Færsluflokkur: Bloggar

Hvenær er það of seint?

     Líklega er ég búinn að vera með fingurna á lyklaborðinu í heila mínútu í von um að bloggandinn kom yfir mig en það virðist ekki vera að gerast.  Undarlegt er þetta.  Ég virðist eiga svo auðvelt með að blogga í vanlíðan eða óvissu en í mikilli vellíðan og fullvissu ætlar það ekki að ganga.  Furðulegt.  Það er ekki tímaleysi sem er að fara með mig því það er alltaf með svipuðu móti hjá mér svo afsakanir eru ekki að gera sig.  Minnkandi þörf á að hreinsa til í sálartetrinu gæti verið skýringin en hver sem hún er þá er ljóst að eitthvað fer á bloggið í dag og óvist um næstu færslur. 

     Nýtt ár markar alltaf upphaf og miklu meira en bara breytingu á einum tölustaf því loforðum tekur að rigna í allar áttir, bæði til vina og vandamanna, sögðum og ósögðum, gáfulegum og heimskulegum, þaulhugsuðum og vanhugsuðum, allar gerðir fljúga og svo er rokið af stað í ræktina.

     Ég setti mér engin áramótaheit þetta árið.   Í vellíðan og værð virðist eina heitið sem vit væri í setja sér það að „vera og viðhalda“ en það var einhvern veginn ekki ástæða til að setja það í útsendingu sem er svona augljóst og rétt og virðist vera í gangi nú þegar.  Ég fylltist hinsvegar miklu þakklæti eins og alltaf á tímamótum og upplifi mig enn sterkar getulítinn frammi fyrir almættinu og meðvitaðan um þá Náð sem ég hef þegið á liðnu ári og alla þá þolinmæði sem ég hef kallað fram í þeim sem stendur við stjórnvölinn. 

     Við kútar erum glaðir í bragði og getum ekki annað.  Ferskur blær vináttu og einlægni kryddar tilveru okkar og gefur lífi okkar enn meiri fyllingu en áður.  Tveggja ára helti sem einhverra hluta virðist hafa heillað suma er horfið og ljóst að Júdasi er ætlað að feta áður farnar slóðir en nú með öðru hugarfari eða í það minnsta með aðra fullvissu í brjósti.   Litli kútur,  ljósgeislinn á heimilinu fær okkur til að brosa og gleðjast allar stundir.  Svipbrigði og frasar gamla mannsins hafa stimplast í þann litla sem notar þá óspart og má sumar stundir varla á milli sjá hvor þeirra er húsbóndinn  á því heimilinu.

     Eldri kúturinn hefur greinilega blóð Júdasar í æðum og virðist þurfa að reka sig á sömu hlutina aftur og aftur áður en hann áttar sig á einföldum hversdagsleikanum.  Einlægni og undirgefni tekur þó völdin af og til og minnir hann á þessar staðreyndir.  Hann sér eigin spor, hringir í pabbann, við föðmumst og í auðmýkt er byrjað nýtt líf enn og aftur.  Nýja lífið byrjaði í gær og við sátum í sófanum til kl 3 í nótt.  Litli kútur svaf í fangi hans,  við eldri kútar spjölluðum , lögðum á ráðin og horfðum.  Ferski blærinn blés í aðrar áttir þá stundina en við kútafeðgar þurfum jú okkar stundir. 

Bjartsýni ræður því ríkjum því hvenær er það of seint að byrja nýtt líf?  Júdas gerir það daglega.

 

Njótið.


Ég boða nýjan dag

     Það er eins og bókin hafi verið opnuð aftur.  Bókamerkið fundið og hún opnuð á hárréttum stað og jafnvel á besta stað í bókinni þótt það verði auðvitað ekki vitað fyrr en síðar.  Ef þetta væri teiknimynd er ég sannfærður um að það hefð komið söngatriði og litskrúðug blóm og regnbogar flætt yfir skjáinn.  Í söngleik hefðu sennilega allir leikararnir stormað á sviðið í fjöldasöng og dansatriði, fólk faðmast og  Í leikinni mynd hefðu vafalaust komið tár í augun á margri konunni en við karlmenn hefðum bara fengið kökk í hálsinn og sagt eitthvað svalt með tvíræðan húmor til að halda „svalanum“ sem við erum svo háðir.  Þótt margt hafi verið sagt og skrifað í djúpum hugsunum og vangaveltum um lífið og tilveruna er það alveg ljóst í mínum huga að örlítil áhætta og jafnvel kæruleysi geti verið þess virði.  Við vitum hvort sem er ekkert um framtíðina og það að ætla alltaf að stíga skrefin, bakka svo og skoða sporin rækilega og íhuga það hvert þau gætu leitt mann og hvaða afleiðingar það gæti haft í för með sér að stíga þau áfram í þessa átt gæti leitt til þess eins að hvert skerf yrði  ógn við sjálfa gleðina sem fylgir því að geta tekið ný skref og notið alls þess sem nýir hættir, nýtt umhverfi og nýir staðir í lífinu hafa upp á að bjóða.  Við getum jafnvel gengið yfir grýtt land en notið þó umhverfisins og útsýnisins, sagt við okkur sjálf sem og aðra  „sjáið fjallið, þarna fór ég“  , því auðvitað spretta ekki blóm í hverju spori en við getum þrátt fyrir það notið lífsins og fundið gleðina í hjarta okkar.

    

     Fyrirhyggja skilgreind af særðum einstaklingi getur því farið út í þær öfgar að vera ógn og óhamingja en ekki sú stoð sem henni var ætlað í fyrstu að vera.   Ég fullyrði líka að seinna meir þegar um hægist og aldurinn segir til sín sé mikil gleði fólgin í því,  svo ekki sé talað um innlegg í reynslubankann, að geta litið til baka og séð þessi teknu spor frekar en að líta til baka og sjá bara ónotaða skó sem aldrei var farið í og engin spor tekin. 

     Fegurð hvers dags er nefnilega ekki það sem við sjáum þegar við lítum út um gluggann heldur það sem við finnum innra með okkur þegar við horfum út um hann. 

Ég rifja upp sem fyrr gamlar vangaveltur frá því í nóvember í fyrra en þá var staðan önnur.

 

 Nýr dagur og nýjar vonir.   Ef til vill er þetta dagurinn...................dagur efnda.  Kúturinn fer til mömmu sinnar í dag svo þetta gæti orðið dagur saknaðar eða dagur biðar.  Tæplega verður þetta dagur hryggða því hún hefur verið fjærri mér undanfarði og þar af leiðandi verður þetta ekki dagur depurðar því þær vinkonur haldast gjarnan í hendur.  Dagur ótta verður þetta ekki því hvað ætti ég að óttast og ekki sé ég fyrir mér dag skelfingar þótt vafalaust sé hann það einhversstaðar.  Dagur mæðu verður þetta ekki og dagur böls varla heldur því böl hefur verður blessunarlega fjærri mér alla tíð, og dag erfiðleika óttast ég ekki.  Í erfiðleikum hefur hinn þriðji óslítanlegi þráður haldið tilverunni í samhengi og reikna ég með því að svo verði áfram.  Varla dagur dulúðar því flestir hlutir eru ljósir eða hafa verið gerðir það.  Dagur væntinga verður þetta ekki því hvers ætti ég að vænta á degi eins og þessum?    Getur verið að þetta séu alltaf sömu vonirnar og þá spyr maður sig hvort verið geti að þetta sé alltaf sami dagurinn!   Við feðgar eldri göngum vængbrotnir inn í þessa helgi eins og fleiri......en ég valdi það og stend við það................................“ 

 

Ég boða því nýjan dag,  nýjan yndislegan dag.  Nýjan dag hjá okkur kútum.

 

Njótið dagsins og skrefanna.

   

Værðin er ódýr og þögnin kostar ekki neitt.

     Á meðan menn karpa í útvarpinu um efnahagsmálin og yfirtökur á bönkum sit ég með bollann við eldhúsborðið dreyminn.  Kútarnir sofandi í sitthvoru herberginu og erfiðleikar komandi dags virðast léttvægir í samanburði við upphrópanir ljósvakans.  Báðir þurfa þó að glíma við sitt í vöku og á sumum stundum virðist það óyfirstíganlegt.  Litli kútur kemur daglega með járnbrautarlestina sína sem tók upp á því að keyra ekki sjálf eftir teinunum og ætlar ekki að skilja það að hún kemur ekki til með að geta það aftur en vandræðin eru heil mikil.  Einnig heldur hann fast í Láka bókina sína sem lenti í baðkarinu og límdist öll saman þegar hún þornaði.  Það má ekki henda henni og hann reynir að fá hana lesna fyrir sig daglega og þessi vandræði eru talsvert stór hjá litlum kúti.  Sá eldri er að skipuleggja framtíð sína og glímuna við sjálfan sig og þar skiptast á skin og skúrir.  Í gærdag virtust flest sund lokuð en nokkrum tímum seinna brosti gæfan við honum.  Öll hans orka fer í þetta en ég veit að hann hefur betur.  Væntingavísitala hans jafnar sig klárlega síðar í vikunni svo ekki sé talað um kútagengið  en gamli maðurinn er vanur að fastsetja það við þessar aðstæður og allar líkur á að það komi upp án nokkurrar íhlutunar annarra en Almættisins.  Í þessum ólgusjó virðist fátt bíta á Júdasi því ef það snýst ekki um tilfinningar er hann sterkur á svellinu.  Nægjusemi og einfaldleiki undanfarinna ára skilja ekki eftir sig skuldahala, yfirdrætti eða bjartsýnisbréf og síðast þegar ég vissi kostaði værðin lítið og þögnin ekki neitt.  Við kútafeðgar höldum því sjó, lestin verður skrúfuð í sundur og skoðuð í kvöld og fullur stuðningur og faðmlög koma þeim eldri á fætur aftur.  Svo er ég ekki frá því að ég muni bara söguna um Láka jarðálf.


Teygjur út í tómið

     Meðan naprir vindar blása í tilveru lítillar þjóðar, svartsýni hvarvetna og svartnætti óvissunnar blasir við, ríkir værð í tilveru okkar feðga.  Ilmur fyllir vit okkar og teygjur út í tómið virðast fjarlægar.  Skuggar framtíðar virðast hafa runnið saman við skugga fortíðar og svalinn sem því fylgir fyllir okkur vellíðan.  Værð dag eftir dag og litli kúturinn í draumahlutverkinu frá morgni til kvölds.  Hann fyllir okkur hamingju og gleði svo ekki sé minnst á þakklæti til almættisins sem gerir þetta allt mögulegt.  Vafalast brosir Hann niður til okkar sem endalaust rekumst á sömu hindranirnar í leit okkar að hamingju en leiðin virðist svo oft liggja í stóran hring.  Það er því ekki skrýtið þótt við könnumst alltaf við okkur á slóðum sem eiga að vera ókunnar en eru það ekki í raun.  Þolinmæði og þrautseigja eru það sem þarf í leitinni að værð og vellíðan og ekki er verra ef í kjölfarinu fylgja ávextir liðinna ára og halda manni við efnið.

 

     Bjartsýni er á bænum og þótt kaldir sveipir fari ekki fram hjá okkur í skjóli trjánna erum við tilbúnir í hvað sem er.  Við þjöppum okkur einfaldlega betur saman ef þurfa þykir.  Eldri kúturinn er að undirbúa nýtt upphaf og þótt þau séu orðin nokkur er hann bjartsýnn og glaður.  Hann kallaði þann gamla á enn einn fundinn í gær, „opinbert ávarp“ var flutt við eldhúsborðið.  Hann opnaði hjarta sitt og fór í gegnum sömu hluti og svo oft áður.  Faðmlag og hvatning lá í loftinu og nýtt aðgerðarplan gefið út.  Slæmum hlutum afstýrt á ögurstundu, ekki bara hjá heilli þjóð heldur líka hjá einlægum kút.  „Hvernig færi ég að ef ég hefði þig ekki pabbi minn“.  Sá gamli varð meir og enn var Almættinu þakkað.

     Við höldum því áfram glaðir og bjartsýnir því koma okkar til skugga framtíðar markar aðeins upphaf á þessari löngu hamingjuleið.

 

Kæru vinir.  Nýr kafli væri ekki rétta orðið heldur nýr hringur í áður sögðum sögum.

Við feðgar erum líklega komnir aftur!


Kútar eiga að pissa standandi!

     Þá er komin kútahelgi.  Loksins frí og meiningin að hafa það rosalega gott þessa helgi.  Jafnvel láta allt vinnutengt eiga sig en það var líka meiningin í gærkveldi þegar yfir mig rigndi þó vinnutengdum símtölum í nærri tvo tíma.  Ég hélt að ég væri að verða veikur að kveldi fimmtudags, reyndi að læra en var sífellt að dotta og svaf megnið að kveldinu, drattaðist inn í rúm um miðnætti og leið eins og ég hefði  orðið fyrir strætisvagni, tómum reyndar eins og mér skilst að þeir séu alltaf, en líðanin var afleit.  Eftir nætursvefninn var sá gamli sprottinn upp um sexleitið  ofur hress.  Ég rifjaði það þá upp að þetta er endurtekið efni og ég alltaf jafn hissa á því.  Júdas, þessi  „ofurhetja“ þolir ekki 11. vinnudaginn í röð.  Hann verður þreyttur.  Sá tólfti og síðasti fyrir helgarfrí verður hinsvegar alltaf ágætur því svefn í 10-12 tíma réttir þetta af.  Ég er líklega að verða gamall.  Mér finnst eftir  að hafa skrifað þetta að ég hafi gert það áður en oftar hef ég þó útskýrt hversu einfaldur ég er og líf mitt og því eru sömu hlutirnir alltaf að koma mér á óvart og þeir sömu að gleðja mig aftur og aftur.

     Af kútunum mínum er allt gott að frétta.  Sá eldri ferskur og nýtur lífsins, hélt áfram í skólanum en vinnur  um helgar.  Kærastan hans er talsvert hérna í hreiðrinu með honum og hópur af félögum  frá því í barnaskóla fylgir honum líka eftir og er það góður hópur.  Þetta er hópurinn sem vildi fá mig með í sólarlandaferðina svo þeir gætu leitað til mín ef eitthvað kæmi upp á en það er áður sögð saga.  Vinurinn er á beinu brautinni og þótt ekki hafi verið tekið til í öllum hornum er ljóst að við feðgar erum sterkari í þessari baráttu en áður og sá gamli telur sig vita hvar gula ljósið er að finna.  Hann er ljúfur að upplagi þessi kútur og kemur sífellt á óvart.  Hann var að vinna með strák í tvær helgar sem honum fannst eiga svo mikið bágt.  Hann fáraðist yfir  honum, atferli hans og framkomu í fyrstu en þegar leið á seinni helgina var þetta orðið vorkunn og á sunnudagskveldi sagði hann við mig.  „Pabbi, ég ætla að biðja fyrir honum í kvöld því það er ekkert annað sem getur hjálpað honum“.   Og ég efast ekki um að hann hafi gert það.

     Litli kútur er auðvitað alltaf jafn yndislegur.  Það líður að þriggja ára afmælinu og ótrúlegt hvað tíminn flýgur áfram.  Í vor var bleian látin fjúka og slysum fer fækkandi.  Þó er einhver óþolinmæði að skjóta upp kollinum í leikskólanum því í tvö síðustu skipti sem ég hef náð í kútinn á leikskólann og hann hefur verið úti að leika hefur hann verið með bleiu og kvartar við mig um leið og við erum komnir út í bíl.  „Slysin“ verða auðvitað oftast þegar leikur stendur sem hæst en ljóst að þessar elskur  fá nettan pistil frá mér eftir helgi því leiktími barnanna er ekki frítími þeirra heldur verða þær auðvitað að rukka kútinn um þessa hluti og stýra þeim en ekki losa sig við erfiðið með þessu móti.  Þær urðu líka argar þegar kúturinn fór að pissa standandi og neitaði eðlilega að sitja við það, hann er jú kútur.  Þær spurðu mig hvort hægt væri að venja hann af þessu og ég starði á þær um stund.  „ Er ekki í lagi með ykkur stúlkur,  þið mynduð gera þetta líka ef þið gætuð“ , var það eina sem ég sagði og  strunsaði svo út.  Ljúfur maður ha,  það held ég ekki.  Suma hluti þoli ég bara ekki  og má þar nefna  hatursfullar barnsmæður sem ég hef nú bloggað nokkrum sinnum um,  „kynleysisstefnur“ og þá leti kvenna og skilningsleysi að þvinga stráka til að pissa sitjandi vegna þess að það sé hreinlegra og tæmi betur blöðruna.  Þið mynduð aldrei í lífinu setjast við þessa iðju ef þið þyrftuð þess ekki...........svo einfalt er það.  Klósettþrif ættu ekki að stand í nokkrum manni og þótt þrír kútar losi tankinn já mínu heimili flokkast það ekki sem vandamál.  Allir loka setunni og baðherbergið hvorki sóðalegt né illa lyktandi.  Hvað mynduð þið segja ef ég ætti dóttur og færi fram á það að hún pissaði standandi eins og við feðgar?  Ykkur finnst þetta kannski öfgakennd spurning og ekki í anda Júdasar en í mínum huga er hún það alls ekki!  Strákar eru strákar og stelpur vafalítið stelpur og við skulum leyfa því að vera þannig.  Strákar hafa alltaf tilhneigingu til að pissa standandi því það er þeim eðlislægt.  Annars myndu þeir líka setjast niður í berjamó og pissa sitjandi.  Ég fullyrði að kútar séu bara þvingaðir í þetta á „mömmuheimilum“ og hljóta að „launum“ háð og spott hjá vinum og skólafélögum á ákveðnum aldri.

Úff hvað það var gott að koma þessu frá sér.  Ég roðna í kinnum og fyllist orku.

 Við feðgar förum líklega í ræktina á eftir og tökum svolítið á því en síðan munum við hverfa út í vota borgina, hönd í hönd í leit að ævintýrum.

 

Njótið dagsins.


Júdas er alltaf eins

     Auðvitað vaknaði ég gamlinginn kl 5 í morgun.  Það er alltaf þannig að ef eitthvað mæðir á mér fer allt af stað.  Stundum þarf ekki nema eina setningu í vinnunni og hún eltir mig í tvo daga með endalausum vangaveltum um það hvort ég sé á réttri leið eða ekki.  Ég er formfastur og fylgi sannfæringu minni hvort sem er í vinnu, uppeldi eða kaffiuppáhellingum.  Ekki það að ég geti ekki breytt út af vana því þetta snýst ekki um vana.  Ég á bara erfitt með að fara leiðir sem ég hef ekki trú á.  Þegar ég hugsa um þetta sem ég var að skrifa rétt í þessu finnst mér jafnvel að þetta snúist ekki um leiðir heldur það hvort ég sé skóaður eftir minni sannfæringu eða annarra á leið sem mér er ætlað að fara.  Líklega á það betur við.  Ég tel mig geta hellt upp á kaffi en vil nota mína aðferð.  Væri jafnvel til í aðra aðferð en vil þá fara af stað í það með minni kaffitegund.  Gæti ef á mig væri gengið haft tegundina aðra en ætla mér að nota minn eigin bolla sem ég bloggaði um í september 2007 og segi óhikað skoðun mína á tilrauninni ef á mig verður gengið.  Ég tel mig geta tekið allskyns verkefni að mér sem jafnvel eru einhverjar skorður settar en vil þó fylgja í því ákveðnum eigin prinsippum sem ég trúi á og tel mig hafa náð árangri í að nota við stjórnun.  Af hverju ég er að skrifa þetta núna?  Líklega vegna þess að ég vaknaði kl 5 í morgun með orð vinnufélaga og aðfinnslur á bakinu og var í þungum þönkum út af því. 

 

     Jæja nú er komið ár frá því ég byrjaði að blogga og andinn ekki verið yfir mér upp á síðkastið.  Komnar eru 229 færslur sem eru 19 færslur á mánuði að meðaltali.  Þeim dyggu bloggvinum sem hafa nennt að lesa þessar eilífu vangaveltur um sömu hlutina aftur og aftur og ekki orðið vitni að neinum árangri í leit minni að einhverju, sendi ég afsökunarbeiðni en svona er ég bara og allar líkur á að nýtt blogg ár verði með svipuðum hætti og svipuðum vangaveltum um svipaða hluti með svipuðum árangri.  Aumkunarverðir broskarlar eru vel þegnir en skyldurækni s komment  samt óþörf.  Ekki svo að skilja að mér leiðst kommentin þótt ég sé seinn til svars.  Alls ekki.  En öll vorkunn er óþörf því ég hef það mjög gott.  Mér þykir vænt um bloggvinina og klárt mál að kærir bloggvinir eru fleiri en þeir sem klappa mér á bakið utan bloggheima.  Vonandi hef ég ekki sært neinn en ferlega fer ég í skapið á mér.

 

Nú er skólinn kominn á fullt og eins og í fyrra er ég svolítið klaufalegur í að samræma skólann og kútauppeldið en ég held samt að það sé að koma.  Um kútana ætla ég að blogga í kvöld þegar ég verð upplagðari og kátari.

 

Haustið er samt fallegt, rigningin og rokið þjappa okkur saman og því hlakka ég til næstu mánaða.

 

Njótið dagsins kæru vinir.


Rigningagenið fundið

     Við feðgar erum á góðu flugi þessa dagana og við yngri kútur ætlum að leggja í „stutta“  langferð á eftir og eyða deginum í litli fallegu þorpi sem minnir óneitanlega á Þorpið eina en er bara miklu minna.  Bæjarbúar eru með smá hátíðarhöld þessa helgina og minnast fornra húsbænda og þótt undirtónninn sé vinnutengdur verður kúturinn í öndvegi og gleðin við völd. Við látum rigningarspá ekkert á okkur fá því við kútar höfum aldrei þurft sól til að gleðjast yfir veðrinu eins og bloggvinaþjóð veit.  Litli kútur virðist hafa fengið rigningagenið frá föður sínum og gleðst með honum þegar fagrir dropar falla niður og næra bæði menn og gróður, sussa á stress og hávaða  og svæfa fallega borgina sem og allt sem þeir falla á.  Þegar hann situr í hásætinu sínu aftur í bílnum, krefst hann þess að glugginn sé opnaður svo hann geti fundið regnið og vill umsvifalaust komast út í polladans.  Hann lætur mig jú líka vita hvenær ég á að kveikja og slökkva á rúðuþurrkunum enda gæti sá gamli auðveldlega gleymt því og eins gott að vera til taks.  Hann stekkur úr leik heima fyrir þegar hann heyrir hina minnstu regndropa droppa á rúðurnar og klifrar upp á stól við gluggann til að horfa á.  Unglingskútur hefur færri orð um þetta nú orðið en gleðst samt með okkur.  Veður virðast hvorki trufla hann né valda einhverjum sveiflum í lífi hans því hann er svo yfirvegaður.  Hann er að vinna þessa helgi en færi líklega ekki með okkur þótt hann væri í fríi. 

Ræktin bíður þó eftir okkur áður en lagt er af stað og Sprotalands er beðið með eftirvæntingu.

 

Njótið dagsins.


Einn kemur þá annar fer

     Þetta er yndislegur dagur.  Þótt eldri kúturinn hafi farið til Þorpsins með kærustunni og  á móðurslóðir kom sá litli til mín í fyrradag.  Ég heyrði pabbahrópin utan af bílastæði þar sem ég sat við eldhúsborðið þreyttur eftir mikla vinnu og ekki frá því að stress ásamt mikilli kaffidrykkju sé farið að segja til sín.  Við okkur brosir þessi fallega helgi og einmanaleg borgin sem verður bæði myndræn og ljóðræn í þessum tómleika sem á henni dynur um Verslunarmannahelgar og líklega bætist við fallegt kyrrlátt regn og fullkomnar þetta.  Það virðist þó ævinlega vera einhver seiðandi ljómi yfir henni á slíkum dögum og það er eins og borgin láti þreytuna á ys og þys hversdagsins líða úr sér og sýni okkur fegurð sýna á allt öðrum nótum en venjulega enda ekkert sem truflar.   Því munum við feðgar, uppteknir hvor af öðrum fara víða og ekkert sem gæti truflað okkur í því að bæta hvor öðrum upp þann tíma sem fjarlægðin hafði af okkur.  

     Hann hringdi í mig í gærkveldi, eldri kúturinn og spurði mig hvort ég væri búinn að gleyma sér því ég hafði ekkert hringt í hann frá því hann fór.  Hann á það til að rukka mig um áhyggjurnar sem ég á að hafa af honum en ég vildi nú bara leyfa honum að vera í friði í móðurfaðmi en fékk að vita það að faðmurinn hafði ákveðið að farið úr bænum svo hann og kærastan fengu inni í bílskúr hjá bróður hans  en verða hinsvegar að sturta sig hjá afa og ömmu.  Örlítið öðruvísi en ætlað var en nægjusemin og æðruleysið kom til bjargar.

     Njótið dagsins


Ég er gestrisinn en bara ekki svona lengi

     Mér finnst ég vera orðinn hálf ryðgaður enda ekki bloggað í sex daga.  Og það er ekki allt.  Ég hef varla verð með sjálfum mér í þessa fimm daga og liðið vítiskvalir!  Heimili mitt breyttist og það var ekki lengur friður yfir kaffibolla á morgnanna.  Þessar yndislegu og heilögu stundir urðu allt í einu ónæðisstundir og á tímabili velti ég því fyrir mér hvort ég ætti að velta mér á hina hliðin og sofa lengur í stað þess að fara fram.  Kvöldin breyttust úr værðarstundum í óværðarstundir og vinnudagarnir drógust og æfingarnar lengdust því athvarfið var ekki það sama.  Ohh hvað ég er feginn að þetta er liðið hjá og næturgesturinn aldni er farinn til síns heima.  Dæmið mig ekki hart en ég er bara svo vanafastur og greinilega talsverður einfari að minnsta kosti heima fyrir.  Mér varð það á að segja Já við næturgistingu og hélt það yrði bara ein til tvær nætur en ekki fimm.  Annars finnst mér ég yfirleitt greiðvikinn og gestrisinn, þið megið trúa því en bara ekki svona lengi!! 

Það var því kærkomið að fá fallega rigningu niður úr logninu rétt áðan og vita að heima beið mín þögnin. 

Að vísu bara þangað til eldri kúturinn kæmi heim en þeim hávaða fylgir vellíðan og væntumþykja.

 

     Við erum farnir að bíða eftir litla kútnum því hann er búinn að vera úti á landi með Ungu konunni og í vikunni vissi ég ekki hvort ég væri að verða geðveikur vegna næturgestsins, eða  hvort ég væri að drepast úr söknuði til þess litla.  Ef til vill var þetta allt í bland en hann er á leiðinni til mín og verður hérna eftir klukku tíma eða svo og þá verður sameiningin!  Það stefnir því í yndislega helgi sem bara á að snúast um drengina mína, samveru og værðarstundir.


Vopnaðir penslum

     Við feðgar eldri ruddumst út vopnaðir penslum og máluðum okkur inn í fegurð umhverfisins.  Við vorum orðnir svörtu sauðirnir því ofvirki nágranninn var búinn að mála girðinguna hjá sér að okkar og nágranninn í húsinu hinumegin var líka búinn að því.  Sá ofvirki var meira að segja búinn að bjóða mér restina af sinni málningu og  penslana til að reyna að fá mig af stað en þetta gengur bara ekki þannig fyrir sig.  Ég er ekki letingi.  Þetta snýst um tíma og sá tími hefur bara ekki verið til staðar.  Þegar ég er ekki í vinnu hef ég verið með litla kútinn og því ekki tími í svona.  Einhver nágranna sálfræði virkar því ekki á mig og ég vil kaupa mína málningu sjálfur og mála þegar ég hef tíma og hana nú.  Við feðgar máluðum tvö kvöld í röð og þegar ég kom úr vinnu og af æfingu í gærkveldi hafði eldri kúturinn byrjað á seinni umferðinni, var búinn að skúra allt húsið og elda handa gamla manninum.  Þvílíkur lúxus.  Því skyldum við þurfa konu inn á þetta heimili?

     Við söknum litla kúts hinsvegar en hann er búinn að vara úti á landi með Ungu konunni í heila viku og verður í aðra til.  Við heyrum hinsvegar í honum í síma annan hvern dag en mér skilst að hann sé búinn að vera óþægur að fara að sofa og vill hitta bróann sinn.  Hreiðrið er því býsna tómlegt sumar stundir á þá man ég af hverju gott gæti verið að hafa konu hérna en það líður sem betur fer hjá.

 

Njótið dagsins


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 48796

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband