Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008
10.1.2008 | 08:15
Margur hefur hrópað
Hér kemur tær snilld sem leysir sennilega allan vanda sem við glímum við og svarar spurningum okkar.
Margur hefur hrópað sig
magnþrota og spurt:
Hvaðan
og hvurt?
En bægt úr hug sér öðru,
sem brýnni spurning var:
Hvenær
og hvar?
Og nærtækara er svarið
en nokkur vænti sér:
Nú
og hér!
Þorst. Vald
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.1.2008 | 19:52
Ótúrlegt hvað fíkn getur rifið niður fallega hluti
Mér er búið að líða svo vel undanfarið og væntingar mínar til nýs árs eru miklar. Ég hef áður nefnt það hérna að ég sagði það einhvern tímann við konu sem átti viðkomu í lífi mínu að ef ég fyndi ekki til gleðitilfinningar einu sinni til tvisvar á dag að lágmarki án sérstakrar ástæðu færi ég að hafa verulegar áhyggjur. Síðasta ár var ár lítillar gleði hjá mér. Kútarnir mínir voru það eina sem yljaði mér um hjartaræturnar og það ætla ég ekki að vanmeta á nokkurn hátt. Það hefur bara ekki þurft neitt sérstakt til að gleðja mig undanfarin ár því lífsgleðin og þakklætið hefur verið svo mikil. Rigning eða kaffi ilmur hafa dugað og fegurð gat ég séð í nánast öllu. Erfiðleikar síðasta árs eru greinilega að baki og mér finnst ég hafi endurheimt þessa gleði og þetta þakklæti yfir jafnvel hinum smæstu hlutum og því orðinn sjálfum mér líkur. Þess vegna hlakka ég til þessa árs og geri miklar væntingar til þess.
Þegar ég lít til baka man ég að allt árið huggaði ég mig við það að þetta myndi lagast og framundan væru dagar sem færðu mér birtu og yl en vonina missti ég ekki eitt augnablik. Mörgum myndi vafalaust finnast þessi vanlíðan mín léttvæg og tilefnið smásmugulegt en það verður hver að miða við sjálfan sig og það sem áður er á undan gengið en við getum yfirleitt ekki miðað við annað en það sem við þekkjum þótt við vitum af meiri vandræðum annarra einhversstaðar í kringum okkur.
Glíman við vantraust á einhverjum sem maður elskar er eyðileggjandi og ótrúlegt hvað fíkn getur rifið niður fallega hluti, fallegar stundir og fallegar minningar, siði og venjur, sett allt út á klakann og jafnvel fullyrt að ást hafi verið uppspuni og líklega aldrei verið til...................Eftir stendur lítill kútur sem skilur þetta ekki og annar eldri úr annarri átt sem aðeins horfði á. Gamall maður sem veit ekki hvort gert var rétt eða rangt en það er þó búið og gert, og aldrei það kemur til baka. Fullur bjartsýni ætlar hann af stað aftur þótt í honum standi varnaglinn en biturleiki er lítill sem enginn og hatur á kvenþjóðinni sem þó var beðið eftir koma aldrei.
Þó gott sé að búa einn með kútunum sakna ég oft umhyggju hlýlegrar konu, ljúfra athugasemda og hvatningarorða, daðurs og stroka, lítilla kossa í tíma og ótíma og sælustunda í tilfinninga flóði og algleymi.
Koma tímar og kemur bráð, ég meina koma ráð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.1.2008 | 23:47
Vonarík værð
Ég sofnaði með kútnum áðan og var að rísa aftur úr rekkju. Hann er yndislegur, allar þessar endalausu spurningar og upphrópanir því það er svo margt hann þarf að vita og margt sem vekur undrun hans. Ég er búinn að vera svolítið strangur við hann undanfarið því hann var farinn að færa sig upp á skaftið, sérstaklega í eldhúsinu, ísskápnum og kexskápnum og hann fer auðvitað út á ystu brún ef hann mögulega getur. Það kostar táraflóð og vinurinn kastar sér í gólfið en svona verður þetta bara að vera. Hann skánar með hverjum deginum og var eins og perla í dag og í gær. Ég vorkenni honum bara svo mikið þegar ég er búinn að vera óvenju mikið með honum því mér finnst ég hafa komið honum í þessa aðstöðu og mér er það ljóst að hann þarf meira af mömmunni góðu en hann er að fá síðustu vikurnar. Um helgina stakk hann alltaf upp á því þegar við fórum út í bíl að við færum til mömmu, mamma heima, en við gátum það auðvitað ekki. Mér finnst hann líka svo mikið á varðbergi og þurfa svo mikla snertingu þegar þetta er svona. Hann vaknar mikið á nóttunni og umlar eða skælir þangað til hann finnur fyrir mér og oft nægir bara að rétta honum höndina og þá vefur hann sig utan um handlegginn og strýkur á mér hálsinn, bringuna eða vangann. Á morgnana vill hann bara sitja á mér og ég þarf að halda á honum allar innanhúss leiðir sem farnar eru. Hann kvartar þegar ég set hann í baðgluggann til að tannbursta mig. Þegar unglingurinn er heima eltir kúturinn hann eins og skuggi út um allt og sætir allra leiða til að fanga athygli en oftast verða þeir viðskila við herbergisdyr eldri kúts sem titra í takt við alltof hátt spilaða tónlist.
Strax er farið að bera á sviknum áramótaheitum í smiðju Júdasar en við hverju er að búast hjá manni eins og honum sem er jú sérfræðingur í þessu. Best að útiloka þó ekki neitt og setja vonina í öndvegi en mér skilst að þær von og værð séu jafnvel systur.
Ég óska ykkur vonaríkrar værðar í nótt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.1.2008 | 23:55
Í kvöld er ég þreyttur
Í kvöld er ég þreyttur
á köldum turnum spekinnar
sem kljúfa skýin
og vegbeinum görðum orðanna.
Flýjum!
förum í nótt, þú og ég
djúpt inn í dimmvið hjartans
dveljum í myrkviði hjartans
utan við áttir og veg.
Hannes Pét.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.1.2008 | 10:34
Mér er ætlað að vera án þeirra
Hér var það sem forðum
flögruðu stráum ofar
einn sumardag
í sveitakyrrðinni djúpu
fiðrildin hvít fyrir utan glugga
og lítil dugga sást
sigla heim af miði.
Fiðrildin sem áður
flögra nú ofar stráum.
En speglunina gömlu
getur hvergi að sjá:
Fiðrildi hvít við glugga
og hvít segl fyrir landi.
Leiðir skildust
með skipum og fiðrildum.
Hannes Pét.
Það hlýtur að vera þreytandi að vera skip. Sigla hægt en öruggt á meðan lífið snýst í
marga hringi í landi. Sama hvernig þeim líður og hvernig viðrar, þau færa viðurværi til þeirra sem heima sitja. Þó þarf furðu lítið til að sökkva svona fleyi en það er varla á færi fiðrilda eða hvað?
Þau geta samt truflað mig og gerðu það í gær.
Flögrandi um allt í kring, falleg og fönguleg en þó ekki innan seilingar. Og hverju væri ég bættari með að fanga eitt slíkt þegar tilhneiging þeirra vær sú ein að flögra frá mér á ný?
Mér er ætlað að vera án þeirra enn um stund, ég finn það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.1.2008 | 21:23
Kútabæn
Ég var barn þegar mamma kenndi mér að biðja og alla tíð hefur það verið kjölfesta mín og ég eiginlega litið á það sem skyldu mína að kenna það kútunum mínum. Þeir taka svo ákvörðun um það þegar þeir eldast hvort þeir haldi því áfram. Ég kenndi eldri kútnum þetta þegar hann var barnungur og hann hefur sagt mér það að hann geri það stundum og sérstaklega þegar honum líður illa og finnst enginn hafa lausnir á vanamálunum sem hann glímir við. Síðustu mánuði hef ég verið að kenna litla kútnum mínum þetta en fyrsta skrefið er að kenna honum að spenna greipar og það eitt og sér vekur rosalega athygli hjá honum. Hvernig fer pabbi eiginlega að þessu? Allir þessir fingur út um allt og svo bara hittir hann á rétta staði. Hann kann það núna og það er beðið á hverju kvöldi einfalt og með orðum sem hann þekkir og í eitt skiptið fór hann að telja upp þau dýranöfn sem hann þekkti. Ég læt hér fylgja með litla kútabæn sem leidd er af pabbanum og er ég sannfærður um að almættið heyrði þessa bæn.
Bloggar | Breytt 6.1.2008 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.1.2008 | 11:35
Í hnipri á stofugólfinu
Ég fór heldur betur öfugur inn í þennan dag eða kannski best að segja öfugu megin fram úr svo valdi ekki misskilningi. Kúturinn minn lét mig heldur betur finna fyrir nóttinni, var önugur og reiður, bylti sér mikið, grét og vildi fara fram en inn á milli hjúfraði hann sig þétt upp að mér, strauk á mér vangann og bringuna og sofnaði. Hvað amaði að honum veit ég ekki en tvisvar fór ég fram með hann í nótt til þess eins að leggjast í sófann og sofna þar. Núna sefur þessi kútur í hnipri inni á stofugólfi vafinn í teppi en pabbinn ljótari en borðtuska, illa sofinn og órakaður þjórar kaffi frammi í eldhúsi. Unglingskúturinn sefur auðvitað því hormónaflæðið er þvílíkt að lítið þarf til að snúa við sólarhringnum þótt pabbi gamli reyni að koma í veg fyrir það.
Verkefni helgarinnar eru ljós. Fara á í Laugar báða dagana, tveir tvöfaldir expresso á kaffihúsi, safi og kleina handa kútnum, bókasafn ætlum við að heimsækja og eiga viðkomu í fornbókaverslun í leit að ljóðabókum. Kubbaleikir og bókalestur flokkast ekki til verkefna enda jafn eðlilegt og að borða og sofa. Annað er ekki planað fyrir utan kannski það að taka niður jólaskrautið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.1.2008 | 08:48
Móður hans leið betur
Dimmur dagur, vindur blæs og í hugarfylgsnum er hryggð en ekki uppgjöf. Uppgjöf hefur aldrei verið í nálægðinni og hryggðin vafalaust lítil og grönn miðað við hryggð margra sem sjá ekki til sálarsólar dag eftir dag eða horfa á eftir þeim sem þau elska hverfa á óþekktar lendur og sjást ekki meir. Mín hryggð var meiri þegar ég skrifaði dimmur dagur heldur en hún er núna þegar ég rita áfram. Til þess var þetta gert í upphafi. Ég kom ekki heim með kútinn minn litla í gærkveldi því móður hans leið betur og náði hún því í hann á leikskólann og hennar vika að auki þótt hún hafi ekki verið með hann undanfarið vegna myrkurs.
Hún leit við hjá honum í fyrradag og hann þekkti það hvernig hún bar sig að við útidyrnar því hún var ekki kominn inn þegar sá litli dansaði gleðidans, spratt upp frá kubbunum og var með það á hreinu að mamman eina og besta var að koma. Hún stoppaði stutt en þau slepptu ekki hvort öðru og ef ég nálgaðist um of fékk ég bendingu frá kútnum um að ég væri kominn inn á hans svæði, og tár féllu úr augum ungu konunnar. Ég veit og skil að það kemur enginn í staðinn fyrir mömmu, pabbar eru pabbar en mömmur, þær eru sko mömmur. Ég held stundum að feður viti þetta betur en mæður, þau koma ekki í stað hvers annars en vægið eykst þó þegar annað vantar. Þegar hún var farin dró kúturinn mig aftur í kubbana en vildi nú sitja í kjöltu minni og ég merkti missinn því fljótlega vildi hann fara upp í sófa þar sem við fórum í bókalestur en varla var pláss fyrir bókina því svo þétt vildi hann vera upp við mig jafnvel ofan á mér.
Ég var þreyttur í gærkveldi, svaf í sófanum en þegar ég vaknaði um miðnætti hafði unglingskúturinn breitt ofana á mig sæng, troðið kodda undir mig og ég man eftir því að hann beygði sig yfir mig og kyssti mig en ég man þó ekki hvað hann sagði.
Samkvæmt kerfinu á ég að sækja kútinn á leikskólann í dag og vera með hann í viku en ef ungakonan er viðjalaus ættu þau að eyða saman þessari helgi en ég læt hana ráða því. Ég vildi þó óska þess og bið Guð um að gefa þeim góðar stundir saman, þau eiga það bæði skilið. Ef þau verða saman um helgina ætla ég að .........................tja.......reyna að sinna sjálfum mér en mér hefur þó aldrei fundist kúturinn trufla mig neitt í því, hann passar allsstaðar inn og einfaldur lífsstíllinn veldur því að hann er aldrei fyrir mér, frekar en unglingskúturinn þá og nú.
Göngum glöð inn í þennan dag og höfum hugann hjá þeim sem engin fá faðmlögin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.1.2008 | 11:07
Ár væntinga og bjartsýni
Nýtt ár, nýjar væntingar. Það er alltaf eitthvað svo sérstakt við áramót, eins og maður hafi öflugri spyrnu til að spyrna sér áfram í flaumi væntinga og vona, langana og loforða, og í huga manns endur tekur maður í sífellu orðin nú skal ég eða ég ætla að og allt á þessu nýja ári sem eins og hvítvoðungur hefur varla opnað augun til að líta væntanlega þátttakendur augum í þessu 52ja vikna spretthlaupi sem framundan er. Það er svo bara spurning um það í hvað viku manni verður það ljóst að þetta er áratuga langhlaup sem við erum þátttakendur í en ekki fárra vikna spretthlaup.
Ég fer samt inn í þetta nýja ár fullur væntinga og bjartsýni því loforðalistinn minn telur nokkur atriði sem ég ætla svo sannarlega að glíma við bæði í spretthlaupinu og langhlaupinu. Þótt gærdagurinn hafi verið eins og mér finnst 1. hvers árs svo oft vera, þögull dagur uppgjörs og djúpra hugsana þar sem ég er ekki svo viss um hvort mér líður vel eða illa, tekur við 2. janúar þar sem endurnýjaður lífskraftur vona og væntinga er greinilega til staðar.
Gamlársdagur var eilítið öðruvísi en ég átti von á. Ég fékk símhringingu og var beðinn um að vera með litlakútinn um kvöldið og svo aðra hringingu þar sem ég var beðinn um að sækja hann bara sem fyrst. Ég var auðvitað rosalega glaður því þá yrðum við feðgar þrír saman yfir áramótin. Þegar ég sótti vininn sá ég að sumir aðrir voru ekki í sínu besta formi en lítið stafrænt skeyti til vinarlegs engils kom ungu konunni til hjálpar og var hún dregin úr hyldýpi slæmra hugsana til góðra vina í faðmlög og gleði. Á nýjársdag fékk ég frá henni lítil skilaboð......einfaldlega Takk. Er það ekki svona sem englar vinna?
Við feðgar áttum yndislegt kvöld saman og mér fannst ég vera ríkasti maður í heimi. Ég brosti allt kvöldið og faðmlög voru allsráðandi. Það var svo gaman að horfa á þá bræður, báðir í svörtum buxum og hvítum skyrtum en stærðarmunurinn mikill því annar náði hinum varla í beltisstað. Kærleikur og aftur kærleikur. Við skutum engu upp sjálfir en fórum út og horfðum á og sá litli var alveg agndofa af hrifningu. Unglingurinn fór síðan til vina sinna en við kútur sofnuðum í sófanum og ég kom okkur svo inn í rúm um þrjúleytið.
Gleðilegt nýtt ár kæru vinir, ár væntinga og bjartsýni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Júdas
Eldri færslur
Færsluflokkar
Bloggvinir
- tilfinningar
- tolliagustar
- lindalea
- kisabella
- siggasin
- saxi
- svavaralfred
- ein
- gisgis
- totally
- mofi
- vilborgo
- rebby
- scorpio
- gurrihar
- erla1001
- stormsker
- aslaugh
- jensgud
- eggmann
- blossom
- gretaulfs
- limran
- malacai
- arabina
- toshiki
- gurkan
- gelin
- asarich
- kona
- neytendatalsmadur
- myndamen
- brandarar
- little-miss-silly
- rose
- hebron
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 48796
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar