Endir eða upphaf

     Það hefur margt gerst í lífi Júdasar frá því hann bloggaði síðast.  Síðasta færsla var sett inn 30. maí en tveimur dögum seinna má segja að kaflaskil hafi átt sér stað og nýtt líf hjá honum og ungu konunni hafi í raun hafist.  Tími sannleikans rann upp hjá þeim báðum.  Tími uppgjörs á lífinu síðasta áratuginn og almættið virtist stíga hratt og örugglega inn.   Nú skildu tungur tala hreint út og lygin láta undan.  Feluleikur fortíðar tókst á við frelsi framtíðar, rétt var rétt og rangt var rangt.  Júdas tók af skarið eftir að  unga konan hafði aftur horfið út í nóttina í leit að niðurbrotnum  samhljóma sálum og var aftur komin,  umvafin draugum fortíðar.  Unga konan var einhvern veginn svo falleg að innan þrátt fyrir allt og sagði Júdasi sannleikann aftur og aftur og gerði það líka núna.  „ Ég virðist ekki stjórna þessu, ég ræð ekki við mig“ sagði hún döpur og Júdas sem hingað til hafði geymt og grafið  slæma hluti fyrir öllum nema Almættinu og hafði hingað til álitið að sú fyrirgefning nægði fann það í hjarta sínu að hann varð……..alveg sama hvað myndi gerast.  Hann elskaði hana út af lífinu og vissi vel að hann gæti misst hana að eilífu ef hún vissi allt en hann varð……

Hún hlustaði og grét  og síðan hvarf hún út í sólarupprásina og svaraði engu.  Ef til vill myndi Júdas ekki sjá hana aftur en sannleikurinn var samt kominn út úr myrkrinu og inn í ljósið og þar ætlaði Júdas að hafa hann.  Sá dagur myndi koma að hjarta hans myndi róast á ný og söknuður ásamt annarri vanlíðan myndi víkja.  Þannig vinnur Almættið.  Júdas sá ekki eftir þessu og það varð honum svo ljóst að nú þegar hafði hann sigrað í þessari baráttu milli góðs og ills myndi sá sigur myndi ala af sér eitthvað gott.  Veik von var í brjósti hans um að þetta markaði upphaf einhvers milli hans og Ungu konunnar sem þó var horfin.


Hvenær gefstu upp á mér ?

     Þau sitja á móti hvort öðru og haldast í hendur.  Júdas sér neistann í augum hennar og handartakið er innilegra en áður.   Rétt áður færði  hún honum föt í fataklefann og varð að kyssa hann í hvert skipti sem hún færði honum eitthvað.  Nú var þetta að koma en baráttan heldur samt áfram og hún er ekki enn orðin hún sjálf.   Júdas horfir á öll pör sem hann sér og fylgist með þeim.  Þau brosa og virðast áhyggjulaus, ástfangin og engu líkara en að líf þeirra sé fullkomið.  Hvenær verður þetta aftur svona ?

     Brotin raðast þó saman hægt og rólega, stundum er eins og þau passi en myndin alls ekki sú sama, eða þá að myndin er eins en kubbarnir ganga ekki hvor að öðrum.   Löngun Ungu konunnar til að vera eins og hún var er mikil og hún biður almættið heitt og innilega að grípa inn í eins og lofað er í orðinu.  Saman krjúpa þau, lesa, faðmast og leita uppi staði þar sem hjálp gæti verið að finna.  Reyna sem flest.  

     Hún mætti eigin skugga í gær, var niðurlút þegar Júdas kom heim, faðmaði hann og horfði vonleysisaugum á hann.  Fyrirgefðu mér……… hvenær gefstu upp á mér ?  Enn ein andvökunótt, fann að hún var ekki í rúminu og fór að leita, fann hana, faðmaði hana, elskaði hana.  Rifjaði upp orð almættisins um það hversu oft ætti að fyrirgefa.  Júdas elskar hana og getur því ekki annað.  Nýr dagur rennur upp og ný von með honum.  Draugar fortíðar hafa hneppt hana í álög og sú glíma virðist stjórna lífi okkar.   Hún elskar hann samt í dag en hvað gerist á morgun ?


Hvernig gat þetta gerst?

     Undarlegt líf þessa dagana hjá Júdasi og minnir í mörgu á myndina 50 first dates.  Hvað gerðist á tveimur vikum……..Unga konan elskar hann ekki lengur eða finnur allavega ekki fyrir því. Hún sem talaði um klettinn, ástina, jafnvel giftingu…… Hún er skotin í Júdasi, segir hann besta vin sinn og vill vera með honum, búa með honum, þjóna honum, þiggja frá honum og láta hann þjóna sér en…….hjartað er dofið og hún finnur ekki ástina sem hún veit þó að hún ber til hans.  Finnur ekki fyrir þessari tilfinningu.  Hann verður því að heilla hana upp á nýtt, rifja upp með henni gamlar góðar stundir, sýna henni gamlar myndir og koma ilminum í loftið á ný.   Í dag virðist þetta snúast við.  Ástsjúkur gamall maður reynir að læra af gamalli biturri reynslu og láta hjartað og almættið ráða för. Þeir sem þekkja drauga ungu konunnar segja að þetta sé eðlilegt og bæði vilja þau trúa því.  Hann segir „ Ég elska þig“  og hún segir „ þú ert góður við mig“ eða „ þú ert yndislegur“.   En þetta er ekki nóg og það vita allir.    Júdas vaknar um miðjar nætur og biður hana að faðma sig,  fer jafnvel einn og stendur við gluggann og starir á stjörnurnar þangað til hún finnur hann og faðmar.  Saman ætla þau í gegnum þetta og trúa því að almættið hafi gefið þeim loforð og fögur fyrirheit. Þeim detta sömu hlutir í hug á sama tíma og lausnir færast nær þeim að því er virðist.  Þau trúa því bæði að Hann hafi ætlað þeim hlutverk, köllun eða ......ekki!?


"Þú ert kletturinn minn"

     Þegar Júdas keyrði heim í dag fylltist hann gleði yfir lífinu og tilverunni.  Þarna koma það sem hann var að bíða eftir.  Þessi sterka gleðitilfinning sem gagntekur mann án sérstakrar ástæðu eða tilefnis.  Þegar leiðir þeirra skildu fyrir mörgum árum þjösnaðist Júdas áfram í tilverunni þrjóskur og leiðinlegur og lét sem hann heyrði ekki rödd hennar sem þó reglulega barst honum til eyrna og ilmurinn sem barst með henni þegar hún kom að sækja kútinn virtist ekki dáleiða hann eins og áður. Dag einn að hausti laust niður þeirri staðreynd að hann fann ekki þessa gleðitilfinningu og hafði ekki fundið hana lengi.  Eftir mikil heilabrot varð honum það ljóst að líklega hefði hún horfið með Ungu konunni sem enn var að leggja fyrir hann snörur og virtist elska hann jafn heitt og áður ef ekki heitar.   Það gerðist eitthvað á þeirri stundu og næst þegar þau hittust virtist hún sjá það.  Brotunum var raðað saman.  Það þarf oft svo lítið til að sundra, jafnvel bara rangt svar við rangri spurningu………..

     Hún hringdi í dag svo glöð.  Enn ein uppgötvunin hafði verið gerð, nýtt ljós kviknaði og orsök eirðar-leysis hugans gæti verið fundin. „Nú fer ég að koma.“   „Þú þarft ekki að vera betri við mig“ sagði hún og stoppaði Júdas í orðaflaumi um það sem hann vildi gera fyrir hana.  „þú ert kletturinn minn“.

Júdas elskar hana.


Vor með henni

     Þetta var dagurinn.  Dagurinn sem Júdas vissi en hélt ekki, dagurinn sem hann sá það og heyrði að Unga konan var hans og hún var á leiðinni til hans aftur.  Hún elskaði hann.  Hún talaði um ókomið sumarið, fallegu fjölskylduna sína og einhvern myndarlegan gamlan mann sem hún ætlaði að eiga margar fallegar stundir með.  Við þurfum að gifta okkur sagði hún og í augum hennar var greinilegt að hún meinti það og einnig að hún var hún……..en ekki hin. 

     Ég fer að koma sagði hún og Júdas trúir því.  Getur verið að örvæntingin sé búin og allar slæmar tilfinningar hafi kvatt hann á þessu augnabliki?  Geta hversdagslegir hlutir nú aftur farið að gleðja Júdas, rigningin, fuglasöngurinn, kaffiilmurinn og þögnin?

     Svartur febrúar og grár mars tilheyra nú fortíðinni og eru farnir að hverfa úr minningunni.  Einn dag í einu, sagði hún en talar samt um sumarið og framtíðina.  Hún var svo falleg og hún var svo mikið hún sjálf en djúpt í augum hennar var samt neisti sem Júdas hafði ekki séð áður.  Og svo talaði hún öðruvísi. Var raunsærri, dýpri, ljóðrænni, meðvitaðri.  Meðvitaðri um mátt sinn og veikleika og þá fullkomnun sem það mun leiða af sér því mátturinn fullkomnast í veikleika.

Það er vor í vændum, vor með börnunum og vor með Ungu konunni. Vor með henni......sem ilmar.


Það verður ekki flúið frá þessu

     Júdas er rólegur í dag.  Situr við eldhúsborðið með kaffibolla og drekkur í sig vísdóm og þekkingu einhvers sem gæti hafa upplifað það sama og hann eða ekki.  Ólíkt Júdasi, allt nema kaffibollinn.  Bókin fjallar þó ekki um ástsýki gamals mans eða hlaup einhvers yfir hæðir og hóla hrópandi nafn þeirrar sem hann elskar.   Hún fjallar ekki heldur um það hvernig gamall maður á að umgangast unga konu eða hvort einhver sem efast um ást einhvers eigi að snúa við honum bakinu á augabragði til að bjarga sjálfum sér frá uppnámi og tilfinningalegum skaða.  Það er heldur ekki víst að Júdas klári þetta verkefni en honum finnst Unga konan eiga það skilið enda kom beiðnin frá henni.  Í huga Júdasar sem er með alla hluti á hreinu og veit flest var þetta ömurleg hugmynd og síðasta bókin á safninu sem hann myndi lesa.  En svona getur maður komið sjálfum sér á óvart.  Unga konan þarf ekki annað en að hringja til að Júdas verði rólegur.  Aldrei áður hefur kona haft þessi áhrif á Júdas.

     Það verður líklega ekki flúið fá þessu því oft hef ég sagt að börnin eigi það skilið að alast upp hjá báðum foreldrum ef hægt er.  Möguleikinn er þarna og virðist standa Ungu konunni augljósari en Júdasi.  Það er samt auðveldara að segja þetta úr fjarlægð en í návígi.  Orð skulu standa.


Líta í kringum sig og bíða

     Júdas hefur komist að niðurstöðu enda verða allar bestu hugmyndirnar til áður en nokkur fer á fætur.  Eftir spjall við almættið og eintal við sjálfan sig komst hann að því að hann ætti að einbeita sér að kútnum, kútínunni og sjálfum sér.  Jafnvel hætta að finna ilminn um tíma, það væri best fyrir hann sjálfan.    Það er samt ekki víst að hann geti stigið það skref því þótt Júdas sé eigingjarn á það sem hann á og það sem hann fær, jafnvel að láni er hann ekki alslæmur.  Það að hann finni ilminn getur verið betra fyrir aðra en hann, betra fyrir Ungu konuna og ekki víst að hann vilji skemma þau lögmál sem þar ráða ríkjum.  En hann verður samt að hugsa um sjálfan sig.  Að bíða dag eftir dag og vorkenna sér, leggjast í tómt rúmið, hella upp á fyrir sjálfan sig, faðma loftið í kringum sig, þrá tálsýnir og gera sér vonir um eitthvað sem hann hefur ekki stjórn á getur aðeins gert hann dapran.  Hann er hættur að treysta, nema almættinu.  En það er ekki eins og hlutirnir séu skrifaðir í skýin, að minnsta kosti getur Júdas ekki lesið út úr neinu.  Hann getur ekki reitt sig á eigið hyggjuvit lengur og það vissi hann fyrir.  Það hefði verið betra að hún hefði farið fyrir fullt og allt, farið og sagst aldrei koma aftur farið og látið hann í friði en ekki sagst elska hann og að hún ætlaði að koma aftur heil, þegar henni hentaði. 

     Þetta blogg er farið að fara í taugarnar á mér.  Innan tómt væl, hring eftir hring og karlmennskunni vikið til hliðar.  Nú fer færslunum að fækka sem betur fer.  Júdas þarf samt að finna ilm og ætti því að rétta úr sér, líta í kringum sig og bíða.  Taka ákvörðun fyrir hana.


Ég geri hvað sem er......

     Júdas gerði það fyrir hana.  Hann kom og þau sátu tvö fyrir framan þau.  Spurningar, vangaveltur, skoðanir, svör.  Júdasi fannst þetta óþægilegt en sannleikurinn lá samt í loftinu.  Hann var einlægur, öruggur en kannski alltaf jafn þrjóskur og staðfastur í því að hans leiðir séu réttu leiðirnar.  Þannig er Júdas,  þannig kemst hann af og þannig telur hann sig vernda fjölskylduna.  En sú hugsun læðist samt að honum hvort hann kúgi hana eða taki ákvarðanir fyrir hana í skjóli verndar eða eigin réttsýni.   Getur verið að Júdas sé á rangri braut og til séu leiðir sem séu greiðfærari og ljúfari í átt að frelsi og hamingju.  Hann taldi sig hamingjusaman, lífsglaðan, elskaðan, saddan þar til örvæntingin hélt innreið sína. 

     Unga konan sagðist elska hann og svo sem ekki í fyrsta skipi,   „Þú verður að trúa því, ég vil bara ekki koma fyrr en ég hef sigrað“.   Hún er svo falleg,  hún var svo góð.  Hvað gerðist ?  Verður einsemdin lengri, verða þær stundir þar sem gengið er um gólf áhyggjufullur og dapur mikið lengri ?  Það virðist vera.  En ef hún kæmist nú að því þegar djúpt í hugarfylgsnin er kafað að þessi gamli maður væri ekki sá rétti.   Að hann væri haldreipi og tilkominn út af eigin vanlíðan en ekki sá rétti…….Það óttast Júdas.

     Einn daginn glaður og fullur bjartsýni, hinn daginn dapur og söknuðurinn allsráðandi. Jafnvel hvoru tveggja sama daginn. 

     Júdas taldi sig hafa elskað áður en líklega hafði hann aldrei gert það. Birtingamyndir væntumþykju geta verið margslungnar.   Unga konan átti hjarta hans enn eftir öll þessi ár. 

Guð, ég elska hana eina,  taktu hana ekki frá mér……ég gerið hvað sem er!


Dagur sannleikans

     Júdas losaði sig við byrðarnar i dag.  Hann ákvað að hugsa um sjálfan sig í þetta skiptið.  Vera ekki uppbyggjandi, vera ekki hughreystandi,  vera ekki hvetjandi, vera ekki sá sem situr hjá og horfir á.  Hann heyrði í henni og hún  átti vafalaust von á fallegu uppörvandi samtali en komst ekki að.  Hún sagði nei en Júdas sagði jú.  Hún sagði seinna en Júdas sagði strax.  Út skildi þetta fara núna en ekki síðar. Hún gaf eftir og hlustaði, hlustaði og hlustaði………… Orðin streymdu frá Júdasi og hún hlustaði. Að endingu sagði hún „ég vissi það ekki,fyrirgefðu. Fyrirgefðu mér„

     Þetta voru orðin sem Júdas þurfti að heyra.  Hann var löngu búinn að fyrirgefa henni en hann heyrði aldrei orðin frá henni.  Nú voru flest spil á borðinu og þau síðustu féllu síðar þennan fallega dag. Dag sannleikans.  Hún átti síðasta orðið og sannleikurinn var fundinn.  Andi hans sveif yfir en þyngsli Ungu konunnar vegna hennar byrða voru mikil.  Sannleikurinn getur valdið sviða og það gerði hann svo sannarlega en hún er sérfræðingur í þessari glímu og hefur háð hana áður en nú með aðstoð Hans sem huggar.  Nú getur uppbyggingin hafist. 


Í dag er samt ekki tími værðar

     Það var eitthvað ljúft við þennan dag þótt hann færi höktandi af stað.  Kútínan grátandi út af öllu og hékk um hálsinn á Júdasi í leikskólanum eins og venjulega.  Kúturinn fór snemma á fætur eins og gamli maðurinn og talaði út í eitt. Júdasi fannst hann finna ilminn og hjarta hans fann til tilhlökkunar og gleði sem hefur vantað síðustu vikur.  Að minnsta kosti þessa stundina.  Kannski vegna þess að símtölum við Ungu konuna fjölgar og fullvissan um ást hennar eykst með degi hverjum.  Er á meðan er.  Júdas hefur oft sagt það að þótt hann ætti ekki eftir að hafa þessa fallegu ungu konu sér við hlið alla ævi yrði hann þakklátur almættinu fyrir þær stundir sem hann fengi með henni og myndi njóta þeirra til fulls.  Þetta voru þó orðin tóm og þegar kveðjustundin virtist komin var hann aldeilis ekki tilbúinn til að sleppa.  Júdas trúði því ekki að þetta væri tíminn, hann trúði því ekki að stundin væri kominn.  Harður Júdas varð sem leir og gæti hann grátið hefði þetta verið tíminn.  Örvæntingin gaf honum þó kraft. Drottinn gaf og drottinn tók hljómaði samt í huga hans en þetta gat ekki verið tíminn.  Hún gekk út í myrkrið og varð sú sem hún hræddist.      

     Í dag er samt ekki tími værðar.  Í dag er tími þakklætis og tími eftirvæntingar.  Allavega þessar klukkustundirnar þar til sársaukinn og söknuðurinn taka yfir.  Það er þó ekki víst því vegir almættisins eru jú órannsakanlegir og orð hans virðast streyma til Júdasar endalaust og alla daga til huggunar og áminningar.


Næsta síða »

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband