Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008
24.8.2008 | 21:19
Fífan fokin
Það fór ekki mikið fyrir menningarnóttinni hjá gamla manninum þótt öll skilyrði væru hin ákjósanlegustu. Kúturinn hjá Ungu konunni, sá eldri með kærustunni, votviðri eins og eftir pöntun, boð í gleðskap með tveimur vinkonum og sms frá þeirri þriðju sem ekki var svarað eins venjulega. Hvað er að mér? Þetta getur ekki verið eðlilegt en virðist vera það í huga mínum, allavega á þeirri stundu. Ég á einrænan gamlan föður sem átti einrænni eldri föður svo þetta hlýtur að liggja í genunum. Ég hreyfi mig þó reglulega og er sáttur við þessar ákvarðanir þegar þær eru teknar. Það er ekki fyrr en daginn eftir og ég losa svefn sem ég er ósáttur. Teygi mig eftir henni en hún er ekki. Leita ilmsins en finn hann ekki. Hlusta og heyri ekki andardrátt. Hlusta aftur og heyri hvorki fótatak né snark í kaffikönnunni. Ekki einu sinni fuglasöngur eins og hér í denn. Ferlega er ég þreyttur á mér sumar stundir. Júdas breytist aldrei!
Skólinn er byrjaður hjá okkur eldri Kútum og væntingarnar miklar. Kútur vildi borga skólagjöldin sín sjálfur og sagðist vera að þessu fyrir sjálfan sig en ekki mig. Góður punktur. Hann henti út tveimur fögum sem ég hafði ráðlagt honum að taka en valdi sér önnur sem hann sagðist hafa áhuga á. Hann er að verða fullorðinn þessi kútur, það er ljóst og pabbinn er stoltur af honum.
Ég hlakkaði til haustsins og geri það reyndar enn. Geta hlustað á vindinn og heyrt í regninu. Dást að litadýrðinni og minnast sumarsins. Sumarást fór framhjá mér en ástin á kútunum mínum stendur þó upp úr og það verður hún sem vermir hjarta mitt í haust og vetur. Vangaveltur um lífið og tilveruna hafa verið sterkar á síðustu vikum og þrautseigja Ungu konunnar hefur truflað mig. Ég skil ekki af hverju þessi kona er ákveðin í að bíða eftir gömlum manni sem hafnar henni endalaust og leitar hamingjunnar úti í stórri tilveru. Ef til vill er leitað langt yfir skammt. Ég taldi mig hafa safnað nægum forða í andans hlöðu en allt í einu efast ég um það og finnst sumarið hafa liðið allt of hratt.
Sumarið líður
hraðar og hraðar
Hlaða mín er næsta tóm
af vetrarforða
Fari sem horfir
verða frostin fyrri til berja
fífan fokin
fjallagrösin ótínd
Sárt væri að sitja
með sumartregann einan í hlöðunni.
Þóra Jónsd.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
18.8.2008 | 08:17
Læs á gamlar rætur
Með gleði í hjarta en brotið bak staulaðist Júdas á fætur í morgun. Gamli hélt augnablik að hann væri unglamb og náði að ganga fram af sér við æfingar gærdagsins. Í ofanálag komst lítill kútur að því að pabbinn væri ekki eins frár á fæti og venjulega og var því á harðahlaupum um íbúðina í gærkveldi og nýtti sér þetta til hins ýtrasta. Furðulegt hvað þau finna þetta á sér og felustaðirnir voru ekki af verri endanum. Hann vorkenndi mér þó á köflum, strauk mér og breiddi ofan á mig en var með það alveg á hreinu að hann stjórnaði í ástandinu. Unglingskútur var með þetta alveg á hreinu og stakk upp á að ég fengi mér annað áhugamál sem ég réði við og var þar boccia nefnt ásamt einhverri augnaleikfimi fyrir eldri borgara.
Skólinn fer að byrja hjá okkur feðgum og satt best að segja er komið haust í huga minn og ég er ekki frá því að gróðurinn í garðinum hjá mér taki undir það sé lesið í hann. Það er eins og eitthvað seiðandi fylgi haustinu og ég hlakka til þess. Annar vetur í einsemd hugans blasir við og ekki laust við að ég komi sjálfum mér á óvart en hver veit. Hvort ég skjóti rótum í einsemd til framtíðar veit ég ekki en það veldur mér þó litlum áhyggjum þessa stundina og ómögulegt að segja til um það hvort gamlar rætur eigi eftir að koma á óvart. Kútarnir, vinnan og námið ásamt einhverjum æfingum ættu að geta haft ofan af fyrir mér og vonandi kemst ég á skrið í blogglestri en þar hef ég verði einstaklega slappur í sumar.
Njótið dagsins
Mestur sársauki fylgir gróðrinum,
hann gerir okkur læs
á gamlar rætur;
þær rísa upp
og fljúga,
en ekki úr augsýn.
Laufkrónan snertir ský.
Laufkrónan kyssir fætur okkar.
Jóh.Hjálm
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.8.2008 | 09:43
Rigningagenið fundið
Við feðgar erum á góðu flugi þessa dagana og við yngri kútur ætlum að leggja í stutta langferð á eftir og eyða deginum í litli fallegu þorpi sem minnir óneitanlega á Þorpið eina en er bara miklu minna. Bæjarbúar eru með smá hátíðarhöld þessa helgina og minnast fornra húsbænda og þótt undirtónninn sé vinnutengdur verður kúturinn í öndvegi og gleðin við völd. Við látum rigningarspá ekkert á okkur fá því við kútar höfum aldrei þurft sól til að gleðjast yfir veðrinu eins og bloggvinaþjóð veit. Litli kútur virðist hafa fengið rigningagenið frá föður sínum og gleðst með honum þegar fagrir dropar falla niður og næra bæði menn og gróður, sussa á stress og hávaða og svæfa fallega borgina sem og allt sem þeir falla á. Þegar hann situr í hásætinu sínu aftur í bílnum, krefst hann þess að glugginn sé opnaður svo hann geti fundið regnið og vill umsvifalaust komast út í polladans. Hann lætur mig jú líka vita hvenær ég á að kveikja og slökkva á rúðuþurrkunum enda gæti sá gamli auðveldlega gleymt því og eins gott að vera til taks. Hann stekkur úr leik heima fyrir þegar hann heyrir hina minnstu regndropa droppa á rúðurnar og klifrar upp á stól við gluggann til að horfa á. Unglingskútur hefur færri orð um þetta nú orðið en gleðst samt með okkur. Veður virðast hvorki trufla hann né valda einhverjum sveiflum í lífi hans því hann er svo yfirvegaður. Hann er að vinna þessa helgi en færi líklega ekki með okkur þótt hann væri í fríi.
Ræktin bíður þó eftir okkur áður en lagt er af stað og Sprotalands er beðið með eftirvæntingu.
Njótið dagsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.8.2008 | 22:42
Júdas finnur ilminn út um allt
Það er óvenjulega langt síðan ég bloggaði síðast eða 9 dagar og ég hef svo sem ekki neinar útskýringar á því. Þetta er kútalausa vikan mín og ég ferskur upp fyrir haus búinn að æfa mikið og stíft en því fylgir svo mikil vellíðan. Það eru margir í sumarfríum í vinnunni og því gott að mæta í Laugar eftir vinnu og taka góða tveggja tíma æfingu, finna stressið líða úr sér og vellíðunartilfinningu streyma um sig. Þvílík sæla. Svona okkar í milli sagt hefur það blundað í mér að trimma upp á hana Esju í ágúst og því hef ég verið að færa mig yfir á klifurvélina af skíða og hlaupabrettunum en held þó óbreyttir stefnu í lóðum og vélum.
Við vorum báðir að vinna um helgina ég og eldri kúturinn en hann kom glaður heim á miðvikudag eftir vel heppnaða ferð í Þorpið með kærustunni. Hann náði að hitta móður sína þrisvar til fjórum sinnum og náði úr sér mestu gremjunni sem farin var að blunda í honum. Hann er farinn að hlakka til skólans og markmiðum rignir yfir mig. Hún var góð að venju kútavikan sem lauk á föstudag. Við röltum um einmana borgina og spor okkar lágu víða. Húsdýragarðurinn stóð fyrir sínu og þar bögglaði Júdas sér inn í barnajárnbrautarlest að beiðni kútsins sem lét sér ekki eina ferð duga en og vildi hafa pabbann með í þessu. Vinurinn byrjaði á leikskólanum aftur á þriðjudag og þar skyldi ég hann eftir með tárin í augunum sem breyttust þó í gleðitár því hann var himinlifandi glaður og vildi varla hætta leik þegar ég náði í hann.
Það hefur verið mikil værð í mér þrátt fyrir stressið í kringum mig og eitthvað innra með mér segir mér að ég sé jafnvel tilbúinn. Tilbúinn í hvað? Tilbúinn í eitthvað? Tilbúinn í önnur spor? Eða kannski bara tilbúinn í einveru annan vetur? Ég er ekki frá því að ein af sporunum sem á vegi okkar urðu um helgina væru múmínspor en hvað veit ég? Júdas finnur ilminn út um allt og það eina sem hann gerir er að njóta hans og láta þar við sitja. Sumir breytast lítið og aðrir ekki neitt. Júdas er samur við sig....
Vonirnar koma og hverfa
hverfa og koma í ný.
Í kvöld sá ég sólbjarta svani
sveima upp við gullofin ský.
Þeir hurfu sem dýrlegir draumar
út í dimma hvelfingu blá.
Ég var eins og ókunnur gestur
með ást mína, löngun og þrá.
Þýtt-Þorst.Sveinsson
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.8.2008 | 10:32
Einn kemur þá annar fer
Þetta er yndislegur dagur. Þótt eldri kúturinn hafi farið til Þorpsins með kærustunni og á móðurslóðir kom sá litli til mín í fyrradag. Ég heyrði pabbahrópin utan af bílastæði þar sem ég sat við eldhúsborðið þreyttur eftir mikla vinnu og ekki frá því að stress ásamt mikilli kaffidrykkju sé farið að segja til sín. Við okkur brosir þessi fallega helgi og einmanaleg borgin sem verður bæði myndræn og ljóðræn í þessum tómleika sem á henni dynur um Verslunarmannahelgar og líklega bætist við fallegt kyrrlátt regn og fullkomnar þetta. Það virðist þó ævinlega vera einhver seiðandi ljómi yfir henni á slíkum dögum og það er eins og borgin láti þreytuna á ys og þys hversdagsins líða úr sér og sýni okkur fegurð sýna á allt öðrum nótum en venjulega enda ekkert sem truflar. Því munum við feðgar, uppteknir hvor af öðrum fara víða og ekkert sem gæti truflað okkur í því að bæta hvor öðrum upp þann tíma sem fjarlægðin hafði af okkur.
Hann hringdi í mig í gærkveldi, eldri kúturinn og spurði mig hvort ég væri búinn að gleyma sér því ég hafði ekkert hringt í hann frá því hann fór. Hann á það til að rukka mig um áhyggjurnar sem ég á að hafa af honum en ég vildi nú bara leyfa honum að vera í friði í móðurfaðmi en fékk að vita það að faðmurinn hafði ákveðið að farið úr bænum svo hann og kærastan fengu inni í bílskúr hjá bróður hans en verða hinsvegar að sturta sig hjá afa og ömmu. Örlítið öðruvísi en ætlað var en nægjusemin og æðruleysið kom til bjargar.
Njótið dagsins
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
Júdas
Eldri færslur
Færsluflokkar
Bloggvinir
- tilfinningar
- tolliagustar
- lindalea
- kisabella
- siggasin
- saxi
- svavaralfred
- ein
- gisgis
- totally
- mofi
- vilborgo
- rebby
- scorpio
- gurrihar
- erla1001
- stormsker
- aslaugh
- jensgud
- eggmann
- blossom
- gretaulfs
- limran
- malacai
- arabina
- toshiki
- gurkan
- gelin
- asarich
- kona
- neytendatalsmadur
- myndamen
- brandarar
- little-miss-silly
- rose
- hebron
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar