Færsluflokkur: Ferðalög

Feðgaferð að ljúka

     Við vöknuðum snemma í Pisa, báðir tveir, skráðum okkur út og héldum innar í bæinn til að skoða turninn fræga.  Við lögðum í gott stæði sem við fundum grunlausir um að þarna myndum við fá okkar fyrstu ítölsku stöðumælasekt.  Þarna stóð hann teinréttur en að vísu á ská upp í loftið, miklu stærri en við höfðum gert okkur í hugarlund.  Búið að eyða í hann mörgum milljónahundruðum svo hann félli ekki, rétta hann örlítið við en það var þó ekki hægt að sjá það.  Hann var bara mjög skakkur.  Hinir túristarnir höfðu greinilega líka vaknað snemma því þarna voru fleiri hundruð að skoða hann.  Eins og svo oft áður í ferðinni var bankað í öxlina á mér í miðjum hughrifum og þá fannst vininum nóg komið af glápi og réttast að halda förinni áfram.  Við ætluðum að keyra til Rómar í dag laugardag og eyða sunnudeginum í Róm, skoða Páfann og taka því rólega.  Við völdum því hraðbrautir, aðra í gegnum Flórens og hina niður til Rómar svo aksturinn tæki sem stystan tíma.  Ég bauð honum að eyða hluta af deginum í Flórens en þangað hef ég komið áður en hann vildi bara fara beint til Rómar.

     Við áttum notalega stund um kvöldið í miklum samræðum um fortíð og framtíð í miklum hita, líklega einum mesta hita ferðarinnar.  Við urðum að keyra loftkælinguna alla nóttina í bílnum en það höfðum við ekki þurft að gera áður. 

     Róm tók á móti okkur að morgni og lág leiðin beint upp í Vatikanið og inn á Péturstorg.  Við eyddum þarna nokkrum tímum og síðan var rölt niður í bæ og þvælst um fram eftir degi.  Því næst þrifum við bílinn hátt og lágt því kl 9 í fyrramálið skilum við honum og höldum beint út á flugvöll.  Við ætluðum að fara snemma að sofa en ákváðum svo fyrr í kvöld að keyra niður í miðborg og rölta þar um.  Mikill mannfjöldi vara það, búið að lýsa upp fornar byggingar og götusölumenn á hverju strái.  Búið að slá upp sölutjöldum og mikil stemmning.  Við vorum því þreyttir þegar við keyrðum í átt að þeim stað þar sem við eigum að afhenda bílinn á morgun en við rúlluðum inn á bílastæði ekki langt frá og ætlum að vera þar í nótt.

     Það er komin tilhlökkun í okkur báða að koma heim, sofa í rúmunum okkar og sjá kútinn okkar, borða lasagnað okkar og spagettíið en eldri kúturinn segir að vonbrigði ferðarinnar sé hin ítalska matargerð.   Hann gefur lítið fyrir hana og segist hlakka til að koma heim og panta almennilega pizzu.  Ég tek nú ekki undir þetta en það er þó ljóst að heima er best.  Þótt þetta hafi verið skemmtileg ferð um Ítalíu hefur hún líka tekið á og við orðnir þreyttir á þvælingnum.  Við erum búnir að koma til fimm ríkja í þessari ferð okkar og geri aðrir betur.


Hægt að gleyma sér dögum saman

     Við erum staddir í Pisa á fallegu camp-stæði.  Við sáum í fjarska í gær hallandi turn og ætlum að skoða hann betur á eftir.  Ekki skemmir það þótt hann hafi á dögunum fallið úr fyrstasætinu í keppninni um mest hallandi turn heims og sé nú aðeins í öðru sæti.  Við látum það ekki trufla okkur og ætlum að láta forna frægð hans ráða en ekki einhverja standpínukeppni.  Það eru tveir dagar eftir af Ítalíudvöl okkar en þriðji dagurinn fer nánast allur í flug og flugstöðvar. 

     Við eyddum tveimur dögum í Milanó en parkeruðum bílnum þó á góðum stað í Pavia sem er smábær utan við Milanó.  Eftir að hafa keyrt aðeins inn í Milanó fannst okkur glórulaust að leita að stæði þar á svo stórum bíl og tókum því strætó og svo lest til borgarinnar.  Kútnum fannst þessi borg meiriháttar, mikið um verslanir og mikil líf.  Mér tókst þó að draga hann inn í Duome, dómkirkjuna og borgaði fyrir okkur nokkrar Evrur án þess að átta mig á því að það var turninn og þakið sem við vorum á leiðinni upp í.  Á leiðinni upp þrönga hringstiga spurði hann mig hvort ég væri stoltur af mér fyrir að hafa platað sig upp alla þessa stiga sem aldrei ætluðu að enda.  Ég sagði honum að ég vissi það ekki strax en gæti svarað honum eftir nokkra klukkutíma þegar við værum komnir upp................  Útsýnið var mikil og fegurð byggingarinnar mikil.  Það mikil að seinni daginn vildi hann skoða hana að innan líka.

    Við fórum frá Milanó seint um dag og keyrðum til Mónkó.  Nokkrir tímar á hraðbraut með stoppum til að borða og hella upp á kaffi en annars tíðindalítið.  Fjöldi jarðgangna á þessari leið er með ólíkindum og bara frá Génova til Mónakó töldum við 97 stk sem við áttum svo eftir að keyra aftur til baka þegar við tækjum stefnuna aftur til Rómar með viðdvöl hér í Pisa.  Þetta gera aðeins 194 stk. en brýr sem eru ábyggilega svipað margar voru ekki taldar.  Það var gaman að sjá á þessari leið og ekki síst þegar inn í Frakkland var komið hversu misjöfn ræktunin var eftir svæðum og hvað landið er vel nýtt til hennar.  Hver einasta brekka og grasbali nýttur til hins ýtrasta en um leið og við keyrðum inn í Frakkland hætti þessi gjörnýting og tré tóku við hvert sem litið var.  Við keyrðum inn í Mónakó og urðum agndofa.  Það fer ekki fram hjá nokkrum manni að landið stendur undir öllu því sem um er talað.  Íburðarmikil hótel þekja kletta og grónar brekkur, skemmtiferðaskip, skútur og snekkjur aftur á móti hvert sem litið er í átt að sjó.  Þyrlupallar og dýrir bílar, einkabílstjórar og fínar frúr nú og spilavítin.  Þetta er Mónakó.  Það er jafn ljóst að stórir bílar eru fyrir þarna og því keyrðum við til Nice og parkeruðum þar.  Svangir og búið að loka restaurantinu miskunnaði sig yfir okkur frönsk miðaldra kona sem sagði okkur að setjast og bauð okkur lasagna.  Þótt hún skildi ekki ensku hefur vafalaust frönsk gestgirni ráðið ríkjum því hún stjanaði við okkur en fannst við ekki borða nóg af edikböðuðu salatinu með og heldur ekki af ostaeftirréttinum sem ég nartaði þó í fyrir kurteisissakir en kúturinn sagðist frekar borða sokkana mína en þessa osta.  Hún brosti til okkar og við gengum saddir til hvílu.  Á milli Mónakó og Nice eru strætóferðir svo daginn eftir átti að skoða sig enn betur um.  Það er alveg ljóst að hingað eigum við eftir að koma aftur og þá með rýmri tíma því hægt væri að gleyma sér hérna dögum saman því fegurðin er mikil en auðvitað er það líka kvikmyndakennt yfirbragðið og ævintýraljóminn sem er yfir staðnum.

     Ég heyrði í litla kútnum í gær og það er ekki laust við að söknuðurinn sé farinn að plaga mig.  Þótt við feðgar eldri höfum átt góðar stundir saman tölum við báðir um það hvað gott væri að hafa hann hérna hjá okkur. 


Fegurð Feneyja misjöfn eftir aldri!

     Ég sit með tölvuna við eldhúsborðið í „villunni“ og bíð eftir að kaffið verði tilbúið.  Kúturinn sefur aftur í, trukkabílstjórarnir flestir að fara en klukkan þó aðeins fimm að íslenskum tíma, sjö á þeim ítalska. 

     Við tókum daginn snemma á Rimini í gær fórum og fengum okkur að borða og keyrðum svo af stað til Feneyja þangað var komið um hádegi og við keyrðum strax niður að höfn þar sem skemmtiferðaskipin leggja að en þar eru líka bílastæðahús og vöktuð stæði.   Við lögðum og röltum okkur niður í gamla bæinn.  Sá gamli bergnuminn af hrifningu en kútnum fannst borgin skítug, strætin þröng og síkin illa lyktandi.  Ég sagði honum að slaka aðeins á því þetta skánaði eftir því sem nær drægi hinar raunverulegu perlur.  Strætin fóru breikkandi og búðunum fjölgandi og við fylgdum bara straumnum.  Síkin þéttust og brúnum fjölgaði en skyndilega fóru strætin aftur breikkandi og greinilegt að við nálguðumst Markúsartorgið.   Við vorum sammála því að fara ekki í gondól því það væri bara fyrir hann og hana og menn myndu líklega reka upp stór augu ef við feðgar, tveir fjallmyndarlegir á misjöfnum aldri kæmum fyrir húshornin á gondól með syngjandi ræðara fyrir aftan okkur.  Kútur sagði það ekki koma til greina frekar en að vera nálægt mér í ömurlegum stuttbuxum svo það mál var afgreitt.  Ég hef svo sem róið þarna með konu fyrir nokkrum árum og þótt þau séu bara nokkur er það sem heil eilífð að minnsta kosti á mælikvarða smáblóma.   Loksins blasti við okkur torgið og ég verð að játa það að þarna hefði ég geta verið í marga daga jafnvel einn með sjálfum mér.  Þetta torg hefur eitthvað svo djúpstæð áhrif á mig að ég get ekki líst því.  Eitthvað svo seiðandi en um leið svo opið og framandi.  Við settumst niður og þáðum þjónustu, tveir expresso og einn amerikano handa þeim gamla en vatn í klaka fyrir unglingskútinn.  Fiðla og klarinetta hljómuðu yfir torgið en það er svo stórt að við sáum hljóðfæraleikara á þremur stöðum á torginu. 

     Eftir allt of stutta stund, nokkra klukkutíma, kirkjuskoðun og rölt var kútur farinn að ókyrrast og sagðist ekki nenna að labba til baka.  Ég stakk upp á strætóbát en honum fannst of margir þarna svo við tókum leigu“bíla“-bát og áttum skemmtilega ferð upp eftir síkjunum alveg upp að bílnum.

     Ekki vildi vinurinn gista þarna eins og ég lagði til heldur vildi hann aka strax af stað til Milano svo einkabílstjórinn kom sér fyrir og svo var bara ekið af stað.  Við gistum þessa nótt á trukkastæði, borðuðum með þeim á Autogrillinu og svo var spjallað og hlegið fram á nótt.  Við feðgar allt svo en ekki við og flutningabílstjórarnir, svona til að forðast misskilning. 

     Við ætlum á eftir að halda för okkar áfram til Milano og það er mikil tilhlökkun í kútnum, segist vera til í tvo daga þarna og það er allt í góðu mín vegna.  Ég er til í nánast hvað sem er.   Best að fara og vekja hann.


Vopnaður eyrnapinnum

Við vöknuðum ferskir að morgni á fallegum sólardegi á Rimini.  Minn auðvitað á undan eins og gerist á fróni, skrúfaði frá gasinu og setti espresso könnuna yfir.  Nettengingar hafa eitthvað verið að stríða okkur feðgum og í raun það eina sem hefur verið að því í ferðinni, reyndar eftir að sá gamli skreið um allan húsbíl vopnaður eyrnapinna.....................rétt heyrt....eyrnapinna og matarolíu við að ískurlosa bílinn.  Lamir á skápum og skúffum, borðum og hurðum svo hægt sé að ganga um hann ofur snemma án þess að vekja aðra húsbílaíbúa svo ég tali nú ekki um kútinn sem fer seinna að sofa en pabbinn og liggur aðeins lengur á morgnanna.  Við látum þetta ekki á okkur fá því við höfum átt svo sæla daga í ferðinni í grenjandi rigningu, sjóðheitu sólskini, næðings kulda, hlýjum andvara, öskrandi roki og öllu þar á milli.  Keyrt yfir fjöll og firnindi, malarvegi og hraðbrautir, sveitir og borgir. 

     Á meðan kúturinn þreif baðherbergið og eldhúsið fór ég með óhreina þvottinn og setti í eina vél og skoðaði svo netsambandsmöguleika umhverfisins og komst að því að eigendur svæðisins voru heldur betur að lofa upp í ermarnar á sér því eini staðurinn sem ég fann var lítil verönd með tveimur bekkjum og þar rakst ég einmitt á tölvusjúkan túrista sem sá hvað ég var að gera með símanum mínum og tókum við tal.  Hann sagðist hafa skoðað þetta í gær og komist að þessari sömu niðurstöðu.  Við feðgar ákváðum að vera léttklæddir í dag, rölta á ströndina og njóta sólarinnar sem við og gerðum.  Við ákváðum að dvelja aðra nótt á Rimini og keyra til Feneyja að morgni.  Kúturinn vill auðvitað sjá þessar sökkvandi eyjar en er samt spenntari fyrir Milanó og segist vilja dvelja stutt í Feneyjum og keyra strax til Milanó.  Hann ræður auðvitað enda ferðin skipulögð af honum og ég sagði honum að það eina sem ég þyrfti væri kaffisopi á Markúsartorgi en þar hef ég áður verið og finnst þessi staður yndislegur og einskonar vagga evópskrar kaffimenningar þótt flestir séu þarna út af annarskonar menningu og listum.

     Við heyrðum aðeins í litla kút í gær og söknum hans ógurlega.  Þvílíkur vaðall.  Hann talaði og talaði og malaði og malaði (syngist).  Orðaforðinn alltaf að aukast en hann er ekki alveg að skilja að það er aðeins í 3G kerfinu sem hægt er að segja „sjáðu“ og sýna manni eitthvað sem hann er að teikna á meðan hann talar við mann.  Hann fattar það að ári þegar símafyrirtækin ryðjast inn á smábarnamarkaðinn.  Jæja, það eru nú ekki nema fjórtán ár þangað til ég tek hann í svona tveggja feðga ferð, eða kannski fyrr og þá förum við allir þrír...................líklega bara.


Þvert yfir Ítalíu

     Þá erum við feðgar komnir til strandarinnar og erum nú staddir á Rimini, campstæði rétt við ströndina. Ég sit í sjónvarpskróknum með kaffibolli í morgunsárið Við yfirgáfum í fyrradag þann ágæta stað Bracciano fullvissir um að við ættum eftir að koma þangað aftur því sé paradís á jörðu er hún líklega þarna við vatnið.  Síðasta kvöldið urðum við svangir rétt fyrir miðnætti og ný búið að loka matsölustaðnum á stæðinu.  Unglingskútnum tókst að sannfæra gamlingjann um að það væri vel þess virði að ganga jafnvel í bæinn og fá sér bita fyrir svefninn.  Við rifjuðum upp ljúfan leigubílsjóra sem hafði keyrt okkur degi fyrr og látið okkur hafa nafnspjaldið sitt og einhvernvegin tókst okkur að hringja í hann og gera okkur skiljanlega á íslítölsensku þar sem hann skildi enskuna illa, hann keyrði þessa fjóra km, við klifruðum yfir 2m hátt grindverk eins og þjófar að nóttu, hann skutlaði okkur í bæinn og við á íslítölsenskunni báðum hann á pikka okkur upp á sama stað eftir klukkutíma.  Eldbakaðar pizzurnar runnu ljúft niður og klukkutíma síðar var vinurinn mættur á hornið til að keyra okkur til baka. 

     Daginn eftir var kúturinn með það á hreinu að til San Marino skildum við keyra þennan daginn svo það var ekið af stað á „villunni“ þvert yfir ítalíu, út úr Toscana og yfir í Emilia romagna.  Rigning og aftur rigning og raunar heeelli rigning var nánast alla leiðina svo sælutilfinningin hríslaðist um gamla manninn.  Kútur var ekki eins hrifinn en sagðist svo sem alveg eins geta lifað við þetta í einn dag úr því sælubros föðurins náði hringinn. Aksturinn var lengri en við héldum en á þessari leið er ekið yfir tvenna „fjallgarða“, að minnsta kosti ætluðum við aldrei að verða komnir upp allar þessar beygjur og bugður og áttum á tímabili erfitt með að trúa því að við værum á réttri leið.   Það sem vakti mesta athygli okkar á leiðinni voru „fjallabeljurnar“ en þær voru þarna upp um öll fjöll, nánast sama hver hallinn var og vorum við sannfærðir um að hefðu þær „auperast“ við þær íslensku myndu þær síðarnefndu rúlla niður og þær ítölsku hlaupa upp í fjall með kindunum.  Fegurðin var mikil og rigningin líka.  Komum til San Marinó rétt fyrir myrkur og komum okkur fyrir á litlu stæði í hlíðinni með gríðarlegu útsýni yfir dali og sveitir.

     Morguninn eftir fórum við upp til gömlu borgar San Marino og vorum þar langt fram eftir degi og undir kvöld ákvað kúturinn að við skildum keyra niður til strandar Rimini í von um sól og sumaryl en leiðinda veður hafði verið í San Marino og kaupmenn þar töluðu um þetta veðurfar sem októberveður og sögðu það drepa niður öll við skipti að minnsta kosti þennan daginn.  Við gátum nú ekki séð það því öll rútustæði voru kjaftfull og túristar á hverju strái.  Á leiðinni til Rimini sem aðeins tekur um hálftíma fundum við fyrstu verslunarmiðstöðina en ítalir virðast tala um verslunarmiðstöðvar í allt öðru samhengi en við íslendingar.  Stuttbuxnaleitin bara árangur, ég fékk grænaljósið á tvennar og tel mig þar með kominn úr hópi hollenskra miðaldra túrista á leið úr skápnum og í hóp skoppara með kynhneigðina að minnstakosti á hreinu.  Ég var ekki frá því að talsmátinn breyttist með þessu en flottur var sá gamli. 

     Við ókum sem leið lá niður á eina af ströndum Rimini og fundum okkur stæði á þekktu húsbílastæði sem heitir því óvenjulega nafni Ítalia og furðuðum okkur á leti þeirra sem fundu þetta nafn á staðinn því af nógu er að taka við einn af vinsælasta baðstrandarstað Ítalíu í gegnum árin.  Við feðgar vorum ekki alveg á því að fara að sofa og ákvæðum því að koma okkur vel fyrir aftast í „villunni“ og settum góða mynd í tækið og horfðum þar til þreytan náði yfirhöndinni.


Lago de Bracciano

     Við erum staddir rétt fyrir utan Róm við vatnið Bracciano eða Lago de Bracciano en það er kennt við fallegan lítinn bæ sem við feðgar ætlum að skreppa til á eftir.  Ég sit á litlum kaffihúsapalli við vatnið og horfi yfir það.   Fegurðin er mikil og hughrifin svo yfirþyrmandi að annað slagið læðist fram kökkur í hálsinn yfir þeirri lánsemi að geta verið hérna og notið þessa.  Við áttum fyrstu góðu nóttina okkar hérna við vatnið því hinar tvær hafa verið spennulosandi og síðasta streitan að líða úr okkur.  Í fyrri nótt lögðum við bílnum á hvíldarstæði við litla þjónustumiðstöð rétt utan við Róm en þar vara fyrir fullt af trukkabílstjórum svo við féllum vel í hópinn.  Þar var hinsvegar lítið næði og kælipressur stóru bílanna í gangi af og til alla nóttina en það fór samt vel um okkur feðga.   Við eyddum Þriðjudeginum í miðborg Rómar og komumst að því umferðin hérna er verri heldur en hún var í Þorpinu áður en fyrstu umferðarljósin voru sett upp þar og lögregluþjónarnir miklu sýnilegri en í henni fallegu höfuðborginni okkar.  Við þræddum nokkrar verslanir því kúturinn vildi finna stuttbuxur á föður sinn sem væru flottar og yllu honum ekki kinnroða og vanlíðan í hvert sinn sem hann liti á hann.    Nei....ekki þessar,  þú yrðir eins og hollenskur eftirlaunaþegi eða NEI er ekki í lagi með þig, ertu á leið í gay-festival fyrir aldraða atvinnuhomma“, voru meðal þeirra setninga sem ég fékk á mig bara fyrir það eitt að koma við einhverjar hangandi flíkur sem ekki féllu í kramið.  Leit okkar er ekki lokið svo ég brá mér í einar sem ég hafði meðferðis og faldi í töskunni en kúturinn var búinn að segja mér að hann myndi kveikja í þeim þótt ég væri kominn í þær ef ég tæki þær með.   Ég setti honum þá úrslita kosti að annaðhvort myndi ég vera í þeim eða lykta eins og Suðurítalskur sorphaugur eftir margra mánaða bið eftir ruslakörlum mafíunnar, svitablautur og ógeðslegur.   Hann gaf eftir en sagðist beita mig dagsektum þangað til við fyndum aðrar betri.  Mér fannst það bara sanngjarnt.

Vinurinn er í sturtu núna og ætlaði að þrífa aðeins húsbílinn að innan en hann gerið þann einhliða samning við mig að hann sæi alfarið um innanhúss þrifin en gamli maðurinn sæi um allt sem viðkæmi trukknum að utan, fylla á vatnið, losa óhreina vantið, sjá um gasið og síðast en ekki síst og líklega það sem fékk hann til að gera þennan einhliða samning,  losa salernistankinn.  Ég sagið að það væri nú lítið mál því ég hefði séðu um bleiu og koppalosanir hjá tveimur kútum og væri en að með þann litla og handsalaði því samninginn. 

 

Nóg í bili. 


Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 48796

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband