Færsluflokkur: Bloggar

Er það hans Akkilesarhæll að líkjast pabba sínum?

     Síminn hringdi og dapur eldri kútur var á línunni.  Depurðin og svartsýnin var algjör, „pabbi, hvað er að mér?“  „Af hverju get ég ekki verið glaður eins og þú?“  Gamli maðurinn skellti aftur tölvunni, „farinn“ og spólaði út í umferðina.  Nokkrum mínútum síðar sátum við kútafeðgar við eldhúsborðið og skeggræddum allar hliðar lífsins.  Baráttuna, tilganginn, myrkrið, ljósið, dagrenninguna og hjálpina sem væri alltaf innan handar.  Við sátum þarna við borðið í nærri tvo tíma og á eftir var ekki að sjá annað en að dökkur drunginn væri á bak og burt og gleðin og vonin væri tekin við.  Þessi vinur er bara spegilmynd pabba síns.  Samviskan stór og þung en ljós hans á öllum vegum og það ekki af tilviljun.  Hann var reiður við sig og ósáttur,  fannst hann gera alla hluti rangt, fannst hann lofa sér þessu og hinu en ekki standa við það, setti sér takmörk en færi ekki eftir þeim, alltaf að svíkja sig, alltaf að svíkja eigin loforð og það sem hann gerði rétt gerði hann ekki nógu vel.  „Af hverju er ég svona pabbi?  Af hverju er ég ekki eins og þú?“  „ Veistu það vinur-Þú ert eins og ég?  Meira að segja allt of líkur mér.  Það er bara lítill Júdas í okkur öllum sem gerir okkur mannleg og það er þess vegna sem við þurfum á Honum að halda og stuðningi hvors annars!“  „Við megum bara aldrei gefast upp og verðum að muna eftir því að rifja upp góðu stundirnar þegar „illa viðrar“, og stefna á þær aftur.“  Í miðju samtalinu sagði þessi yndislegi, hjartahlýi vinur: „Ég vildi að það færi að rigna!!“  og ég gat ekki annað en hlegið................“Það er alltaf svo gott að tala við þig pabbi, þú ert algjör sálfræðingur.“

 

     Hann ljómaði í gær og hann ljómaði í morgun.  Drunginn yfirstaðinn, gleðin og vonin allsráðandi.   Það verður ekki dregið í efa að litli Júdas líkist þeim stóra, hugsar mikið, veltir hlutunum mikið fyrir sér og telur sig alltaf geta gert betur.  Þeir sem þekkja Júdas af blogglestri gætu talið það Akkilesarhæl kútsins að líkjast föður sínum en sjálfur veit ég að sú sterka samviska sem okkur var blásin í brjóst og trúin á Guð sé það ljós sem lýsir okkur daga og nætur, í gleði og sorg, í von og vonleysi og leiðir okkur til þeirrar værðar sem við leitum.

 

     Hvort litli kútur sé þessum hæfileikum gæddur er of snemmt að segja til um en flest í fari hans minnir mig á þann eldri þegar hann var á sama aldri.  Ef til vill verður hann gjörólíkur okkur og búið að sníða af honum helstu galla „eldri árgerða“ og það gæti verið þakkarvert. Við treystum Almættinu í þeim málum.

 

     Dagurinn er fallegur og verður það hvernig sem viðrar.  Við ráðum ekki veðrinu en við getum haft áhrif á þá storma sem blása hið innra svo njótið dagsins.


Slefandi "perri" hlaupandi um Laugardalinn

     Ég var vaknaður klukkan fimm í morgun og greinilegt að æfingin í gærkvöldi hefur komið öllu á hreyfingu.  1. maí vara dagsetningin en þá yrðu æfingar settar í forgang enda skilaði ég síðasta verkefninu í gær og kyrrsetu þar með lokið.  Ég sé líka fram á að þurfa að hreyfa mig mikið með kútnum því við prufukeyrðum nýja hjólið hans í laugardalnum 1.maí og þvílík læti.  Ég hélt auðvitað að hann myndi hjóla í rólegheitunum enda óvanur og sá sjálfan mig fyrir mér í lakkskóm og síðum jakka rölta í rólegheitum á eftir honum í leit að augnsamböndum við fallegar einstæðar mæður í sömu sporum.  En það var sko ekki þannig.  Það var eins og kútnum hefði verið skellt upp í bremsulausan formúlubíl í meðvindi því vinurinn reykspólaði af stað og síðan vara bara „keyrt“................  Gamli maðurinn missti glansinn á augabragði, hlaupandi á eftir glannanum, hrópandi „BREMSA“, með frakkann þveran aftur fyrir sig svo Súperman hefði verið stoltur af.  Lafmóður og löðursveittur stormaði ég um laugardalinn og er sannfærður um að þær konur sem urðu vitni að þessu láta ekki sjá sig í Laugardalnum á næstunni en vafalaust hafa einhverjar þeirra hringt í lögregluna og kvartað undan lafmóðum, slefandi „perra“ hlaupandi um Laugardalinn!

     Ég uppgötvaði helstu galla göngustígakerfisins í Laugardalnum og ætti að skrifa lesendabréf í Moggann um þessa stíga.  Manni sýnist úr fjarlægð að þetta séu sléttir og láréttir stígar en það eru þeir sko ekki.  Þarna eru brekkur og ég er viss um að sumar þeirra eru nálægt 80° brattar, að minnsta kosti náði kúturinn þvílíkum hraða þarna niður og ný met í kútaakstri voru slegin í hverjum hring.  Svo tók ég eftir einu.  Meðfram sumum þeirra eru gróðursettir skaðræðis þyrnirunnar með sentimeters löngum göddum!  Hvaða vitleysa er það.  Í sumum beygjunum var óhjákvæmilegt að rekast í þá en ég slapp þó án teljandi meiðsla og kúturinn líka.  Það vantaði bara krókódílasíki þarna til að fullkomna þessa hallærislegu skaðræðisgöngustígastefnu.  Síðan vil ég fá hraðahindranir þarna og jafnvel þrengingar, blikkljós sem segja kútum hvað þeir séu komnir nálægt hljóðhraða........neyðarskýli fyrir formlaus gamalmenni jú og lífgunargræjur og súrefniskúta.  Það er því ekki um neitt annað að ræða en að koma sér aftur í gott form nú eða þá að skila kútahjólinu og kaupa handa honum „hjólahermi“ svo ég geti legið áhyggjulaus í sófanum með snakkpoka.

Málið er í nefnd og ekki vitað hvort kúturinn missir réttindi sín eða missi þátttökuréttin í „Ture de france“ fyrir byrjendur. 

Að öllu gamli slepptu þá stóð hann sig eins og hetja, datt aldrei, og hjólaði aldrei út af.  Honum er því fyrirgefið og líklegt er að almættið hafi komið þarna inn í og vakið Júdas af værum hreyfingalausum svefni því ný markmið hafa verið sett.

 

Njótið dagsins.


Af hverju ekki grenndarkynning?

     Það var ljúft að koma fram í morgun með allt þetta sólargeislaflóð inn um allt hús.  Það er greinilegt að ég verð að bæta sólgleraugum inn á náttborðsgátlistann minn til viðbótar við glasið undir fölsku tennurnar, augngrímuna, handbók piparsveinsins og rapportblöðin síðust þrjá árgangana.

     Ég ákvað að leyfa litla kútnum að sofa í hálftíma eða klukkutíma lengur því við lágum í sófanum í gærkvöldi allt of lengi en það var eiginlega ekki hægt að skemma þessa yndislegu stund því hann var svo skemmtilegur og ljúfur.  Í hvert skipti sem hann heyrði í kútabróður sínum breiddi hann teppi yfir höfðið á mér eða sagði mér að loka augunum svo ég fattaði ekki að hann færi úr sófanum í leit að bróður sínum.  Er það ekki skelfilegt þegar smáfólkið fattar hversu einfaldur maður er?  Auðvitað var ég grunlaus í þessu vel skipulagða plotti en stundin var ljúf og mikið hlegið.

Eldri kútnum gengur vel og átti skemmtilegar stundir með sinni heitt elskuðu ef marka má hlátrasköllin innan úr herbergi á milli þess sem komið var fram og litli kúturinn faðmaður.

     Það hefur verið mikið að gera hjá mér síðustu daga, skólinn á síðustu metrunum og nóg að gera í vinnunni líka.  Síðan fer að bætast við garðvinna en ég  var svo „óheppinn“ að fá „græna“ nágranna en til margra ára hefur vanhirti garðurinn minn litið talsvert betur út en vanhirti garðurinn við hliðina á.  Þetta breyttist á einum degi þegar heil fjölskylda ruddist út með hrífur og klippur og úr varð þessi líka ágæti garður.  Hvað er að fólki?  Geta menn ekki séð það með því að líta í kringum sig að garðrækt er ekki ríkjandi í nálægðinni?  Og hvað með grenndarkynningu?  Ég man ekki eftir því að hafa verið boðaður á neinn fund út af þessu.  Ég mun því eyða næstu dögum í að kynna mér rétt minn í þessu sambandi en til vara verður sunnudeginum eytt í þetta.   Ég verð þá líklega að taka hendurnar af náttborðinu og gera eitthvað vasklegt  því ekki viljum við verða okkur til skammar við kútafeðgar.  Mér var reyndar að detta í hug rétt í þessu hvort ég fengi leyfi til að reka niður stálþil..............

 

     En dagurinn bíður og ljóðatregðan sem ég er haldinn þessa dagana gerir það að verkum að ljóð dagsins lætur bíða eftir sér.  Allt sem ég fletti upp á fjallar um nóttina, haustið, kulda eða ljósleysi, ástleysi, vonleysi, myrkur og skugga.   Hvað var að þessum ljóðskáldum?  Það les enginn svona!  Hvar eru gleðiljóðin, hamingjuljóðin, sólarupprás, vor, birta, ylur, uppgangur og ást.  Sleppum kannski ástinni en hitt er nú í lagi.

 

Njótið dagsins.


Þá lægist hver stormur

     Þá er ég mættur aftur en vegna vinnunnar þurfti ég að yfirgefa þetta annars ágæta land og eyða nokkrum dögum í stórborg og hafði gaman af.  Er samt þreyttur og frekar andlaus eftir þetta.  Það skyggði á ferðina að vita af kútunum mínum svona langt frá mér og örlítil sektarkennd gagntekur mig í dag yfir því að hafa skemmt mér vel. 

     Mér skildist að litlikútur væri búinn að vera svo var um sig á nóttunni að ef unga konan snýr höfðinu á koddanum rumskar hann og snýr á henni höfðinu til baka.  Hún „á“ að liggja eins og hann vill, andlit við andlit.

      Ég er búinn að heyra nokkrum sinnum i unglingskútnum mínum og það hefur legið misvel á honum.  Hann kemur heim síðar í vikunni og hefst þá gangan þar sem frá var horfið, og jafnvel aðeins aftar.  Skref fyrir skref.   Við könnumst við okkur þarna og sjáum sporin okkar beint fyrir framan okkur.  Við þurfum að velta því fyrir okkur hvar það var sem ekki mátti stíga niður.  Hvar það var sem eitthvað brast.  Við tökum stefnuna á hamingjuna og munum leita hana uppi enda eigum við stefnumót við hana.  Það vitum við báðir.  Þá lægist hver stormur.

Þið megið gjarnan hugsa til okkar og jafnvel minnast okkar í litlu andvarpi til Hans.

 

 

Dagarnir koma sem blíðlynd börn

með blóm við hjarta,

Ljúfir og fagnandi lyfta þeir  höndum

mót ljósinu bjarta.

 

Og verði þeir þreyttir með liti og ljós

að leika og sveima,

við móðurbarm hinnar brosmildu nætur

er blítt að dreyma.

 

Þá lægist hver stormur, stundin deyr

og stjörnurnar skína.

Og jörðin sefur og hefur ei hugboð

um hamingju sína.

 

Tómas Guðm.


Kútamoppa

     Þá er ég loksins kominn fram, kaffið á leiðinni og óþægasti kútur norðan suðurpóls kominn inn í sófa.  Ég er búinn að slást við hann frá kl 6 í morgun en þá vildi hann fara fram en pabbinn taldi það  full snemmt bæði fyrir lítinn kút og gamlan þreyttan mann.  Bæði í morgun og gærmorgun var þetta svona, kúturinn barðist um, kastaði sér í svefnherbergisgólfið og hamaðist á hurðinni og var ekki á því að gefa sig.  Fram skyldi hann fara og taka þennan andstyggilega gamla mann með sér úr því að hann væri dæmdur til að dröslast með þessa skemmtanabremsu með sér hvert sem hann færi næstu 15 árin eða svo.  Þvílík byrði að bera.  Ætli það verði ekki það fyrsta sem hann googlar þegar hann lærir á tölvu hvernig losna megi við svona leiðindapúka.   Gæti best trúað því að hann ætti eftir að auglýsa mig á Ebay fyrr en mig grunar.

     Hann er líka búinn að láta til sín taka í verslunum borgarinnar.  Þessi annars gríðarlega dagfarsprúði engill er að breytast í lítinn frekjudall og pabbinn fer geys um veraldarvefinn í leit að lausnum.  Það er sama í hvaða verslun við fórum í gær, kúturinn endaði alltaf í gólfinu eins og moppa sannfærður um að hann ætti versta pabba í heimi og að klárlega væri verið að brjóta á honum samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðuþjóðanna og jafnvel Stjórnarskránni.  Hann náði að velta heilli rennibraut og tveimur reiðhjólum í Toys‘R us, og kastaði sér í gólfið þar þegar hann mátti ekki fara á rafmagnsbíl ofan af sýningarpalli og út á búðargólfið, kastaði sér í gólfið þegar hann mátti ekki rífa upp þriðja kexpakkann í Bónusverslun og lét öllum illum látum í hjólabúð af því hann mátti klifra upp á hjól sem hann langaðu upp á en var bara fyrir 25 ára og eldri.  Hvað er að gerast.  Stökkbreyting gena var það eina sem mér datt í hug í hvert skipti sem ég þrammaði með hann út í bíl og barðist við að óla hann niður í barnastólinn en svo þegar ekið var af stað varð hann aftur eins og engill, vildi syngja og klappa og fór að líkjast pabba sínum aftur.  En hann sefur eins og engill.............svo hljóður og ljúfur.  Hann var ekki fyrr kominn fram í morgun í fangi pabba síns og inn í stofu en hann faðmaði gamla manninn og vildi kúra í sófanum með honum.  Er hann bara svona klár þessi drengur og séður?   Sannar þetta ekki bara að hann á líka mömmu  J.............

 

     Jæja, hinn kúturinn sefur og ég búinn að fara inn til hans og horfa á hann.  Hann er að fara burtu frá mér í nærri tvær vikur allt skipulagt af honum sjálfum, var búinn að fara þangað og græja alla hluti í kringum sig áður en  hann settist niður með pabbanum og sagði honum leyndarmálið.  „Af hverju ertu að segja mér þetta núna?“ , „af hverju hélstu ekki áfram?“ , „pabbi, ég vil ekki að verða aumingi“, „ég vil ekki bregðast þér og litla kútnum“,  „ég vil halda áfram í námi og standa mig vel því ég ætla að verða eitthvað.“  Samviskan hefur talað!  Þegar ég var ungur fannst mér ég hafa sterkustu samvisku í heimi, ekki það að ég hlustaði alltaf á hana en hún var stöðugt að „ergja mig“, minna mig á og leggja mér línurnar.  Ég er þakklátur Guði fyrir það í dag og sé að unglingskúturinn minn fékk svipaða samvisku í vöggugjöf.  Alltaf að velta fyrir sér hlutunum og reyna að gera þetta og hitt til að öðlast innri frið.  „Mér líður ekki vel nema ég.......“  segir hann oft og reynir alltaf að leiðrétta alla þá hluti og athafnir sem íþyngja honum.  Hringir í mig og vill segja mér frá því sem íþyngir honum og hvað hann ætli að gera til að laga það.  Ég held að þetta sé kostur og eigi eftir að reynast honum gott veganesti út í lífið.

     Í gær fór hann að hitta mömmu sína og bróður sem stödd voru í borginni.  Hann sagði mér að hann langaði alls ekki en ætlaði samt að fara fyrir mömmu sína.  Þegar hún gifti sig í fyrra ákvað hann að mæta óboðinn því hann heyrði af því að enginn bræðra hans ætlaði að láta sjá sig.  Hann sagði mér að það væri virðingarleysi að mæta ekki og að móður hans myndi kannski sárna það.  Hann  mætti því í Þorpið í hvítum jakkafötum og ég neita því ekki að ég var mjög stoltur af honum.  Hann er góður unglingskútur á hraðri leið í það að verða fullorðinskútur með öllum þeim reglum og skyldum sem því fylgir.  Uppeldinu er næstum lokið,  innrætingin á síðustu metrunum.  Hver útkoman verður er óskrifuð saga þar sem samviskan og uppeldið spila stórt hlutverk.

 

     Úti  er farið að snjóa og greinilegt að reynt er að halda aftur af vorinu sem þó er á næsta leiti.  Það breytir þó ekki þeim vorhug sem svífur yfir vötnum og þeim ilmi sem berst mér að vitum.  Fullur af þakklæti og von fer ég inn í þennan dag í leit að skafti á litlu „kútamoppuna“ mína.

 

Njótið ilmsins.

 

 

Frá efstu lindum

ljóssins og hingað

er langur vegur

og langt er héðan til ósa.

 

Í breiðum streng

streymir það nú fram hjá

borginni, og ég krýp

á bakka þess og dýfi

þakklátur höndum

í hlýjan straum

lauga vanga mína

og augu.

 

lauga sál mína lífi.

 

Hannes Pét.


Veikur kútur

     Það var þreytt ung kona sem kom á tröppurnar hjá mér í morgun, svefnvana með lítinn kút í fanginu.  Hann virtist hinn sprækasti en hafði þó ekki sofið vel heldur.  Móðirin hringdi í mig í gærkveldi og lét mig vita af veikindunum og við ákváðum að skipta með okkur deginum en það gerum við yfirleitt þegar svona stendur á.  Eitthvað þekki ég ferlið á þessu hjá honum og í augnablikinu er hann sprækur og búinn að leika hvolp í tuttugu mínútur.  Gamli maðurinn þarf líklega handklæði á eftir því svo mikið er búið að slefa á hann.  Ef allt gengur eftir verður hann farinn að nudda á sér eyrun innan klukkutíma en það gerir hann þegar hann verður þreyttur.

     Mér fannst það alls ekki eiga við í morgun þegar ég leit út um gluggann að snjóbreiða skyldi vera búin að breiða úr sér út um alla borg þrátt fyrir „loforð“ um annað.  Rigning hefði verið fyrirgefanleg en þetta þarfnast skoðunar.

     Einhverra hluta vegna leið mér í morgun eins og hulunni hefði verið svipt af mér, ég á berangri og jafnvel eftirlýstur.  Hvort draumfarir næturinnar hafi haft áhrif, dagdraumar jafnvel eða ólesin ævintýri veit ég ekki en ég þarf eitthvað að skoða þetta líka.

 

Njótið dagsins.


Fögnum heilbrigði og vitund

      Það voru samrýmdir feðgar sem sátu á steikhúsi í gærkvöldi og nutu matarins.  Mikið var skrafað og skuggar framtíðar dregnir upp á yfirborðið og skoðaðir að því marki sem hægt er.  Fortíðin fékk ekki heldur frið og  var vakin af svefni og látin mæta skuggum framtíðar og alveg ljóst að þessi „tvenning“ þótt þrenning sé lætur ekkert aftra sér frá því að njóta nútíðarinnar og hlakka til framtíðarinnar.   Það er spaugilegt hve eplið fellur nálægt eikinni því þegar ég pantaði borðið bað sá yngri þann eldri að biðja um að það yrði afsíðis og þegar við gegnum inn fannst honum ljósleysið og dimman þægileg.  Seinna um kvöldið fór hann svo í keilu með félögunum.

     Við ætluðum að gera þetta í fyrrakvöld en hann vildi fresta því um einn dag svo ég vakti hann í gærmorgun með karamellutertu en við sátum einir að henni og fórum létt með.  Það vekur athygli mína að þótt kunningjahópurinn sé stór er vinahópurinn það ekki.  Hann vildi ekki láta þá vita af afmælinu heldur halda það nákvæmlega svona, einn með pabba gamla en hafði orð á því að litla kút vantaði en bætti svo við að líklega hefði þurft að þrífa eldhúsið eftir hann ef hann hefði komist í kökuna.   Hins vegar fann ég að hann saknaði hringinga frá eldri bræðrum sínum og var með efa-semdir um að „staðið“ hefði verið eðlilega að hringingu frá móður hans sem kom um kvöldið.   Ég sá ekki ástæðu til að blanda því í umræðuna að sms-skilaboð geta jafnvel vakið hinar uppteknustu mæður upp af djúpum lífsgæðasvefni til vitundar um tilfinningar og skyldur.  Vitundarhvísl frá vini átti þátt í því.

     Við stefnum lífsglaðir út í nýja viku, fögnum heilbrigði og vitund, þökkum sterka samvisku sem oft á tíðum virðist þvælast fyrir okkur  hvert sem við förum en gæti verið lykillinn að þeirri vellíðan sem við finnum fyrir.  Þar féll eplið ekki heldur langt frá eikinni.

 

Njótið dagsins

 

Miðvikudags víkingur

Góðan dag kæru vinir. 

 

Ég ætla að koma á óvart í dag og vera glaðlegur og viðkunnanlegur.

Ég ætla að brosa framan í mengunarmömmur, segja jafnvel rosalega ertu falleg í dag.

Ég ætla að vera næs í vinnunni.

Ég ætla að hella upp á þunnt kaffi.

Ég ætla að dreifa sælgæti meðal trukkabílstjóra.  

Ég kannski sleppi þessu með sælgætið en samt..........

Ég ætla ekkert að flauta í umferðinni.

Ætla samt ekki að raka mig í dag því Júdas er miðvikudags-víkingur.  

 

 

Ég gekk fótbrotinn fimm tíma leið

nema fyrst, þennan spöl sem ég reið,

og stund sem ég beið

og stíg sem ég skreið

en ég stytti mér auðvitað leið.

Þors.Vald

Njótið dagsins.


Líttu í spegil mengunarmamma!

     Þetta er einn af þessum dögum sem Júdas vildi gjarnan vera nafnlaus úti í lífinu.  Með grímu og breytt yfir bílnúmerið, niður með rúðuna, hnefann á loft og láta svo menn bara heyra það.  Löngunin til að vera hortugur er búin að fylgja mér í allan dag.  Þetta byrjaði strax við leikskólann þegar kona æsti sig við mig fyrir að skilja bílinn eftir í gangi fyrir utan.............ég á diselbíl og hún á eldgömlum eiturspúandi bensínbíl og alveg klárt að ósongatið í gufuhvolfinu er beint fyrir ofan húsið hennar vegna gagnsetningar á þessari druslu sem hún var á.  Ég sá strax í hendi mér að ef hún hefði eitt þessum 20 sekúndum sem hún eyddi í afskiptasemi og kjaftæði fyrir framan spegil hefði hún ekki hitt mig heldur komist að því að hún með þetta útlit ætti ekki að vera í nálægð við leikskóla fyrr búið væri að lappa upp á sig.  Ég sat á mér og kreisti fram lélegt bros og spurði hana hvort hún væri á launum hjá mengunarvörnum ríkisins.  Hún sagðist vera með hitt barnið sitt í bílnum og væri með rifu á glugganum.   Ég hélt mínu striki og fór inn með kútinn.  Þar fékk ég að vita að bleyjurnar hans væru búnar sem ég hafði komið með á föstudag, hvernig í ósköpunum getur það verið.  Varla fer drengurinn með 45 bleiur á tveimur dögum, átti ég ekki bara að koma með þær fyrir hann?  Er nokkuð verið að föndra úr þeim spurði ég og reynd að vera ekki mjög ókurteis.  Þær ætluðu eitthvað að skoða þetta en ég fór bara.  Þegar ég kom út var sjálfskipaði talsmaður hreinni og mengunarminni borgar að bakka frá stéttinni með sígarettu í þverrifunni og þá skildi ég af hverju hún keyrði um með opinn aftur glugga í ferska loftinu á Miklubraut.   Þvílíkur pappír.

     Vinnan tók við og fimm símtöl á leiðinni þangað svo það var greinilega mikið um að vera.   Fjórum sinnum var fundið að því við mig að kaffið sem ég hellti upp á væri vont og einn spurði hvort þetta ætti að vera fyndið með kaffið.  Bíddu er ekki í lagið með þig..........  Heldurðu virkileg að ég helli upp á kaffi til að vera fyndinn...........?    Kaffibrandari þá , líklega er það málið, idjót.  Finndu þér annan til að tala við.  Styrkleiki á kaffi er bara smekksatriði og þótt ég vilji hafa það sterkt geta menn sem sætta sig ekki við það annað hvort helt upp á sjálfir handa sér eða farið í kaffimaskínuna og malað sér bara á staðnum.  Jú einn sagði mér að ég legði alltaf svo skakkt bílastæðið.  Takk fyrir ábendinguna félagi, það fer eftir því við hvað þú miðar er það ekki hvort eitthvað sé skakkt eða ekki.  Þú ert líklega bara skakkur.

 Suma daga vill maður bara vera í friði og vinna en það var eins og að mér soguðust vandamál og glaðlynt fólk.  Það var því ekkert hægt að vera hortugur þótt mann langaði til.

     Kútinn náði ég í og rakst ekki á mengunarmömmuna enda eins gott.  Ég hefði pottþétt lesið henni pistilinn og ekki dregið neitt undan.  Að reykja í bílnum með barnið í aftursætinu og hafa svo áhyggjur af ókunnum myndarlegum manni út af hlutum sem henni klárlega koma ekki við.  Dapurlegt.

En, nú er ég kominn heim með kútinn, búinn að „afsanda“ hann, baða og við erum að fara að borða.  Við tekur vonandi rólegt kvöld, tvær ibufen til að slökkva á hausverknum og svo líklega meiri lestur. 

Vonandi áttið þið ykkur á því að Júdas getur líka verið hortugur og leiðinlegur enda er hann ekki pissudúkka heldur karlmaður.

Júdasar líka fólk.

 

 

Ég aðhefst það eitt sem ég vil

og því aðeins að mig langi til.

En langi þig til

að mig langi til,

þá langar mig til svo ég vil.

 

Þorst.Vald

 


Annar treystir á hinn og sá treystir á þá

     Þessir dagar eru fallegir.  Þótt hitinn sé ekki mikill úti er það sólin sem gleður og vermir upp svöl hjörtu og það er jú sá hiti sem fleytir okkur áfram jafnvel þótt kalt sé úti. 

     Við feðgar sváfum lengur í morgun en í gærmorgun.  Fórum fram um hálf átta sem verður að teljast nokkuð gott því í gær stökk hann framúr argur og heimtaði að gamli maðurinn kæmi með.    Þetta hafði verið eina nóttin í mánuðinum sem ég fór ekki að sofa fyrr en kl 02:30 út af lærdómi og lestri meðal annars svo minn var verulega þreyttur.  Á fætur fór ég og hreiðraði um okkur feðga í sófanum.  Klukkutíma síðar fannst mér út séð með það að hann myndi sofna og stökk í sturtu, klæddi mig og helti upp á kaffi.  Þegar ég leit svo inn í stofu var skæruliðakúturinn sofnaður, en ekki hvað.

     Í morgun var þetta því innan skynsemismarka, við sofnuðum á skikkanlegum tíma og fórum fram úr á viðráðanlegum tíma líka.   Ég laumaðist inn í herbergi unglingsins til að horfa á hann sofa eins og ég geri stundum á morgnanna, horfi á hann anda og dáist að honum.  Hann var ókominn heim þegar ég fór að sofa en ég heyrði hann koma ekki löngu síðar.

     Ég velti því fyrir mér áðan hvort ég þyrfti eitthvað að blogga þessa helgina því lífið hjá okkur er svo einfalt og venjulegt, uppákomu lítið og áfallalaust að lítið væri til að blogga um.  Sumir gætu haldið það slæmt og jafnvel leiðinlegt en ég þakka Guði fyrir öryggið og værðina.

 

     Leið okkar liggur út í borg sporanna á eftir þegar kúturinn hefur tekið sér blundinn sinn og jafnvel fyrr.  Við mundum fara troðnar slóðir sjá okkar eigin spor og spor annarra þekkt og óþekkt.  Hver veit nema við rekumst á múmínspor eða önnur bloggvinaspor, óþekktir huldufeðgar sem njóta kyrrðar og öryggis. Annar treystir á hinn og hinn treystir á Hann, þann sem lífið gaf.  Þriðji treystir á sig og gamlan mann.  Í þessu trausti fetum við okkur áfram mót skuggum framtíðar, í gegnum fyrirgefna fortíð, náðarinnar nútíð til fallegrar framtíðar.  Í henni verður það gamli maðurinn sem treystir á hina og hinir treysta á sig og Hann, þann sem lífið gaf.

 

   Gangið glöð inn í þennan fallega dag.

 

   Njótið dagsins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 48796

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband