Færsluflokkur: Bloggar

Skiptir stærðin máli?

     Við ætlum að leggja í hann á eftir.  Keyra tveir út í rigninguna syngjandi glaðir og stefnan sett á Þorpið.  Hversu lengi ég endist þar veit ég ekki en þó nógu lengi til að viðra okkur, taka í nokkra bolla og leyfa kútnum að njóta afa og ömmu smá stund.  Einn dagur, tveir dagar, kannski þrír.

     Ég rogaðist heim með nýtt sjónvarp í gær og breytti stofunni hjá mér til framtíðar.  Þvílík stærð og er því fullur efasemda í dag um að ég hafi valið rétta stærð.  Mér leið í gærkveldi eins og heftiplástri í kvikmyndahúsi og stóra stofan mín hafði breyst í eldspýtustokk.  Ég veit ekki hvort það var stærðin, gæðin eða öll þessi birta en var ekki frá því að nefhárin á mér hefðu sviðnað.  Ég keypti tækið í Elkó og er ákveðinn í að nýta mér þennan 30 daga skilarétt sem þeir bjóða ef tækið uppfyllir ekki væntingar mínar en það er fyrst og fremst stærðin sem ég hef efasemdir um þ.e 42“ en ekki 37“ .  Þetta er í fyrsta skipti á ævinni sem ég er með áhyggjur af stærðinni og tommufjöldanum og verð að játa að þetta er óþægileg staða.  Hver segir svo að stærðin skipti ekki máli?

     Það er best að fara að tygja sig til ferðar og reyna að njóta þess sem mest.  Mér skilst að einstæðum mæðrum hafi fjölgað í Þorpinu upp á síðkastið og velti því fyrir mér hvort þar liggi gæfan í leyni og svalir skuggar framtíðar.  Þótt það sé ekki ætlun mína að yfirgefa fagra vota borgina gæti hjarta mitt allt eins leitað út fyrir vígið því óvíst er hver fari með völdin þegar einmana hjörtu finna skjól í þessum skuggum.  Ég var búinn að skrifa „eftir langa göngu“ en verð að játa að hún er ef til vill ekkert svo löng og alls ekki víst að komið sé að lokum þeirrar göngu.


Sjónvarpskrísur

     Þá er komið að því.  Ferð í Þorpið með kútinn.  Ég ætlaði að fara í byrjun þessarar viku en hef bara ekki nennt því og strax kominn miðvikudagur.  Það truflaði mig reyndar að sjónvarpið sem er heimilistæki aftarlega í áhersluröðinni gaf upp öndina og er allt í einu komið ofar á listann en mig óraði.  Fyrir mörgum árum keypti ég 28“ tæki og ákvað að taka það ódýrasta sem ég fann.  Á svipuðum tíma keypti ég mér ferðatölvu sem var fimm sinnum dýrari og það fannst mér bara eðlileg þá og finnst það enn.  Ég reikna með að áhersluröðin sé eitthvað í þessa áttina hjá mér; tölvan, ryksugan, þvottavélin, uppþvottavélin, kaffivélin, útvarpið.......................og margt annað áður en það kemur að sjónvarpi og hljómflutningstækjum.  Sjónvarpið gengur þó stundum þótt ekki sé „beint“ verið að horfa á það, unglingurinn kastar sér í sófann og horfir á einn og einn þátt, gamli horfir á fréttir og litli kútur á barnaefni en þó mjög sjaldan.  Enginn okkar er þannig gíraður að ekki megi missa af einhverju eða beðið eftir einhverjum þáttum með tilhlökkun.   Venjulega er unglingurinn búinn að sjá þetta á netinu og ég get alveg eins séð fréttirnar í tölvunni inni í eldhúsi yfir bolla eins og að rjúka inn í stofu.  Litli kútur hefur setið með okkur á stofugólfinu í þessu sjónvarpsleysi og kubbað út í það óendanlega og pottþétt að þarna er á ferðinni enn af arkitektum framtíðarinnar að minnsta kosti í Lego-landi.   Sjónvarpstækið var búið að standa sig vel þessi átta ár og það eina sem hafði versnað fyrir utan sjónina í mér var það hversu lengi það var að kveikja á sér.  Þar sem ég er dálítið eldhræddur var það alltaf tekið úr sambandi eftir notkun og ég ímyndaði mér að það væri kannski hálfnað með líftímann og komið á breytingarskeiðið margumtalaða.

     Ég fór á ferðina á mánudag og í gær til að skoða sjónvarpstæki og gekk inn í þvílíku flóruna.  Það eina sem ég er með á hreinu er það að ég vil það ekki minna en 32“ og vil ekki borga fyrir meira en samviska mín leyfir fyrir tæki með lítið nota og áherslugildi.  Yfir mig rigndi upplýsingum og tölum sem margur sölumaðurinn gat varla útskýrt fyrir mér. Þegar ég horfði á sjónvarpsveggina hjá þeim fannst mér öll þessi sjónvörp ágæt og ekkert þeirra áberandi betra en annað þótt verðmunurinn gæti hlaupið á hundruðum þúsunda.  Það reyndist mér vel að spyrja þá hvernig sjónvarp þeir ættu sjálfir og afhverju þeir hefðu valið þau.  Ég fékk í mögum tilfellum raunhæf og skemmtileg svör og í einni búðinni byrjaði sá sem tók á móti mér á því að afsaka það að hann væri bara viðgerðarmaður og væri að leysa af í kaffi. „Frábært, þú ert maðurinn sem ég þurfti í þetta!“  Þar fékk ég bestu útskýringarnar og mestu fagmennskuna. Sum sjónvörpin voru svo góð að þau voru langt á undan gæðum í útsendingum og endingartíminn 20-30 ár en ég er ekki viss um að ég nenni að eiga sama sjónvarpið í svo langan tíma enda væru þau líklega orðin talsvert á eftir að þeim tíma liðnum eða þá að hafa möguleika sem ekki nýtast mér.  Upplausn, litir, skerpa, birta , viðbragðstími ofl, vafrað á netinu og verð borin saman.  Þvílík tímasóun og það í fríi.  32“, 37“, 40“ og 42“.................óþolandi.  Og enn ekki búinn að ákveða þetta.  Vona að það verði í dag.

     Það sem kemur mér mest á óvart í þessu er að þessar fáu stundir sem sjónvarpið var í notkun virðast allt í einu orðnar svo mikilvægar.  Þögnin sem það fyllti upp í og afþreyingin sinnum þrír þótt viðveran við það væri ekki löng í hvert skipti virðist skipta máli.  Ég ætla þó ekki að færa það ofar á forgangslistann eða bruðla í það of stórum fjárhæðum en það verður samt að vera til taks á þessu heimili okkar kúta og ljóst að það gengur fyrir ferðina í Þorpið svo henni verður frestað í nokkra klukkutíma eða daga eftir þörfinni.

Ég skellti inn nokkrum myndum í gær í svolítilli óvissu um það hvort rétt væri að birta þær en lét svo tilleiðast. 

Njótið dagsins og rigningarinnar.


Spurning um að koma úr bloggskápnum?

     Þá erum við feðgar komnir á klakann sem reyndar var ekki svo mikill klaki eftir allt saman.  Veðrið þarna úti lék svo sem ekkert við okkur en síðustu dagarnir voru svo heitir að við þráðum svalann aftur.  Það var gott að opna útidyrahurðina og rölta inn í hreiðrið sem hafði ekkert breyst frá því við vorum hérna síðast.  Það var þrifið áður en við fórum og ekkert 10 cm ryklag yfir öllu eða ló á stærð við meðalstóra heimilisketti eins og ég hafði reiknað með eftir svo langa ferð. Kúturinn kastaði sér í rúmið sitt og stormaði svo fram í eldhús þar sem sá gamli var kominn með á könnuna og stakk upp á að við pöntuðum okkur ÍSLENSKA pizzu.  „Er ekki í lagi með þig.  Þú mátt panta vinur en ég ætla bara að fá mér kaffi.“

    Daginn eftir náði ég svo í litla kútinn á leikskólann eftir vinnu og ég neita því ekki að það var svolítill beygur í mér eftir svona langa fjarveru frá honum.  Mér var búið að detta það í hug að láta Ungu konuna sækja hann og koma með hann heim en hún gat það ekki svo þetta varð bara að vera svona.  Ég var ákveðinn í að gefa honum góðan tíma á útisvæðinu til að venjast „aðstæðum“ en sá litli þurfti sko ekkert svoleiðis kjaftæði.  Hann hrópaði pabbi, upp yfir sig eins og hann gerir alltaf þegar ég næ í hann en hljóp svo í burtu eins og hann gerir líka svo oft og vill láta elta sig og síðan kom skoðunarferð um völlinn eins og ég væri túristi.  Þegar út í bíl var komið var það brói sem hann vildi hitta og við stormuðum heim til sameiningar þriggja gullfallegra kúta á misjöfnum aldri.  Lífið er yndislegt.

 

     Ég átti nú von á því að bloggvinir mínir myndu í hópum koma heim á lóð á meðan ég var úti, mála grindverkið, klippa runna og slá lóðina en það rættist ekki.  Skildi það haldast í hendur við það að vera nafnlaus bloggari?  Ég veit það ekki en grunar það samt.  Spurning um að koma úr bloggskápnum?  Nei, það væri ólíklegt því kæmi ég úr honum færi einlægnin upp í efriskáp og úr skúffuni kæmi coolið sem gæti verið talsvert frábrugðið, að minnsta kosti fljótt á litið.  Ég hef hinsvegar ákveðið að setja inn nokkrar myndir úr ferðinni og vona að ég hafi tíma til þess í vikunni.  Síðan er ég byrjaður að lesa bloggfærslur bloggvina langt aftur í tímann því svona vanræksla er vart líðandi. 

     Hef farið víða í dag og sporin leyna sér ekki.  Hey, ég er þessi á stuttermabolnum með sólgleraugun!

 

Njótið einhvers.


Góður þessi granni!

     Góður þessi granni!  Hann hefur líklega séð nýja hlið á mér nágranninn þegar ég fór í regngallann og háþrýstiþvoði girðinguna hjá mér.  Líklega búinn að mynda sér skoðun á þessum „einhverfa“ nágrannanum sem aldrei fær heimsóknir og lítur varla til hægri eða vinstri þegar hann stekkur úr bílnum og inn.  Ef til vill búinn að banka upp á hjá mér í vetur en þekkir ekki leyndardóminn við það að banka hjá mér og hafa ekki látið vita af sér áður.  Löngu farinn að íhuga að selja aftur og koma sér í góða fjarlægð frá manni sem gæti allt eins verið stór hættulegur, föndrar við sprengjugerð á kvöldin og vafrar um á vefjum islamskra öfgamanna.  En hann greip mig hérna fyrir utan í gær og bauð mér restarnar af málningunni sem hann notaði á steinvegginn og penslana sem enn voru rakir í pokum.  Tvíeggjað.  Var hann að setja á mig tímapressu með þessu?  Vill hann fá vegginn málaðan á þessum áratug en ekki þeim næsta?  Óttast hann mig og telur best að vera vinur minn eða vann hann í lottói og vill deila einhverju með litla manninum?  Ég þáði þetta auðvitað með þökkum og bölvaði mér í hljóði fyrir að hafa slegið lóðina um helgina því ef til vill hefði hann gefið mér sláttuvél ef ég hefði dokað við með það.  Hann virkar bara vel á mig þessi náungi.

 

     Nú bíðum við feðgar spenntir eftir svari að utan um það hvort húsbíllinn sem við pöntuðum standi okkur til boða, bæði tegundin, stærðin og tímasetningin.  Að því loknu snúum við okkur að fluginu en höfum þó gert drög að því með millilendingum og auðvelt að breyta þar ef eitthvað breytist með bílinn.  Við erum báðir orðnir spenntir og eldri kútur farinn að tala um þetta við „sviknu“ félagana sem virðast skilja þetta frá a til ö og finnst hugmyndin frábær.  Ég helt að svona freistaði bara gamalmenna en það virðist ekki vera.

     Litli kútur bætir gríðarlega við orðaforðann og munar um hvern daginn, en hann er líka orðinn stórhættulegur sjálfum sér og leitar allra leiða til að skjótast í burtu, láta sig hverfa og kanna heiminn einn og óstuddur.  Ótti er ekki til í hans orðaforða, nema þá við höggborvélar og er á stefnu skránni hjá mér að loka öllum útgönguleiðum af lóðinni hjá okkur  því vinurinn skríður í gegnum runnana til að komast inn á lóð nágrannans.  Hann er líka allur rispaður í framan eftir það en finnst það bara svalt.  Ég þarf að fara þetta í vikunni nú eða um helgina . 

     Mikið er reynt þessa dagana að ná af kútum bleiunni og lokka hann á kopp eða klósett og þó fyrr hefði verið.  Hann vill þó ekkert vera að flækja þetta og sáttur við þetta eins og það er, ég meina pabbi er ennþá með gamla túpu-sjónvarpið og af hverju að elta „tæknina“ þótt eitthvað standi til boða...........

 

Dugar í dag, rigningardag?


Þungir armar

     Áskoranir eru það sem við þurfum.  Verkefni eru það sem við nærumst á .  Að hafa eitthvað fyrir stafni gleður.  Það að sinna kútunum fyllir mig orku og án þeirra verð ég eirðarlaus og latur.  Get ekki setið, ráfa um  og get jafnvel ekki lesið.  Handleggirnir verða þungir og skrefin þung.  Stingur í brjósti og allir hlutir vaxa í augum.

 

Breiddu arma þína

móti straumnum

Opna faðm þinn

 

Er þú ert byrðum þínum sviptur

og þeir fjarri er þú fagnaðir

verða armar þínir þungir

 

Bið þess þá

þér fallist ekki hendur

 

Þóra Jónsdóttir

 

     Við stjórnum þessu furðu mikið og höfum þennan möguleika í myndinni.  Við biðjum um styrk.

Biðjum þess að okkur fallist ekki hendur.

 

Góða nótt.

 


Furðuleg fötlun!

   Það var stoltur maður sem stóð fyrir framan háþrýstiþvegna girðinguna kl 23 að staðartíma og virti fyrir sér meistaraverkið.  Búinn að vera stanslaust að í fjóra klukkutíma í rigningunni og steinveggurinn nánast tilbúinn undir málningu.  Þá var bara eftir að verka upp skítinn og sópa stéttarnar en út úr húsi vippaði eldri kúturinn sér með kústinn og setti punktinn yfir i-ið.   Og nágranninn..........ha......hvar var hann núna.  Hangandi inni með báðar hendur á pu.......púðanum og greinilega einn af þeim sem getur ekki unnið í rigningu.  Furðuleg fötlun það eða bara rigningarverkkvíði sem fær hann til að vinna bara í sól og sumaryl en hanga inni eins og lúpa þegar hann rignir.  Puhh,  svona pissudúkkur!   Við kútafeðgar látum ekkert stöðva okkur ........nema leti en það er líka það eina.   Garðurinn verður svo tekinn með álíka áhlaup næst þegar verðrið verður “slæmt“  og þá helst í roki og  rigningu. 

     Í fyrrakvöld kom bað Unga konan mig um að  vera með kútinn eina nótt og var það þegið með þökkum.  Ofurþreyttur vafði hann sig um hálsinn á mér og vildi hvergi annarsstaðar vera sama hvernig ég reyndi að hrista hann af mér.  Á endanum varð ég að fara í sturtu með hann hangandi á mér og fara svo í rúmið með honum líka því hann var svo lítill.  Allt í einu spratt hann upp úr rúminu og hljóp fram.  Eitthvað hafði vantað, sennilega tuskudýrin og hann hlaupinn að sækja þau.  Það var bolti sem hann kom með til baka  og vildi taka með sér í rúmið.  Ég nöldraði og sagði honum að við færum ekki með bolta í rúmið en hann var ekki á því að gefa sig.  Breiddi yfir hann eins og um bangsa væri að ræða og kyssti hann síðan góða nótt.  ja hérna.  Hvað verður það næst.  Reiðhjólið líklegast!

 

     Framundan er nóttin, kærkomin og sefandi og síðan fallegur dagur, jafnvel rigning ef Guð lofar.  Dagur tækifæra og dagur nýrra spora ef Guð lofar.  Dagur upplifana og dagur uppgötvana ef Guð lofar.  Dagur væntinga og dagur drauma ef Guð lofar.  Dagur værðar og dagur vonar ef þú vilt það sjálfur.

 

Njótið!

 

Dagur dáða?

     Dagur dáða er runninn upp!  Og skammist ykkar bara fyrir fyrstu hugsanirnar sem komu upp í huga ykkar þegar þið lásuð fyrstu setninguna.  „Dagur svika“  hafa einhverjir hugsað en það er ekki upp á teningnum í þetta skiptið.   Þar sem ég sit við eldhúsborðið með kaffi og epli sem fer ótrúlega vel saman, ég meina sumir dýfa kexi í en ég epli vegna heilsuátaksins, og lítill  krumpaður, nývaknaður kútur ekki í fanginu á mér verður tekið á því í dag.   Ég er búinn að eiga rosalegar góðar æfingar að undanförnu, þungar og góðar og úthaldið vaxandi  og ein slík verður tekin kl 11 og ekkert slegið af.  Hef meira að segja uppi áform um að mæta líka seinnipartinn þótt það sé ekki á loforðalistanum og taka eins og klukkutíma á skíðavélinni.  Það eru þrifin sem eru á loforðalistanum því þrátt fyrir vangaveltur í heilt ár um að fá konu í þessi verk hefur samviskan ekki leyft það, við feðgar eigum að gera þetta sjálfir.   Eldri kúturinn hefur verið mjög liðtækur alla tíð, ryksugað og skúrað algjörlega óbeðinn en að undanförnu hafa aðrir hlutir verðið ofar í huga hans og ég alls ekki á því að tuða út af því.   Þeir dagar koma síðar en staðreyndin er sú, og haldið ykkur nú, að hér hefur ekki verið þrifið í viku.  Ryksugað einu sinnu..................Hvað ætli ég hafi misst marga af bloggvinum mínum núna?  Það er nú samt þannig að umgengnin er mjög góð ég meina, blindur maður myndi ekki falla um neitt hérna, grípa í tóma uppþvottavél og þreifaði ekki á himin háum þvottahaugum!  Við erum ekki alvondir en vikan er búin að vera eitthvað svo þétt.  Kúturinn fór til mömmu sinnar í gær og í staðinn fyrir að vakna með tómleikatilfinningu í hjarta eins og það var frá síðasta sumri vaknaði ég endurnærður og tilbúinn í allt nema sambúð.  Ehhh, nema hún færi á hnén...............og snéri baki..................fyrirgefið mér en ég er nú einstæður faðir og þeir eru allir eins.   Þarna held ég að síðustu bloggvinir mínir, þeir sem ekki fóru áðan hafi yfirgefið mig.  Púfff.  Læt þetta ekki koma fyrir aftur.  Bæti þessu á loforðalistann.

     Ég heyrði samt í kútnum í gær því Unga konan fór með hann í matvörubúð og hann lét öllum illum látum en gæti þó hafa verði á neytendavaktinni og einfaldlega verið að blöskra verðhækkanir  sem koma til vegna hækkandi heimsmarkaðsverðs en um það er ekki gott að segja.  Nettar hótanir um pabba hans róuðu hann aðeins og þegar út í bíl kom var hringt í gamla manninn og lítill skæruliði á línunni.  Hann var glaður að heyra í pabba sínum og kom af fjöllum þegar ég spurði hann um síðustu hryðjuverk og óþægð við móðurina.  „Bolti og súpa“ voru eitt af því fáa sem ég skildi ásamt pabbi og mamma en hann talaði mikið.  Líklega erum við farin að finna fyrir þessari óþægð fyrsta daginn í nýrri kútaviku en Unga konan þó talsvert meira.  Gamli er sjóaður í þessu.

Það er best að vinda sér í þrifin og koma sér svo út úr húsi. 

 

Njótið dagsins.


Júdasi finnst hann lélegur faðir þessa dagana

     Það eru svo sannarlega margir hlutir sem þvælast fyrir mér þessa dagana.  Þó kannski ekkert margir á mælikvarða margra en fyrir einfeldning er þetta „fullt hús“.  Það hlaut að vera eitthvað sem kæmi í staðinn fyrir skólann.  Ég var bara búinn að gleyma þessu.  Garðurinn, íbúðin, æfingarnar og sumarleyfispakkinn.  Ég ætla ekki að fara að setja kútana í þessa upptalningu því þeir ganga auðvitað fyrir þótt það komi dagar þar sem samviskan nagar mann eftir að hafa horft á tárvot augu lítils kúts sem ekki hefur fengið alla þá athygli sem hann vildi fá og átti að fá.  Júdas er stundum lélegur pabbi og ekki þarf mikið til að trufla hann.  En ég veit hvað ég þarf.  Ég þarf konu til að skúra hjá mér og þrífa einu sinni í viku og einhvern til að slá fyrir mig garðinn.  Auglýsi eftir því hér með!!  Ég vil geta leikið meira við kútinn og helgað mig honum algjörlega.  Ég er reyndar að fara að loka öllum flóttaleiðum úr garðinum hjá mér svo ég geti verið með kútinn úti í garði án þess að hann skjótist yfir á lóðir nágrannana eða bara út á götu svo garðvinnan gæti orðið samvera með kútnum en ég myndi þó glaður borga fyrir lóðaslátt einu sinni í viku.

     Nú svo eru það æfingarnar.  Ég er komin ræknina aftur, mataræðinu snúið við 1.maí og tekið verulega á því kútalausu vikuna.  Hin vikan stjórnast bara af kútnum og er hann er æstur í leiksvæðið þarna en mér finnst það rangt að taka hann úr leikskólanum og beint í barnagæslu.  Mér sýnist samt aðeins helgin koma til greina þá vikuna en það kemur í ljós.

     Eldri kúturinn minn er svolítið upptekinn af sólarferð sem hann ætlaði með vinum sínum í ágúst en efasemdir hjá honum um sjálfan sig hafa sett strik í reikninginn.  Samviskan segir honum að fara ekki svo pabbakúturinn er að skipuleggja með honum ferð sem gæti orðið tveggja vikna húsbílaferð meðfram Andíahafi eða í raun bara þangað sem hann vill og tíminn leyfir.  Kannski verða bara engar áætlanir nema þær sem koma fram yfir kaffibolla í morgunsárið einhversstaðar í fjarlægu landi.  Vinurinn yrði sá sem skipulegði og segði hvert ætti að fara því Júdas þarf bara kaffibolla á morgnanna og kannski tvo til að fylla í tómið sem fagurt, ilmandi fljóð eitt gæti fyllt.........

     Kútnum langar reyndar að fara í þrjá daga til Krítar til hitta sína heitt elskuðu kútakærustu svo gamli bíður líklegast bara í húsbílnum á meðan hann tekur flugið frá fjarlægri borg.  Þetta er þó bara í burðarliðunum en það verður að gerast hratt og í einfaldleika mínum finnst mér sálarheill eldri kútsins spila inn í þetta.  Ykkur finnst ég ef til vill á alrangri leið í þessu og ef svo er þá endilega kommentið á mig.  Júdasi finnst hann lélegur faðir þessa dagana og þegar ég lít til baka gæti það náð langt aftur í tímann.  Ímyndaður styrkur gæti hafa verið veikasti hlekkurinn.

 

Dagurinn verður fallegur og horfandi til himins er ekki ósennilegt að gullnir dropar falli; þaggi niður í hávaða hversdagsins og vökvi þurfandi bæði á „líkama“ og sál. 

 

Njótið dagsins


Þarf ég nálgunarbann á nýja nágrannann?

     Það var bankað á útidyrahurðina hjá mér!  Kallað innan úr herbergi:  „Áttir þú von á einhverjum pabbi??“  Ekki laust við smá hæðni í röddinni en um leið undrun.   „Neibb, farðu til dyra vinur, þetta hlýtur að vera til þín.“  Eldri kúturinn var eitthvað tregur því hann sagðist ekki hafa átt von á neinum en við kútafeðgar erum svolítið furðulegir með þetta.  Við förum nefnilega ekkert endilega til dyra þótt bankað sé því í 97% tilfella erum við látnir vita af því fyrirfram  ef einhver er að koma og af þessum 97% eru 96,2% vinir kútsins.  Ég hef áður bloggað um þá sem koma til að hitta mig en fyrir utan barnsmóður mína sem droppar stundum inn, þó meira þegar ég er ekki heima til að ná í eitthvað vegna litla kúts eru það kona á sjötugsaldri að lesa af rafmagnsmælunum, Vottar Jehova með áhyggjur af því að ég sé ekki einn þessara rúmlega 200.000 einstaklinga sem komist til himna og áhyggjufullir nágrannar með einhverjar fáránlegar spurningar um það hvort ekki þurfi grenndarkynningu fyrir stálþilinu sem verið er að reka niður í garðinum hjá mér!!.  jú og brósi sem farinn er að koma af og til úr Þorpinu og rúllar þá við hjá mér en hann lætur vita af sér og hringir í mig þegar hann kemur í götuna.  Það sama á við um vini eldri kútsins.  Hann veit alltaf hvenær von er á einhverri kútarós eða öðrum pörukútum svo það er ekkert skrítið þótt við stökkvum ekkert til.  Ég sagði honum þó að drífa sig bara til dyra sem hann gerði en lét þó þau orð falla að það væri allavega klárt mál að þetta væri ekki sín.  „PABBI, ÞAÐ ER TIL ÞÍN!“.   Hjartað í mér tók kipp og ég spratt upp en þegar ég sá hver það var gat ég varla leynt vonbrigðum mínum.  Ég lét þó ekki á neinu bera enda leikarar í fjölskyldunni.  „Sæll Vinur.  Hvernig gengur“.  Er von að maður spyrji nýjan ofvirkan nágranna að því þegar lóðin hans er að breytast í verðlaunagarð og Guð má vita hvað hann gæti verið að bralla núna.  „ Heyrðu, ég er að fara að háþrýstiþvo grindverkið hjá mér og búa það undir málningu og datt í hug hvort þú vildir vera með í því???!!!  Hvað er að manninum!  Þarf hann félaga í öllu sem hann er að gera eða er hann hræddur um að það lækki hjá honum fasteignamatið ef ég dubba ekki upp húsið mitt um leið og hann tekur sitt í gegn?  Eða á manndrjólinn enga vini?  Veit hann ekki að ég er að leita að konu en ekki framkvæmdafélaga sem sér mér fyrir verkefnum sumar eftir sumar.  Það var ekki laust við að ég skimaði eftir falinni myndavél eða einhverju svoleiðis.   Þarf ég að reka niður stálþil framan við húsið líka, síki, krókódílar........hvað þarf að gera til að fá bara frið.....!!   Ég þarf ekkert aðra til að skipuleggja fyrir mig verkefni, viðhald og því um líkt.  Næst verður það ábyggilega út að bóna jeppana saman eða horfa á stjörnurnar.  Hringdu í vinalínuna eða kannski viðhaldslínuna og láttu mig í friði...........................Ég bið um nálgunarbann............

 Svo margt þaut í gegnum kollinn á mér áður en ég sagði honum kurteislega að þessi helgi hentaði mér ekki og að þetta væri á áætlun í sumar en ég gæti bara ekki tímasett það.  Ég hældi honum fyrir dugnaðinn og hann fór.   Hjúkk.  Hann er ábyggilega einn af þessum „félagsverum“ og mér skilst að það sé jafnvel ólæknandi svo það er ekki við hann að sakast.  Íslensk erfðagreining er víst búin að finna þetta stökkbreytta gen sem veldur þessari skelfingu en lækning ekki í sjónmáli.  Minni á styrktarreikning  í Glitni 0525-26-224433111111  fyrir þá sem vorkenna þesskonar sjúklingum.

 

     Að öðru leyti gekk dagurinn bara vel fyrir sig hjá okkur kútafeðgum.  Vangaveltur um sumarfrí og utanferðir eru ofarlega í huga mér sem og æfingarnar sem fóru af stað þann 1. maí en þá snéri ég algjörlega við mataræðinu og fór að taka verulega á því í ræktinni.  Eldri kúturinn er einnig með sumarfrísvangaveltur en eitthvað gæti þurft að samræma þetta.

Látum þetta gott heita af bulli.


Sá sem lætur undan, sigrar allt!

     Við lítum i kringum okkur og viljum gjarnan vera öðruvísi.  Einblínum á mýkt okkar og  teljum hana veikleika okkar og helti.  Skömmumst okkar fyrir værðina og horfum öfundaraugum á óværðina og ysinn.   Viljum fara hraðar yfir, afkasta meiru; skjótari ákvarðanir og  leiftursnöggar framkvæmdir.  Standa stolt uppi á stól og horfa yfir.

 

     En hvað með hið bljúga og blíða?  Komumst við eitthvað áfram með slíkt veganesti.  Er það ekki bara ávísun á væmni og væskilshátt.  Gefa eftir, hörfa, draga í land, láta undan, pakka niður, taka til fótanna.  Er það ekki dapurleg „sókn“ í baráttunni? 

 

     Getur verið að það sé eins og með vatnið?  Værðarlegt, eftirgefanlegt, bljúgt, finnur sér aðra leið ef sett er fyrirstaða og leitar alltaf til upphafsins.

 

 Ógnarkraftur sem fer þó aðrar leiðir.  Kraftur hins bljúga og blíða!

 

 

Sjá vatnsins dreymnu ró við klettsins rönd,

það rennur hægt og færist vart úr stað.

Það víkur undan barnsins blíðu hönd,

en björgin sverfur magn þess allt um það.

 

Það vinnur hljótt, uns verk er fullkomnað.

Það vílar ei, þótt lagt það sé í bönd.

Það letrar sína sögu á tímans blað,

þótt sökkvi fjöll og aftur rísi lönd.

 

Já , það sem hamast, oftast skammvinnt er,

og eftir það ei lengi merki sér,

því afl hins sterka er furðu-veikt og valt.

 

Slíkur er kraftur þess hins bljúga og blíða,

að bug það vinnur á því harða og stríða,

og sá, sem lætur undan, sigrar allt.

Jakob Jóh. Smári

 

Njótið dagsins og rigningarinnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 48796

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband