Eru tveir betri en einn?

     Það er ekki laust við að kaffidrykkjan yrði örari í morgun vitandi af þessum kulda úti.  Vangaveltur um að flytja úr landi, klæða sig eins og geimfari, skríða undir sæng eða kveikja í sér leituðu árangurslaust upp á yfirborðið en voru slegnar út af borðinu jafn óðum.  Hvar ætti ég svo sem að fá geimbúning?  Ég vona að einhver hafi sett alla ofna í botn á skrifstofunni svo maður þurfi ekki að norpa yfir kaffikönnunni til að ylja sér.  Best væri að halda sig innandyra í dag.   Kúturinn var sá eini sem leit út eins og geimfari þegar farið var út úr húsi, gat varla hreyft sig og greinilegt að kaldur pabbinn hafði klætt hann fyrir tvo, eða þrjá.

     Framundan er fríhelgi með báðum kútunum, þrifaáætlun í gangi og spurning um að hengja miða á útidyrahurðina, nú eða út í eldhúsgluggann eins og gert er á Bylgju-dögum þar sem skýrt er tekið fram að þarna búi maður einsamall þótt „þrísamall“ sé nær lagi,  í von um að snörur verði lagðar fyrir fleiri konur en þessa sextugu sem les af rafmagninu hjá mér.  Held ég coolinu ef ég geri þetta?  Ég væri til í á láta það róa í nokkra hálftíma ef það skilaði árangri.  Ekki það að ég sé að verða úrkula vonar heldur vantar mig bara skemmtilegan kaffifélaga sem drykki með mér kaffi og færi svo bara fljótlega aftur en kæmi aftur fljótlega.  Betri eru tveir en einn og á það við t. d um kaffibolla og ef til vill um félaga líka.

Læt þetta duga.

Gangið svöl inn í þennan ágæta dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Ja hvar ættirðu svo sem að fá geimbúning ?  Það er sko rosalega cool að hafa kímnigáfu fyrir sjálfum sér eins og þú hefur svo sannarlega  Ég mundi gjarnan koma til þín í kaffispjall, ég er ekkert rosalega leiðinleg held ég, en ég verð víst að fara að vinna......

Njóttu dagsins og mundu að fara í prjónabrókina þína, þessa þarna sem er gerð úr 50/50 ull og gaddavír

Jónína Dúadóttir, 1.2.2008 kl. 09:05

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Svona ekta snjóveðursgallar (eins og RARIK-karlar eru í) eru nú eins konar geimbúningar...hef nokkrum sinnum orðið svo fræg að íklæðast slíkum flíkum og ekki fundið fyrir kulda...en ekki beint bæjar/borgarvænn klæðnaður...

Greta Björg Úlfsdóttir, 1.2.2008 kl. 18:12

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Svo eru norskar ullarnaríur og treyjur nú ekkert slor...

Greta Björg Úlfsdóttir, 1.2.2008 kl. 18:13

4 identicon

Óðum skyggir. - Hvert skal halda?

Halla vanga á steininn kalda?

Stundum vilja í móinn malda

 mannabörnin síðla um haust:

Skyldum vér um aldir alda

eigra svona hvíldarlaust?

         - - - - - - - - - -

Lúnar konur lotnar hökta,

leiða börn, sem hnjóta og snökta,

aldnir menn á eftir skjögta,

- allt er vonlaust, þungt og sljótt.

Kulnuð ástaraugu flökta

út í hina þöglu nótt.

- Jóhannes úr Kötlum. -

Tveir eru ekki endilega betri en einn - bara mín skoðun  Kær kv. E.

Edda (IP-tala skráð) 1.2.2008 kl. 20:27

5 identicon

Þrátt fyrir lýsingar af kulda og tilheyrandi hlýnaði mér um hjartaræturnar við að lesa færsluna þína.

Væri alveg til í að kíkja í kaffi... þetta hljómaði eitthvað svo notalega

Óla Maja (IP-tala skráð) 1.2.2008 kl. 22:59

6 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Góðan dag kæri vinur

Jónína Dúadóttir, 2.2.2008 kl. 08:50

7 Smámynd: Júdas

Ég komst auðvitað í gegn um þennan dag enda ekkert annað í boði og hvorki í geimbúningi eða angóruullaralfatnaði. En svo endaði ég auðvitað einn við eldhúsborðið, með kaffibollann.

Þetta með gaddavírinn hljómar eitthvað svo kunnuglega frá barnæsku. Hlýtur að vera eitthvað í Barnasáttála Sameinuðuþjóðanna sem bannar þetta í dag.

Man líka eftir því að hafa klæðst svona Rarik-galla fyrir mörgum árum í stóru Þorpi úti á landi þar sem veðrið var skelfilegt...........alltaf...minnir mig.

Takk fyrir ljóðið Edda. Það stóð upp úr eftir lesturinn fyrir utan endalaust kvartið í okkur "kulnuð ástaraugu flökta".................. Gefur smá von um að líf gæti leynst í svona kulnuðum ástaraugum. Það vantar svo sem ekki flöktið því maður sér bara ástfangið fólk út um allt..... Afhverju eru tveir ekki betri en einn?

Ég skil ekki hvernig svona kuldaleg færsla yljar en það gleður mig samt. Ég þarf greinilega að kaupa fleiri kaffibolla og ekki síst út af því að bollinn "einasti" er líka að niðurlotum kominn. Ég á hinsvegar helling af expresso bollum sem gætu þó dugað.

Er það ekki? Eru tveir ekki betri en einn Íslenski borgari? eða er ég bara fastur í einhverju sem ég vil svo ekki þegar ég fæ það?

Það má þó kuldinn eiga Magna að þegar hann er svona mikill þá hreyfir varla vind.............en væri ekki yndislegt að fá núna þriggja daga hellirigningu með hita og værð?

Æ hvað það er ljúft að fá svona mörg comment. Mér finnst ég svo vinmargur .

Júdas, 2.2.2008 kl. 12:22

8 identicon

Held að það hafi bara verið þinn persónulegi hlýleiki sem kom í gegnum kalda færsluna  Það er líka alltaf eitthvað svo hlýlegt við það að setjast niður með góðan kaffibolla í góðum félagsskap. Átti einmitt svoleiðis stund í morgun með góðri vinkonu. Alltaf ljúft.

Óla Maja (IP-tala skráð) 2.2.2008 kl. 13:31

9 Smámynd: Júdas

Er ekki best að láta fylgja hérna smá leirburð til gamans úr því ég fleygði einum á Bratt áðan.

Lífið er ljúft en ei hannað,

að laumast um alein og særð.

Betri´eru bæði en annað

og bollanum fylgir jú værð.

Júdas Isk.

Júdas, 2.2.2008 kl. 14:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband