Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008
28.7.2008 | 08:48
Gæti það orðið einfaldara?
Þeir sátu á móti hvor öðrum og horfðust í augu,. Annar gamall en hinn ungur. Þeir höfðu báðir hugsað mikið og sá ungi sem ef til vill hefði átt að horfa niður var búinn að undirbúa sig vel. Hann gat því horft á móti og við tóku klukkustundarlangar umræður um unga manninn, fjölskylduna, framtíðina og þær gildrur sem fyrir hann eru lagðar. Viðjar fengnar í vöggugjöf voru einnig ræddar og við vorum sammála um það að lifa yrði í samræmi við þær, forðast sumt og sækja í annað. Pabbi ég hef tekið eftir því að þú hefur alltaf rétt fyrir þér þess vegna er ég algjörlega sammála þér. Hann var sammála mér í því að þetta væri í raun einfaldleiki sem vegna einfaldleika verður á köflum gegnsær á að líta og tilhneigingin sú að færa sig yfir í flóknari hluti sem ekki verða höndlaðir. Ný áform voru lögð fram og samþykkt með öllum greiddum atriðum og sá gamli sagði að þetta yrði að fara strax í gang. Ég kem til með að nefna þetta við þig daglega vinur.
Ég heyrði í litla kútnum í gær og hef verið með sting í hjartanu síðan. Unga konan segist vera með svolítinn móral yfir því að vera svo fjarri með hann en ég minnti hana á að við hefðum rætt þetta og því væri á ábyrgð beggja. Kúturinn sagðist vera bókaormur og vildi fá mig í lestur og er ekki alveg að skilja hve langt er á milli okkar. Mér skildist að þau kæmu á miðvikudag eða fimmtudag. Það flaug samt í gegnum kollinn á mér að keyra nú í morgunsárið og hitta kútinn en það er best að bíða. Annar kútur eldri þarf á mér að halda.
Í einmanaleikanum finn ég löngun til mikillar hreyfingar og hef æft daglega undanfarið. Von um að einhver finni mig er sterkari en ég vil nefna og vil því ekki fara út í umræður um akkúrat það. Það er bara þannig og því verður ekki breytt. Ég velti því fyrir mér í gær hvort ég væri illa gefinn en tæki bara ekki eftir því. Hvort ég væri jafnvel heimskur í þessum einfaldleika eða bara heimskur heilt yfir. Hvort ég væri sjálfur að flækja mig í einföldum hlutum og því með öllu ófær um að gefa öðrum ráð til lausna.
Ég finn þó til vellíðunar og það er það sem ég þarf. Því ætla ég ekki að vanmeta það að vera einfaldur og lifa einföldu lífi. Gæti það orðið einfaldara að vera tvö?
Ósjálfbjarga
í grámöskvuðu
neti
og augu þín
haf.
Matthías JóhannessonLjóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.7.2008 | 09:42
Þær rekast á, nálægðir og fjarlægðir
Þetta gæti orðið dagur uppgjörs þótt ekkert í umhverfinu bendi til þess. Heimilið er þögult og þrátt fyrir áhrif huldukonu á einfaldan hversdagsleikann eru skúrir á köflum. Við eldri kútur þurfum að setjast niður í dag eða kvöld og ræða saman. Hjá honum skiptast líka á skin og skúrir og þótt engin merki séu um það í fasi hans eða framkomu gagnvart öðrum hefur gamli maðurinn svipt hulunni af slæmri spá með því einu að horfa til himins í stað þess að treysta á langtímaspár hans sjálfs. Við breytum ekki veðrinu en getum með vakandi huga og vökulum augum horft til himins og búið okkur undir breytingar og jafnvel notið regnsins við réttar aðstæður. Hann verður alltaf í þessum viðjum en nú í annað skipti bregðumst við hratt við þessari fjandsamlegu fíkn.
Það skín þó sól og værðarvon hvílir yfir. Hjarta mitt segir að sigur sé unninn þótt hindranir séu framundan. Ég læt hugann reika og rifja upp þá gömlu tíma þegar lítill kútur fylgdi mér eftir hvert fótmál og gat aðeins treyst á mig. Ég þrái þessar gömlu fjarlægðir því þá gat ég haldið í taumana og er ekki frá því að eitthvað af fallegum fljóðum hafi verið í nálægðinni. Það rekast því á í huga mínum nálægðir og fjarlægðir og eftir smá umhugsun veit ég ekki hvort ég þrái meira.
Kannski er huldukonan betur geymd í fjarlægðinni og líklega er Júdas þar best geymdur líka.
Bagalegt, og þó
hvað ég þrái þær oft
hinar gömlu fjarlægðir:
geislandi vegalengdir
milli staðanna
milli atburðanna
milli óskarinnar og veruleikans.
Ó skæra djúp
þar sem draumarnir áttu heima.
Hannes Pét.Ljóð | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.7.2008 | 08:47
Það heillaði mig huldukona!
Það var tvennt sem hvíldi á mér í gær en virtist léttvægt þegar ég kom á fætur í morgun. Það stefnir því í góðan dag og góða helgi.
Það heillaði mig kona fyrir nokkrum dögum bæði með útliti sínu og framkomu. Ögrandi og sjálfsörugg og kom það kom mér á óvart hve sterk áhrif hún hafði á mig. Hún virtist ekki þurfa neina aðstoð við eitt eða neitt og virtist ekki eiga neitt bágt svo ég þarf líklega ekki að bjarga henni frá neinu. Þar verður hinsvegar vandinn til því ég er ekki viss um að ég geti þá nálgast hana nema þá kannski með því færa mig á milli lífeyrissjóða......... Ég þarf alltaf að bjarga einhverri! Svona getur sveitasælan í friðsælum smábæ farið með mann. Hún skar sig úr, falleg, há og grönn í flaksandi síðum jakka og vissi upp á hár hvað hún var að selja. Vinnufélagi minn heillaðist líka og verslaði af henni en ég sat hjá og horfði á en kom með fyrirspurnir og lofaði henni að ég myndi hafa samband eftir meiri upplýsingum. Svo var hún horfin en kom aftur augnabliki síðar því hún hafði gleymt einhverju. Þá fékk ég tækifæri til að heillast enn frekar. Á vörum mínum hvíldu orð sem ekki voru sögð, "Það má ekki bjóða þér værðarstund yfir kaffibolla?" Þegar hún var farinn bankaði vinurinn á öxlina á mér og sagði hana vera réttu konuna fyrir mig. Ef ég þekki mig rétt geri ég ekkert í málinu og ósennilegt að þessi rétta kona fyrir mig sé yfir höfðu til. Líklega bíð ég eftir því að hún hafi samband við mig sem er þó útilokað því þótt ég sé með nafnspjaldið hennar veit hún lítið um mig annað en að ég sé úr sama Þorpi og hún.
Eldri kúturinn tók hliðarspor á beinu brautinni en komst ekki einu sinni út í kannt þegar gamli maðurinn áttaði sig og greip í taumana. Hann getur þó ekki verið í taumi til eilífðar svo við verðum að setjast niður um helgina og ræða þetta. Ég þakkaði almættinu fyrir það því svona hratt hefur þetta ekki gerst áður og greinilegt að okkur fer fram en það er þó engin ávísun á varanlega lausn því hún er ekki til samkvæmt fræðunum. Söknuðurinn vegna litla kútsins hefur verið bærilegur þessa vikuna en nú styttist í að hann komi og vikukerfið fari í gang aftur. Ég reikna með að góðar æfingar eftir vinnu hafi slegið á þetta því minni tími er til að velta sér upp úr því.
Læt þetta duga í dag, njótið dagsins
Hægur andvari
húmblárrar nætur
um hug minn fer.
Ást mína og hamingju
enginn þekkir
og enginn sér.
Og ljóð mitt ber samskonar
svip og það,
sem ekki er.
Steinn Steinarr
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
22.7.2008 | 08:21
Stæðist það endurskoðun almættisins
Þetta var kærkomið fríhelgi og tilhlökkunin mikil hjá okkur eldri feðgum því Unga konan kom keyrandi utan af landi með litla kútinn. Þetta er í annað skipti í sumar sem við sjáum hann ekki í tvær vikur samfellt. Ég samþykkti þetta fyrirkomulag af tillitssemi við hana sem taldi sig geta lifað ódýrt í sumar í litlu sjávarplássi úti á landi hjá föður sínum. Ég finn að þetta er of mikil fjarvera og á tveimur vikum hjá barni á þessum aldri gerist svo undra margt sem ég vil ekki missa af. Tíminn er einfaldlega of langur. Kúturinn flaug í fangið á mér og hrópaði á bróann sinn og greinilegt var að hann var líka farinn að sakna okkar.
Það kom mér hinsvegar á óvart að ég var farinn að sakna hennar líka! Ég reikna ekki með að það tákni neitt í gömlum kolli en hún hefur eðlilega fylgt kútnum og þegið kaffibolla af og til. Það pirrar mig stundum en gleður mig aðrar stundir. Spjall um kútinn og sameiginleg aðdáun á honum sem eðlilegt er. Sá eldri á það til að hringja í hana eftir skutli og lét hana vita af því á undan mér þegar hann tók ranga beygju á braut lífsins um árið. Ég eyddi heilu kvöldi með sjálfum mér í vangaveltum um það hvort ég hafi verið grimmur við hana, ósanngjarn og eigingjarn og hvort orðið sanngirni og réttlæti í mínum huga stæðist endurskoðun almættisins. Hvort leit mín að einhverju eigi eftir að fara í heilan hring og einn góðan veðurdag sjái ég glitta í gamlan mann á göngu með ungri fallegri konu í fallegu regni í átt til áðurnefndra skugga framtíðar. Getur verið að ég hafi skuldað henni umburðarlyndi og að þrautseigja yrði endurgoldin?
Við fórum víða, hjóluðum, fórum í húsdýragarðinn,keyptum okkur ís, komum við í Sprotalandi á meðan gamli endurnýjaði orkubirgðirnar, og kubbuðum út í það óendanlega. Sá litli var alltaf að taka utan um mig og segja mér að allt væri í lagi. Það er svo yndislegt hvað þessi aldur speglar allt í kringum sig, alla framkomu og umhyggju og minnir mann á það hversu þýðingarmikil umhyggjan og innrætingin er á þessum aldri. Þegar heim var komið var stóri bróðir eltur hvert fótmál og þegar hann ætlaði út var stokkið á fótinn á honum og ríghaldið sér.
Þau fóru aftur út á land í gær en nú bara í eina viku og þá hefst vikuplanið aftur á ný.
Ég átti góðan dag í gær og varð þeirrar gæfu aðnjótandi að þurfa að keyra í nokkra tíma í rigningunni til skrafs og ráðagerða í öðru byggðarlagi. Keyra í rigningu og hugsa. Værðin allt um kring.
Njótið værðar
Sólin skein
ég settist undir skjólvegg
uns skugginn náði mér
Illgresi hafði á meðan
haslað sér völl í garðinum
Ég heyrði svörðinn hrópa
á hlýjar hendur
kraup í skuggann
og kyssti moldina
ef varir mínar væru ennþá heitar
Þóra Jónsdóttir
Ljóð | Breytt s.d. kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.7.2008 | 21:30
Ég er gestrisinn en bara ekki svona lengi
Mér finnst ég vera orðinn hálf ryðgaður enda ekki bloggað í sex daga. Og það er ekki allt. Ég hef varla verð með sjálfum mér í þessa fimm daga og liðið vítiskvalir! Heimili mitt breyttist og það var ekki lengur friður yfir kaffibolla á morgnanna. Þessar yndislegu og heilögu stundir urðu allt í einu ónæðisstundir og á tímabili velti ég því fyrir mér hvort ég ætti að velta mér á hina hliðin og sofa lengur í stað þess að fara fram. Kvöldin breyttust úr værðarstundum í óværðarstundir og vinnudagarnir drógust og æfingarnar lengdust því athvarfið var ekki það sama. Ohh hvað ég er feginn að þetta er liðið hjá og næturgesturinn aldni er farinn til síns heima. Dæmið mig ekki hart en ég er bara svo vanafastur og greinilega talsverður einfari að minnsta kosti heima fyrir. Mér varð það á að segja Já við næturgistingu og hélt það yrði bara ein til tvær nætur en ekki fimm. Annars finnst mér ég yfirleitt greiðvikinn og gestrisinn, þið megið trúa því en bara ekki svona lengi!!
Það var því kærkomið að fá fallega rigningu niður úr logninu rétt áðan og vita að heima beið mín þögnin.
Að vísu bara þangað til eldri kúturinn kæmi heim en þeim hávaða fylgir vellíðan og væntumþykja.
Við erum farnir að bíða eftir litla kútnum því hann er búinn að vera úti á landi með Ungu konunni og í vikunni vissi ég ekki hvort ég væri að verða geðveikur vegna næturgestsins, eða hvort ég væri að drepast úr söknuði til þess litla. Ef til vill var þetta allt í bland en hann er á leiðinni til mín og verður hérna eftir klukku tíma eða svo og þá verður sameiningin! Það stefnir því í yndislega helgi sem bara á að snúast um drengina mína, samveru og værðarstundir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
11.7.2008 | 08:04
Vopnaðir penslum
Við feðgar eldri ruddumst út vopnaðir penslum og máluðum okkur inn í fegurð umhverfisins. Við vorum orðnir svörtu sauðirnir því ofvirki nágranninn var búinn að mála girðinguna hjá sér að okkar og nágranninn í húsinu hinumegin var líka búinn að því. Sá ofvirki var meira að segja búinn að bjóða mér restina af sinni málningu og penslana til að reyna að fá mig af stað en þetta gengur bara ekki þannig fyrir sig. Ég er ekki letingi. Þetta snýst um tíma og sá tími hefur bara ekki verið til staðar. Þegar ég er ekki í vinnu hef ég verið með litla kútinn og því ekki tími í svona. Einhver nágranna sálfræði virkar því ekki á mig og ég vil kaupa mína málningu sjálfur og mála þegar ég hef tíma og hana nú. Við feðgar máluðum tvö kvöld í röð og þegar ég kom úr vinnu og af æfingu í gærkveldi hafði eldri kúturinn byrjað á seinni umferðinni, var búinn að skúra allt húsið og elda handa gamla manninum. Þvílíkur lúxus. Því skyldum við þurfa konu inn á þetta heimili?
Við söknum litla kúts hinsvegar en hann er búinn að vara úti á landi með Ungu konunni í heila viku og verður í aðra til. Við heyrum hinsvegar í honum í síma annan hvern dag en mér skilst að hann sé búinn að vera óþægur að fara að sofa og vill hitta bróann sinn. Hreiðrið er því býsna tómlegt sumar stundir á þá man ég af hverju gott gæti verið að hafa konu hérna en það líður sem betur fer hjá.
Njótið dagsins
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
6.7.2008 | 11:18
Tilgangslaust hjóm
Þetta er einn af þessum dögum þar sem hversdagsleikinn hefur vikið til hliðar, dagur sem margir myndu vilja til hvíldar og endurnæringar en mér líkar samt ekki við hann.
Tómt húsið gefur þögninni hljómgrunn.
Ég velti því fyrir mér hversu mörg spor hafi verið stiginn í þeirri barnslegu trú að þar lægi leiðin til sældar og tignar og hversu marga ég hafi dregið með mér mínar leiðir því ekki fylgdi ég leiðum annarra eða leiðsögn.
Kaffibollinn gleður ekki og ný áform eru tilgangslaust hjóm.
Þetta verður dagur Júdasar. Dagur niðurrifs og ásakana. Dagur enn eins uppgjörsins þar sem við horfumst í augu, og tökumst vafalaust í hendur áður en sólin sest ef hún sest þá nokkuð.
Enn einn hringurinn.
Ég hef alltaf talið að ég gæti á mig kútum bætt og hefur það verið einn draumur minn til margra ára. Meira að segja það virðist hjóm í dag og lítil viska eftir í brunnum reynslunnar sem ekki hefur verið hrakin og merkt sem ófær vegur.
Ekki eftirbreytni vert.
Gránandi höfuð
hneigi ég yfir blöð
óskrifuð, líkt og sand
eyðimarkanna stóru.
Mig dreymir vinjar:
vatnsból og tré
áningarstað í fjarska
útá fannhvítum pappírnum.
Hannes Pétursson
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
3.7.2008 | 09:53
Skiptir stærðin máli?
Við ætlum að leggja í hann á eftir. Keyra tveir út í rigninguna syngjandi glaðir og stefnan sett á Þorpið. Hversu lengi ég endist þar veit ég ekki en þó nógu lengi til að viðra okkur, taka í nokkra bolla og leyfa kútnum að njóta afa og ömmu smá stund. Einn dagur, tveir dagar, kannski þrír.
Ég rogaðist heim með nýtt sjónvarp í gær og breytti stofunni hjá mér til framtíðar. Þvílík stærð og er því fullur efasemda í dag um að ég hafi valið rétta stærð. Mér leið í gærkveldi eins og heftiplástri í kvikmyndahúsi og stóra stofan mín hafði breyst í eldspýtustokk. Ég veit ekki hvort það var stærðin, gæðin eða öll þessi birta en var ekki frá því að nefhárin á mér hefðu sviðnað. Ég keypti tækið í Elkó og er ákveðinn í að nýta mér þennan 30 daga skilarétt sem þeir bjóða ef tækið uppfyllir ekki væntingar mínar en það er fyrst og fremst stærðin sem ég hef efasemdir um þ.e 42 en ekki 37 . Þetta er í fyrsta skipti á ævinni sem ég er með áhyggjur af stærðinni og tommufjöldanum og verð að játa að þetta er óþægileg staða. Hver segir svo að stærðin skipti ekki máli?
Það er best að fara að tygja sig til ferðar og reyna að njóta þess sem mest. Mér skilst að einstæðum mæðrum hafi fjölgað í Þorpinu upp á síðkastið og velti því fyrir mér hvort þar liggi gæfan í leyni og svalir skuggar framtíðar. Þótt það sé ekki ætlun mína að yfirgefa fagra vota borgina gæti hjarta mitt allt eins leitað út fyrir vígið því óvíst er hver fari með völdin þegar einmana hjörtu finna skjól í þessum skuggum. Ég var búinn að skrifa eftir langa göngu en verð að játa að hún er ef til vill ekkert svo löng og alls ekki víst að komið sé að lokum þeirrar göngu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.7.2008 | 11:16
Sjónvarpskrísur
Þá er komið að því. Ferð í Þorpið með kútinn. Ég ætlaði að fara í byrjun þessarar viku en hef bara ekki nennt því og strax kominn miðvikudagur. Það truflaði mig reyndar að sjónvarpið sem er heimilistæki aftarlega í áhersluröðinni gaf upp öndina og er allt í einu komið ofar á listann en mig óraði. Fyrir mörgum árum keypti ég 28 tæki og ákvað að taka það ódýrasta sem ég fann. Á svipuðum tíma keypti ég mér ferðatölvu sem var fimm sinnum dýrari og það fannst mér bara eðlileg þá og finnst það enn. Ég reikna með að áhersluröðin sé eitthvað í þessa áttina hjá mér; tölvan, ryksugan, þvottavélin, uppþvottavélin, kaffivélin, útvarpið.......................og margt annað áður en það kemur að sjónvarpi og hljómflutningstækjum. Sjónvarpið gengur þó stundum þótt ekki sé beint verið að horfa á það, unglingurinn kastar sér í sófann og horfir á einn og einn þátt, gamli horfir á fréttir og litli kútur á barnaefni en þó mjög sjaldan. Enginn okkar er þannig gíraður að ekki megi missa af einhverju eða beðið eftir einhverjum þáttum með tilhlökkun. Venjulega er unglingurinn búinn að sjá þetta á netinu og ég get alveg eins séð fréttirnar í tölvunni inni í eldhúsi yfir bolla eins og að rjúka inn í stofu. Litli kútur hefur setið með okkur á stofugólfinu í þessu sjónvarpsleysi og kubbað út í það óendanlega og pottþétt að þarna er á ferðinni enn af arkitektum framtíðarinnar að minnsta kosti í Lego-landi. Sjónvarpstækið var búið að standa sig vel þessi átta ár og það eina sem hafði versnað fyrir utan sjónina í mér var það hversu lengi það var að kveikja á sér. Þar sem ég er dálítið eldhræddur var það alltaf tekið úr sambandi eftir notkun og ég ímyndaði mér að það væri kannski hálfnað með líftímann og komið á breytingarskeiðið margumtalaða.
Ég fór á ferðina á mánudag og í gær til að skoða sjónvarpstæki og gekk inn í þvílíku flóruna. Það eina sem ég er með á hreinu er það að ég vil það ekki minna en 32 og vil ekki borga fyrir meira en samviska mín leyfir fyrir tæki með lítið nota og áherslugildi. Yfir mig rigndi upplýsingum og tölum sem margur sölumaðurinn gat varla útskýrt fyrir mér. Þegar ég horfði á sjónvarpsveggina hjá þeim fannst mér öll þessi sjónvörp ágæt og ekkert þeirra áberandi betra en annað þótt verðmunurinn gæti hlaupið á hundruðum þúsunda. Það reyndist mér vel að spyrja þá hvernig sjónvarp þeir ættu sjálfir og afhverju þeir hefðu valið þau. Ég fékk í mögum tilfellum raunhæf og skemmtileg svör og í einni búðinni byrjaði sá sem tók á móti mér á því að afsaka það að hann væri bara viðgerðarmaður og væri að leysa af í kaffi. Frábært, þú ert maðurinn sem ég þurfti í þetta! Þar fékk ég bestu útskýringarnar og mestu fagmennskuna. Sum sjónvörpin voru svo góð að þau voru langt á undan gæðum í útsendingum og endingartíminn 20-30 ár en ég er ekki viss um að ég nenni að eiga sama sjónvarpið í svo langan tíma enda væru þau líklega orðin talsvert á eftir að þeim tíma liðnum eða þá að hafa möguleika sem ekki nýtast mér. Upplausn, litir, skerpa, birta , viðbragðstími ofl, vafrað á netinu og verð borin saman. Þvílík tímasóun og það í fríi. 32, 37, 40 og 42.................óþolandi. Og enn ekki búinn að ákveða þetta. Vona að það verði í dag.
Það sem kemur mér mest á óvart í þessu er að þessar fáu stundir sem sjónvarpið var í notkun virðast allt í einu orðnar svo mikilvægar. Þögnin sem það fyllti upp í og afþreyingin sinnum þrír þótt viðveran við það væri ekki löng í hvert skipti virðist skipta máli. Ég ætla þó ekki að færa það ofar á forgangslistann eða bruðla í það of stórum fjárhæðum en það verður samt að vera til taks á þessu heimili okkar kúta og ljóst að það gengur fyrir ferðina í Þorpið svo henni verður frestað í nokkra klukkutíma eða daga eftir þörfinni.
Ég skellti inn nokkrum myndum í gær í svolítilli óvissu um það hvort rétt væri að birta þær en lét svo tilleiðast.
Njótið dagsins og rigningarinnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.7.2008 | 08:55
Ég ætla að bíða
Eftir einmanalegt kútalaust kvöld en svefnsama draumlausa nótt, reis ég úthvíldur úr rekkju. Hélt áfram að lesa færslur bloggvina yfir ljúfum bolla.
Hversdagurinn er samur við sig og bið án beiskju heldur áfram.
Séra Svavar Alfreð hitti naglann á höfuðið með gríðarlega góðri bloggfærslu sem sannfærði mig um það að bið sé vinna í góðri trú. Bið krefst einbeitingar, bið krefst aðgæslu, bið krefst vöku, bið krefst trausts þess sem bíður. Bið er ekki endilega merki um uppgjöf og getur gefið af sér uppfyllingu vona og drauma.
Ég veit ekki með ykkur en ég ætla að bíða áfram.
Biðstaða þykir mörgum afleit og óþægileg stelling.
Þegar beðið er gerist ekkert. Tíminn líður. Við aðhöfumst ekkert.
Engu að síður er mikilvægt að kunna að bíða. Almennileg bið er ekki tómt aðgerðarleysi heldur krefst einbeitingar. Sá sem bíður þarf að halda vöku sinni.
Þegar við bíðum, bíðum við þess sem koma skal. Bið er undirbúningur fyrir framtíð. Við sjáum ekki inn í hana en getum verið tilbúin fyrir hana þegar hún kemur ef við kunnum að bíða.
Séum við tilbúin fyrir framtíðina en látum hana ekki koma okkur gjörsamlega í opna skjöldu höfum við gert það sem í okkar valdi stendur til að hafa áhrif á það ókomna hvernig sem það verður.
Bið er líka traust. Sá sem bíður leggur árar sínar í bát. Hættir að hamast á hafinu. Reynir ekki að troða sér fram fyrir þann sem er á undan í röðinni. Treystir því að röðin komi að sér. Treystir því að biðin beri árangur.
Bið er vinna í þeirri trú að ekki sé til einskis beðið.
http://svavaralfred.blog.is/blog/svavaralfred/entry/581038
Ég hélt eldinum lifandi
í von um að þú kæmir
Nú er áliðið
og margir farnir hjá
Ég vaki meðan lifir í glóðinni
Þóra Jónsdóttir
Ljóð | Breytt s.d. kl. 09:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Júdas
Eldri færslur
Færsluflokkar
Bloggvinir
- tilfinningar
- tolliagustar
- lindalea
- kisabella
- siggasin
- saxi
- svavaralfred
- ein
- gisgis
- totally
- mofi
- vilborgo
- rebby
- scorpio
- gurrihar
- erla1001
- stormsker
- aslaugh
- jensgud
- eggmann
- blossom
- gretaulfs
- limran
- malacai
- arabina
- toshiki
- gurkan
- gelin
- asarich
- kona
- neytendatalsmadur
- myndamen
- brandarar
- little-miss-silly
- rose
- hebron
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 48796
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar