Ofnotaðasta orð samfélagsins

     Ég sit í stofunni hjá mér og það ekki af góðu á þessum tíma dags.  Auðvitað ætti ég að vera í vinnunni en það kom soldið upp á og ég verð líklega að nota orðið sem ég forðast að nota og tel það reyndar eitt af ofnotuðustu orðum samfélagsins.  Ég er líklega veikur, eða var það,  er að hressast og kannski var ég bara svona þreyttur.   Kann betur við það þannig.  Þegar ég kom heim á sunnudaginn og settist niður í stofunni við lærdóm fannst mér ég eitthvað slappur, verkjaði í augun og var flökurt en lét það lítið á mig fá.  Þegar líða tók á kvöldið versnaði þetta en ég hélt samt áfram að læra.  Sótti mér fötu og hafði við hliðina á mér ef illa færi. Og það fór illa.  Ég fór að æla eins og múkki og varð þróttlaus og ræfilslegur en lét mig þó hafa það og hélt áfram að lesa.  Var kominn með ágætis kerfi á þetta, fatan til vinstri og bókin til hægri, og svo var bara ælt í rétta átt.  Ég vaknaði svo við það í sófanum að unglingurinn vildi fylgja mér inn í rúm og það veitti ekki af því ég gat varla staðið í lappirnar, svimaði og hrasaði, púlsinn alveg á fullu og ég sá allt tvöfalt.  Unglingurinn hafði áhyggjur af mér, kom mér í rúmið, lét ljósin loga og vaktaði mig um nóttina af og til, var yndislegur. Daginn eftir var ég miklu skárri, kominn þó með hita en var ekkert á leiðinni að fara að gubba.  Ég hafði heimsótt kútinn um helgina til mömmu sinnar því hann hafði farið að æla en var hinn sprækasti þegar hann sá mig og vildi sýna mér alla hluti.   Líklega hefur þetta svo gripið gamla manninn með sólarhringspest.   Ég fór því ekki í vinnuna í gær og valdi mér það í dag að vinna bara heima og jafna mig fullkomlega.  Ég er samt ekki frá því að ég setji á mig aumingjastimpil en „ég er nú líka fólk“, svo sýnið mér sanngirni.   Mér finnst ég hafa verið undanfarin misseri allt of oft slappur og með einhvern skít þótt það hafi ekki bitnað á vinnunni sem betur fer.   Sem sagt harðjaxl.  Það minnir mig á þetta:

 

 

Ég gekk fótbrotinn fimm tíma leið

nema fyrst, þennan spöl sem ég reið,

og stund sem ég beið

og stíg sem ég skreið,

en ég stytti mér auðvitað leið!

 

 Ætli þetta sé ekki bara æfingaleysi, leti og refsing fyrir stanslaus svik við sjálfan mig.   Þarna kom það.  Ég reikna samt ekki með að það breytist.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Þú ert náttulega algjör nagli kæri minn

Jónína Dúadóttir, 29.1.2008 kl. 21:14

2 identicon

Minn kæri Júdas, ég vona að þér líði betur en vil samt benda þér á að vera "nagli" eða "duglegur" í íslenskri merkingu orðanna er ekki hollt til lengdar. Farðu vel með þig kæri Júdas. Sendi þér strauma og litrík fiðrildi í myrkri vetrarins :)

Nilla (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 22:46

3 identicon

Það er algjörlega bannað að vera svona vondur við sjálfan sig  prófaðu að vera pínu góður við þig líka og síðan smá auka það  Baráttu kveðjur til þín. E.

Edda (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 23:04

4 Smámynd: Júdas

Þið eruð yndislegar kæru vinkonur.  Takk fyrir þetta.   Júdas er svo sem ekkert að hlífa sér á sumum köflum en er nautnaseggur á öðrum.  Súkkulaði með kaffinu getur t.d verið stór synd ef ætlunin var að sleppa því.  Eitt af sviknu loforðunum 

Júdas, 29.1.2008 kl. 23:20

5 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Einhver sagði mér í gær að Júdas er verndardýrlingur sjómanna  Bráðnauðsynlegar óþarfaupplýsingar inn í daginn

Vona þér líði betur

Jónína Dúadóttir, 30.1.2008 kl. 06:22

6 Smámynd: Júdas

..........enda eru sjómenn illa Sviknir út af kvótaskerðingunni.  Þar er honum vel lýst.

Júdas, 30.1.2008 kl. 08:06

7 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Þú ert asni

Jónína Dúadóttir, 30.1.2008 kl. 08:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband