Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
16.3.2008 | 09:46
Kvöldið bíður í grípandi dulúð
Þvílík fegurð.
Þótt þessi morgunn sé ekki eins bjartur og í gær er hún björt sólin sem rennur upp milli rifja og lýsir upp þreytt hjarta gamals manns.
Þessi sól klifraði reyndar upp á gamla manninn í morgun hossaði sér og vildi fara fram. Svo kom faðmlag og slefblautur koss. Við feðgar sváfum óvenju lengi og fórum ekki fram fyrr en hálf átta en sá gamli var búinn að vita af sér í klukku tíma eða svo.
Við heltum okkur í eldamennsku klukkan átta í gærkveldi með tilheyrandi látum og kúturinn tók fullan þátt í því enda um einn af uppáhaldsréttum kútsins að ræða. Unglingurinn stóð við eldavélina og skipaði gamla fyrir eins og herforingi og síðan settumst við allir að snæðingi. Unglingskútur er búinn að vera óvenju mikið með okkur þessa helgi, fór út með okkur kút í gær og var með okkur í þrjá klukkutíma. Sagðist vera þreyttur á vinum sínum og svo var kærastan auðvitað að vinna en hann ætlaði að hitta hana seinna um kvöldið.
Framundan er bjartur og fallegur dagur en kvöldið bíður í grípandi dulúð. Þá mun ég mæta fortíðinni í húsi fortíðar og nútíðar. Hvort skuggar framtíðar láti sjá sig skal ég ekki segja en líklegt er að skuggar fortíðar láti til sín taka.
Í skjóli skugga bíður
sól og morgunstund.
Í takti tímans líður
tók sér lítinn blund.
Í bljúgir værð ég bíð
og bið um vin.
Fortíð,nútíð, framtíð!
fagurt skin.
J.I
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.3.2008 | 09:27
Ég fann mig ríkari en nokkru sinni
Enn einn fallegur dagur, sól og birta. Er hægt að biðja um eitthvað meira. Hún er farin að hafa áhrif á mig og alla í kringum mig, birtan og menn eru farnir að tala um að vorið sé að koma.
Við byrjuðum daginn snemma við feðgar. Lítill kútur vildi fara fram kl 6:30 í morgun og ég var meira en lítið til í það. Með það á hreinu að unglingskútur stæði vörð um draumalandið trítluðum við feðgar fram í kaffiuppáhellingu og weetabix. þegar kúturinn var búinn með diskinn sinn kveikti ég á sjónvarpinu eins og venjan er en kútur vildi ekki sjónvarpið. Sitja pabba var það sem hann vildi og meðan ég fletti blöðum, drakk kaffið og ræsti tölvuna vildi hann bara sitja í fanginu hjá og hjúfra sig að mér. Við sátum þannig í eldhúsinu í rúman klukkutíma en af og til komu lítil comment um það sem fyrir augu bar í blöðunum.
Kútavikan byrjaði í gær þegar ég náði í vininn á leikskólann og hann kom á harðahlaupum til mín, búinn að vera í tvo tíma í sandkassanum með, með tvo eplabita og vildi gefa mér með sér. Eplabitar og sandkassi eiga ekkert sérlega vel saman og því litu þeir ekkert sérlega vel út en ég lét mig samt hafa það. Verri hlutir hafa farið í gegn um hugskotið svo varla skaðar það að borða sandborin epli. Þau voru allavega ekki sleip á tungunni svona sandborin.
Í gærkvöldi sátum við inni í sófa með pizzu Ég, kútarnir og eldrikútakærasta og auðvitað átti minnsti kúturinn alla athygli. Þetta var hans stund og þann vissi það alveg upp á hár. Það var mikið hlegið, ennþá bjart úti og ég fann mig ríkari en nokkru sinni. Þegar ég skrifa þetta verð ég meir og fæ meira að segja kökk í hálsinn. Er það skrítið að ég vilji skrifa í nafnleynd eins svalur og ég er.
Nóttin var samt furðuleg. Ég hef drukkið lítið kaffi undanfarið, meðvituð ákvörðun og alls ekki drukkið kaffi á kvöldin en ég var alltaf að vakna í nótt. Svaf lítið og stutt, var með miklar draumfarir þess á milli en vissi af mér á klukkutíma fresti. Kannski var ég eftir mig eftir svona mikla hamingjustund og hlátrasköll en daginn vildi ég samt byrja snemma. Við feðgar ætlum að vera duglegir í dag, fara víða, þrífa um kvöldmatarleytið og elda eitthvað gott á eftir. Kringlan, bókasafnið, heimsókn og listasýning eru á listanum og ekki ólíklegt að við gefum okkur tíma í einn burger inn á milli.
En hér kemur leirburður sem kom upp í hugann í gær þegar ég þurfti að bregða mér af bæ og keyrði í blíðunni yfir fallega heiði í nágrenni borgarinnar.
Fagur dagur drottinn minn
depurð víkur, gleðin inn
Kemur til mín kúturinn
knúsar gamla pabbann sinn
Ber á hurð hjá bróanum
bljúgur tekur króganum
Ljúfur strýkur lófanum
leiðis ekki kjóanum.
J.I
Ljóð | Breytt s.d. kl. 09:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.3.2008 | 23:53
Áfengur ilmur vatns
Ég á erfitt með að blogga þessa dagana. Veit ekki hvort það er tímaleysi eða andleysi. Lærdómur á hugann allan og meira að segja vinnan er látin víkja örlítið þessa dagana. Kúturinn kom í heimsókn áðan og vildi ekki fara aftur. Var ný farinn þegar hann hringdi því hann þurfti að segja svo mikið en auðvitað skildi ég ekki helminginn af því. Ég sæki hann á föstudag og er farinn að hlakka til. Unglingskúturinn er bara glaður en hann svaf tvær ætur í Þorpinu eins og ég en lagði svo á flótti. Kom þanagað að kveldi og farinn um hádegi á öðrum degi. Alveg eins og ég. Við erum greinilega borgarbörn báðir tveir, jú og feðgar. Ég gaf mér tíma áðan til ljóðalesturs og datt niður á gott ljóð en ég er eitthvað svo sérvitur á þau og reyndar á allt! Ég óska mér samt ekki margra hluti og er einfaldur í þeim. Einfaldleikinn gerir hversdagsleikann viðráðanlegan.
Ósk mín er regn-
dropar sem detta á gras
dropar sem falla í mold
fræs, sem er falið þar
---geymt gróðurmold.
Ósk mín er vatns-
ilmur um dimma nótt,
seytl oní bikar blóms
áfengur ilmur vatns
---rósailmur regns.
Ósk mín er ljóss-
birta í morgunmund,
miðdegis bræddir snjó-
bólstrar úr mjúkri mjöll
---skýjafalls regn.
Ósk mín er lífs-
frjósemd framhald mergð
fjölgun úr smæð í stærð
ólgandi iðustraums
---óþrotlegt líf.
Sigríður Einars.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.3.2008 | 23:37
Standi ker okkar tóm
Hví skyldum við eiga
nægir ekki að elska?
eða grunar okkur
ástin sé munaður
er harðnar í ári
standi ker okkar tóm
auki okkur aðeins þorsta
þá sé gott að eiga
hvort annað er óslökkvandi
einmanaleikinn
fyllir tóm kerin.
Birgir Sigurðsson
Vorhugur fyllti mann í dag. Sólin, hlýindin, fólk að leiðast. Það er eins og allt fyllist af kærustupörum þegar sólin lætur sjá sig. Hvar heldur þetta ástfangna fólk sig þess á milli? Hvar er það í rigningu og roki, snjókomu og skafrenningi? Gætu þetta verið hillingar, tálsýnir eða bara leikrit. Ég held að ástin sé stórlega ofmetin og einmanaleikinn stórlega vanmetinn, eða var það öfugt? Þetta er bara eins og í denn, ég hef engan til að leika við og er því farinn............... að sofa.
Góða nótt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.3.2008 | 19:38
Ef einhver verður svo djarfur
Furðulegir dagar í vændum því gamli maðurinn er einn í kotinu og þvílík þögn. Heyra mætti saumnál detta en þar sem ég sauma auðvitað ekki er því ekki fyrir að fara. Unglingskúturinn minn skrapp í Þorpið, örlítið kvíðinn en vildi samt sjálfur skreppa þangað. Pabbi ég veit ekki hvort ég tolli þarna alla helgina var eitt af því sem hann sagði við mig áður en hann fór en ég sagði honum að hann réði öllu í sambandi við þetta sjálfur. Ef hann verður alveg sturlaður þarna sæki ég hann bara þótt það taki nokkra klukkutíma. Ég skil hann nefnilega mjög vel ótrúlegt en satt. Litli kútur er hjá mömmu sinni en hún náði í hann á leikskólann á föstudag og mömmuvikan er byrjuð. Það er því hljótt í koti og tíminn notaður í lögfræðilestur nú og svo auðvitað í vinnu líka.
Ég byrjaði morguninn á akstri í tvo klukkutíma út fyrir bæinn, snjór yfir öllu eins og teppi og fegurð trjáa og runna mikil því blautur snjórinn gerir greinarnar allt að því draumkenndar eða allavega ævintýralegar, þykkar og miklar. Hver segir svo að ég geti ekki notið annarskonar veðurs en rigningar? Það er auðvitað ekki rétt en það toppar þó ekkert rigninguna og það er eina veðurfarið sem fyllir mig vellíðan og gleði sem byrjar oftast með gæsahúð áður en gleðistraumarnir taka völdin. Kvöldinu er ráðstafað en þá kemur til mín yndislega falleg, vel vaxin og ögrandi..................................einvera........ og best að leggja sig allan fram um að njóta hennar sem best. Msn-ið verður auðvitað opið ef einhver verður svo djarfur að hóa í Júdasinn og allir velkomnir. Eldhúsborðið, leðursófinn og skólabækur verða innan seilingar og svo auðvitað kaffibollinn.
Á leiðinni heim áðan kom ég við í búð og keypti mér piparsteik og meðlæti svo það verður innan skamms setið í einverunni og borðuð piparsteik. Hún er komin á pönnuna og matarlyktin farin að ilma um húsið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.3.2008 | 00:08
Tær og blár einfaldleiki
Þegar blár hreinleiki
fjarlægðarinnar
hafði þvegið nálægðina
úr andliti þínu
þráði ég að hjúfra mig
að fjarlægð þinni
geta ekki snert þig
geta ekki átt þig
aðeins varðveitt þig
í tærum og bláum einfaldleika.
Birgir Sig.
Hjá sumum er þetta eini möguleikinn í stöðunni. Eini möguleikinn í stöðu sem þeir komu sér sjálfir í. Jafnvel besti möguleikinn af aðeins einum möguleika. Er þá nokkuð annað að gera en að sætta sig við það? Fjarlægðin verður jafnvel enn fjarlægri þegar tíminn líður og þegar litið er tilbaka er þar jafnvel ekkert að sjá nema óskýr reikul spor og löngu byrjað að fenna yfir þau. Það hefur líka ekkert upp á sig að líta til baka, nóg að hugsa þangað og draga af því lærdóm.
Góða nótt
Ljóð | Breytt s.d. kl. 07:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.3.2008 | 08:09
Verum þakklát í dag
Rigningin er loksins komin! Þvílík sæla og þvílík lausn á öllu. Þessari þráhyggju er best lýst í því sem við sáum úti í dag. Allur kuldinn víkur og ófærð hverfur á nokkrum tímum. Allt verður hreint og þögult. Umhverfishljóð dofna og aðeins heyrist í regninu á gluggum og þökum. Því fylgir værð.
Unga konan sótti kútinn á leikskólann í gær og ætlaði að vera með honum í sólarhring eða svo úr því að ég fór með hann út á land á fimmtudag. Annars eru vikuskiptin á Föstudögum en við eigum bæði svo erfitt með að sjá af honum. Hann er ljósgeislinn í lífi okkar þriggja en þetta snýst um val og ég valdi fyrir okkur öll. Gærkveldið snérist því um lærdóm, lestur og þögn.
Framundan er blautur hversdagsleiki kryddaður með regni sem gæti glætt hann fegurð og værð.
Verum þakklát í dag!
Himinn, jörð og haf!
Hvílíkan bústað
Guð okkur gaf.
Gullið, grænt og blátt.
Ókannanlega djúpt,
óendalega vítt,
ómælanlega hátt.
Fagurker
fullt á barma
unað hins ljúfa lífs.
Drekk, mannsbarn,
í djúpri lotning
af hinum bjarta bikar.
Bragi Sigurj.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.3.2008 | 09:55
Feðgaþrenning
Hann fór fallega af stað þessi dagur eins og svo margir aðrir. Lítill kútur kyssti mig hálf sofandi á kinnina og hélt utan um mig eins og hann ætlaði aldrei að sleppa mér. Þegar ég opnaði augun gat ég ekki betur séð en að kútur væri sofandi og þegar ég spurði hann hvort hann væri sofandi muldraði hann eitthvað óskiljanlegt svo líklega var hann sofandi. Ég tímdi varla að fara á fætur en gerði það þó því margt er að brjótast um í kollinum á mér þessa dagana. Það er eins og eitthvert uppgjör sé í vændum, uppgjör góðs og ills, uppgjör sem gæti haft miklar afleiðingar bæði til góðs og ills. Allt snýst þetta þó um það að eiga góða daga og endurheimta værðina sem mig vantar því hún staldrar svo stutt við hjá mér þá sjaldan ég finn hana. Mér finnst ég verða að endurheimta hana drengjanna vegna og sjálfs míns vegna. Þetta hljóma kannski eins og latína en er það samt alls ekki. Sumt er bara erfitt að segja þegar svörin liggja ekki á lausu. Reynsla undanfarinna ára segir mér þó að yfirvegun og stilling borgi sig í þessu sem öðru því handan við hæðina gæti hún legið værðin og lausnin á áhyggjuefnum líðandi stunda. Ekki löngu á eftir mér kom kúturinn fram og þegar hann hafði náð áttum var stormað inn í herbergi unglingskútsins og hann hvattur til að koma líka á fætur og fullkomna þessa feðgaþrenningu sem gefur lífinu allan þann tilgang sem ætti að duga.
Eigið góðan dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.3.2008 | 07:55
Land drauma þinna
Auðvitað sprakk ég. Pakkaði saman á 10 mínútum, kvaddi og æddi með kútinn burtu úr Þorpinu. Hvílíkur léttir bara af því að keyra og keyra og keyra. Það er eitthvað að mér það er alveg ljóst. Unglingurinn minn hringdi reyndar og sagðist sakna okkar svo mikið og hvort við færum ekki að koma. Það er svo furðulegt að vera einn hérna sagði hann. Ég sakna ykkar. Skömmu síðar vorum við á leiðinni til hans. Það verður langt þangað til Þorpið verður heimsótt næst.
Það var gott að sofna í sófanum í gærkveldi með kútnum og yndislegt að vakna heima í morgun. Þetta hlýtur að vera einhverskonar fötlun að vilja bara vera heima og að það skuli setja allt á annan endann hjá manni tilfinningalega ef eitthvað bregður út af. Við tekur lærdómur og kúr með kútnum og unglingskútnum sem gat ekki leynt gleði sinni þegar hann tók á móti okkur snemma í ærkveldi. Það er greinilegt að hann er ennþá pabbakútur og pabbi hans líklega kútapabbi svo mikið er víst. En nú ætla ég að segja ykkur eitt konur. Í þorpinu rakst ég á myndarlega konu sem var með mér í skóla þar í denn og átti hreinlega í erfiðleikum með að hrista hana af mér svo mikil var aðdáunin. Þú ert alltaf svo sætur , þú lítur svo vel út og þú ert svo myndarlegur voru orð sem ég heyrði í orðaflaumnum svo þið skuluð ekki vera með einhverjar ranghugmyndir um gamlan miðaldra mann sem skýlir sér á bak við nafnleynd hér í bloggheimum og hana nú.
Jæja, það er best að setja á könnuna og vita hvort hún kemur í dag, vonin mín.
Land drauma þinna er hinum megin við vatnið.
Langa, sólríka bernskudaga,
starðirðu þangað
uns augu þín urðu þreytt
og sólin var gengin til viðar.
Í svefnrofunum
sagðistu einhvern tíma ætla þangað.
Skemmsta leiðin
liggur kringum vatnið
en þú veist ekki
í hvora áttina þú átt að ganga.
Nú er vatnið á ís
en farðu varlega
farðu varlega
því ísinn er veikur.
Hjörtur Pálsson
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.3.2008 | 09:37
Furðuleg ákvörðun, furðulegt Þorp
Ég vaknaði upp í morgun á allt öðrum stað en í gær. Ég vaknaði í Þorpinu og það kom mér þó ekkert á óvart því ég ákvað það á augnabliki í gær að sækja kútinn á leikskólann og bruna út á land. Furðuleg ákvörðun því ég er svo heimakær og nóg að læra í ofanálag. Hvað vakti fyrir mér veit ég ekki. Ef til vill var það smá söknuður og löngun til að hitta foreldrana eða þá löngun til að sýna kútnum afa og ömmu. Ligg uppi í rúmi núna og leiðist meira en nokkru sinni. Þorpið höfðar ekki til mín og meira að segja finn ég ekki nokkurn á msn til að spjalla við. Unglingurinn vildi ekki koma með okkur svo hann varð eftir heima. Ég hringdi í hann áðan til að vita hvernig honum hafði reitt af í nótt og hvort hann saknaði okkar ekki. Furðuleg nótt sagði hann. Var alltaf að vakna og með áhyggjur af öllu. Fór niður að athuga hvort hurðin væri læst og fram í eldhús til að athuga hvort eldavélin væri nokkuð á hita. Alls konar áhyggjur af öllu, hurðum og gluggum, rafmagnstækjum og vatni. Vinurinn minn. Svona er að vera á vaktinni!
Þegar ég heimsæki Þorpið þarf ég að hafa fyrir því að vera rólegur. Værðin víkur fyrir dofa þar sem ég þarf af öllum mætti að reyna að halda ró hið innra. Löngunin til að stökkva út í bíl og aka til borgarinnar gagntekur mig. Heima er best. Kúturinn er þó í góðu yfirlæti og ég ætla að reyna að þrauka til morguns.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Júdas
Eldri færslur
Færsluflokkar
Bloggvinir
- tilfinningar
- tolliagustar
- lindalea
- kisabella
- siggasin
- saxi
- svavaralfred
- ein
- gisgis
- totally
- mofi
- vilborgo
- rebby
- scorpio
- gurrihar
- erla1001
- stormsker
- aslaugh
- jensgud
- eggmann
- blossom
- gretaulfs
- limran
- malacai
- arabina
- toshiki
- gurkan
- gelin
- asarich
- kona
- neytendatalsmadur
- myndamen
- brandarar
- little-miss-silly
- rose
- hebron
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar