Af hverju ekki grenndarkynning?

     Það var ljúft að koma fram í morgun með allt þetta sólargeislaflóð inn um allt hús.  Það er greinilegt að ég verð að bæta sólgleraugum inn á náttborðsgátlistann minn til viðbótar við glasið undir fölsku tennurnar, augngrímuna, handbók piparsveinsins og rapportblöðin síðust þrjá árgangana.

     Ég ákvað að leyfa litla kútnum að sofa í hálftíma eða klukkutíma lengur því við lágum í sófanum í gærkvöldi allt of lengi en það var eiginlega ekki hægt að skemma þessa yndislegu stund því hann var svo skemmtilegur og ljúfur.  Í hvert skipti sem hann heyrði í kútabróður sínum breiddi hann teppi yfir höfðið á mér eða sagði mér að loka augunum svo ég fattaði ekki að hann færi úr sófanum í leit að bróður sínum.  Er það ekki skelfilegt þegar smáfólkið fattar hversu einfaldur maður er?  Auðvitað var ég grunlaus í þessu vel skipulagða plotti en stundin var ljúf og mikið hlegið.

Eldri kútnum gengur vel og átti skemmtilegar stundir með sinni heitt elskuðu ef marka má hlátrasköllin innan úr herbergi á milli þess sem komið var fram og litli kúturinn faðmaður.

     Það hefur verið mikið að gera hjá mér síðustu daga, skólinn á síðustu metrunum og nóg að gera í vinnunni líka.  Síðan fer að bætast við garðvinna en ég  var svo „óheppinn“ að fá „græna“ nágranna en til margra ára hefur vanhirti garðurinn minn litið talsvert betur út en vanhirti garðurinn við hliðina á.  Þetta breyttist á einum degi þegar heil fjölskylda ruddist út með hrífur og klippur og úr varð þessi líka ágæti garður.  Hvað er að fólki?  Geta menn ekki séð það með því að líta í kringum sig að garðrækt er ekki ríkjandi í nálægðinni?  Og hvað með grenndarkynningu?  Ég man ekki eftir því að hafa verið boðaður á neinn fund út af þessu.  Ég mun því eyða næstu dögum í að kynna mér rétt minn í þessu sambandi en til vara verður sunnudeginum eytt í þetta.   Ég verð þá líklega að taka hendurnar af náttborðinu og gera eitthvað vasklegt  því ekki viljum við verða okkur til skammar við kútafeðgar.  Mér var reyndar að detta í hug rétt í þessu hvort ég fengi leyfi til að reka niður stálþil..............

 

     En dagurinn bíður og ljóðatregðan sem ég er haldinn þessa dagana gerir það að verkum að ljóð dagsins lætur bíða eftir sér.  Allt sem ég fletti upp á fjallar um nóttina, haustið, kulda eða ljósleysi, ástleysi, vonleysi, myrkur og skugga.   Hvað var að þessum ljóðskáldum?  Það les enginn svona!  Hvar eru gleðiljóðin, hamingjuljóðin, sólarupprás, vor, birta, ylur, uppgangur og ást.  Sleppum kannski ástinni en hitt er nú í lagi.

 

Njótið dagsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðný Bjarna

..njóttu dagsins sömuleiðis

..en Júdas..! ..færslan þín hér á undan um föðurástina og móðurástina er hreinasta snilld...  ég held svei mér þá að Júdas ætti að leggja fyrir sig ritstörf til að vekja athygli á hinni merkilegu föðurást sem er ekki síðri en hin marg umtalaða móðurást.  Til að jafnvægi ríki þarf málsvara fyrir feður, en þar hafa þeir ekki staðið sig sem skyldi.. en í skrifum þínum Júdas eru heillandi áherslur á þessu viðfangsefni...takk fyrir

Guðný Bjarna, 2.5.2008 kl. 11:02

2 Smámynd: Anna

Þetta er nú björt og falleg færsla (að vatnsglasinu slepptu kannski ) , sólargeislaflóðið, kútarnir, nóg að gera og allt það   Bara lovely.

Anna, 2.5.2008 kl. 11:47

3 identicon

grænt vorbros

múmínstelpan (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 12:07

4 Smámynd: Linda Lea Bogadóttir

Falleg færsla hjá þér - hlátrasköll og barnsgleði hefur augljóslega ljómað í þínu hjarta í gær.
Ég var líka að "glugga" í ljóðabók í gær... og þar var mikill tregi, sorg og harmur. Ekki kætti það mína sál að lesa slík ljóð - mig vantaði einmitt ljóð um ástina.
Ég myndi ekki vilja sleppa ástinni úr ljóðum...  - því þó maður upplifi ekki ástina frá karli eða konu í augnablikinu - þá á maður alla vega dásamleg börn að gefa ást. Ég les ástarljóð þess vegna 
Njóttu dagsins

Linda Lea Bogadóttir, 2.5.2008 kl. 12:11

5 Smámynd: Fiðrildi

Sú rödd var svo fögur svo

hugljúf og hrein,

sem hljómaði til mín

úr dálitlum runni.

Hún sat þar um nætur og söng

þar á grein

svo sólfögur ljóð um svo margt sem ég unni.

Og kvöld eftir kvöld hóf hún ástarljóð ein-

ó, ef að þú vissir hve mikið hún kunni.

(Þorsteinn Erlingsson)

Næst þegar að kútalingur vaknar snemma . . . þá vittu hvort þú heyrir ekki í henni og hlustaðu

Fiðrildi, 2.5.2008 kl. 12:13

6 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Þú verður líklega að halda allhressilega grenndarkynningu ef þú ætlar að fá að reka niður stálþil Skemmtileg, björt og glaðleg færsla

Jónína Dúadóttir, 2.5.2008 kl. 12:46

7 Smámynd: Júdas

Guðný Bjarna:  Þetta með föðurástina er stórlega vanmetið og því á ég færslur, sumar nokkuð grimmilegar um meðal annars þetta fyrirbæri (12/1 - 28/10 - 7/10 og 6/10), en ég vil þó taka það fram að ég er ekki að alhæfa þótt það virðist vera þannig heldur er ég að tala um "þær slæmu."    Móðurást er yndisleg og var ríkjandi í mínu uppeldi en ég hef oft spurt mig þeirrar spurningar hvar það var sem föðurástin tók við, tók yfir, eða blandaðist saman við hana.  Pabbi vann hörðum höndum við eigið fyrirtæki, færði björg í bú.......................

Anna:  Þetta með vatnsglasið er kannski ekki alveg sannleikanum smkvæmt 

Linda:  Ég var ekki búinn að fatta þetta með ástarljóðin en ég held að hjá mér veki það aðeins vonbrigði og ég lesi fyrir daufum eyrum sjálfs míns en það kemur að því.

Arna.......Arna, ég vissi ekki af þér hérna.  Takk fyrir ljóðið , ég hlusta!

Jónína:  Góðan daginn Jónína mín.  Ég er hættur við stálþilið því mér skilst að það séu skólplagnir á lóðamörkunum.........en bara út af því.

Júdas, 3.5.2008 kl. 08:03

8 Smámynd: Anna

Ég var alveg viss um að þú værir ekki endilega  að stilla upp óskalandslaginu á náttborðinu  Sagan um hjólaferðina í Laugardalinn  hér í dag 3.05. er  myndræn og skemmtileg. Ég kannast við svona ungar kjarkaðar mannverur sem komast á hjól  En til lukku með að geta lokað námsbókunum.

Anna, 3.5.2008 kl. 09:28

9 Smámynd: Rebbý

við sem ein erum verðum bara að muna að elska okkur sjálf (eins erfitt og það virðist stundum vera)
ég man ekki hvar ég las uppáhalds máltækið mitt en það hefur lifað með mér frá unglingsárunum ....... ástin er hunangið í blómi lífsins ..... verð að láta það duga enn sem komið er

Rebbý, 4.5.2008 kl. 20:16

10 Smámynd: Júdas

Góður punktur Rebbý, takk fyrir það.

Júdas, 4.5.2008 kl. 20:33

11 Smámynd: Sporðdrekinn

Þú sem skrifar svo fallega ættir kannski að koma með eins og eitt stk ljóðabók.

Mínir nágrannar mættu nú bara með sláttuvélina einn daginn og sögðust ætla að slá grasið hjá mér . Ef ég vissi ekki hversu yndisleg og hjálpsöm þau eru þá hefði ég orðið fauj, hefði samt ekki haft efni á því grasið komið upp að höku (já ég er frekar lág vaxin).

Sporðdrekinn, 6.5.2008 kl. 01:49

12 Smámynd: Júdas

, ég er bara ljóðaunnandi, læt þá hæfileikaríku um að fóðra mig.

það kemur í ljós á næstu blíðviðrishelgi hvort þeir komi yfir á mína lóð og taki til hendinni þar.  Ég myndi færa þeim kaffi!!

Júdas, 6.5.2008 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 48653

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband