Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Nærgætni og tillitssemi

     Nærgætni og tillitssemi  hefur alltaf verið hampað sem jákvæðum eiginleikum og ef einhver er nærgætinn eða tillitssamur er sá hinn sami hið mesta ljúfmenni, maður með rétt viðhorf. Sá tranar sér ekki fram, grípur ekki frammí fyrir neinum, anar ekki út í eitthvað af tillitssemi við einhvern og er ekki frekur og ráðríkur við einn eða neinn. Fer sér semsagt að engu óðslega og er stöðugt að hugsa um ímyndaða líðan annarra en gleymir jafnvel sjálfum sér.    Hvenær verður nærgætnin of mikil og hvenær breytir hún um ásjón og verður afskiptaleysi jafnvel nett sjúkleg og verður þess valdandi að vegna „nærgætni“ og „tillitssemi“  borgar sig ekki að leita aðstoðar eins eða neins til að trufla ekki viðkomandi og angra ekki nokkurn mann.   Ég veit um einn sem oft var hringt í ef eitthvað vantar eins og aukamann í málningarvinnu,  einn til í flutninga,  akstur hingað og þangað og þar fram eftir götunum.  Sá var hinsvegar af tillitssemi við alla einn af þeim sem aldrei hringdi eftir neinni aðstoð og til að trufla ekki nokkurn mann hefur hann lent einn í flutningum, einn í framkvæmdum, einn í málningarvinnu, einn á jólum og þar frameftir götunum.  Keyrir jafnvel framhjá á leið í kaffispjall til að trufla ekki, allt af  tillitsemi og nærgætni við alla í kringum hann.  Þessi maður fer ekkert smá í taugarnar á mér og er ég sannfærður um að það er eitthvað að honum.  Annað hvort er þetta sjálfskaparvíti illa gefins manns eða frábær eiginleiki nærgætins manns sem verður reiknaður honum til tekna þótt ég viti ekki hvar og hvenær.  Ég hallast þó á það fyrra en sé þetta reiknað til tekna er það heldur betur ljóst að af honum verður dregin afskiptaleysisskattur og einverugjöld og svo áætlað á hann næstu árin.  Þvílíkur ræfill.


Kúturinn veikur

    Litli kúturinn minn er enn með háan hita og ég tók við honum um hádegi svo mamman getir farið í vinnu.  Þannig höfum við alltaf skipt veikindadögunum til að bæði geti verið í vinnu hálfan daginn.  Hann er með nærri 40 stiga hita, kvefaður og með í hálsinum, lítill og erfiður en hjúfrar sig í hálsakotinu þess á milli og dottar.  Rjóður í kinnum og reynir að brosa örlítið þegar pabbinn gerir eitthvað fyndið.   Þau eru svo lítil á svona stundum og mér skilst að hjá okkur körlunum hætti þetta aldrei og við séum alltaf eins og börn þegar við verðum veikir.  Ég veit ekki hvort þetta er satt  stórlega ýkt en man samt að það er betra að vera veikur og eiga konu en vera veikur og eiga hana ekki.  Átta mig samt ekki á því hversvegna.    Við erum búnir að horfa á nokkrar myndir en val á hverri mynd tekur um 10 mínútur því pabbinn er ekki að skilja bendingarnar, hummið og höfuðhristinginn sem kemur þegar eitthvað er vitlaust gert.  Hann sofnaði rétt í þessu hjúfrandi sig í handakrikanum á mér svo ég nota tækifærði og skrifa örlítið á bloggið áður en ég hefst handa við verkefnaskrif.   Ég sé að það er rigningaspá fyrir alla helgina og þar fyrir utan er þetta fríhelgi svo þetta gæti orðið notalegt en ef vinurinn  verður veikur verður maður inni í hlýjunni.  Mér var að detta það í hug að gera piparkökuhús með honum og unglingnum en við gerðum þetta nokkrum sinnum við eldri feðgar hér áður og skreyttum með kinderegg  figurum sem hann átti þá.  Síðan var í eitt skiptið búin til stuttmynd með tónlist þar sem fókusað var upp að húsinu og allt í kring.  Ef það verður ekki gert núna um helgina verður það fljótlega því ég veit ekki hvort kúturinn verður nógu ferskur í það.  Kemur í ljós.


Bauð honum líkama sinn.

Bekkurinn okkar        Ég er búinn að hugsa svo mikið um ástina í dag,  hvað hún gefur og hvað hún tekur, og hvort  þessi sterka löngun í að vera elskaður  sé eitthvað sem eigi að berja niður eins lengi og hægt er.  Ef til vill  er ástin bara „flensa“ sem gengur yfir og allar áhyggjur óþarfar.  Það er svo sem ekki mikil hætta á ferðum hjá manni sem vinnur mikið og fer lítið svo ég tali nú ekki um misheppnaðar tilraunir hans til að fara út á lífið en enda upp í sófa.  En svona er kannski bara lífið og ef það er þannig er ég bara býsna góður í því.  Allavega í öðru sæti miða við það að vera ekki góður í neinu eins og ég hef haldið hér fram.  Ég er að reyna að setja saman í huganum en kem því ekki á blað núna, hugsanir mínar varðandi fallega umhyggju elskenda á litlum slæmum stundum eins og andvökustunum og áhyggjustundum þar sem annar aðilinn umvefur hinn......og svæfir hann.......mér finnst það svo fallegt og rifja upp setningar úr gömlu Ísfólksbókunum sem ég las fyrir mörgum árum síðan þar sem hún fann þegar honum leið illa og bauð honum líkama sinn.  Hún var konan hans og mér fannst þetta svo fallegt.  Ég vona að ykkur finnst ég ekki ruglaður, ef til vill orða ég þetta illa og vafalaust myndu einhverjar feminískar konur setja út á þetta og tala um misbeitingu og löngun beggja á sama tíma og þar fram eftir götunum en ég sé ekkert svoleiðis í þessu.   Mér finnst þetta fallegt og sýna svo sterka ást.  Ef til vill kem ég þessu ekki vel frá mér og ætti að hætta núna.   Það er erfitt að lýsa þessu.     Rómantískar heitar stundir og tangó þar sem allt logar blikna í samanburði við þessar litlu fallegu stundir sem tilheyra hversdagsleikanum og sýna raunverulega ást og raunverulega væntumþykju.

Ég geng eftir stígnum sem er umvafinn ilmandi gróðri
og leita að ástinni
sem ég þrái að eignast.

Á göngu minni heyri ég niðinn frá læknum
og fuglana syngja í trjánum.

Á bekknum situr ástfangið par.
Kyssist.
Lætur vel hvort að öðru.

Ég á stutt eftir að enda stígsins
ennþá finn ég enga ást.

Kannski er hún ekki til?


Konan sem les af rafmagninu.

     Loksins kominn heim í kotið eftir skemmtilegan dag og búinn að vera óvenju kátur.  Ég las póst í morgun og hann bæði skelfdi mig og gladdi.   Gleðin hlýtur að hafa verið ofan á því ég var sagður óvenju brosmildur í dag og ég fann það sjálfur.   Ótúrlegt hvað rafræn samskipti geta gert fyrir mann.  Nú sit ég við eldhúsborðið með tölvuna fyrir framan mig og umkringdur pappír enda þarf ég að vinna að þessu verkefni í allt kvöld.  Ég ætla líka að hjálpa eldri kútnum, unglingnum í stærðfræði, nánar tiltekið í algebru og ég er farinn að hlakka til því ég hef svo gaman að henni.  Á leiðinni heim kom ég við hjá barnsmóðurinni, ungu konunni til að líta á litla kútinn minn því hann fór á leikskólann í morgun hitalaus en henni fannst hann frekar þreytulegur og heitur þegar hún sótti hann.  Mér fannst hann líka heitur en mældi þó ekki hita svo þetta kemur í ljós í fyrramálið.   Hún var að hringja aftur og hitinn á uppleið svo greinilegt er að hann fer ekki í leikskólann á morgun.  Hún verður með hann í fyrramálið og ég tek við eftir hádegi.  Bank, bank.   Ég hljóp niður á meðan ég var að skrifa þetta og hver haldið þið að hafi staðið í dyrunum?  Konan sem les af rafmagninu. Ótrúlegt en satt.   Kona um sextugt í slæmu formi svo ég verð að leita á önnur mið.   Mig minnti í eymdinni að hún væri yngri og myndarlegri.   Þar fór það.


Er meðalmennskan komin til að vera?

     Orðið meðalmennska kom upp í huga minn strax og ég vaknaði í morgun.  Þetta er orð sem lýsir mér vel en ég hef aldrei sætt mig almennilega við og á ábyggilega aldrei eftir að gera það.  Það er sama hvar drepið er niður í líf mitt, meðalmennska hefur verið þar allsráðandi alla tíð bæði í skóla og vinnu, íþróttum og áhugamálum.  Flestir feta þennan veg meðalmennskunnar svo mér ætti ekki að leiðast í þessum hópi en vonandi eru menn ekki almennt svona óánægðir með það eins og ég.  Ég ætla samt ekki að gera of mikið úr þessu því ég er ekki þjakaður og þunglyndur úr af þessu heldur bara óánægður og hnýt við þessa staðreynd annað slagið.  Það að vera ekki góður í neinu er furðulegt en samt er tilfinningin sú að það hafi í raun aldrei verið lagt í hlutina nema í samræmi við árangurinn og því gæti þessi meðalmennska verið útskýranleg og ekki spurning um getu heldur vilja.   En er það ekki dapurlegt að velja sér stall í meðalmennsku og vera svo ósáttur við það?   Ég menntaði mig en bara ekki nógu mikið,  ég stundaði íþrótt og vann til verðlauna en hefði getað gert betur og hvað skilur það eftir sig?  Ég eignaðist fjölskyldu en hélt ekki nógu vel utan um hana.  Ég bjó út á landi en gerði það allt of lengi.  Ég ætla ekki út í borgina með þessar vangaveltur í farkestinu því þær ergja mig, svo oft hafa þær drepið á dyr.  Ég bý í fallegri íbúð á góðum stað í borginni og vel mér hlýlegt en ekki íburðarmikið umhverfi.  Ég skulda lítið, mér leiðist glys og vel mér öryggi frá degi til dags en ekki afborganir og yfirdrætti.  Allt sem ég geri byggir á því að synir mínir eigi skjól og þak yfir höfuðið og öryggi jafnvel þótt ég yrði frá að hverfa.  Sápukúlulausnir eiga ekki við mig og áhætta er eitthvað sem ég forðast og þar liggur kannski hundurinn grafinn.  Ég sit heima, horfi út um gluggann, bíð og vona.  Þetta var gott púst,  góður dagur framundan og best að koma sér úr í meðalstóra smáborgina,  á meðalstóra bílnum sínum enda meðalmaður á hæð og ég er ekki frá því að ég sé í kjörþyngd líka.  Mér þætti vænt um að þessir átta sem koma að jafnaði inn á þessa meðalstóru bloggsíðu nenntu nú að commenta meira á mig svo Jónína vinkona sé ekki ein í þessara sálfæði.  Ég er strax farinn að sakna Örnu og ætla að vona að þú Jónína sért ekki líka að fara að hætta þessu. 

Hvenær ætli konan komi til að lesa af rafmagninu? J


Kúturinn veikur

     Litli kúturinn minn er með hita.  Mamma hans var með hann heima í gær og ég með hann heima í dag.  Hitinn er ekki hár en það er alveg með ólíkindum hvað þessi ærslavél getur hamast þótt hann sé með hita.  Ég hélt að hann yrði eins og stundum þegar hann fær hita, rosalega rólegur og blíður en það vantar bara að hann hangi í gardínunum.  Hann var reyndar að sofna í þessum skrifuðu orðum svo pabbinn gamli getur lagað sér kaffi á gamla mátann og slakað aðeins á.  Ég ætla nú samt að reyna að komast á æfingu um kvöldmatarleytið til að lífga upp á andann en ég átti ágætis æfingu í gær.  Gamall kunningi,  garpur úr bransanum sendi mér matarprogram með orðunum „hlakka ég til að sjá kallinn vaxa og dafna“ .    Sá er nú bjartsýnn en ég ætla samt að hreinsa mig af ósómanum í vikunni og hella mér í þetta e.helgi.  Segjum það allavega núna.  Það fylgdi þessu broskall svo ef til vill er einhver glens á bakvið þetta.   Ég þarf að leggja mig allan fram þessi kvöld í vikunni  sem eftir eru við nokkur verkefni vegna vinnunnar en í gærkveldi fór ég af stað í þeim og gekk ágætlega.  Einnig þarf ég að hjálpa unglingnum á heimilinu í stærðfræði því mér sýnist að hann sé orðinn aðeins á eftir í henni og prófin byrja hjá honum eftir tæpar fjórar vikur.   Það sem tíminn flýgur og jólin nálgast.  Látum þetta duga í dag.  

Gott að sitja þarna við gluggann

      Ég brá mér í morgunsárið inn á þann ágæta stað á Suðurlandsbrautinni Kaffi Copenhagen, staðráðinn í að fá mér morgun mat sem þar er alltaf til reiðu á morgnanna.  Frábær staður, góð þjónusta og gott að sitja þarna við gluggann í nettri rigningu og bíða eftir að draumadísin komi inn og setjist hjá manni.    Ég reikna samt ekki með því að dagurinn sé kominn og þar fyrir utan er ég ekki glaðlegur, órakaður og þungbrýndur.  Jólin eru endalaust að koma upp í huga minn, mikill annatími og ekki komið á hreint hvernig litla feðgaveldinu verður púslað saman.  Ég stakk upp á því um daginn við barnsmóður mín þá ungu að hún yrði bara hjá okkur á aðfangadagskvöld svo feðgarnir yrðu sameinaðir og tók hún vel í það en nokkrum dögum síðar komu efasemdir upp í henni og hún sagðist ekki vera viss um að hún höndlaði yndislega stund en enda svo ein heima hjá sér á eftir.  Ég sagði henni að auðvitað gæti hún farið með kútinn með sér jafnvel þótt þetta yrði mín vika því það gæti fært henni birtu og yl út kvöldið og ég ætti ekki í neinum erfiðleikum með að höndla það.    Hún var efins.  Lausir endar eru líka með unglinginn en vilji hans er það sem skiptir máli og hann er alltaf að reyna að treysta sambandið við móður sína þótt það gangi ekki allt of vel.   Þetta veldur mér örlitlum áhyggjum, og hallast ég æ meira á þá skoðun sem áður var andhverf að fjölskyldu eigi ekki að sundra og berjast eigi gegn sundrungu fram í rauðan dauðann.   Það er flott að vera að fatta þetta fyrst núna fjörutíu og eins árs gamall en svona er þetta bara.    Best að slafra í sig,  drekka einn tvöfaldan espresso, og keyra út í borgina í von um rigningu.                                                                                                                                                                                    


Ég er ekki pung-gella!

     Ég græddi einn dag til með kútnum mínum því móðir hans bað mig um að vera með hann nótt í viðbót einhverra hluta vegna.  Þegar ég vaknaði í morgun kl 6 fullur af orku byrjaði ég á því að hella mér í þvottahauginn og braut saman þvott eins og óður maður en þetta er það heimilisverk sem ég fer alltaf síðast í og hef oft velt því fyrir mér hvort ég eigi að fá einhverja væna konu til að gera þetta fyrir mig tvisvar í viku gegn greiðslu. Ég er samt nokkuð góður í þessu þótt ég segi sjálfur frá og er með óteljandi sérviskutakta með samanbrot á bolum og skyrtum en það er þó eitthvað sem þessi kona gæti auðveldlega sett sig inn í.   Þegar kúturinn vaknaði svo um sjö leytið var ég búinn að brjóta allt saman og við tók ferð um eldhúsið með kútinn í fanginu í leit að því sem hann benti á hægri og vinstri því hann veit nákvæmlega hvað hann vill en pabbi gamli ekki alltaf með það á hreinu. Ég keyrði hann svo til mömmu sinnar og hélt mína leið til vinnu vel undir annasaman dag búinn.   Unga gifta sms konan átti við mig nokkur símtöl í dag og fleiri sms, daðraði mikið og ég var ekki frá því að sumt af því sem hún sagði væri bara komið upp af daðurstiginu og orðið nokkuð klúrt en best að láta þetta ekki trufla sig.  Eitt er þó ljóst að aldur hennar er meiri fyrirstaða en hjúskaparstaða þótt það hljómi illa en svona er þetta bara vegna fyrri gjörða sem fóru þó bara á þann veg sem fyrirsjáanlegur var í upphafi.   Ég var að láta mér detta það í hug að rölta á einhvern nálægan pubb í kvöld nú eða fjarlægan en veit ekki hvort það borgar sig vitandi það að ég verð kominn heim aftur um miðnætti blóðlatur til skemmtanahalds.  Var að ákveða það eftir að vera búinn að sötra úr einum Grolsch að fá mér annan í von um að kveikja á einhverjum skemmtananemum sem blætt hefur yfir ef þeir voru þá einhvern tíman fyrir hendi.  En úr einu í annað.   Við feðgar eldri, fórum í rúmfatalagerinn rétt fyrir kl 18 og keyptum okkur haug af handklæðum í nokkrum stærðum, þvottapokum og sitthvor rúmfötin ásamt lökum.  Erum búnir að vera á leiðinni í þetta lengi en létum loksins verða af því.  Ég ætla nú samt að halda því leyndu hér að ég elska svona verslun og búsáhaldaverslanir eru í uppáhaldi.  Til að taka af allan vafa og losa mig við „punggellustimpilinn“  vil ég taka það fram að ég er ekki samkynhneigður með þó fullri virðingu fyrir því ágæta fólki.  Ég er bara furðulegur.   Jólaskrautið sem blasti við mér í Rúmfatalagernum fékk mig til að hlakka rosalega til jólanna og þess tíma sem nú er alveg að koma , tíma jólaskreytinga en við feðgar ætlum að vera sérlega duglegir í þeim pakka, þótt við vitum ekki alveg hver verður hvar þessi væntanlegu blessuðu jól.  Ég gæti endað einn á þeim og það væri þá ekki í fyrsta skipti.  jæja, það er best að opna annan og sjá svo til.  


Blíðar strokur horfnar.

     Ég er búinn að vera haldinn algjörri bloggstíflu og engu vitrænu komið á blað.  Ég hef nokkrum sinnu byrjað en hrist höfuðið og hætt við og velt því fyrir mér hvort ég ætti ekki bara að fara að blogga um fréttir eða grófar skoðanir mínar á hinum og þessum málefnum.   Það var bara ekki hugmyndin á bak við þetta þegar ég fór af stað í upphafi því ég fæ ágæta útrás fyrir þesskonar vangaveltur í vinnunni.  Ég veit ekki hvort ég var búinn að nefna það en ég er alls ekki sígrátandi pung-gella útlítandi eins og lúlli nokkur laukur, grátbólginn og horugur út á kinnar.  Alls ekki.   Fæstir þeir sem þekkja mig myndu þekkja þessa hlið á mér en ég er bara að reyna mitt besta til að „sála“ mig í von um betri líðan.   Ég sagði einhvern tíman við fyrrverandi að ég þekkti varla dapurleika og upplifði gleði tilfinningu og sæluhroll á hverjum degi, jafnvel nokkrum sinnum á dag.   Ég sagði henni að ef sá dagur kæmi að ég fyndi ekki fyrir þessu færi ég að hafa verulegar áhyggjur.   Þær eru komnar því ég finn ekki fyrir þessari gleði daglega.   Það er samt ekki í gangi þunglyndi því þetta á eftir að lagast það er ég sannfærður um .  Ég sakna þess bara svo mikið að elska konu!   Þótt börn veiti manni ómælda gleði, hamingju og ást koma þær tilfinningar ekki í staðin fyrir hinar.   Eftirvæntingin, spennan, aðdáunin, umhyggjan, væntumþykjan, værðin .   Ég man að værðin var algjör og eftir slitin kom i mig eirðarleysi sem er þess valdandi að ég kem engu í verk og finnst lífið vera á langri bið.   Setningar eins og  „get ég gert eitthvað fyrir þig elskan“ eða „ á ég að hella upp á handa þér elskan“ heyrast ekki lengur,  blíðar strokur horfnar og öll umhyggjan sem mætti manni við hvert fótmál gengin burt.   Hversdagslegir hlutir sem ekki voru áberandi frá degi til dags og hefðu þá ekki farið á blað hrópa á mann í minningunni og bergmála í tómleika og söknuði.  Það er ástin sem ég sakna.  Hún verður samt ekki vakin upp,  búin til eða fengin að láni.  Hún hittir mann á förnum vegi,  mætir manni við furðulegar aðstæður eða snertir mann í hversdagsleikanum og ef það gerist verður það vart stöðvað.  Sé hún stöðvuð fylgir minningin viðkomandi alla tíð og hvílir í vitundinni eins og mara. 

Haustið er liðið og veturinn kominn.   Framundan er langur kaldur sálarvetur en niðurtalning hans er hafin nú þegar og gæti það eitt,  glatt dapran mann, frá degi til dags.


« Fyrri síða

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 48796

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband