Færsluflokkur: Bloggar

Þvílík grimmd

     Þvílík grimmd verður þetta að teljast, þvílík grimmd.  Sólin baðaði geislum sínum  og fegurðin hrópaði á mann úr öllum áttum.  Hvílík grimmd.  Vorhugur og aftur vorhugur og ég fann hvernig  gleðistraumar hrísluðust um mig, byrjuðu smátt en jukust  þegar á aksturinn leið.  Á endanum varð ég að brosa þótt nývaknaður væri og það er einmitt grimmdin sem ég er að tala um.  Verður það ekki að teljast ákveðin grimmd að þvinga fram gleðitilfinningu, hrifningu og bros af gömlum, þreyttum , alræmdum „svikahrappi“ og leyfa honum ekki einu sinni að njóta morgunfúlismans þó ekki væri nema í  hálftíma eða tvo?  Er þetta það sem bíður manns þegar vorar?  Er þetta það sem maður lætur yfir sig ganga í byrjun sumars?  Hvað gæti ég gert til að sporna við þessu?  Ég finn það meira að segja þegar ég fletti í ljóðabókunum að þau ljóð sem ég staldra við því mér finnst þau áhugaverð eru bara svo þung og einmanaleg að mér finnst þau ekki slá á þá strengi hjartans sem þau gerðu í haust og vetur.  Taka verður upp léttara hjal, lesa verður léttari ljóð og spila verður á ljúfari strengi sálarinnar í von um samhljóm einhversstaðar í nálægðinni.  Sagt er að sé slegið á einn streng taki hinir undir og von bráðar fylli undurvær samhljómur loftið allt en ég hef enga sönnun fyrir því.  Veit bara að verði ég þvingaður til gleði og brosmildi dag eftir dag eins og í morgun er ómögulegt að segja fyrir um það sem gæti orðið.  „Hörmulegar“ afleiðingar gleði og vellíðunar ættu að vera öllum ljósar því þetta ástand er bráð smitandi því brosi er oft svarað með brosi og gleði getur leitt af sér enn meiri gleði og bólusetning ekki möguleg.   En ég hef varaði ykkur við kæru vinir.  Gætið ykkar á gleðinni og hrasið ekki um vellíðanina sem gæti legið í leyni og ráðist á hvern þann sem nálgast.

 

Góða nótt


Sestur við eldhúsborðið

     Kominn heim og sestur við eldhúsborðið að venju.  Lasagna var hrúgað í eldfast mót og kemur úr ofninum rétt strax.  Við tekur lærdómur og aftur lærdómur.   Það er mesta furða hvað ég er ferskur innan gæsalappa því ég er búinn að vera eins og borðtuska með tennur í þrjá daga.  Enginn hiti en skrokkurinn ekki alveg að fúnkera, beinverkir, hausverkur og stífur í öxlum.  Ég reyndi að hafa orð um þetta við unglingskútinn en hann sagði mér strax að hætta þessu væli því þetta væri bara hugarástand.  „Þetta sagðir þú alltaf við mig, og hentir mér í skólann fárveikum“  fullyrti unglingurinn og glotti. Jæja, meðan það getur verið verra er það bærilegt svo það er besta að hafa ekki fleiri orð um það.  Hann ýkir þetta ábyggilega talsvert.

     Ég er farinn að bíða eftir helginni því helgarfrí er tilhlökkunarefni þótt próflestur verði inni í því og svo var ég að rifja það upp í þessum rituðu orðum að ég var búinn að lofa ungu konunni því að henda saman skattskýrslunni hennar á netinu um helgina.  Best að klikka ekki á því. 

En Lasagnað bíður okkar feðga.  


Ég er strax farinn að sakna ykkar

     Hann vaknaði veikur kúturinn minn í gær, hitinn rúmar 39° en var samt ótrúlega sprækur.  Það var líka eitthvað furðulegt við þetta því í staðin fyrir að stökkva með mér á fætur eða jafnvel á undan mér eins og undanfarið vildi hann lúra lengur.  Unglingskúturinn lagðist svo hjá honum og við mældum hann og jú, hiti var það.  Ég hringdi í mömmu hans, leikskólann og vinnuna og kom mér vel fyrir í sófanum með honum því heima yrðum við í dag.  Það var ljóst.

     Í gærkveldi pakkaði svo Unglingskútur niður í tösku og beið eftir að verða sóttur því hann ætlar að vera í Þorpinu um páskana.  Það tókst ekki vel síðast en ómögulegt að segja um það hvað hann tollir lengi núna.  Skylduræknin gagnvart móður sinni segir meira til sín heldur en hún gerði þegar hann var yngri og allaf ætlar hann að vera í nokkra daga en það þykir kraftaverk ef næturnar verða tvær.  Hann leit inn í stofu á okkur sem lágum í sófanum og sagðist strax vera farinn að sakna okkar. Það er ekki góð byrjun á skemmtiferð eða hvað?

     Við vöknuðum því einir í hreiðrinu í morgun en gamli maðurinn svolítið á undan litla kút.  Ég náði að fara í sturtu, hella upp á  og lesa blöðin áður en vinurinn rak upp vein og upplifði sig einan og yfirgefinn.  Hann var þó kominn í fangið á kútapabbanum augnabliki síðar.  Unga konan ætlar að koma og vera hjá honum í dag svo ég geti unnið upp gærdaginn en kúturinn á eftir einn dag hjá mér.  Á föstudagskvöldið tekur svo við mömmuvika svo Júdas verður einn í hreiðrinu um páskana.


Standi ker okkar tóm

 

Hví skyldum við eiga

nægir ekki að elska?

 

eða grunar okkur

ástin sé munaður

er harðnar í ári

standi ker okkar tóm

auki okkur aðeins þorsta

þá sé gott að eiga

hvort annað er óslökkvandi

einmanaleikinn

fyllir tóm kerin.

 

Birgir Sigurðsson

 

 

Vorhugur fyllti mann í dag.  Sólin, hlýindin, fólk að leiðast.  Það er eins og allt fyllist af kærustupörum þegar sólin lætur sjá sig.  Hvar heldur þetta ástfangna fólk sig þess á milli?  Hvar er það í rigningu og roki, snjókomu og skafrenningi?  Gætu þetta verið hillingar, tálsýnir eða bara leikrit.  Ég held að ástin sé stórlega ofmetin og einmanaleikinn stórlega vanmetinn, eða var það öfugt?  Þetta er bara eins og í denn, ég hef engan til að leika við og er því farinn............... að  sofa.

Góða nótt.


Ef einhver verður svo djarfur

     Furðulegir dagar í vændum því gamli maðurinn er einn í kotinu og þvílík þögn.  Heyra mætti saumnál detta en þar sem ég sauma auðvitað ekki er því ekki fyrir að fara.  Unglingskúturinn minn skrapp í Þorpið, örlítið kvíðinn en vildi samt sjálfur skreppa þangað.  „Pabbi ég veit ekki hvort ég tolli þarna alla helgina“  var eitt af því sem hann sagði við mig áður en hann fór en  ég sagði honum að hann réði öllu í sambandi við þetta sjálfur.  Ef hann verður alveg sturlaður þarna sæki ég hann bara þótt það taki nokkra klukkutíma.  Ég skil hann nefnilega mjög vel ótrúlegt en satt.  Litli kútur er hjá mömmu sinni en hún náði í hann á leikskólann á föstudag og mömmuvikan er byrjuð.  Það er því hljótt í koti og tíminn notaður í lögfræðilestur nú og svo auðvitað í vinnu líka. 

     Ég byrjaði morguninn á akstri í tvo klukkutíma út fyrir bæinn,  snjór yfir öllu eins og teppi og fegurð trjáa og runna mikil því blautur snjórinn gerir greinarnar allt að því draumkenndar eða allavega ævintýralegar, þykkar og miklar.  Hver segir svo að ég geti ekki notið annarskonar veðurs en rigningar?  Það er auðvitað ekki rétt en það toppar þó ekkert rigninguna og það er eina veðurfarið sem fyllir mig vellíðan og gleði sem byrjar oftast með gæsahúð áður en gleðistraumarnir taka völdin.  Kvöldinu er ráðstafað en þá kemur til mín yndislega falleg, vel vaxin og ögrandi..................................einvera........ og best að leggja sig allan fram um að njóta hennar sem best.  Msn-ið verður auðvitað opið ef einhver verður svo djarfur að hóa í Júdasinn  og allir velkomnir.  Eldhúsborðið, leðursófinn og skólabækur verða  innan seilingar og svo auðvitað kaffibollinn.

Á leiðinni heim áðan kom ég við í búð og keypti mér piparsteik og meðlæti svo það verður innan skamms setið í einverunni og borðuð piparsteik.   Hún er komin á pönnuna og matarlyktin farin að ilma um húsið.               

 

Verum þakklát í dag

     Rigningin er loksins komin!   Þvílík sæla og þvílík lausn á öllu.  Þessari þráhyggju er best lýst í því sem við sáum úti í dag.   Allur kuldinn víkur og ófærð hverfur á nokkrum tímum.  Allt verður hreint og þögult.  Umhverfishljóð dofna og aðeins heyrist í regninu á gluggum og þökum.  Því fylgir værð.

     Unga konan sótti kútinn á leikskólann í gær og ætlaði að vera með honum  í sólarhring eða svo úr því að ég fór með hann út á land á fimmtudag.  Annars eru vikuskiptin á Föstudögum en við eigum bæði svo erfitt með að sjá af honum.  Hann er ljósgeislinn í lífi okkar þriggja en þetta snýst um val og ég valdi fyrir okkur öll.  Gærkveldið snérist því um lærdóm, lestur og þögn.

 Framundan er blautur hversdagsleiki kryddaður með regni sem gæti glætt hann fegurð og værð. 

 Verum þakklát í dag!

 

Himinn, jörð og haf!

Hvílíkan bústað

Guð okkur gaf.

 

Gullið, grænt og blátt.

Ókannanlega djúpt,

óendalega vítt,

ómælanlega hátt.

 

Fagurker

fullt á barma

unað hins ljúfa lífs.

 

Drekk, mannsbarn,

í djúpri lotning

af hinum bjarta bikar.

 

Bragi Sigurj.

 


Feðgaþrenning

     Hann fór fallega af stað þessi dagur eins og svo margir aðrir.  Lítill kútur kyssti mig hálf sofandi á kinnina og hélt utan um mig eins og hann ætlaði aldrei að sleppa mér.  Þegar ég opnaði augun gat ég ekki betur séð en að kútur væri sofandi og þegar ég spurði hann hvort hann væri sofandi muldraði hann eitthvað óskiljanlegt svo líklega var hann sofandi.  Ég tímdi varla að fara á fætur en gerði það þó því margt er að brjótast um í kollinum á mér þessa dagana.  Það er eins og eitthvert uppgjör sé í vændum,  uppgjör góðs og ills, uppgjör sem gæti haft miklar afleiðingar bæði til góðs og ills.  Allt snýst þetta þó um það að eiga góða daga og endurheimta værðina sem mig vantar því hún staldrar svo stutt við hjá mér þá sjaldan ég finn hana.  Mér finnst ég verða að endurheimta hana drengjanna vegna og sjálfs míns vegna.  Þetta hljóma kannski eins og latína en er það samt alls ekki.  Sumt er bara erfitt að segja þegar svörin liggja ekki á lausu.  Reynsla undanfarinna ára segir mér þó að yfirvegun og stilling borgi sig í þessu sem öðru því handan við hæðina gæti hún legið værðin og lausnin á áhyggjuefnum líðandi stunda.     Ekki löngu á eftir mér kom kúturinn fram og þegar hann hafði náð áttum var stormað inn í herbergi unglingskútsins og hann hvattur til að koma líka á fætur og fullkomna þessa feðgaþrenningu sem gefur lífinu allan þann tilgang sem ætti að duga.

 

Eigið góðan dag.


Furðuleg ákvörðun, furðulegt Þorp

     Ég vaknaði upp í morgun á allt öðrum stað en í gær.  Ég vaknaði í Þorpinu og það kom mér þó ekkert á óvart því ég ákvað það á augnabliki í gær að sækja kútinn á leikskólann og bruna út á land.  Furðuleg ákvörðun því ég er svo heimakær og nóg að læra í ofanálag.  Hvað vakti fyrir mér veit ég ekki.  Ef til vill var það smá söknuður og löngun til að hitta foreldrana eða þá löngun til að sýna kútnum afa og ömmu.  Ligg uppi í rúmi núna og leiðist meira en nokkru sinni.  Þorpið höfðar ekki til mín og meira að segja finn ég ekki nokkurn á msn til að spjalla við.   Unglingurinn vildi ekki koma með okkur svo hann varð eftir heima.  Ég hringdi í hann áðan til að vita hvernig honum hafði reitt af í nótt og hvort hann saknaði okkar ekki.  Furðuleg nótt sagði hann.  Var alltaf að vakna og með áhyggjur af öllu.  Fór niður að athuga hvort hurðin væri læst og fram í eldhús til að athuga hvort eldavélin væri nokkuð á hita.  Alls konar áhyggjur af öllu, hurðum og gluggum, rafmagnstækjum og vatni.   Vinurinn minn.  Svona er að vera á vaktinni!

     Þegar ég heimsæki Þorpið þarf ég að hafa fyrir því að vera rólegur.  Værðin víkur fyrir dofa þar sem ég þarf af öllum mætti að reyna að halda ró hið innra.  Löngunin til að stökkva út í  bíl og aka til borgarinnar gagntekur mig.  Heima er best.  Kúturinn er þó í góðu yfirlæti og ég ætla að reyna að þrauka til morguns. 


Júdas dregur sinn eigin djöful

      Hann var góður kaffibollinn í morgun og líklega óvenju góður.  Stress og annir undanfarinna daga verða til þess að ég dreg úr kaffineyslunni til að skapa ákveðið jafnvægi og því stressaðri sem ég verð því minna kaffi drekk ég.  Ég tek reyndar stundum aðeins of seint í taumana en á öðrum stressdegi er komið á þetta böndum.  Mest sakna ég kvöldsopans en hann  er látinn fjúka við þessar aðstæður og þessir millimála sopar sem þó eru líka yndislegir.  Morgunuppáhellingin fýkur aldrei en blandan veikist og magnið minnkar.  Nú fer ég þó að auka þetta hægt og hljótt. 

      Ég þurfti aðeins að taka í hnappadrambið á mér í gær og lesa mér svolítinn pistil í hljóði þegar ég uppgötvaði það hvað vinnufélagi truflaði mig mikið, jafnvel „ofsótti mig“ svo jaðraði við hugarfarslegt hatur.........mitt.    Svona hugsum við ekki Júdas,  samviskan reis upp á afturfæturna og löðrungaði á mér geirvörturnar.   Geirvörturnar?  myndi nú einhver segja en þessi er frekar lávaxin en þó þétt og sterk svo ekki verður hjá því komist að taka eftir henni.  „Biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður“ stóð upp úr eftir pistilinn og þar gæti lausnin legið.  Menn eins og hann sem leggja sig hart fram, reyna eins og þeir geta, eru fyrirtækinu trúir og tryggir jafnvel þótt gengið sé utan í stöku veggi og stigið á stöku tær, eiga ekki skilið óvægnar og undirförlar hugsanir frá vinnufélögum sínum ef til vill sprottnar af öfund og eigin óöryggi sem eru hættulegar hvatir sé ekki unnið á þeim í snatri.  Ég tek á þessu og bið ykkur sem á hlýðið að fyrirgefa mér mannlega þáttinn sem oft verður Júdasi að falli en þó aldrei nema niður á hnén. Júdas vill ekki vera í þeim hópi og gerði sér því ferð til viðkomandi með nokkur hól í farteskinu.  Ég sá gæsahúð á viðkomandi og gleði í andlitinu sem hann átti erfitt með að halda aftur en vinir segja mér að hann óttist mig meira en allt.  Óttinn gæti þó verið mín megin þegar öllu er á botninn hvolft.  Þessu er ekki lokið því við tekur tiltekt  í djúpum hugarfylgsnum gamals einmana manns sem nagar sig í handabökin aftur og ný búinn yfir því að hafa í gegnum árin ekki gert eitthvað sem hann gerði eða gert eitthvað sem hann gerði ekki.  Þetta eru viðjar Júdasar sem eru líklega léttbærar saman borið við viðjar margra annarra ef þetta er það versta.  Það er þess vegna sem ekki er pláss í lífi mínu fyrir illindi og deilur, öfund og lygi, undirförli og svartsýni.   Það er þess vegna sem Júdas leitast alltaf við að hafa alla hluti á hreinu, hugsar alla leiki til enda og situr frekar heima en vaða út í óvissuna.   Er frekar einn og særir þá ekki neinn.   Júdas dregur sinn eign „djöful“ sem er það mannlega í fari hans.  Þess vegna er ég Júdas!  og hjálpi mér Guð.    Í auðmýkt held ég áfram og lofa að verða betri maður.

 

Gangið auðmjúk inn í þennan dag.


Hver segir svo að svik séu ekki umhverfisvæn!

      Mér skilst á útvarpinu að úti sé nærri 10 stiga frost.  Og ég sem hélt það yrði rigning!  Það var reyndar ekkert í veðurfréttum sem benti til rigningar en ef maður þráir eitthvað nógu heitt.......eða etv á það ekki við í þessu.  Það er allavega kominn nýr dagur, ný tækifæri og ný loforð.  Það er það góða við tímamót hversu lítil sem þau eru að hægt er að endurnýja loforðalistann, henda út þeim sviknu nú eða færa þau í hvítar gærur og beygja þau að getu og vilja svo þau virðist  vera auðveld að standa við þau nú eða velja sér loforð sem auðveldara er að standa við.  Þessi listi er vafalaust til í hugum allra og menn ættu að hafa vit í því að koma honum ekki á blað því það telst ekki umhverfisvænt að taka hvert blaðið á fætur öðru, vöðla því saman og henda í ruslið.  Júdas þekkir það og því löngu hættur að hripa þetta niður því aukin umhverfisvernd er eitt af sviknu loforðum Júdasar.  Annars sé ég það strax í hendi mér að blá tunna gæti tekið alla þessa lista og þá færu þeir í endurvinnslu svo ef til vill er það umhverfisvænt eftir allt saman.  Hver segir svo að svik séu ekki umhverfisvæn! 

 

     Það var ekki slæmt að koma heim á laugardaginn.  Unglingskúturinn búinn að þrífa allt hátt og lágt svo litli frítíminn fer ekki í þrif þessa helgina, svo það var stokkið á skrifstofuna aftur og unnið þar fram á nótt.   Í gær var minn því þreyttari en oft áður og þótt dagurinn væri tekinn snemma náði ég lendingu í sófanum kl 16 og sofnaði svefni hinna réttlátu þar til síminn vakti mig.  Lítill kútur sem kominn er með gríðarlegan símaáhuga var á  línunni og að mér skildist hljóp með hann um alla íbúð hjá móður sinni til að sýna mér hitt og þetta.  Ætli við verðum ekki að fá okkur 3G síma svo hægt sé að sýna alla þessa hluti litla kútsins.  Símtalið endaði svo með orðinu „koma“ og síðan var skellt á.  Ekki löngu seinna kom vinurinn í heimsókn með Ungu konunni mér til mikillar gleði.  Sökum anna hjá henni verðum við kútur mikið saman í vikunni svo það gæti ekki verið betra.

 

   En, við er tekinn hversdagsleikinn.  Njótið dagsins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 48824

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband