Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Annar treystir á hinn og sá treystir á þá

     Þessir dagar eru fallegir.  Þótt hitinn sé ekki mikill úti er það sólin sem gleður og vermir upp svöl hjörtu og það er jú sá hiti sem fleytir okkur áfram jafnvel þótt kalt sé úti. 

     Við feðgar sváfum lengur í morgun en í gærmorgun.  Fórum fram um hálf átta sem verður að teljast nokkuð gott því í gær stökk hann framúr argur og heimtaði að gamli maðurinn kæmi með.    Þetta hafði verið eina nóttin í mánuðinum sem ég fór ekki að sofa fyrr en kl 02:30 út af lærdómi og lestri meðal annars svo minn var verulega þreyttur.  Á fætur fór ég og hreiðraði um okkur feðga í sófanum.  Klukkutíma síðar fannst mér út séð með það að hann myndi sofna og stökk í sturtu, klæddi mig og helti upp á kaffi.  Þegar ég leit svo inn í stofu var skæruliðakúturinn sofnaður, en ekki hvað.

     Í morgun var þetta því innan skynsemismarka, við sofnuðum á skikkanlegum tíma og fórum fram úr á viðráðanlegum tíma líka.   Ég laumaðist inn í herbergi unglingsins til að horfa á hann sofa eins og ég geri stundum á morgnanna, horfi á hann anda og dáist að honum.  Hann var ókominn heim þegar ég fór að sofa en ég heyrði hann koma ekki löngu síðar.

     Ég velti því fyrir mér áðan hvort ég þyrfti eitthvað að blogga þessa helgina því lífið hjá okkur er svo einfalt og venjulegt, uppákomu lítið og áfallalaust að lítið væri til að blogga um.  Sumir gætu haldið það slæmt og jafnvel leiðinlegt en ég þakka Guði fyrir öryggið og værðina.

 

     Leið okkar liggur út í borg sporanna á eftir þegar kúturinn hefur tekið sér blundinn sinn og jafnvel fyrr.  Við mundum fara troðnar slóðir sjá okkar eigin spor og spor annarra þekkt og óþekkt.  Hver veit nema við rekumst á múmínspor eða önnur bloggvinaspor, óþekktir huldufeðgar sem njóta kyrrðar og öryggis. Annar treystir á hinn og hinn treystir á Hann, þann sem lífið gaf.  Þriðji treystir á sig og gamlan mann.  Í þessu trausti fetum við okkur áfram mót skuggum framtíðar, í gegnum fyrirgefna fortíð, náðarinnar nútíð til fallegrar framtíðar.  Í henni verður það gamli maðurinn sem treystir á hina og hinir treysta á sig og Hann, þann sem lífið gaf.

 

   Gangið glöð inn í þennan fallega dag.

 

   Njótið dagsins.


Þvílík grimmd

     Þvílík grimmd verður þetta að teljast, þvílík grimmd.  Sólin baðaði geislum sínum  og fegurðin hrópaði á mann úr öllum áttum.  Hvílík grimmd.  Vorhugur og aftur vorhugur og ég fann hvernig  gleðistraumar hrísluðust um mig, byrjuðu smátt en jukust  þegar á aksturinn leið.  Á endanum varð ég að brosa þótt nývaknaður væri og það er einmitt grimmdin sem ég er að tala um.  Verður það ekki að teljast ákveðin grimmd að þvinga fram gleðitilfinningu, hrifningu og bros af gömlum, þreyttum , alræmdum „svikahrappi“ og leyfa honum ekki einu sinni að njóta morgunfúlismans þó ekki væri nema í  hálftíma eða tvo?  Er þetta það sem bíður manns þegar vorar?  Er þetta það sem maður lætur yfir sig ganga í byrjun sumars?  Hvað gæti ég gert til að sporna við þessu?  Ég finn það meira að segja þegar ég fletti í ljóðabókunum að þau ljóð sem ég staldra við því mér finnst þau áhugaverð eru bara svo þung og einmanaleg að mér finnst þau ekki slá á þá strengi hjartans sem þau gerðu í haust og vetur.  Taka verður upp léttara hjal, lesa verður léttari ljóð og spila verður á ljúfari strengi sálarinnar í von um samhljóm einhversstaðar í nálægðinni.  Sagt er að sé slegið á einn streng taki hinir undir og von bráðar fylli undurvær samhljómur loftið allt en ég hef enga sönnun fyrir því.  Veit bara að verði ég þvingaður til gleði og brosmildi dag eftir dag eins og í morgun er ómögulegt að segja fyrir um það sem gæti orðið.  „Hörmulegar“ afleiðingar gleði og vellíðunar ættu að vera öllum ljósar því þetta ástand er bráð smitandi því brosi er oft svarað með brosi og gleði getur leitt af sér enn meiri gleði og bólusetning ekki möguleg.   En ég hef varaði ykkur við kæru vinir.  Gætið ykkar á gleðinni og hrasið ekki um vellíðanina sem gæti legið í leyni og ráðist á hvern þann sem nálgast.

 

Góða nótt


Sestur við eldhúsborðið

     Kominn heim og sestur við eldhúsborðið að venju.  Lasagna var hrúgað í eldfast mót og kemur úr ofninum rétt strax.  Við tekur lærdómur og aftur lærdómur.   Það er mesta furða hvað ég er ferskur innan gæsalappa því ég er búinn að vera eins og borðtuska með tennur í þrjá daga.  Enginn hiti en skrokkurinn ekki alveg að fúnkera, beinverkir, hausverkur og stífur í öxlum.  Ég reyndi að hafa orð um þetta við unglingskútinn en hann sagði mér strax að hætta þessu væli því þetta væri bara hugarástand.  „Þetta sagðir þú alltaf við mig, og hentir mér í skólann fárveikum“  fullyrti unglingurinn og glotti. Jæja, meðan það getur verið verra er það bærilegt svo það er besta að hafa ekki fleiri orð um það.  Hann ýkir þetta ábyggilega talsvert.

     Ég er farinn að bíða eftir helginni því helgarfrí er tilhlökkunarefni þótt próflestur verði inni í því og svo var ég að rifja það upp í þessum rituðu orðum að ég var búinn að lofa ungu konunni því að henda saman skattskýrslunni hennar á netinu um helgina.  Best að klikka ekki á því. 

En Lasagnað bíður okkar feðga.  


Einfaldleikinn er dyggð

Góður dagur að kveldi kominn og nóttin á næsta leiti. 

Okkar bíða lendur drauma þar sem allt getur gerst og veruleikinn er teygður og togaður í fallegri form.  Ef til vill ráðum við óafvitandi ferðinni um þessar lendur og speglum því væntingar okkar úr gráum hversdagsleikanum þar sem við erum að mestu ráðandi í hamingjuleitinni með misjöfnum árangri.

Gerum þó ekki lítið úr þeirri leit okkar, höldum áfram ótrauð en gefum okkur tíma til að staldra við fótskör meistarans og lauga okkur í einfaldleika.   Munum að einfaldleikinn er dyggð.

  

Frá efstu lindum

ljóssins og hingað

er langur vegur

og langt er héðan til ósa.

 

Í breiðum streng

streymir það nú fram hjá

borginni, og ég krýp

á bakka þess og dýfi

þakklátur höndum

í hlýjan straum

lauga vanga mína

og augu,

 

lauga sál mína lífi.

 

Hannes Pét.

 

 

Góða nótt kæru vinir.


Hjúpuð væntingahulu

     Hann byrjaði vel þessi dagur og í raun betur en á horfðist í fyrstu.  Eftir hin hefðbundnu morgunverk og neyðarhróp lítils kúts innan úr svefnherbergi stefndum við á leikskólann og renndum inn á planið.  Lítil umferð og planið tómt en það klingdi engum bjöllum fyrr en við gengum á læstar dyrnar, litum inn um gluggann og sáum alla snaga tóma og ljósin slökkt.  Hvað var nú í gangi.   Ég á leiðinni á tveggja tíma fund og fann hvernig þetta var ekki að ganga upp hjá okkur.  Hmmmm, eitthvað rámaði mig í að hafa séð á blaði nefndan starfsdag en það getur varla verið að hann sé hafður strax eftir páskafrí.............jú, líklega var þetta dagurinn því ólíklegra er að allar fóstrurnar og árrisulustu foreldrarnir hafi sofið yfir sig einn og sama daginn.   Úffffff..................Það jákvæða er að ég verð að taka mér frí í dag og vera með kútinn, en það neikvæða er að ég þarf að komast á fundinn og litill kútur er passar ekki alveg inn í það umhverfi.  Engir afar eða ömmur í byggðarlaginu, ekki frændur og engar frænkur sem ég hef ræktað vinskapinn við.......vinir..............ég ræki þá ekki heldur og sú eina sem kæmi til greina verður líka á þessum fundi.   Þetta voru nú meiri vandræðin. En allt í einu sá ég ljósið.  Hann á mömmu þessi kútur og nú verður hún að hlaupa undir, enda er þetta hennar vika í ofanálag og byrjaði reyndar á föstudaginn.  Ég reif upp símann og sagði henni raunirnar, hún yrði að vera með hann á meðan ég færi á fundinn og ég gæti svo sótt hann á eftir.   Hún vinnur í verslun og umhverfið þar alls ekki kútavænt og í raun mjög ókútavænt en þetta var ákveðið.  Ég sagði henni til huggunar að heimilistryggingin mín hjá Vís ábyrgðist allt að 25 milljóna tjón í einu tjóni svo  við yrðum þó allavega ekki gjaldþrota þegar við fengjum reikninginn.

Ég sótti svo kútinn að þrem tímum liðnum og hafði þetta gengið furðu vel en samt talaði hún um að þetta myndi hún samt ekki reyna aftur án límbands.  Kúturinn var ánægður með þetta og hafði skemmt sér vel, móðirin uppgefin.

Við kútur fórum heim og áttum notalega samverustund, eina af þessum sem við erum alltaf að græða og eru ómetanlegar.  Mamman náði svo í hann um sexleytið.

     Rafrænu samskiptin virkuðu fínt í dag og  færðu mér ómælda gleði.  Veit reyndar ekki hvort hún verður nokkurn tíman mæld en það er nú einmitt það sem gerir þetta svo skemmtilegt.  Óvissan og spennan færa manni orku og gleði og það er allavega vel mælanlegt, kætir og bætir.   Ég horfið rannsakandi á Júdas í speglinum og sagði við hann í umvöndunar tóni  „Júdas minn hættu þessari þrjósku og njóttu augnabliksins“.

Hvað er að hræðast þar júdas minn,

hamingju þinnar dulu?

Handan við hornið smeygir sér inn

hjúpuð er væntinga hulu.

J.I

 

Við unglingskútur útbjuggum okkur tómatsúpu og hentum saman í brauðhleif áður en lærdómurinn helltist yfir og unglingurinn hljóp út til vina.

Fínn dagur og kvöldið ekki búið enn.

 


Dagurinn kom alskapaður til dyranna

 

Dagurinn var tekinn snemma eins og venjulega. 

Við eldri feðgar klæddum okkur upp í gærkveldi og elduðum okkur páskalæri og nutum samvista fram eftir kvöldi.  Ég velti því fyrir mér hvort vert væri að fara út á lífið eftir miðnætti en það var auðveld ákvörðun að flauta það af í huganum og njóta þagnarinnar.

Ég var heppinn í gær og allt stefnir í heppni í dag líka.   Unga konan bað mig um að taka litla kútinn í nokkra tíma í gær og var að hringja áðan og biðja mig að vera með honum í dag líka.  Ég spyr einskis, nýt þess bara að vera með alla kútana sameinaða í dag og líklega í nótt líka.  Er hægt að biðja um eitthvað meira?

 

Dagurinn er óskrifaður að öðru leyti en klárt að við förum á eitthvert flakk.  Líkamsræktin gæti orðið áfangastaður og ekki verra að kúturinn hefur svo gaman af því að leika sér þar.  Það er kominn tími á að hrista af sér slenið varðandi ræktina og taka á því. 

Núna sefur hann hjá mér í sófanum og safnar orku fyrir daginn.

Dagurinn  kom

alskapaður til dyranna

eins og hann var klæddur,

gægðist upp yfir fjallsbrúnina,

skyggndist um

og leit yfir landið.

 

Svo hljóp hann

ungur og nýr

niður hlíðarnar,

yfir holt og mýrar,

alla leið út að sjó............

 

Ingólfur Kristj.


Einhver finnur spor mín, gengur mig uppi

 

Ég hljóp syngjandi út í sumarregnið

til að gefa öllum hlutdeild í gleði minni

og fögnuði yfir fegurð lífsins

til að segja  öllum,

hve mér væri heitt um hjarta

og hamingjan unaðsleg.

 

En enginn hlustaði á mig,

fremur en ég væri ekki til.

..............

Bragi Sig.

 

 

     Ég svaf lengi en vaknaði snemma. 

      Bíð einhvers vegna hins nýja upphafs sem við minnumst í dag.  Vil gefa einhverjum hlutdeild í gleði sem þó aðeins er gríma.  Aðeins regnið og ávextir fallegra daga geta glatt hjarta mitt. 

     Ég var að ákveða það að keyra niður í bæ, jafnvel ganga meðfram sjónum í leit að værð.  Ég rifja upp daga þar sem gleðin var eilíf og værðin aldrei langt undan.  Þekkti ekki annað og ætti kannski að þakka fyrir það að fá að kynnast hinu gagnstæða.  Þá var ástin í lífi mínu og ég hélt hún væri eilíf, vissi ekki að ég væri kominn hringinn, enn einn hringinn og nýtt upphaf svifi yfir vötnum. 

      Í dag hræðist ég ilminn, finn hann, langar í hann en vil ekki skemma hann með beiskju, hörfa og bíð.

     Vorið er ekki langt undan.  Einhver finnur spor mín, gengur mig uppi, safnar þeim saman og gengur með mér til byggða.  Við lítum við en sjáum aðeins eina slóð.      

 

Er þér ráðgáta,

ungi maður,

hve fagurt er vorið í vor?

Að sólin er bjartari,

blærinn heitari,

og allur jarðargróður sem gull?

 

Fluttist landið sunnar?

færðist sólin ofar?

spyr þú eins og álfur úr hól.

Öllum öðrum

er auðleyst gátan:

Ástin hefir vitjað þín í vor.

Bragi Sig.

 

Njótið hins nýja upphafs,  þökkum Guði.         

                                

 


Hans þögn er ljóð um það

     Hann ver svo lítill í gær kúturinn minn.  Hitinn rauk upp aftur og við vorum í sófanum í allan daginn.  Hann fékk hitalækkandi því hitinn fór í 40,6°c,  dormaði rjóður í kinnum á bleiunni og þáði sopa af vatni af og til og strauk á mér handlegginn.  Þegar líða tók á seinnihluta dags fór hann að hressast og borðaði örlítið um kvöldið.  Við mamma hans ákváðum að hann yrði bara hjá mér í nótt líka og hún næði svo í hann í fyrramálið.

     Unglingskúturinn hringdi í mig og var búinn að fá nóg af Þorpinu og sagðist ætla að leggja af staði í fyrramálið svo þetta verður líklega engin einvera þessa páska eins og ég átti von á.   Kúturinn einum degi lengur vegna veikinda svo blíður og yndislegur og  hortugi unglingurinn minn kemur nokkrum tímum eftir að sá litli fer til ungu konunnar.  Ekki slæmt það.

 

     Ég kom við í verslun áðan til að kaupa páskaegg handa kútunum og versla eitthvað í páskamatinn.  Endaði í  lambalæri því mig langaði svo mikið í það.  Ég eldaði mér lambafille í gær og það var gríðarlega gott svo mig langaði aftur í lamba eitthvað.  Fallegar konur, fallega klæddar og ilmandi voru út um alla búð að versla og trufluðu mig .....................komu af stað löngun til að „eiga“ þótt ekki væri nema eina slíka sem færi í búð og verslaði með hugann við það hvað manninn hennar vantaði og langaði........

Það er svo fallegt við sambönd að bæði hugsa um hitt svo ekkert verður útundan,  bæði viljug að þjóna jafnt sem þiggja.  Hvað þarf ég að bíða lengi eftir því að einhver þeirra banki í öxlina á mér og segi „halló, ertu ekki að leita að mér?“    Ég skora nú á fallegar konur að banka í öxlina á mér.  Verið ófeimnar því ég er svona blátt áfram náungi, vinarlegur og færi ekki að bregðast illa við einhverju svona.   Trúið mér!   Ég lofa hvorki flugeldasýningum eða sápukúlum en ég lofa því að ganga með þér í rigningunni, taka utan um þig, hvísla að þér fallegum ljóðum, vera til staðar.......... þegja jafnvel með þér, vera ég sjálfur.  Þú verður þú og gerir þitt, ég verð ég og geri mitt, sameinumst í nóttinni og njótum þagnarinnar.  Eina krafan er að þú sért þú sjálf og elskir mig.

Þetta hljómar svo illa þegar ég les það að ég held að ég viti ástæðuna fyrir því að ég sé konulaus.  Hver nennir að ganga úti í rigningu?   Hver nennir að þegja með einhverjum?  Hver nennir að hlusta á eitthvert ljóðabull?  Og faðmlög, hverju skila þau.  Ef til vill ætti ég ekki einu sinni að vera ég sjálfur.

Fortíðin truflar mig, ég ann þögninni, mæli fátt og verð því einn.

 

 

Hver sinnir því, sem út með fjörðum fer,

þó flæði yfir gamalt eyðisker?

Og oft er myrkrið mest í kringum þann,

sem mælir fæst, en dýpst og heitast ann.

 

Hans þögn er ljóð um það, sem eitt sinn var,

um þráðan gest, sem hæst af öllum bar,

og margoft kom í morgunroða inn

og mælti blítt við einkavininn sinn.

 

Það minnast fáir manns, sem hvergi fer

og myrkrið einn á herðum sínum ber.

 

Davíð Stef.


Ég er strax farinn að sakna ykkar

     Hann vaknaði veikur kúturinn minn í gær, hitinn rúmar 39° en var samt ótrúlega sprækur.  Það var líka eitthvað furðulegt við þetta því í staðin fyrir að stökkva með mér á fætur eða jafnvel á undan mér eins og undanfarið vildi hann lúra lengur.  Unglingskúturinn lagðist svo hjá honum og við mældum hann og jú, hiti var það.  Ég hringdi í mömmu hans, leikskólann og vinnuna og kom mér vel fyrir í sófanum með honum því heima yrðum við í dag.  Það var ljóst.

     Í gærkveldi pakkaði svo Unglingskútur niður í tösku og beið eftir að verða sóttur því hann ætlar að vera í Þorpinu um páskana.  Það tókst ekki vel síðast en ómögulegt að segja um það hvað hann tollir lengi núna.  Skylduræknin gagnvart móður sinni segir meira til sín heldur en hún gerði þegar hann var yngri og allaf ætlar hann að vera í nokkra daga en það þykir kraftaverk ef næturnar verða tvær.  Hann leit inn í stofu á okkur sem lágum í sófanum og sagðist strax vera farinn að sakna okkar. Það er ekki góð byrjun á skemmtiferð eða hvað?

     Við vöknuðum því einir í hreiðrinu í morgun en gamli maðurinn svolítið á undan litla kút.  Ég náði að fara í sturtu, hella upp á  og lesa blöðin áður en vinurinn rak upp vein og upplifði sig einan og yfirgefinn.  Hann var þó kominn í fangið á kútapabbanum augnabliki síðar.  Unga konan ætlar að koma og vera hjá honum í dag svo ég geti unnið upp gærdaginn en kúturinn á eftir einn dag hjá mér.  Á föstudagskvöldið tekur svo við mömmuvika svo Júdas verður einn í hreiðrinu um páskana.


Fortíðin er vonlaus í nútíð

      Ég rifaði augun í morgun og  „glennti“ upp eyrun.  Fuglasöngur?  Það er óhugsandi!  Ég hlustaði betur og jú, fuglasöngur var það.   Þetta var sko ávísun á góðan dag en hversu góðan vissi ég ekki. 

      Ég er búinn að hlakka mjög til páskafrísins og aldrei þessu vant tilkynnti ég mig í fríi einum degi lengur því ég ætlaði virkilega að njóta daganna með kútunum mínum.  nokkrum tímum síðar hringdi unglingskúturinn minn í mig og spurði mig hvort ég yrði dapur ef hann færi í Þorpið um páskana.  „Auðvitað ekki vinur, þú ferð bara ef þú vilt“ ,  hann er greinilega búinn að gleyma því hvað hann var snöggur til baka síðast en alveg eins og ég sjálfur var náði hann tveimur nóttum, einum og hálfum degi áður en hann snapaði sér far til baka.  Nei hann var reyndar ekki búinn að gleyma því og nefndi það að svo væri ekkert víst að hann nennti að vera þarna.  „Verður þú nokkuð einmana  um páskana pabbi minn“  hélt hann áfram en ég fullvissaði hann um að þetta væri í lagi.  Jæja, við feðgar verðum þá bara mínus einn um helgina það hefur sinn gang.   Þessu trúði ég í klukkutíma því þá hringdi unga konan og spurði mig hvort ekki væri í lagi að hún færi með litla kútinn  í sitt þorp um helgina..........Jú auðvitað vina, þú þarft ekkert að spyrja mig að því , þú átt hann líka, sagði ég kokhraustur en þarna varð ég að sjálfsögðu að reikna dæmið upp á nýtt.  Feðgar mínus tveir eru bara einn og nánar tiltekið einn gamall maður, en það jákvæða er að kútarnir mínir njóta helgarinnar með mömmum sínum, öfum og ömmum.  Júdas lendir þá bara í aðstæðunum sem vekja fram vangaveltur, djúpar hugsanir og þörf fyrir rigningu.  Ég ætla að grilla alla þessa daga algjörlega óháð veðri og vindum og líklega ætla ég að stúta einni rauðvín svona til að verða betur þenkjandi.

 

     Ég komst að því um daginn að fortíðin er vonlaus í nútíð og algjörlega framtíðarlaus með öllu.  Hún er bara stundum svo glæsileg vegna fjarlægðarinnar en við vitum það öll að fjarlægðin gerir ekki bara fjöllin blá heldur ganga oft gamlir, fúnir gaddavírsstaurar í endurnýjun lífdaga í fjarlægðinni gæddir mýkt og glæsileika sem aldrei var þó til.  Gætu verið mennskir og sýnst á hreyfingu en nálægðin kemur upp um þá.  Hættum þessari fortíðarhyggju, snúum okkur við og horfum á nútíðina því með henni sköpum við okkur þá framtíð sem við megum vænta.

 

 

Þegar blár hreinleiki

fjarlægðarinnar

hafði þvegið nálægðina

úr andliti þínu

þráði ég að hjúfra mig

að fjarlægð þinni

geta ekki snert þig

geta ekki átt þig

aðeins varðveitt þig

í tærum og bláum einfaldleika.

 

Birgir Sig.


Næsta síða »

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband