, sem sefar hvert mein,

og sífellt leitar að einum.

 

Tómas Guðm.

 

 Látum þó ekki hugfallast heldur þökkum fyrir hverja stund sem við eigum með þeim

sem við elskum.

Eigið góðan dag.


Einstök börn

     Ég ligg inni í rúmi með kútnum og er búinn að vera í tvo tíma að koma honum niður.  Ef það var eitthvað sem hann ætlaði ekki að gera í kvöld var það að fara að sofa.   Við vorum fyrr í kvöld að hjálpast að við að hengja upp ljósaseríur í eldhúsgluggana, ég að hengja og hann að rífa þær niður jafn óðum en bara óvart.  Hann dró stólinn sinn út um alla íbúð til að geta prílað með mér, verið alveg ofan í því sem ég var að gera og með hendurnar út um allt.  Þetta var sko gaman.  Gerum þetta aftur á morgun.   Svo skilur hann ábyggilega ekkert í því af hverju verið er að reyna að koma honum niður.......  hann er yndislegur.

     Ég minntist á það við unglinginn áðan hvort við ættum að klára að hengja upp seríurnar en hann glotti bara að mér og spurði mig hvort ég héldi að hann ætti enga vini eins og ég.   Veit ekki alveg hvað hann meinti, en hann ætlaði allavega ekki að vera með í þessu í kvöld,  það var alveg ljóst.

     Dagurinn var einstaklega dapurlegur og langdreginn, einmanaleiki í loftinu þangað til heim var komið og allar hugsanir snérust um þá sem minna mega sín.  Ég hef verið að lesa blogg Einstakra barna undanfarið og ekki laust við að maður finni sig vanmáttugan í baráttu þessara barna og fjölskyldna þeirra í öðru en fallegum hugsunum og andvörpum í átt til hans sem öllu ræður og öllu stýrir........Vert Þú með þessum fjölskyldum og þessum litlu englum sem eiga stutta viðdvöl í þessum harða heimi.  Bros þeirra og hetjuleg barátta situr eftir í huga þeirra sem á horfðu og ljóst að þar fara litlir englar og hetjur holdi klæddar.  þakka þér..................

Góða nótt,  einstöku vinir.


Ef reyndi ég að ráða

 

Ef reyndi ég að ráða

í þitt rósama geð

dýpra þínum orðum

fékk ég aldrei séð.

 

Hugur þinn ferðast

eftir fólgnum stig

en þú sast áðan gegnt mér

og þá sá ég þig.

 

Þá sá ég þig alla

þinn sefa í grunn

sem alskýra speglun

um augu og munn.


Værð er yfir og allt um kring

     Fallegur góður dagur á enda.  Við vöknuðum hægt og rólega,  lágum lengur en venjulega, kúrðum, hlógum og kúldruðumst.  Síðan sagði hungrið til sín hjá öðrum og kaffiþorstinn hjá hinum og við fórum fram.  Nokkru síðar var kúturinn farinn að ókyrrast og endaði við dyr bróður síns og byrjaði að kalla og slá í hurðina í von um að brói kæmi fram líka.  Það tókst þó ekki fyrr en nokkrum tímum síðar og þá var komið fram til að búa sig undir próflestur.  Við kútur fórum í Laugar og á svolítið flakk en síðan var farið heim að jólaskreyta. 

     Margt forvitnilegt var tekið upp úr kössum og pokum og stundum varla hægt að nálgast það sem var i kössunum fyrir litlum kút, nánast á hvolfi ofan í þeim.  Jólatréð fer þó ekki upp strax og  spurning hvort það verður ekki bara látið liggja á hliðinni því ég á ekki von á öðru en að vinurinn eigi eftir að draga það á hliðina oftar en einu sinni af einskærum áhuga og dugnaði því á því verður margt sem þarf að rannsaka og skoða.  Það þarf auðvitað að koma við þetta allt saman og prófa það líka.

     Kúturinn var fljótur að sofna, eldri kúturinn rokinn út með vinum og gamli kúturinn sestur með ljóðabók og tölvu inn í sófa.   Værð er yfir og allt um kring.


Þvílíkur okrari

     Þetta er sko fallegur dagur þótt ekki rigni.  Hvítt yfir öllu, sólin lágt á lofti, himininn bjartur og einstaka hvít drífa á annars fagurbláum himninum.  Er það ekki á svona dögum sem maður verður öruggur með það að almættið sé á bak við þetta allt saman.  Við litli kútur fórum snemma á fætur en höfum enn ekki farið neitt út.  Hann var orðinn svo þreyttur eftir leiki morgunsins að ég fór með hann nauðugan inn í rúm og hann sofnaði eftir að hafa troðið höndunum inn fyrir hlýrabolinn minn og flækt sig einhvern veginn þannig utan um mig.  Það síðasta sem ég heyrði hann segja var „babbi lulla“ og síðan bara uml. 

     Ég ákvað að koma unglingnum á lappir fyrir hádegi og setti brauð í ofninn en það er besta aðferðin við að lokka þennan aldurshóp úr rúmi, fyrir utan innleggsnótu upp á 46 þúsund í tískuvöruverslun en það kom aldrei til greina.   Nú verður engin miskunn sýnd, stærðfræði skal það vera í allan dag og fram á kvöld.   Einnig þarf ég að fara samningaleiðina að honum með að koma aðventuljósi og seríu í gluggann hjá honum en ég man að það var ekki sérlega vinsælt í fyrra þótt ég hefði betur.  Þá var mér hótað á léttu nótunum að gist yrði í athvarfi yfir jólin ef sér yrði aftur misboðið með þessum hætti aftur því ekki má coolið hverfa.   Mér datt í hug að leigja gluggann hjá honum og gerði honum tilboð áðan upp á  100 kr leigu á dag á glugganum og hélt að hann væri of þreyttur fyrir gangtilboð en það kom leiftursnöggt eða 44 kr á hverja peru sem færi í gluggann.    Þetta skiptir svolitlu máli því eldhúsglugginn og herbergisglugginn hans snúa út að götu og verða því að fylgjast að  í þessu.   Þvílíkur okrari.   Sex aðventuperur og 30 ljósa sería eru 36*44 kr per dag eða 1.584 á dag í fjórar vikur samtals  44.352 kr.  Getur verið að hann sé Smárason eða Jóhannesson.   Mitt tilboð hefði endað í 2800 kr.  Hann vill gjarnan skreyta út um allt nema þennan glugga en málið er í vinnslu.  Ætli það séu til útiaðventuljós sem ég gæti skrúfað í gluggasylluna að utanverðu ásamt útiseríu og komist þannig hjá því að eiga viðskipti við svona „okrara“ eða er til einhver gjaldskrá yfir þetta.   Ég veit ég næ þessu fyrir rest enda búinn að gera samninga við hann frá því hann var smákútur.  Upp á loft verður farið á eftir og dótið tekið niður svo þetta er allt að gerast. 

     Kaffibolli og Laugar eru inni í myndinni líka en er ekki í forgangi.

     Njótið dagsins eða hvers annars.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband