Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Er það hans Akkilesarhæll að líkjast pabba sínum?

     Síminn hringdi og dapur eldri kútur var á línunni.  Depurðin og svartsýnin var algjör, „pabbi, hvað er að mér?“  „Af hverju get ég ekki verið glaður eins og þú?“  Gamli maðurinn skellti aftur tölvunni, „farinn“ og spólaði út í umferðina.  Nokkrum mínútum síðar sátum við kútafeðgar við eldhúsborðið og skeggræddum allar hliðar lífsins.  Baráttuna, tilganginn, myrkrið, ljósið, dagrenninguna og hjálpina sem væri alltaf innan handar.  Við sátum þarna við borðið í nærri tvo tíma og á eftir var ekki að sjá annað en að dökkur drunginn væri á bak og burt og gleðin og vonin væri tekin við.  Þessi vinur er bara spegilmynd pabba síns.  Samviskan stór og þung en ljós hans á öllum vegum og það ekki af tilviljun.  Hann var reiður við sig og ósáttur,  fannst hann gera alla hluti rangt, fannst hann lofa sér þessu og hinu en ekki standa við það, setti sér takmörk en færi ekki eftir þeim, alltaf að svíkja sig, alltaf að svíkja eigin loforð og það sem hann gerði rétt gerði hann ekki nógu vel.  „Af hverju er ég svona pabbi?  Af hverju er ég ekki eins og þú?“  „ Veistu það vinur-Þú ert eins og ég?  Meira að segja allt of líkur mér.  Það er bara lítill Júdas í okkur öllum sem gerir okkur mannleg og það er þess vegna sem við þurfum á Honum að halda og stuðningi hvors annars!“  „Við megum bara aldrei gefast upp og verðum að muna eftir því að rifja upp góðu stundirnar þegar „illa viðrar“, og stefna á þær aftur.“  Í miðju samtalinu sagði þessi yndislegi, hjartahlýi vinur: „Ég vildi að það færi að rigna!!“  og ég gat ekki annað en hlegið................“Það er alltaf svo gott að tala við þig pabbi, þú ert algjör sálfræðingur.“

 

     Hann ljómaði í gær og hann ljómaði í morgun.  Drunginn yfirstaðinn, gleðin og vonin allsráðandi.   Það verður ekki dregið í efa að litli Júdas líkist þeim stóra, hugsar mikið, veltir hlutunum mikið fyrir sér og telur sig alltaf geta gert betur.  Þeir sem þekkja Júdas af blogglestri gætu talið það Akkilesarhæl kútsins að líkjast föður sínum en sjálfur veit ég að sú sterka samviska sem okkur var blásin í brjóst og trúin á Guð sé það ljós sem lýsir okkur daga og nætur, í gleði og sorg, í von og vonleysi og leiðir okkur til þeirrar værðar sem við leitum.

 

     Hvort litli kútur sé þessum hæfileikum gæddur er of snemmt að segja til um en flest í fari hans minnir mig á þann eldri þegar hann var á sama aldri.  Ef til vill verður hann gjörólíkur okkur og búið að sníða af honum helstu galla „eldri árgerða“ og það gæti verið þakkarvert. Við treystum Almættinu í þeim málum.

 

     Dagurinn er fallegur og verður það hvernig sem viðrar.  Við ráðum ekki veðrinu en við getum haft áhrif á þá storma sem blása hið innra svo njótið dagsins.


Litla stúlkan

 Það sem einn sér er öðrum hulið.  Það sem hrópar á einn, hvíslar á annan.   

Stundum sjáum við og stundum heyrum við en látum það ekki trufla.

 

Það var einu sinni hvítt ský

á bláum himni

og lítil stúlka lyfti örmum sínum

til að faðma það.

Gleði, sagði hún, komdu!

 

En gleðin kom ekki.

Og þegar kvöldaði

voru augun hennar tárablá

 

Kristmann Guðm.

 

Örvænting er ávallt sár.

Alfaðir hinn mildi,

lát þú hennar heitu tár

höfð í dýru gildi.

 

Jakob Thor

 

Láttu ekki hugfallast!


Í hvora áttina á ég að ganga?

     Þetta eru þöglir dagar.  Kúturinn hjá Ungu konunni og sá eldri lítið heima.  Ég dormaði í sófanum í gærkveldi, einn en velti því fyrir mér hvort mér liði vel eða venjulega!  „Illa“ er ekki inni í myndinni en eftir að leið á kvöldið komst ég að þeirri niðurstöðu að mér liði bara vel en væri að bíða.  Ég horfið á sjónvarpið en hugurinn var þó annarsstaðar.  Tvær ljóðabækur lágu við hliðina á mér en þær freistuðu mín ekki.  Það er ljóst að ég þarf á bókasafnið í dag til að finna einhverjar bækur sem brúa þetta bil sem ég er við, á milli þess að fjalla um depurð og gleði.  Ég fann það mjög heitt í gær að biðin sem ég hef bloggað um er líklega biðin eftir sjálfum mér.  Þið voruð kannski búin að sjá það út fyrir löngu en í gærkveldi varð mér þetta svo ljóst.  Ég gæti gengið í kringum þetta „vatn“ því ef til vill var það ísinn sem alltaf gaf sig!   Spurningin er jafnvel hvort ég á að setjast niður og bíða í von um að einhver finni mig á undan mér.  Er það hægt?  Hugsunin um það hvað ég gæti sært margar áður en ég fyndi mig gerir það þó að verkum að ég hallast á það að setjast niður og bíða en óttinn við það að vita ekki hvað sú bið verður löng veldur mér pínu lítilli óværð.  En bara pínu lítilli. 

Ég væri til í rigningu, tómlegt kaffihús, lítið kerti, blauta glugga og dempuð hljóð.  Fallegt bros myndi ég samt þiggja en borgar það sig?

 

 

 

Land drauma þinna er hinum megin við vatnið.

Langa, sólríka bernskudaga

starðirðu þangað

uns augu þín urðu þreytt

og sólin vara gengin til viðar.

 

Í svefnrofunum

sagðistu einhvern tíma ætla þangað.

 

Skemmsta leiðin liggur kringum vatnið

en þú veist ekki

í hvora áttina þú átt að ganga.

 

Nú er vatnið á ís

en farðu varlega

--farðu varlega

því ísinn er veikur.

 

Hjörtur Pálsson


Slefandi "perri" hlaupandi um Laugardalinn

     Ég var vaknaður klukkan fimm í morgun og greinilegt að æfingin í gærkvöldi hefur komið öllu á hreyfingu.  1. maí vara dagsetningin en þá yrðu æfingar settar í forgang enda skilaði ég síðasta verkefninu í gær og kyrrsetu þar með lokið.  Ég sé líka fram á að þurfa að hreyfa mig mikið með kútnum því við prufukeyrðum nýja hjólið hans í laugardalnum 1.maí og þvílík læti.  Ég hélt auðvitað að hann myndi hjóla í rólegheitunum enda óvanur og sá sjálfan mig fyrir mér í lakkskóm og síðum jakka rölta í rólegheitum á eftir honum í leit að augnsamböndum við fallegar einstæðar mæður í sömu sporum.  En það var sko ekki þannig.  Það var eins og kútnum hefði verið skellt upp í bremsulausan formúlubíl í meðvindi því vinurinn reykspólaði af stað og síðan vara bara „keyrt“................  Gamli maðurinn missti glansinn á augabragði, hlaupandi á eftir glannanum, hrópandi „BREMSA“, með frakkann þveran aftur fyrir sig svo Súperman hefði verið stoltur af.  Lafmóður og löðursveittur stormaði ég um laugardalinn og er sannfærður um að þær konur sem urðu vitni að þessu láta ekki sjá sig í Laugardalnum á næstunni en vafalaust hafa einhverjar þeirra hringt í lögregluna og kvartað undan lafmóðum, slefandi „perra“ hlaupandi um Laugardalinn!

     Ég uppgötvaði helstu galla göngustígakerfisins í Laugardalnum og ætti að skrifa lesendabréf í Moggann um þessa stíga.  Manni sýnist úr fjarlægð að þetta séu sléttir og láréttir stígar en það eru þeir sko ekki.  Þarna eru brekkur og ég er viss um að sumar þeirra eru nálægt 80° brattar, að minnsta kosti náði kúturinn þvílíkum hraða þarna niður og ný met í kútaakstri voru slegin í hverjum hring.  Svo tók ég eftir einu.  Meðfram sumum þeirra eru gróðursettir skaðræðis þyrnirunnar með sentimeters löngum göddum!  Hvaða vitleysa er það.  Í sumum beygjunum var óhjákvæmilegt að rekast í þá en ég slapp þó án teljandi meiðsla og kúturinn líka.  Það vantaði bara krókódílasíki þarna til að fullkomna þessa hallærislegu skaðræðisgöngustígastefnu.  Síðan vil ég fá hraðahindranir þarna og jafnvel þrengingar, blikkljós sem segja kútum hvað þeir séu komnir nálægt hljóðhraða........neyðarskýli fyrir formlaus gamalmenni jú og lífgunargræjur og súrefniskúta.  Það er því ekki um neitt annað að ræða en að koma sér aftur í gott form nú eða þá að skila kútahjólinu og kaupa handa honum „hjólahermi“ svo ég geti legið áhyggjulaus í sófanum með snakkpoka.

Málið er í nefnd og ekki vitað hvort kúturinn missir réttindi sín eða missi þátttökuréttin í „Ture de france“ fyrir byrjendur. 

Að öllu gamli slepptu þá stóð hann sig eins og hetja, datt aldrei, og hjólaði aldrei út af.  Honum er því fyrirgefið og líklegt er að almættið hafi komið þarna inn í og vakið Júdas af værum hreyfingalausum svefni því ný markmið hafa verið sett.

 

Njótið dagsins.


Af hverju ekki grenndarkynning?

     Það var ljúft að koma fram í morgun með allt þetta sólargeislaflóð inn um allt hús.  Það er greinilegt að ég verð að bæta sólgleraugum inn á náttborðsgátlistann minn til viðbótar við glasið undir fölsku tennurnar, augngrímuna, handbók piparsveinsins og rapportblöðin síðust þrjá árgangana.

     Ég ákvað að leyfa litla kútnum að sofa í hálftíma eða klukkutíma lengur því við lágum í sófanum í gærkvöldi allt of lengi en það var eiginlega ekki hægt að skemma þessa yndislegu stund því hann var svo skemmtilegur og ljúfur.  Í hvert skipti sem hann heyrði í kútabróður sínum breiddi hann teppi yfir höfðið á mér eða sagði mér að loka augunum svo ég fattaði ekki að hann færi úr sófanum í leit að bróður sínum.  Er það ekki skelfilegt þegar smáfólkið fattar hversu einfaldur maður er?  Auðvitað var ég grunlaus í þessu vel skipulagða plotti en stundin var ljúf og mikið hlegið.

Eldri kútnum gengur vel og átti skemmtilegar stundir með sinni heitt elskuðu ef marka má hlátrasköllin innan úr herbergi á milli þess sem komið var fram og litli kúturinn faðmaður.

     Það hefur verið mikið að gera hjá mér síðustu daga, skólinn á síðustu metrunum og nóg að gera í vinnunni líka.  Síðan fer að bætast við garðvinna en ég  var svo „óheppinn“ að fá „græna“ nágranna en til margra ára hefur vanhirti garðurinn minn litið talsvert betur út en vanhirti garðurinn við hliðina á.  Þetta breyttist á einum degi þegar heil fjölskylda ruddist út með hrífur og klippur og úr varð þessi líka ágæti garður.  Hvað er að fólki?  Geta menn ekki séð það með því að líta í kringum sig að garðrækt er ekki ríkjandi í nálægðinni?  Og hvað með grenndarkynningu?  Ég man ekki eftir því að hafa verið boðaður á neinn fund út af þessu.  Ég mun því eyða næstu dögum í að kynna mér rétt minn í þessu sambandi en til vara verður sunnudeginum eytt í þetta.   Ég verð þá líklega að taka hendurnar af náttborðinu og gera eitthvað vasklegt  því ekki viljum við verða okkur til skammar við kútafeðgar.  Mér var reyndar að detta í hug rétt í þessu hvort ég fengi leyfi til að reka niður stálþil..............

 

     En dagurinn bíður og ljóðatregðan sem ég er haldinn þessa dagana gerir það að verkum að ljóð dagsins lætur bíða eftir sér.  Allt sem ég fletti upp á fjallar um nóttina, haustið, kulda eða ljósleysi, ástleysi, vonleysi, myrkur og skugga.   Hvað var að þessum ljóðskáldum?  Það les enginn svona!  Hvar eru gleðiljóðin, hamingjuljóðin, sólarupprás, vor, birta, ylur, uppgangur og ást.  Sleppum kannski ástinni en hitt er nú í lagi.

 

Njótið dagsins.


« Fyrri síða

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband