Færsluflokkur: Ljóð
8.11.2008 | 10:46
Ilmur og værð hjá kútum
Það er kominn jólahugur í mig og eldri kútinn. Mér varð það hins vegar á í fyrradag að segja litla kútnum að nú færu jólin að koma og þá fengi hann jólapakka. Allt það kvöld og allan daginn í gær var hann að spyrja eftir þessum pakka og ég reikna með því að það verði eins í dag. Biðin verður greinilega erfiðust fyrir þennan þriggja ára kút sem veit ekkert um jólin en veit sko hvað pakki er!
Það var gott að koma fram í morgun rólegur og fullur vellíðunar rétt eins og í gamla daga. Vita hvað ég á og hvað ég má. Þakka Honum fyrir nýjan dag og endurnýjaða værð. Það sofa allir nema Júdas gamli og stefnan strax sett á kaffiskápinn. Þarna var síðasti kaffipakkinn af grýlukanil kaffinu sem ég er vanur að kaupa nokkra pakka af í desember ár hvert svo ég eigi þá út árið til notkunar á sérstökum stundum. Þetta kaffi er bara framleitt í desember og til fram í janúar enda jólalegra kaffi varla til. Kaffiilmurinn liðast um eldhúsið holið og mætir fallegum ilmi fegurðar sem áður tilheyrði skuggum fortíðar en tilheyrir nú fallegri tilveru kútafeðganna. Vafalaust horfir Hann niður og brosir skilningsríkur og fer yfir það í huganum hversu oft hann hafi þurft að blása lífi í þennan þreytta svikula mann sem á það til að henda frá sér því sem hann unnir mest til að halda í stoltið en elta svo eigin skugga og spor hring eftir hring. Best að láta hann ná sér núna , hafur hann vafalaust hugsað og brosað svo föðurlega og fylgst með. Á einni helgi breyttist allt, þegar Júdas loksins fylgdi hjartanu.
En kaffið er gott og eitt af því sem breytist seint. Ein af þessum fáu nautnum sem ég hef ekki séð ástæðu til að losa mig við. Ég hef alltaf haft þessa tilhneigingu að ef eitthvað nær tökum á mér og mér finnst ég verða háður því þá losa ég mig við það. Vímuefni eru ekki í þessum hópi því þesskonar fíknir hafa aldrei herjað á mig. Súkkulaði hinsvegar er í þessum flokki og þess vegna hefur sælgæti ekki farið inn fyrir varir mínar frá því í apríl og óvíst um framhaldið.
Allt hefur sinn tíma og ljóst að dagar einmanaleika og depurðar eru liðnir. Við kútar erum glaðir og bjartsýnir og ég rifja upp pistil sem ég skrifaði 10.11. 2007.
Ef maður hugsar of mikið um suma hluti er eins og allt fari á flug hjá manni og fleiri spurningar vakna en leitað var svara við í upphafi. Gætum við verið að leita svaranna aðeins of langt frá okkur og gætu svörin hugsanlega verið við tærnar á okkur? Getur verið að sannleikurinn sé svo einfaldur að hann verði ekki skilinn eða er hann eins og jafna sem ekki gengur upp? Ég er sjálfur í leit að einhverju og treysti því að það villist ekki einhver inn á síðuna sem haldi af fyrrihlutanum að ég sé með svörin því það er langur vegur frá því. Mér skilst hinsvegar að allir hlutir hafi sinn tíma og því teysti ég á að sorg og söknuður, vanlíðan og depurð fari eða hverfi en geri mér það þó ljóst að það geti skollið á mér aftur síðar. Ekkert undir himninum er komið til að vera, allt virðist vera hverfult, en þetta er þó ljóst: Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma, að gróðursetja hefur sinn tíma og að rífa upp það sem gróðursett hefur verið, hefur sinn tíma, að deyða hefur sinn tíma og að lækna hefur sinn tíma, að rífa niður hefur sinn tíma og að byggja upp hefur sinn tíma, að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma, að kveina hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma, að kasta steinum hefur sinn tíma og að tína saman steina hefur sinn tíma, að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma, að leita hefur sinn tíma og að týna hefur sinn tíma, að geyma hefur sinn tíma og að fleygja hefur sinn tíma, að rífa sundur hefur sinn tíma og að sauma saman hefur sinn tíma, að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma, að elska hefur sinn tíma og að hata hefur sinn tíma, ófriður hefur sinn tíma og friður hefur sinn tíma........................Ég hlakka til vinnáttunnar, værðarinnar og kærleikans. Ég hlakka til angans, augnatillitanna og glettninnar. Ég hlakka til löngunarinnar, þrárinnar og væntinganna. Ég hlakka til stoltsins, glæsileikans og djörfungarinnar. Ég hlakka til kossanna, strokanna og blíðuhótanna. Ég hlakka til þessa dags að ég finn hana eða hún mig.
Ég náði í svalan skugga trjánna
og fann þar ljúfa lind.
Spegilmynd gamals manns
birtist mér svo kunnugleg.
Ég leit til baka og sá
að í yfirgefnum sporum mínum
hafði blómstrað.
Og svo kom regnið!
JI
Njótið dagsins.Ljóð | Breytt s.d. kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.8.2008 | 21:19
Fífan fokin
Það fór ekki mikið fyrir menningarnóttinni hjá gamla manninum þótt öll skilyrði væru hin ákjósanlegustu. Kúturinn hjá Ungu konunni, sá eldri með kærustunni, votviðri eins og eftir pöntun, boð í gleðskap með tveimur vinkonum og sms frá þeirri þriðju sem ekki var svarað eins venjulega. Hvað er að mér? Þetta getur ekki verið eðlilegt en virðist vera það í huga mínum, allavega á þeirri stundu. Ég á einrænan gamlan föður sem átti einrænni eldri föður svo þetta hlýtur að liggja í genunum. Ég hreyfi mig þó reglulega og er sáttur við þessar ákvarðanir þegar þær eru teknar. Það er ekki fyrr en daginn eftir og ég losa svefn sem ég er ósáttur. Teygi mig eftir henni en hún er ekki. Leita ilmsins en finn hann ekki. Hlusta og heyri ekki andardrátt. Hlusta aftur og heyri hvorki fótatak né snark í kaffikönnunni. Ekki einu sinni fuglasöngur eins og hér í denn. Ferlega er ég þreyttur á mér sumar stundir. Júdas breytist aldrei!
Skólinn er byrjaður hjá okkur eldri Kútum og væntingarnar miklar. Kútur vildi borga skólagjöldin sín sjálfur og sagðist vera að þessu fyrir sjálfan sig en ekki mig. Góður punktur. Hann henti út tveimur fögum sem ég hafði ráðlagt honum að taka en valdi sér önnur sem hann sagðist hafa áhuga á. Hann er að verða fullorðinn þessi kútur, það er ljóst og pabbinn er stoltur af honum.
Ég hlakkaði til haustsins og geri það reyndar enn. Geta hlustað á vindinn og heyrt í regninu. Dást að litadýrðinni og minnast sumarsins. Sumarást fór framhjá mér en ástin á kútunum mínum stendur þó upp úr og það verður hún sem vermir hjarta mitt í haust og vetur. Vangaveltur um lífið og tilveruna hafa verið sterkar á síðustu vikum og þrautseigja Ungu konunnar hefur truflað mig. Ég skil ekki af hverju þessi kona er ákveðin í að bíða eftir gömlum manni sem hafnar henni endalaust og leitar hamingjunnar úti í stórri tilveru. Ef til vill er leitað langt yfir skammt. Ég taldi mig hafa safnað nægum forða í andans hlöðu en allt í einu efast ég um það og finnst sumarið hafa liðið allt of hratt.
Sumarið líður
hraðar og hraðar
Hlaða mín er næsta tóm
af vetrarforða
Fari sem horfir
verða frostin fyrri til berja
fífan fokin
fjallagrösin ótínd
Sárt væri að sitja
með sumartregann einan í hlöðunni.
Þóra Jónsd.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
18.8.2008 | 08:17
Læs á gamlar rætur
Með gleði í hjarta en brotið bak staulaðist Júdas á fætur í morgun. Gamli hélt augnablik að hann væri unglamb og náði að ganga fram af sér við æfingar gærdagsins. Í ofanálag komst lítill kútur að því að pabbinn væri ekki eins frár á fæti og venjulega og var því á harðahlaupum um íbúðina í gærkveldi og nýtti sér þetta til hins ýtrasta. Furðulegt hvað þau finna þetta á sér og felustaðirnir voru ekki af verri endanum. Hann vorkenndi mér þó á köflum, strauk mér og breiddi ofan á mig en var með það alveg á hreinu að hann stjórnaði í ástandinu. Unglingskútur var með þetta alveg á hreinu og stakk upp á að ég fengi mér annað áhugamál sem ég réði við og var þar boccia nefnt ásamt einhverri augnaleikfimi fyrir eldri borgara.
Skólinn fer að byrja hjá okkur feðgum og satt best að segja er komið haust í huga minn og ég er ekki frá því að gróðurinn í garðinum hjá mér taki undir það sé lesið í hann. Það er eins og eitthvað seiðandi fylgi haustinu og ég hlakka til þess. Annar vetur í einsemd hugans blasir við og ekki laust við að ég komi sjálfum mér á óvart en hver veit. Hvort ég skjóti rótum í einsemd til framtíðar veit ég ekki en það veldur mér þó litlum áhyggjum þessa stundina og ómögulegt að segja til um það hvort gamlar rætur eigi eftir að koma á óvart. Kútarnir, vinnan og námið ásamt einhverjum æfingum ættu að geta haft ofan af fyrir mér og vonandi kemst ég á skrið í blogglestri en þar hef ég verði einstaklega slappur í sumar.
Njótið dagsins
Mestur sársauki fylgir gróðrinum,
hann gerir okkur læs
á gamlar rætur;
þær rísa upp
og fljúga,
en ekki úr augsýn.
Laufkrónan snertir ský.
Laufkrónan kyssir fætur okkar.
Jóh.Hjálm
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.8.2008 | 22:42
Júdas finnur ilminn út um allt
Það er óvenjulega langt síðan ég bloggaði síðast eða 9 dagar og ég hef svo sem ekki neinar útskýringar á því. Þetta er kútalausa vikan mín og ég ferskur upp fyrir haus búinn að æfa mikið og stíft en því fylgir svo mikil vellíðan. Það eru margir í sumarfríum í vinnunni og því gott að mæta í Laugar eftir vinnu og taka góða tveggja tíma æfingu, finna stressið líða úr sér og vellíðunartilfinningu streyma um sig. Þvílík sæla. Svona okkar í milli sagt hefur það blundað í mér að trimma upp á hana Esju í ágúst og því hef ég verið að færa mig yfir á klifurvélina af skíða og hlaupabrettunum en held þó óbreyttir stefnu í lóðum og vélum.
Við vorum báðir að vinna um helgina ég og eldri kúturinn en hann kom glaður heim á miðvikudag eftir vel heppnaða ferð í Þorpið með kærustunni. Hann náði að hitta móður sína þrisvar til fjórum sinnum og náði úr sér mestu gremjunni sem farin var að blunda í honum. Hann er farinn að hlakka til skólans og markmiðum rignir yfir mig. Hún var góð að venju kútavikan sem lauk á föstudag. Við röltum um einmana borgina og spor okkar lágu víða. Húsdýragarðurinn stóð fyrir sínu og þar bögglaði Júdas sér inn í barnajárnbrautarlest að beiðni kútsins sem lét sér ekki eina ferð duga en og vildi hafa pabbann með í þessu. Vinurinn byrjaði á leikskólanum aftur á þriðjudag og þar skyldi ég hann eftir með tárin í augunum sem breyttust þó í gleðitár því hann var himinlifandi glaður og vildi varla hætta leik þegar ég náði í hann.
Það hefur verið mikil værð í mér þrátt fyrir stressið í kringum mig og eitthvað innra með mér segir mér að ég sé jafnvel tilbúinn. Tilbúinn í hvað? Tilbúinn í eitthvað? Tilbúinn í önnur spor? Eða kannski bara tilbúinn í einveru annan vetur? Ég er ekki frá því að ein af sporunum sem á vegi okkar urðu um helgina væru múmínspor en hvað veit ég? Júdas finnur ilminn út um allt og það eina sem hann gerir er að njóta hans og láta þar við sitja. Sumir breytast lítið og aðrir ekki neitt. Júdas er samur við sig....
Vonirnar koma og hverfa
hverfa og koma í ný.
Í kvöld sá ég sólbjarta svani
sveima upp við gullofin ský.
Þeir hurfu sem dýrlegir draumar
út í dimma hvelfingu blá.
Ég var eins og ókunnur gestur
með ást mína, löngun og þrá.
Þýtt-Þorst.Sveinsson
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.7.2008 | 08:48
Gæti það orðið einfaldara?
Þeir sátu á móti hvor öðrum og horfðust í augu,. Annar gamall en hinn ungur. Þeir höfðu báðir hugsað mikið og sá ungi sem ef til vill hefði átt að horfa niður var búinn að undirbúa sig vel. Hann gat því horft á móti og við tóku klukkustundarlangar umræður um unga manninn, fjölskylduna, framtíðina og þær gildrur sem fyrir hann eru lagðar. Viðjar fengnar í vöggugjöf voru einnig ræddar og við vorum sammála um það að lifa yrði í samræmi við þær, forðast sumt og sækja í annað. Pabbi ég hef tekið eftir því að þú hefur alltaf rétt fyrir þér þess vegna er ég algjörlega sammála þér. Hann var sammála mér í því að þetta væri í raun einfaldleiki sem vegna einfaldleika verður á köflum gegnsær á að líta og tilhneigingin sú að færa sig yfir í flóknari hluti sem ekki verða höndlaðir. Ný áform voru lögð fram og samþykkt með öllum greiddum atriðum og sá gamli sagði að þetta yrði að fara strax í gang. Ég kem til með að nefna þetta við þig daglega vinur.
Ég heyrði í litla kútnum í gær og hef verið með sting í hjartanu síðan. Unga konan segist vera með svolítinn móral yfir því að vera svo fjarri með hann en ég minnti hana á að við hefðum rætt þetta og því væri á ábyrgð beggja. Kúturinn sagðist vera bókaormur og vildi fá mig í lestur og er ekki alveg að skilja hve langt er á milli okkar. Mér skildist að þau kæmu á miðvikudag eða fimmtudag. Það flaug samt í gegnum kollinn á mér að keyra nú í morgunsárið og hitta kútinn en það er best að bíða. Annar kútur eldri þarf á mér að halda.
Í einmanaleikanum finn ég löngun til mikillar hreyfingar og hef æft daglega undanfarið. Von um að einhver finni mig er sterkari en ég vil nefna og vil því ekki fara út í umræður um akkúrat það. Það er bara þannig og því verður ekki breytt. Ég velti því fyrir mér í gær hvort ég væri illa gefinn en tæki bara ekki eftir því. Hvort ég væri jafnvel heimskur í þessum einfaldleika eða bara heimskur heilt yfir. Hvort ég væri sjálfur að flækja mig í einföldum hlutum og því með öllu ófær um að gefa öðrum ráð til lausna.
Ég finn þó til vellíðunar og það er það sem ég þarf. Því ætla ég ekki að vanmeta það að vera einfaldur og lifa einföldu lífi. Gæti það orðið einfaldara að vera tvö?
Ósjálfbjarga
í grámöskvuðu
neti
og augu þín
haf.
Matthías JóhannessonLjóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.7.2008 | 09:42
Þær rekast á, nálægðir og fjarlægðir
Þetta gæti orðið dagur uppgjörs þótt ekkert í umhverfinu bendi til þess. Heimilið er þögult og þrátt fyrir áhrif huldukonu á einfaldan hversdagsleikann eru skúrir á köflum. Við eldri kútur þurfum að setjast niður í dag eða kvöld og ræða saman. Hjá honum skiptast líka á skin og skúrir og þótt engin merki séu um það í fasi hans eða framkomu gagnvart öðrum hefur gamli maðurinn svipt hulunni af slæmri spá með því einu að horfa til himins í stað þess að treysta á langtímaspár hans sjálfs. Við breytum ekki veðrinu en getum með vakandi huga og vökulum augum horft til himins og búið okkur undir breytingar og jafnvel notið regnsins við réttar aðstæður. Hann verður alltaf í þessum viðjum en nú í annað skipti bregðumst við hratt við þessari fjandsamlegu fíkn.
Það skín þó sól og værðarvon hvílir yfir. Hjarta mitt segir að sigur sé unninn þótt hindranir séu framundan. Ég læt hugann reika og rifja upp þá gömlu tíma þegar lítill kútur fylgdi mér eftir hvert fótmál og gat aðeins treyst á mig. Ég þrái þessar gömlu fjarlægðir því þá gat ég haldið í taumana og er ekki frá því að eitthvað af fallegum fljóðum hafi verið í nálægðinni. Það rekast því á í huga mínum nálægðir og fjarlægðir og eftir smá umhugsun veit ég ekki hvort ég þrái meira.
Kannski er huldukonan betur geymd í fjarlægðinni og líklega er Júdas þar best geymdur líka.
Bagalegt, og þó
hvað ég þrái þær oft
hinar gömlu fjarlægðir:
geislandi vegalengdir
milli staðanna
milli atburðanna
milli óskarinnar og veruleikans.
Ó skæra djúp
þar sem draumarnir áttu heima.
Hannes Pét.Ljóð | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.7.2008 | 08:47
Það heillaði mig huldukona!
Það var tvennt sem hvíldi á mér í gær en virtist léttvægt þegar ég kom á fætur í morgun. Það stefnir því í góðan dag og góða helgi.
Það heillaði mig kona fyrir nokkrum dögum bæði með útliti sínu og framkomu. Ögrandi og sjálfsörugg og kom það kom mér á óvart hve sterk áhrif hún hafði á mig. Hún virtist ekki þurfa neina aðstoð við eitt eða neitt og virtist ekki eiga neitt bágt svo ég þarf líklega ekki að bjarga henni frá neinu. Þar verður hinsvegar vandinn til því ég er ekki viss um að ég geti þá nálgast hana nema þá kannski með því færa mig á milli lífeyrissjóða......... Ég þarf alltaf að bjarga einhverri! Svona getur sveitasælan í friðsælum smábæ farið með mann. Hún skar sig úr, falleg, há og grönn í flaksandi síðum jakka og vissi upp á hár hvað hún var að selja. Vinnufélagi minn heillaðist líka og verslaði af henni en ég sat hjá og horfði á en kom með fyrirspurnir og lofaði henni að ég myndi hafa samband eftir meiri upplýsingum. Svo var hún horfin en kom aftur augnabliki síðar því hún hafði gleymt einhverju. Þá fékk ég tækifæri til að heillast enn frekar. Á vörum mínum hvíldu orð sem ekki voru sögð, "Það má ekki bjóða þér værðarstund yfir kaffibolla?" Þegar hún var farinn bankaði vinurinn á öxlina á mér og sagði hana vera réttu konuna fyrir mig. Ef ég þekki mig rétt geri ég ekkert í málinu og ósennilegt að þessi rétta kona fyrir mig sé yfir höfðu til. Líklega bíð ég eftir því að hún hafi samband við mig sem er þó útilokað því þótt ég sé með nafnspjaldið hennar veit hún lítið um mig annað en að ég sé úr sama Þorpi og hún.
Eldri kúturinn tók hliðarspor á beinu brautinni en komst ekki einu sinni út í kannt þegar gamli maðurinn áttaði sig og greip í taumana. Hann getur þó ekki verið í taumi til eilífðar svo við verðum að setjast niður um helgina og ræða þetta. Ég þakkaði almættinu fyrir það því svona hratt hefur þetta ekki gerst áður og greinilegt að okkur fer fram en það er þó engin ávísun á varanlega lausn því hún er ekki til samkvæmt fræðunum. Söknuðurinn vegna litla kútsins hefur verið bærilegur þessa vikuna en nú styttist í að hann komi og vikukerfið fari í gang aftur. Ég reikna með að góðar æfingar eftir vinnu hafi slegið á þetta því minni tími er til að velta sér upp úr því.
Læt þetta duga í dag, njótið dagsins
Hægur andvari
húmblárrar nætur
um hug minn fer.
Ást mína og hamingju
enginn þekkir
og enginn sér.
Og ljóð mitt ber samskonar
svip og það,
sem ekki er.
Steinn Steinarr
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
22.7.2008 | 08:21
Stæðist það endurskoðun almættisins
Þetta var kærkomið fríhelgi og tilhlökkunin mikil hjá okkur eldri feðgum því Unga konan kom keyrandi utan af landi með litla kútinn. Þetta er í annað skipti í sumar sem við sjáum hann ekki í tvær vikur samfellt. Ég samþykkti þetta fyrirkomulag af tillitssemi við hana sem taldi sig geta lifað ódýrt í sumar í litlu sjávarplássi úti á landi hjá föður sínum. Ég finn að þetta er of mikil fjarvera og á tveimur vikum hjá barni á þessum aldri gerist svo undra margt sem ég vil ekki missa af. Tíminn er einfaldlega of langur. Kúturinn flaug í fangið á mér og hrópaði á bróann sinn og greinilegt var að hann var líka farinn að sakna okkar.
Það kom mér hinsvegar á óvart að ég var farinn að sakna hennar líka! Ég reikna ekki með að það tákni neitt í gömlum kolli en hún hefur eðlilega fylgt kútnum og þegið kaffibolla af og til. Það pirrar mig stundum en gleður mig aðrar stundir. Spjall um kútinn og sameiginleg aðdáun á honum sem eðlilegt er. Sá eldri á það til að hringja í hana eftir skutli og lét hana vita af því á undan mér þegar hann tók ranga beygju á braut lífsins um árið. Ég eyddi heilu kvöldi með sjálfum mér í vangaveltum um það hvort ég hafi verið grimmur við hana, ósanngjarn og eigingjarn og hvort orðið sanngirni og réttlæti í mínum huga stæðist endurskoðun almættisins. Hvort leit mín að einhverju eigi eftir að fara í heilan hring og einn góðan veðurdag sjái ég glitta í gamlan mann á göngu með ungri fallegri konu í fallegu regni í átt til áðurnefndra skugga framtíðar. Getur verið að ég hafi skuldað henni umburðarlyndi og að þrautseigja yrði endurgoldin?
Við fórum víða, hjóluðum, fórum í húsdýragarðinn,keyptum okkur ís, komum við í Sprotalandi á meðan gamli endurnýjaði orkubirgðirnar, og kubbuðum út í það óendanlega. Sá litli var alltaf að taka utan um mig og segja mér að allt væri í lagi. Það er svo yndislegt hvað þessi aldur speglar allt í kringum sig, alla framkomu og umhyggju og minnir mann á það hversu þýðingarmikil umhyggjan og innrætingin er á þessum aldri. Þegar heim var komið var stóri bróðir eltur hvert fótmál og þegar hann ætlaði út var stokkið á fótinn á honum og ríghaldið sér.
Þau fóru aftur út á land í gær en nú bara í eina viku og þá hefst vikuplanið aftur á ný.
Ég átti góðan dag í gær og varð þeirrar gæfu aðnjótandi að þurfa að keyra í nokkra tíma í rigningunni til skrafs og ráðagerða í öðru byggðarlagi. Keyra í rigningu og hugsa. Værðin allt um kring.
Njótið værðar
Sólin skein
ég settist undir skjólvegg
uns skugginn náði mér
Illgresi hafði á meðan
haslað sér völl í garðinum
Ég heyrði svörðinn hrópa
á hlýjar hendur
kraup í skuggann
og kyssti moldina
ef varir mínar væru ennþá heitar
Þóra Jónsdóttir
Ljóð | Breytt s.d. kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.7.2008 | 11:18
Tilgangslaust hjóm
Þetta er einn af þessum dögum þar sem hversdagsleikinn hefur vikið til hliðar, dagur sem margir myndu vilja til hvíldar og endurnæringar en mér líkar samt ekki við hann.
Tómt húsið gefur þögninni hljómgrunn.
Ég velti því fyrir mér hversu mörg spor hafi verið stiginn í þeirri barnslegu trú að þar lægi leiðin til sældar og tignar og hversu marga ég hafi dregið með mér mínar leiðir því ekki fylgdi ég leiðum annarra eða leiðsögn.
Kaffibollinn gleður ekki og ný áform eru tilgangslaust hjóm.
Þetta verður dagur Júdasar. Dagur niðurrifs og ásakana. Dagur enn eins uppgjörsins þar sem við horfumst í augu, og tökumst vafalaust í hendur áður en sólin sest ef hún sest þá nokkuð.
Enn einn hringurinn.
Ég hef alltaf talið að ég gæti á mig kútum bætt og hefur það verið einn draumur minn til margra ára. Meira að segja það virðist hjóm í dag og lítil viska eftir í brunnum reynslunnar sem ekki hefur verið hrakin og merkt sem ófær vegur.
Ekki eftirbreytni vert.
Gránandi höfuð
hneigi ég yfir blöð
óskrifuð, líkt og sand
eyðimarkanna stóru.
Mig dreymir vinjar:
vatnsból og tré
áningarstað í fjarska
útá fannhvítum pappírnum.
Hannes Pétursson
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
1.7.2008 | 08:55
Ég ætla að bíða
Eftir einmanalegt kútalaust kvöld en svefnsama draumlausa nótt, reis ég úthvíldur úr rekkju. Hélt áfram að lesa færslur bloggvina yfir ljúfum bolla.
Hversdagurinn er samur við sig og bið án beiskju heldur áfram.
Séra Svavar Alfreð hitti naglann á höfuðið með gríðarlega góðri bloggfærslu sem sannfærði mig um það að bið sé vinna í góðri trú. Bið krefst einbeitingar, bið krefst aðgæslu, bið krefst vöku, bið krefst trausts þess sem bíður. Bið er ekki endilega merki um uppgjöf og getur gefið af sér uppfyllingu vona og drauma.
Ég veit ekki með ykkur en ég ætla að bíða áfram.
Biðstaða þykir mörgum afleit og óþægileg stelling.
Þegar beðið er gerist ekkert. Tíminn líður. Við aðhöfumst ekkert.
Engu að síður er mikilvægt að kunna að bíða. Almennileg bið er ekki tómt aðgerðarleysi heldur krefst einbeitingar. Sá sem bíður þarf að halda vöku sinni.
Þegar við bíðum, bíðum við þess sem koma skal. Bið er undirbúningur fyrir framtíð. Við sjáum ekki inn í hana en getum verið tilbúin fyrir hana þegar hún kemur ef við kunnum að bíða.
Séum við tilbúin fyrir framtíðina en látum hana ekki koma okkur gjörsamlega í opna skjöldu höfum við gert það sem í okkar valdi stendur til að hafa áhrif á það ókomna hvernig sem það verður.
Bið er líka traust. Sá sem bíður leggur árar sínar í bát. Hættir að hamast á hafinu. Reynir ekki að troða sér fram fyrir þann sem er á undan í röðinni. Treystir því að röðin komi að sér. Treystir því að biðin beri árangur.
Bið er vinna í þeirri trú að ekki sé til einskis beðið.
http://svavaralfred.blog.is/blog/svavaralfred/entry/581038
Ég hélt eldinum lifandi
í von um að þú kæmir
Nú er áliðið
og margir farnir hjá
Ég vaki meðan lifir í glóðinni
Þóra Jónsdóttir
Ljóð | Breytt s.d. kl. 09:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Júdas
Eldri færslur
Færsluflokkar
Bloggvinir
- tilfinningar
- tolliagustar
- lindalea
- kisabella
- siggasin
- saxi
- svavaralfred
- ein
- gisgis
- totally
- mofi
- vilborgo
- rebby
- scorpio
- gurrihar
- erla1001
- stormsker
- aslaugh
- jensgud
- eggmann
- blossom
- gretaulfs
- limran
- malacai
- arabina
- toshiki
- gurkan
- gelin
- asarich
- kona
- neytendatalsmadur
- myndamen
- brandarar
- little-miss-silly
- rose
- hebron
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 48796
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar