Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007
15.11.2007 | 07:09
Frelsið er ekki í sjónmáli
Ég fann það í nótt í gegnum svefninn að ég færi dapur inn í þennan dag og finn það núna þegar ég er kominn á fætur að líklega verður það þannig. Það er samt ekkert endilega slæmt hlutskipti því það er nú einu sinni þannig að þegar maður er hryggur eða dapur er eins og sálin dragi í sig eins og svampur allskyns vangaveltur og staðreyndir úr umhverfinu, rökræði við sjálfa sig og dragi upp táknmyndir og líkingar og tilgangurinn auðvitað sá að búa mann undir næstu gleði stundir. Það sýnir manni hve gleymin við erum þegar okkur líður vel og hve miklir nautnaseggir við erum í að viðhalda leiksýningum til þess eins að líða vel. Hann sagði að sannleikurinn myndi gera mann frjálsan og ætla ég ekki að efast um það en frelsið er allavega ekki í sjónmáli þennan hálftímann, gæti verið það þann næsta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.11.2007 | 19:19
Eru rauðhærðar konur öðruvísi?
Á undan ungu konunni var það rauðhærða konan. Hann sá hana á kaffihúsi í þorpi úti á landi og gat ekki hætt að horfa á hana. Rautt hárið var svo fallegt, sítt, slegið og ögrandi, hrópaði á athygli og storkaði þeim sem á horfðu. Kaffihúsaferðum fjölgaði og á endanum þurfti ekki að panta heldur var blikkað af löngu færi til hans og innan nokkurra mínútna var tvöfaldur expresso kominn á borðið ásamt óeðlilega miklu magni af súkkulaði. Kvöld eitt í október í mikilli mannmergð var hann ásamt félögunum á þessum stað þegar hann finnur allt í einu að einhver nuddast við hann, strýkur á honum bakið neðanvert, rassinn og laumar svo hendinni í hönd hans og kreistir. Það fór allt af stað innra með honum, hjartslátturinn upp úr öllu valdi og það kviknaði á tilfinningarofum sem hann þó þekkti. Nokkrum dögum síðar var hringt og seiðandi rödd rauðhærðu konunnar bauð góðan daginn. Talað var um daginn og veginn á léttum tvíræðum nótum í langan tíma þangað til hún rífur vandræðalega þögn og segir við hann: Ég er gift. Ha!! gift, þú svona ung. ja hérna, minn maður varð orðlaus en kaffihúsaferðunum fækkaði ekki og dramatíkin tók völdin. Lemur hann þig, ertu að meina þetta og af hverju ertu þá með honum? Vorkunn, góður maður, ætlar sér ekkert illt, átti bágt í æsku, það er ekki næg ástæða til að eyða lífinu með einhverjum. Okkar maður ætlaði sko að blanda sér í þetta og jafnvel bjarga þessari rauðhærðu prinsessu úr klóm ofbeldismannsins. Kvöld eitt fyrir utan kaffihúsið stigu þeir óvænt báðir út úr bílum sínum á sama tíma, ofbeldismaðurinn og okkar maður. Hetjan vatt sér að ofbeldismanninum rétti fram höndina eins og til að heilsa honum og um leið og hendurnar snertust læsti hann takinu og kallaði á nærstadda. Sjáið þennan mann. þessi maður lemur konuna sína . Ofbeldismaðurinn sem ekki þekkti nýja óvininn reyndi að losa höndina en tókst ekki strax, varð rosalega hræddur, tók til fótanna og hvarf. Ungur, vitlaus bjargvætturinn vissi ekki að hann hafði komið af stað afdrifaríkri atburðarrás þar sem lögreglan kom við sögu, atburðarrás sem fylgdi honum reyndar eftir næstu níu árin. Farið er hratt yfir sögu. Rauðhærða konan skildi við ofbeldismanninn og tók saman við bjargvættinn. Ástin var mikil og hitinn ofboðslegur. Hann fullyrðir í dag að rauðhærðar konur séu öðruvísi, bæði jákvætt og neikvætt. Sumir segja að þær séu nornir og hann var ekki frá því að það væri rétt því svo mikil áhrif hafði hún á hann. Þegar líða tók á sambandið kom barn oftar og oftar upp í umræðunni, en fyrir átti vinurinn lítinn kút sem fylgdi honum eins og lítill sólargeisli hvert sem farið var. Afbrýðisemi rauðhærðu konunnar var farin að trufla en nýr kútur eða lítið prinsessa myndi ábyggilega breyta þessu. Ekkert gekk og eftir nokkur ár og nokkrar glasafrjóvganir virtist ekkert ætla að ganga upp. Biturð og vonbrigði fóru að hafa áhrif og að lokum varð það ljóst að sambúðinni yrði að ljúka en þá voru níu ár liðin. Í dag hugsar hann til hennar hlýlega og minnist allra góðu eiginleikanna sem hún hafði, gleðina og lífsleiknina, og hvernig hún stjórnaði líðan sinni á margan hátt með rökum gagnvart sjálfri sér. Hún var einstök, seiðandi og falleg; engill eða norn. Ég sakna þín stundum! Ég meina hann saknar hennar stundum. Hún sagðist aldrei hætta að elska hann en í dag elskar hún mann í fjarlægu landi því leið hennar lá út í heim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.11.2007 | 10:35
Það er einn af þessum dögum
Það er eitthvað bogið við það hvað kvöldin eru farin að líða hratt hjá mér. Áður en ég veit af er komið miðnætti og ég er svo reglusamur að rífa mig frá verkefnum og bloggi og koma mér í rúmið. Það sem áður silaðist áfram er allt í einu komið á hraða ljóssins. Hvað getur valdið því í þessu skammdegi.
Í gær komst unglingurinn að því að hægt væri að misnota einlægni og aðdáun litla bróður því það var sama hvað brói spurði hann alltaf var svarað í einlægni já. Það var mikið hlegið að þessu og hávær hlátrasköll vinanna innan úr herbergi heyrðust um alla íbúðina og ótrúlegar spurningar margar miður góðar lagðar fyrir og svarið var já við þeim öllum. Eitthvað sá stóri bróðir svo eftir þessu því hann kom fram með hann í fanginu og sagði að brói elskaði hann samt mest af öllum.
Dagurinn byrjaði vel, ég vaknaði ferskur og laumaðist fram í von um að kúturinn gæti sofið lengur og ég sinnt morgunverkunum áður en hann vaknaði. Á eftir mér stökk hann og ætlaði sko ekki að láta skilja sig eftir þarna í rúminu. Upp um hálsinn á mér og vildi ekki sleppa sama hvernig ég reyndi. Þetta er þá einn af þessum morgnum. Með hann vafinn um hálsinn náði ég þó að sturta okkur, tannbursta mig, raka mig, klæða mig, hella upp á kaffi, útbúa hafragraut, lesa blöðin, lesa póstinn osfrv. Hann var eitthvað svo einbeittur í að sleppa ekki af mér hendinni þessi litli ljósálfur. Framundan er dagur fundarhalda, einn tekur við af öðrum og best að vera vel stefndur. Eigið góðan dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.11.2007 | 18:50
Ég gef ekki blóm á auglýstum dögum
Nú fer í hönd sá tími þegar fólk fer í einhverskonar eyðslu-leiðslu, keyrir kreditkortin og yfirdrættina algjörlega í botn, tekur út fyrirfram greidd laun og eyðir eins og geggjað til þess, að því er það heldur, að gleðja fjölskyldu og vini. Ótrúlegur hamagangur og skilur lítið eftir sig þegar upp er staðið annað en tómleika hið innra, vanlíðan, skuldir, raðgreiðslur og yfirvinnu á tímum sem það annars gæti eitt með fjölskyldunni. Hvernig stendur á því að fólk lætur svona og víkur frá þeim ágætis gildum að peningar og dýrar gjafir eru ekki ávísun á gleði og hamingju. Ég er ein af þessum geimverum sem neita að taka þátt í þessu, nota ekki visakortið, ekki yfirdrætti, tek ekki út fyrirfram og vandamenn vita að ég gef ódýrar gjafir en hef þær aðeins veglegri til eldri unglingsins. Auðvitað er gert vel við sig í mat og drykk og allt skreytt hátt og lágt því jólin eru yndisleg svo misskiljið mig ekki, ég held jólin en bara ekki á svona rugl forsendum. Tækifærislausar gjafir eru oft dýrari hjá mér á miðju ári þannig að ég er ekki samansaumaður náungi en sjálfur hef ég aldrei viljað dýrar gjafir því þær bara gleðja mig alls ekki og þeim fylgir bara mórall og því um líkt. Ég hef verið í sambúð þar sem allt snérist um þetta og upp úr henni slitnaði ekki síst út af því að peningamál okkar höfðu ekki sömu stefnu. Fólk fer í gegnum fríhöfnina og þrátt fyrir að hafa verslað lifandis býsn erlendis eru innkaupavagnar fylltir af sælgæti og áfengi og ættingjar nær og fjær ásamt vinum fóðraðir á þessu. Ég skil þetta ekki. Ég er líka svona furðulegur þegar kemur að blómum og þ.h því ég hef í mörg ár blásið á auglýsta blómasöludaga eins og konudagsblóm og Valentínusar þetta og hitt. Ég vil gera þessa hluti af löngun og innri hvötum, skyndilegri ofurást á minni heitt elskuðu (sem er víst engin í dag) eða bara ógnargirnd sem allt í einu heltekur mig. Ef það særði þessa konu svona tiktúrur myndi ég vafalaust taka annan pól í hæðina hvað þessa tvo daga varðar en það að vakna upp við vondan draum og heyra það í útvarpinu að þetta sé dagurinn sem íslenskir karlmenn eigi að gefa konunum sínum blóm finnst mér bara svo ódýrt og hallærislegt. Ef til vill eru til góð rök gegn þessu en svona hugsa ég þetta. Ég elska hversdagsleikann og veit að það er hægt að gera hann svo fallegan og yndislegan í stað þess að þrauka hann leiðigjarnan í stanslausri bið eftir uppákomum. En........þrátt fyrir þessa mælgi er líf mitt að mörgu leiti á hold þótt það bjóði upp á marga yndislega hversdagslega hluti, fallega syni sem seint verður þakkað fyrir, góðan kaffisopa og fallegar regnskúrir nú og auðvitað fallegar bloggathugasemdir sem bæði bræða og hræða miðaldra fráskilinn ræfilinn.
Hvar ertu sem hjarta mitt þráir?
Í hvílu minni um nótt leitaði ég hennar sem sál mín elskar,
ég leitaði hennar en fann hana ekki.
Ég skal fara á fætur og ganga um borgina, um strætin og torgin.
Ég skal leita hennar sem sál mín elskar.
Ég leitaði hennar en fann hana ekki!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.11.2007 | 15:48
Yndislegir kútar
Þeir voru yndislegir kútarnir mínir í morgun. Sá litli fór á leikskólann í gærmorgun en hann hristi af sér síðustu hitaleifarnar og slenið um helgina. Hann er búinn að vera svo kelinn og ljúfur, talar svo mikið þótt það skiljist ekki nema sumt af því. Í fyrrakvöld vildi hann ekki fara að sofa en var upptekinn af því að kyssa á nefið á mér, ennið, kinnarnar, eyrun, munninn, fingurna,tærnar og meira að segja hárið. Ég átti svo að gera það sama og svona hélt þetta áfram hring eftir hring og tuskudýrin fengu að vera með í þessu. Ég var kominn með varaþurrk af kossum þegar ormurinn loksins sofnaði. Í nótt var hann svo alltaf að skríða ofan á mig og stundum ofan á andlitið á mér svo ég var stöðugt að vakna í leit að súrefni. Í morgun kallaði hann svo hálfsofandi á bróður sinn þegar hann heyrði að hann var kominn á fætur og þegar ég leit inn í herbergi kl 7:20 voru þeir þar báðir steinsofandi í faðmlögum. Það eru 14 ár á milli þeirra því ég tók mér einhverskonar leikhlé sem var bara þetta langt. Ég veit ekki hvað loturnar eru margar þannig að það er ómögulegt að segja hvað á eftir að gerast en þessir tveir eru svo yndislegir að bara það að sjá þá saman í morgun færði mér ómælda gleði til að ganga út í daginn og þau verkefni sem biðu mín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.11.2007 | 21:47
Falleg liðast hún um gólfið
Ég kem heim úr vinnunni og veit af henni heima, treysti henni, stóla á hana, valdi hana sjálfur og veit að allt er hreint og fínt. Falleg liðast hún um gólfið í glæsileika og þvílíkar línur og þvílíkur þokki. Svolítið lávaxin en þrautseigjan uppmáluð og búin að vera að í allan dag og bíður eftir mér. Í forstofunni finn ég á lyktinni að hún er þarna og þegar ég geng upp stigann heyri ég í henni. Þegar andlit mitt nemur við pallinn sé ég glansandi gólfið,svo hreint að hægt er að spegla sig í því og ég veit að hún er búin að vera að undirbúa komu mína í allan dag. Sú eina sem bíður eftir mér. Allt í einu heyri ég smell og veit að hún er komin í hleðslustöðina. Góður gripur þetta. Setja bara á hana ilmvatn.......
Ég hef hugsað mikið um það undanfarið að fá mér svona sjálfvirkan ryksuguróbót og skilst að þær kosti 35-40 þúsund. Við feðgar erum ekki sóðar, langur vegur frá því, ryksugum nokkrum sinnum í viku og skúrum tvisvar sinnum í viku. Ég er heppinn með unglinginn því hann gengur í þessi verk algjörlega óbeðinn, biður hvorki um greiðslu eða greiða og það er heldur aldrei rætt á þeim nótunum. Hann er oft fyrri til en ég og æðislegt að koma þreyttur heim og þá er búið að ryksuga og skúra, þurrka af og henda í þvottavélar. Það er ábyggilega ekki algengt á þessum aldri en sjálfur hef ég verið svona frá því ég var krakki. Hann komst hins vegar að því að þetta vekur vellíðan og ef honum leiðist eða er dapur þá fer hann að þrífa og líðanin gjörbreytist. Samt vantar alltaf örlítið upp á en ég myndi vilja gera aðeins betur en bara nenni því ekki. Þegar sólin sem er lágt á lofti skín inn um gluggana hrópa á mann allskyns óhreinindi sem maður skilur ekkert í því við ryksuguðum í gær. Þessu gæti sjálfvirk ryksuga reddað, ein stórglæsileg sem liðast um gólfið í glæsileika man allt sem hún gerir og leggur gólf og allt sem á því stendur á minnið og fer svo sjálf í hleðslustöðina til að hlaða sig. Ilmvatn á hana gæti bara gert þetta vinarlegt en ég vil samt ekki hafa af okkur feðgum gleðina við að gera þessa hluti í kringum okkur en við erum samt bara að tala um gólfin. Ég er samt að velta þessu alvarlega fyrir mér. Hvað finnst ykkur?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
12.11.2007 | 07:56
Falin sorg mín.....
Frá vitund minni
til vara þinna
er veglaust haf.
En draumur minn glóði
í dulkvikri báru,
meðan djúpið svaf.
Og falin sorg mín
nær fundi þínum
eins og firðblátt haf.
Ég tek stefnuna á fallegan góðan dag og ætla að láta regnið sefa mig og róa. Sumt verður ekki frá okkur tekið en höldum í vonina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.11.2007 | 21:46
Hann vaknaði upp við vondan draum
Hann vaknaði upp við vondan draum, það var eitthvað öðruvísi en það hafði verið. Hún var aldrei hjá honum. Hún sem alltaf var að bíða eftir honum var allt í einu hætt að bíða, farin, horfin eða þurfti að fara, skreppa, kem seinna, kem seint, vilt þú svæfa kútinn? Ekki vaka eftir mér. Hann að skipuleggja fallega ferð til Frakklands, ástarferð með kútinn, en hún hafði áhyggjur af öllu, ferðin of löng, ferðin og seint, ferðin svona og ferðin hinsegin. Hann hélt í vonina, dekraði meira, faðmaði hana kalda og breiddi yfir hana, ylurinn hlýtur að vaxa. Einn hér og einn þar. Hvar var konan sem tældi mig, hvar var konan sem lagði snörurnar, hvar var konan sem beið, hvar var konan sem gaf af sér. Vikur og mánuðir, kem seint, þarf að skreppa, efasemdir, brotið traust, dapurleiki.................Þetta stenst ekki.
Lítið rör á forstofugólfinu. Ég trúi þessu ekki! Ég hendi henni út, hún lofaði, hún hafði allt, gramsa í töskunni, fleiri rör. Nú hendi ég henni út. Það var þó ekkert sagt. Harður jaxlinn var linur sem smjör, hvað á að gera. Þú ert byrjuð aftur? Af hverju? Þú hefur allt, átt kút hvað ertu að spá? Þetta gengur ekki svona? Við ættum kannski að hvíla okkur? Þetta er ekki rétt! Ég veit ekki um hvað þú ert að tala. Svo var tárfellt og grátið, ég hætti þessu.Vikur, mánuður. Þú ert ekki hætt? Ég sé það á augunum. Þú pakkar og ferð. Í þessu hreiðri er þetta ekki til umræðu. Grátið smá. Ég fer. Ég hélt að það vesta væri þá afstaðið en þá kom þruman. Ég veit ekki hvort ég elska þig ...........Hvort þú elskir mig? Þá ferðu þín vegna! Þú þarft að ná bata og finna þér einhvern til að elska.Löngu seinna, ég held ég elski þig......................Heldur já, það er ekki nóg. Þú veist það ekki og ég teysti þér ekki. Þetta er búið og þú veist það. Þekkirðu mig ekki betur en það. Ég tek út sorgina rétti úr mér og byrja að brosa á ný. Þú veist það.Unga konan er farin, fyrr en ég átti vona á en gleðin og hamingjan láta bíða eftir sér.
Bloggar | Breytt 12.11.2007 kl. 07:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.11.2007 | 07:58
Sunnudagur til sælu
Ég veit ekki af hverju ég hef ekki getað sofið út í mörg ár. Ég er alltaf vaknaður langt á undan öllum nema kannski mömmu. Mamma var og er svona og ef það maður þurfti að vakna óvenju snemma hér áður fyrr jafnvel eftir að úr hreiðrinu var flogið var hringt í mömmu og hún beðin um að hringja því hún var óskeikul í þessu. Fáum árum síðar var ég orðinn svona sjálfur og hef verið allar götur síðan. Þó var það um daginn að ég svaf rosalega með kútnum en við sváfum til kl 8:30 á sunnudegi ef ég man rétt, sem mér fannst með því rosalegasta. Ég var auðvitað búinn að vita aðeins af mér á góðum vaktatímum eins og venjulega, 01:30 unglingurinn að fara að sofa, 03:00 helli rigning, mér finnst rigningin góð, 04:30 fréttablaðið, 05:30, kúturinn tróð sér þversum upp á koddann minn, 07:00, ferlega er klukkan orðin margt og kúturinn sefur. Næst þegar á klukkuna var litið var hún orðin 08:30 svo ég spratt upp og gekk fram eins og gamalmenni, leið eins og keyrt hefði verið yfir mig og bakkað svo yfir mig aftur. Það er samt þannig að þrátt fyrir stífa kaffidrykkju sofna ég nánast alltaf undantekningar laust strax og ég halla mér á koddann, og ég neita því ekki að blundur í sófanum fyrr um kvöldið gæti haft áhrif á þetta. Um vandamál er ekki að ræða því og í merkri bók stendur skýrum stöfum að hurðin snúist á hjörunum en letinginn í hvílu sinni. Ég er ekki frá því að ég sé samt latur þessa dagana en það á eftir að breytast. Ég afhenti verkefnið sem ég vann að í gærmorgun og það var þvílíku fargi af mér létt þótt ég gæti átt eftir að endurvinna eitthvað ef reynslan og prufukeyrslan á því segir svo.
Nú fer að líða að upphengingum á ljósum tilheyrandi blessuðum jólunum en ég hef í seinni tíð orðið miklu meira jólabarn en áður var. Ég er líka miklu hlynntari því að menn hengi snemma upp ljós og taki þau seinna niður enda lít ég á þetta sem gleðigjafa í niðamyrku skammdeginu öllum til yndis. Í föðurhúsum í stóra þorpinu vorum við vön að skreyta allt á þorláksmessu og auðvitað var slökkt á þessu öllu og það tekið niður á þrettándanum. Nú heyrast hróp innan úr svefnherbergi svo það er best að fara og sinna litla kútnum einu af ljósunum sem skærast skín í lífi mínu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.11.2007 | 17:13
Allt hefur sinn tíma
Ef maður hugsar of mikið um suma hluti er eins og allt fari á flug hjá manni og fleiri spurningar vakna en leitað var svara við í upphafi. Gætum við verið að leita svaranna aðeins of langt frá okkur og gætu svörin hugsanlega verið við tærnar á okkur? Getur verið að sannleikurinn sé svo einfaldur að hann verði ekki skilinn eða er hann eins og jafna sem ekki gengur upp? Ég er sjálfur í leit að einhverju og treysti því að það villist ekki einhver inn á síðuna sem haldi af fyrrihlutanum að ég sé með svörin því það er langur vegur frá því. Mér skilst hinsvegar að allir hlutir hafi sinn tíma og því teysti ég á að sorg og söknuður, vanlíðan og depurð fari eða hverfi en geri mér það þó ljóst að það geti skollið á mér aftur síðar. Ekkert undir himninum er komið til að vera, allt virðist vera hverfult, en þetta er þó ljóst:
Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma, að gróðursetja hefur sinn tíma og að rífa upp það sem gróðursett hefur verið, hefur sinn tíma, að deyða hefur sinn tíma og að lækna hefur sinn tíma, að rífa niður hefur sinn tíma og að byggja upp hefur sinn tíma, að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma, að kveina hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma, að kasta steinum hefur sinn tíma og að tína saman steina hefur sinn tíma, að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma, að leita hefur sinn tíma og að týna hefur sinn tíma, að geyma hefur sinn tíma og að fleygja hefur sinn tíma, að rífa sundur hefur sinn tíma og að sauma saman hefur sinn tíma, að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma, að elska hefur sinn tíma og að hata hefur sinn tíma, ófriður hefur sinn tíma og friður hefur sinn tíma........................
Ég hlakka til vinnáttunnar, værðarinnar og kærleikans. Ég hlakka til angans, augnatillitanna og glettninnar. Ég hlakka til löngunarinnar, þrárinnar og væntinganna. Ég hlakka til stoltsins, glæsileikans og djörfungarinnar. Ég hlakka til kossanna, strokanna og blíðuhótanna. Ég hlakka til þessa dags að ég finn hana eða hún mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Um bloggið
Júdas
Eldri færslur
Færsluflokkar
Bloggvinir
- tilfinningar
- tolliagustar
- lindalea
- kisabella
- siggasin
- saxi
- svavaralfred
- ein
- gisgis
- totally
- mofi
- vilborgo
- rebby
- scorpio
- gurrihar
- erla1001
- stormsker
- aslaugh
- jensgud
- eggmann
- blossom
- gretaulfs
- limran
- malacai
- arabina
- toshiki
- gurkan
- gelin
- asarich
- kona
- neytendatalsmadur
- myndamen
- brandarar
- little-miss-silly
- rose
- hebron
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 48796
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar