Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

En langi þig til að mig langi til

 

Ég aðhefst það eitt sem ég vil

og því aðeins að mig langi til.

En langi þig til

að mig langi til-

þá langar mig til svo ég vil.

 

Þorst.Vald

     Það er nú svo sem ekki margt sem mig langar til í dag nema þá að eiga góðan og ljúfan dag.  Þetta verður þó dagur anna því það liggja mörg verkefni fyrir hjá mér og ég þarf virkilega á því að halda að fá frið við skrifborðið í dag.  Líkurnar á því eru samt ekki miklar því kaffiilmur um skrifstofurnar er nóg til að ég spretti upp og þefi uppi ilminn en ég aðhefst jú það sem ég vil.  Ég sótti kútinn á leikskólann í gær skv. beiðni og skutlaði honum til ungu konunnar því hún hafði farið ælandi heim úr vinnunni.  Ég reiknaði með því að vera með hann um nóttina en hún hringdi og sagði að sér liði betur svo ég skutlaði honum til hennar.  Í morgun hringdi hún svo í mig og bað mig að keyra hann í leikskólann og auðvitað geri ég það en því aðeins að mig langi til og án nokkurra spurninga.............  Það verður því fyrsta verkefni dagsins, en ég sæki kútinn svo í dag kl 17 degi fyrr en venjulega því hún er að fara erlendis.  Ég staldraði við augnablik í skrifunum því ég var ekki viss um að ég ætti að blogga um þolinmæði en ég geri það samt.  Þolinmæði gagnvart litlum kútum og unglingskútum er bara eðlileg og þeirra vegna hef ég alla tíð sýnt barnsmæðrum mínum alla mína þolinmæði og þar er aldrei komið að tómum kofanum að minnsta kosti ekki enn sem komið er.  Ég aðhefst jú það sem ég vil.   Ég lít stundum á það þannig að þessar yndislegu konur sem eyddu með mér nokkrum árum og ólu mér þessa yndislegu kúta hafi líklega þurft að sýna mér mikla þolinmæði, duttlungum mínum og sérvitringshætti svo ég ímynda mér að þær langi til að mig langi til að sýna þeim alla mína þolinmæði svo mig langar til svo ég vil.   Er þetta ekki tómt bull?

Njótið blíðunnar í þolinmæði

en aðeins ef þið viljið.

 


Passa mitt eigið barn?

     Hann var heppinn gamli maðurinn í gærkveldi.  Ungakonan hringdi ofurstressuð og  spurði hvort þau mætti koma í kaffi, hún og kúturinn.  Auðvitað máttu þau það , mín var ánægjan, en eftir nokkra bolla stökk hún á dyr í sama stressinu en eftir varð kúturinn og um það samið að hann yrði í nótt og svo myndi ég sækja hann á fimmtudag en ekki föstudag.  Alltaf er maður að græða en þó hafði ég svolitlar áhyggjur af kútnum því hann er bara búinn að vera hjá mömmunni í þrjá daga og fannst mér hann sakna hennar þegar hún fór.  Hann hljóp út í eldhúsglugga upp á stól og horfði á hana keyra í burtu.  Ég kallaði á hann eftir svolitla stund því hann var enn í glugganum að horfa út og ég ímyndaði mér að hann væri að bíða eftir fallegustu og bestu mömmu í heimi.  Hann kom inn í stofu og tók gleði sína á ný þegar hann sá kubbana sína á gólfinu akkúrat þar sem hann hafði skilið við þá síðast.  Við tók kubbaleikur sem aldrei ætlaði að enda.

     Mér finnst alltaf óþægilegt þegar sagt er við mig „ertu til í að hafa“ eða „viltu passa fyrir mig“, þótt ég viti auðvitað meininguna finnst mér þessar setninga óþægilegar þegar barnið manns á í hlut.  Þetta er jú kúturinn okkar og það á ekki að þurfa að fara samningaleiðina eða biðja mig að „hafa“ hvað þá „passa“ mitt eigið barn.  Þar fyrir utan er þetta hans heimili eins og mitt þótt hann eigi tvö en ég aðeins eitt.  Ég þarf að laga þetta aðeins til alveg eins og þegar ég bað ungu konuna að hætta að segja takk þegar ég legði inn á hana peninga sem nota átti fyrir kútinn.  Ég er svo viðkvæmur fyrir þessu og hún veit það þessi elska.  Við gætum breytt þessu í „ég þarf að skreppa aðeins, má ég skilja kútinn eftir hjá þér........“ eða „ertu til í að leika við hann......getur þú fylgst með honum....hefur þú tíma til að vera með honum í kvöld........“.    Þarna er sennilega komin lausnin.  „Getur þú verið með honum í kvöld og nótt.......“ ,  mér líst best á það.   Það hljómar ekki eins og byrði eða einhver ölmusa enda njóta báðir og í raun allir.   Ég man að ég var viðkvæmur fyrir þessu líka gagnvart margrabarnamóðurinni og hún fann það.  Hún hringdi bara og sagði að kúturinn vildi vera hjá mér í nótt eða eitthvað í þá veruna og ég var sáttur.

     Hvort ég er geðveikur eða klikkaður nú eða svona ofur viðkvæmur legg ég ekki dóm á en það væri gaman að fá skilgreiningu þeirra sem lesa hvað það er sem veldur þessu.  Neikvæð comment líka þegin að sjálfsögðu.

    Gangið glöð inn í þennan dag.


Ofnotaðasta orð samfélagsins

     Ég sit í stofunni hjá mér og það ekki af góðu á þessum tíma dags.  Auðvitað ætti ég að vera í vinnunni en það kom soldið upp á og ég verð líklega að nota orðið sem ég forðast að nota og tel það reyndar eitt af ofnotuðustu orðum samfélagsins.  Ég er líklega veikur, eða var það,  er að hressast og kannski var ég bara svona þreyttur.   Kann betur við það þannig.  Þegar ég kom heim á sunnudaginn og settist niður í stofunni við lærdóm fannst mér ég eitthvað slappur, verkjaði í augun og var flökurt en lét það lítið á mig fá.  Þegar líða tók á kvöldið versnaði þetta en ég hélt samt áfram að læra.  Sótti mér fötu og hafði við hliðina á mér ef illa færi. Og það fór illa.  Ég fór að æla eins og múkki og varð þróttlaus og ræfilslegur en lét mig þó hafa það og hélt áfram að lesa.  Var kominn með ágætis kerfi á þetta, fatan til vinstri og bókin til hægri, og svo var bara ælt í rétta átt.  Ég vaknaði svo við það í sófanum að unglingurinn vildi fylgja mér inn í rúm og það veitti ekki af því ég gat varla staðið í lappirnar, svimaði og hrasaði, púlsinn alveg á fullu og ég sá allt tvöfalt.  Unglingurinn hafði áhyggjur af mér, kom mér í rúmið, lét ljósin loga og vaktaði mig um nóttina af og til, var yndislegur. Daginn eftir var ég miklu skárri, kominn þó með hita en var ekkert á leiðinni að fara að gubba.  Ég hafði heimsótt kútinn um helgina til mömmu sinnar því hann hafði farið að æla en var hinn sprækasti þegar hann sá mig og vildi sýna mér alla hluti.   Líklega hefur þetta svo gripið gamla manninn með sólarhringspest.   Ég fór því ekki í vinnuna í gær og valdi mér það í dag að vinna bara heima og jafna mig fullkomlega.  Ég er samt ekki frá því að ég setji á mig aumingjastimpil en „ég er nú líka fólk“, svo sýnið mér sanngirni.   Mér finnst ég hafa verið undanfarin misseri allt of oft slappur og með einhvern skít þótt það hafi ekki bitnað á vinnunni sem betur fer.   Sem sagt harðjaxl.  Það minnir mig á þetta:

 

 

Ég gekk fótbrotinn fimm tíma leið

nema fyrst, þennan spöl sem ég reið,

og stund sem ég beið

og stíg sem ég skreið,

en ég stytti mér auðvitað leið!

 

 Ætli þetta sé ekki bara æfingaleysi, leti og refsing fyrir stanslaus svik við sjálfan mig.   Þarna kom það.  Ég reikna samt ekki með að það breytist.  


Glöð sál síðar

     Það var gott að vakna í morgun og heyra í vindinum, greinileg hláka og verður vonandi sem lengst.  Ég vona það allavega þótt spáin segi að það eigi að frysta aftur.  Kuldinn fer bara ekkert vel í mig, verð stirður og hrollur í mér allan daginn. 

     Ég kom við hjá kútnum mínum seinnipartinn í gær því hann hafði gubbað heil ósköp nokkrum sinnum en það var nú ekki að sjá á honum að hann væri eitthvað slappur.  Var svo glaður að sjá pabbann sinn að hann hljóp með mig út um alla íbúð og vildi sýna mér alla hluti.  Unga konan sagði mér að þegar hún var að fara með hann heim í fyrradag hafi hann mótmælt í fyrstu og viljað heim til pabba en ég róaði hana niður og sagði henni að hann talaði líka mikið um hana þegar hann væri hjá mér svo þetta væri bara nokkuð jafnt á báða bóga. 

     Unglingskúturinn tók á móti mér þegar heim var komið skapvondur og mikið niðri fyrir.  Hann átti í deilum við kærustuna og sagði henni upp í kjölfarið.  Það er ekki í fyrsta skipti og hann vildi að við settumst niður við eldhúsborðið og ræddum um þetta í smá stund.  Við settumst og ég hlustaði á gremjuna, svikin loforð, ljótt orðbragð, brostnar væntingar og tillitsleysi algjört.  Ja hérna.  „En vinurinn minn, þú segist elska hana ennþá og því mæli ég með því að þú bíðir bara rólegur og þegar hún hringir í kvöld, sem er alveg pottþétt, þá tekurðu á móti henni og fyrirgefur henni tillitsleysið og þið ræðið saman“.  „ Kannski finnst henni það sama um þig en þú bara sérð það ekki.  Stundum er það þannig“.  Litli Júdas hugsaði sig um í smá stund og viðurkenndi svo fyrir mér að hann væri kannski soldið fljótur að reiðast og kannski líka svolítið tillitslaus á köflum.    „En þótt við verðum vinir aftur ætla ég allavega að vera á lausu um helgina“.   „Jú jú, þú ræður því auðvitað sjálfur.“     Fljótur er hann að fyrirgefa þessi elska og alveg frá því hann var pínukútur var samviskan ráðandi í því sem hann gerði.  Hann vildi alltaf gera út um alla hluti strax, ræða málin NÚNA og ekki burðast með neitt út í hversdagsleikann.  Þannig þekki ég þetta sjálfur.  Að ná sáttum við sjálfan sig og samvisku sína þýðir það að fyrirgefning og uppgjör verða að gerast strax til að hversdagsleikinn verði bærilegur og gleðin geti tekið völdin.  Værðin er ekki í boði nema borðið sé hreint.  Það veit hann líka.  Hvort þetta er kostur eða galli veit ég ekki, því stundum hvílir þetta svo þungt á mér sjálfum en verður þó til þess að maður leitar leiða til lausna.   Við feðgar fengum ólíkt uppeldi og tengsl okkar við föður eru mjög ólík en við eigum þetta engu að síður sameiginlegt.  Það á svo eftir að koma í ljós hvort litli kúturinn hafi fengið þetta í vöggugjöf.

 

 

Grátekka

gengin fet

ný munu mýkja.

Lát ekki

lengi um set

því von víkja.

 

Ský dregur

dökk á brá

röðli tál tíðar.

því fegur

þökk má tjá

glöð sál síðar.

 

Þorst.Vald


Ég vil hreint ekki neitt

 

 

Allt sem er kalt vil ég einmitt heitt,

allt sem er heitt vil ég reyndar kalt;

og hafi ég allt,

bæði heitt og kalt,

vil ég hreint ekki neitt!

 

Þorst.Vald


Líklega er ég kominn í hring

     Ég vaknaði mikið í nótt.  Hlustaði eða lagði handlegginn yfir í hina holuna, þá tómu.  Í eitt skiptið reis ég upp en mundi að kúturinn fór til mömmu sinnar í gær.  Furðulegt að ég skyldi gleyma því mörgum sinnum  í nótt en þegar ég fór á fætur í morgun var það augljóst.  Allt tómlegt og hljótt.  Ég leit inn í stofu og þar var enginn og ég vissi það auðvitað en kubbarnir hans voru á gólfinu í horninu og ég hugsaði með mér að þarna ætlaði ég að hafa þá alla vikuna og ganga ekki frá þeim í kassann.  Það er svo vinalegt að hafa þá þarna.  Ég rölti inn til unglingsins sem lá hreyfingarlaus undir sænginni en annar fóturinn stóð út undan.  Ég renndi fingrinum eftir ilinni og hann hreyfði sig.  Þá er allt í lagi svo ég fór fram og setti á könnuna.  Í tómlegu húsinu er þó ennþá svolítil værð og ég ætla að viðhalda henni út vikuna.  Einhver kraftur hljóp í mig og ég fór inn í þvottahús, setti í vél og þurrkara, bjó um, stökk í sturtu, þreif baðkerið,sturtuna og salernið og stökk svo leppana.   Flott byrjun á deginum, klukkan aðeins hálf átta, vinna framundan og fundur þar klukkan níu svo þetta er allt á góðri leið.

 

     Ég finn það á mér að dagurinn verður góður.   Vikan er búin að vera svolítið strembin, vinna, skóli og kútur þannig að dálítið hefur vantað upp á svefninn en ég leysti það mál í gærkveldi, svaf allt kvöldið og bætti svo nætursvefni við.  Mér finnst verst að hafa vanrækt bloggið því það er svo gott að geta bloggað um líðan og tilfinningar þótt lítið sé commentað en tilgangurinn er auðvitað að losa þetta úr hugardjúpinu frekar en að rogast með þetta út um allt.  Mér þykir svo vænt um þessa fáu bloggvini mína og finn það sérstaklega núna í þessum rituðu orðum.  Ég hefði aldrei trúað þessu þegar ég byrjaði að blogga því þótt ég hafi verið í miklum netsamskiptum síðustu 15-20 árin og gamall irkari þegar það var inn,  finnst mér þetta ekki síðra.

    Annað gengur sinn gang og virðist ætla að gera það óbreytt enda sé ég sporin og fylgi þeim eftir.  Ég er líklega kominn í hring því ekkert kemur á óvart lengur í þessu.

 

Njótið dagsins.


Stundum kemur þögnin

     Ég er þreyttur og hugsi, en mér líður vel.  Kúturinn lætur mig finna fyrir því og vill bara vera í fanginu á mér.  Vildi ekki sofna í gærkveldi og lá þétt upp við mig í nótt.  Við fórum á fætur um sex leytið og erum því þreyttir.  Þetta ljóð Tómasar kom upp í huga minn í kvöld svo ég fletti upp á því.  Ég veit samt að það hefur fennt yfir sporin svo það er engin ástæða til að kyssa þau þótt margar séu fallegar minningarnar.  Látum það duga.

 

 

Kyrrðin andar svefnljóði

sorgir dagsins á,

meðan dökkva dregur

á dalvötnin blá.

 

Silfur mánans sindrar

um snævi þakin fjöll.

Við lýsigull og leiftur

hún ljómar, kvöldsins höll.

 

Og leiftur hvert, sem ljómar,

er lítið ævintýr.

Svo margt, sem enginn minnist,

und mánans faldi býr.

 

Nú hvarfla þau í hug mér

hin horfnu gömlu ljóð,

sem mjöllin las mér ungum

við mánans bleika flóð.

 

Þau seiddu mig til drauma

en dagur rann úr sjá,

og köldum feigðarfölva

á fjöll og dali brá.

 

En aftur rísa úr öskunni

ævintýrin mín-

Minningarnar leiftra

og lýsigullið skín.

 

Þótt flest sé nú breytt orðið

frá því , sem var,

er máninn ennþá samur

og samar stjörnurnar.

 

Og söm er lögð um sædjúpið

silfurgeislans brú.

Hér komum við er kyrrt var

á kvöldin, ég og þú.

 

Ég veit það ekki ennþá

hvort ást ég bar til þín,

en um þig söng ég alla daga

æskuljóðin mín.

 

Og stundum, þegar heimleiðis

hélt ég einn til mín,

á hjarnið kalda kraup ég lágt

og kyssti í sporin þín.

 

Minningarnar leiftra

og lýsigullið skín.

Nú dreymir mig um ókomnu

ævintýrin mín.

 

En stundum kemur þögnin

og þylur gömul ljóð.

Þá þrái ég enn að þakka

hvað þú varst mild og góð.

 

Svo yndislega æskan

úr augum þínum skein.

Svo saklaus var þinn svipur

og sál þín björt og hrein.

 

Og ljúft sem liðinn draumur

ein löngun vitjar mín,

að krjúpa á hjarnið kalda

og kyssa í sporin þín.

 

Tómas Guðm.


Komum að spegla drauma

     Það er fallegur dagur sem tekur á móti þegar draumum næturinnar líkur.  Óvenju miklar draumfarir síðustu tvær vikur og einnig í nótt.   Mér tekst líklega ekki að stöðva þær þótt ég hafi í gær bægt frá mér dagdraumum.  Það er nú líka oft þannig að við bægjum þeim frá þegar við stöndum okkur að því að hafa farið á flug svo það er yfirleitt eftir á sem við bægjum þeim frá en það er of seint.  Þetta verður líklega ekki dagur dagdrauma en dagur væntinga verður þetta því ég hlakka til kvöldsins, kútakvöldsins.   Eldri kúturinn á sér stóra drauma og miklar væntingar og í huga þess litla fara vafalaust að vakna slíkir draumar sem ekki endilega snerta frumþarfirnar.   Þeir eru einlægir í sínu eins og börn eru þangað til við fullorðna fólkið og umhverfið kennum þeim hið gagnstæða.  Það er dapurlegt og við ættum að leggja okkur fram við að viðhalda einlægninni með því að vera einlæg sjálf.

Leyfum þeim að dreyma og stöðvum ekki væntingar þeirra því það gæti speglast yfir í daglegt líf þeirra seinna meir.

 

Hindaraugun og lindaraugað

hvílast á -

hönd fellir sauma:

Komum að fleyta kvöldskini,

komum að spegla drauma!

 

Gangið glöð inn í hversdagsleikann.


Ef til vill ert þú hamingjan við hornið?

     Það voru ekki margir á ferli í morgun þegar við feðgar fórum út úr  húsi en við ætluðum að fá okkur kaffibolla með gömlu konunni og keyra hana síðan á völlinn.  Borgin var þögul og hvert sem við litum var enga hreyfingu að sjá og minnti helst röð ljósmynda.  Raunveruleikinn getur verið svo þögull að hann verður næstum því dapurlegur en hann geri mann þó rólegan og maður fyllist þessari margumtöluðu værð.  Ég hlustaði á kútinn í barnastólnum tala við sjálfan sig og syngja þótt ekki skyldist nema orð og orð af því sem hann sagði og söng en hann var með þetta alveg á hreinu.  

     Hugsanirnar fór á flug og ég velti fyrir mér kostum og ókostum þess vera einn með kútunum og þess að eiga unnustu og sálufélaga.  Niðurstaðan var auðvitað engin eins og venjulega en ég held þó að ég sakni þess sárlega sumar stundir því einmanaleikinn gerir vart við sig af og til og þá sérstaklega þegar þögnin er mikil, kúturinn sofnaður og maður horfir út í borgina gegnum glerið, upplýsta en einmanalega.  Öll plön og vangaveltur um fallegar stundir, rómantískar utanlandsferðir, fallegar gönguferðir og ferðalög um draumalendur hugans missa marks þegar maður hugar að þessu einn og því bægir maður þesskonar hugsunum frá sér og hugar að núinu sem auðvitað má ekki vanrækja en við vitum hvernig það er og fer þegar draumar og væntingar eru látnar víkja.  Ég hugsaði um ferðina sem aldrei var farin og hve falleg hún hefði verið en það er til lítils.  Ég sakna ekki persóna heldur aðstæðna, stunda og hugsana og stend mig að því að horfa þegar fólk leiðist.  Tek eftir smáatriðunum, stroka um bak, snerting augnablik þar sem jafnvel aðeins handarbökin snertast og tveir fingur krækjast í sekúndubrot.  Geng framhjá hamingjunni og finn lyktina af henni jafnvel í dálítinn tíma á eftir. Sný mér við en hún er horfin og óþekktir borgarbúar með.  Nú skal þessu breytt! , en það vekur hjá mér hlátur í huganum og þolinmæðibrot út í annað og ég segi við sjálfan mig  „mundu að þú ert bráðin“  því ekki vil ég að hungur mitt sjáist. 

     Ég hrekk upp af þessum hugsunum við hróp úr aftursætinu, „babbi yngja“ en nú vill kúturinn að pabbi gamli taki lagið, fari með krummavísurnar og fleira til.  Gleðin tekur aftur völdin þótt hálfdrættingur sé og við tökum lagið úti í einmanalegri borginni.

      Ef til vill bíður hamingjan handan við hornið en ég efa það.  Ef til vill ert þú hamingjan við hornið en ég efa það líka.  Sálusorgari  eða sálufélagi gætirðu verið í einmanalegri hringrás bloggisns þar sem upphaf eins er jafnvel endirinn hjá öðrum, gleði eins er sorg annars og hamingja eins er óhamingja einhvers. Þessi vél er ótrúleg og virðist ganga þótt margir hellist úr lestinni því nýir koma í staðinn, margir gangi haltir eða óhamingjusamir, því nóg er af hinum.   

     Sólin skín á lauflaus trén og ég er ekki frá því að þar sé þessu rétt líst því allt á sér einhverjar hliðstæður.  Lítill fugl situr á nakinni greininni  og syngur.

 

Hvort heldur vindurinn leikur í laufi,

eða næðir um naktar greinar,

syngi þér söngfugl hjartans,

sönginn um gleðina.

 

Úlfur Ragnarsson.

Konukenndirnar fuku

     Yndislegur dagur.  Ég náði í kútinn til ungu konunnar kl 8 í morgun en hún hringdi í mig og sagði að vinurinn væri að verða viðþolslaus.  Hann hefði í tvo daga kallað á pabba sinn í tíma og ótíma, óvenju mikið í gær og gærkveldi og í morgun var hann búinn að draga útifötin sín um alla íbúð og hrópandi á gamla manninn.   Það er furðulegt hvað þau eru nösk á þetta því hann virðist vita alveg upp á hár að á föstudögum verða vistaskiptin þótt ekkert sé talað um það sérstaklega, og það að ég skyldi ekki sækja hann í gær heyrir til algjörra undantekninga. Það er líka óvenjulegt að ég skuli aðeins vera búinn að hitta hann einu sinni síðastliðna viku en þó ánægjulegt því það sýnir mér að móðurinni líður vel og að hún hefur verið að höndla lífið og tilveruna með ágætum síðustu vikuna. 

     Við kútur byrjuðum því daginn snemma með kaffibolla hjá bróður mínum en héldum svo í Laugar og áttum góðar stundir þar á sitt hvorri hæðinni.  Svo ágætar að ég ætlaði varla að ná kútnum út úr Sprotalandi þegar halda átti út í borgina en það tókst þó og við tók vapp á hina og þessa staði, Elko og Kringlu og síðan heim í sófa með Ísöld 2 diskinn upp á vasann. Pissudúkkan í mér er eitthvað að vakna til lífsins á ný því þegar myndin er að enda, öll hjörðin komin saman og pokarotturnar hoppuðu upp á Tígra fékk ég gæsahúð og kökk í hálsinn en auðvita hristi ég svoleiðis konukenndir frá mér í hvelli til að halda coolinu þótt ekki væri nema fyrir sjálfum mér. Annars væri næsta skref líklegast að pissa sitjandi

Jæja, ætla að stökkva í búð og finna eitthvað handa okkur að borða.


Næsta síða »

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 48796

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband