Færsluflokkur: Bloggar

Hún má fara og vera meðan ég er og fer

     Merkilegt hvað morgnarnir eru mér miklu auðveldari til allra verk en kvöldin.  Ég hef þetta líklega frá móður minni sem var mikil morgunmanneskja og sat gjarnan við skriftir þegar maður trítlaði fram í eldhús á yngri árum.   Brosmild og vinarleg tók hún á móti manni og virtist aldrei eiga slæma daga.  Vafalaust hefur það þó verið en hún bar það aldrei á borð fyrir okkur ungviðið.  Hún var aldrei þreytuleg eða syfjuleg ámorgnana en þótt ég hafi fengið morgunferskleikann frá henni fékk ég greinilega ekki þetta ferska morgunútlit hennar því einhvernvegin fylgir skrokkurinn oft ekki með í þessum andlega morgunferskleika mínum.  Að minnsta kosti ekki spegilmyndin.  Á kvöldin var hún ekki alveg jafn fersk og sofnaði gjarnan með okkur snemma á kvöldin eða jafnvel inni í stofu.  Það hef ég klárlega fengið frá henni því þar sofna ég býsna oft en nokkrum sinnum hef ég sofnað við eldhúsborðið fyrir framan tölvuna og það skil ég ekki með nokkru móti.

 

     Pabbi var öðruvísi.  Vinnuþjarkur mikill, þögull og alvarlegur en öruggur sem klettur og með lausnir á öllum vanda.  Þreytulegur var hann og oft náðu dagarnir saman hjá honum enda fyrirtækjaeigandi og sló aldrei slöku við þar.  Við þvældumst mikið með honum og líklega hef ég lært af honum að njóta þagnarinnar og hlusta.  Klöppin á bakið voru hæg og innileg en ekki var mikið um faðmlög eða tilfinningar tjáðar í sama mæli og hjá mömmu.  Lífsspekin og lífsleiknin kom þó frá honum hvað varðar rétt og rangt í allri umgengni við menn og málefni en réttlætiskennd, skilvísi og heiðarleiki sem og hjálpsemi einkenndu hann.  Allt fyrir alla og einskis vænst að launum.  Frá mömmu kom hinsvegar allt í sambandi við umgengni við einlægni, bæði við Guð og menn, hún kynnti okkur fyrir kærleikanum, samviskunni og þar fengum við mikið af faðmlögum og mikla tilfinningatjáningu.  Þau voru eins og svart og hvítt, kynntust sem unglingar og voru saman alla tíð svo ólík að þau virtust ekkert eiga sameiginlegt. 

 

     Ég er hinsvegar sannfærður um það að alveg eins og í fyrirtækjum felst mannauðurinn í breiddinni svo einn geti stutt hinn, vakað meðan hinn sefur, tekið við þar sem hinn rekur í stans.  Sjálfur hef ég alltaf litið á þetta þannig og því aldrei verið að leita mér sérstaklega að förunaut sem líkist mér eða er með sömu áhugamál og áherslu og ég.  Þvert á móti leita ég að einhverri sem getur bætt mig, stutt mig og sýnt mér hluti sem ég þekki ekki.  Hún má vaka meðan ég sef og sofa meðan ég vaki,  Horfa á rigninguna meðan ég dansa í henni og baða sig í sólskini meðan ég  fylgist með.  Hún má fara og vera, meðan ég er og fer ef hún aðeins elskar mig eins og ég er.   Ég er!

 

Við lágum í grasinu

og ég leit í augu þín

og þú svaraðir, já.

Það var á miðju sumri

og drottinn hafði lagt grænt teppi á jörðina

og ég kyssti rauð berin

á brjósti þér,

leit í augu þín

og þú svaraðir, já.

 

Og stjörnurnar hlógu á himninum,

þegar ég mætti vörum þínum.

Svo litum við upp í nóttina

stóðum á fætur

litum upp í nóttina

horfðumst í augu á ný

og þú svaraðir, já.

 

Það er farið að hausta

og nóttin liggur svört á milli okkar

og það er langt til stjarnanna

-----en lengra til þín.

 

Matt.Joh.


Blindur maður finnur ilminn

     Fagur dagur, blíðlynd borg, ótal annir.  Kútur kemur og Kútur fer.  Við erum alltaf að kveðjast.  Varla búin að fagna nýjum degi þegar við keðjum hann að kveldi.  Nóttin tekur yfir og þegar við opnum augun aftur er kominn nýr dagur og ný augnablik.  Við ættum að njóta hvers augnabliks til hins ýtrasta áður en það hverfur með öðrum augnablikum inn í fjötraða  fortíðina.  Framundan er urmull augnablika sem flæða framhjá og við tökum varla eftir þeim og gleymum að njóta þeirra vegna löngunar í augnablik framtíðar eða þrá eftir horfnum augnablikum fortíðar.

 

Njótum alls, njótum regnsins og finnum ilminn.

 

Gangið glöð inn í hin mörgu augnablik dagsins.

 

 

Eins og blindur maður

finnur regnið

falla á hendur sínar

í myrkrinu

 

og sér ekki

himininn

 

eins og blindur maður

finnur ilminn

berast að vitum sínum

í myrkrinu

 

og sér ekki blómið

 

sjáum við

ásýnd þína

Guð!

Ingimar E. Sig


Mig lengir í svölun hjartans

        Þeir eru ljúfir þessir föstudagar og rigning síðustu daga hefur svo sannarlega gert okkur gott.  Nú er ég nýkominn heim með litla kútinn og við tekur fríhelgi í friði, ró og værð.   Við ætlum að hafa það rosalega notalegt og spurning hvort við pöntum ekki bara mat á eftir.   Ég reikna með að við verðum einir í matnum því Unglingskúturinn er á leið í Bíó með vinum sínum og kemur ekki heim fyrr en um miðnætti.

         Þeir vekja furðu þessir kútar.  Við sátum áðan á gólfinu við svefnherbergis hurðina ég og litli kútur vegna þess að þar skellti hann bókunum sínum niður og þar áttum við að lesa þær.  Ég stakk upp á sófanum nú eða bara rúminu en hann tók það ekki í mál.  Á gólfinu skyldum við vera og þótt það væri í miðjum dyrakarminum var það ekkert verra en hver annar staður.   Við fullorðna fólkið þurfum alltaf að gera svo mikið mál úr öllu.   Fara með hlutina hingað eða þangað og það tekur okkur margar mínútur að koma okkur fyrir í t.d sófanum með okkar hafurtask en kútar eru ekkert að spá í svoleiðis smáhlutum.  Það er bara leikið sér þar sem hlutirnir fara í gólfið og málið dautt. 

 

     Auðvitað sofnaði ég með honum og vaknaði svo um miðnætti.  Það er bara svo notalegt að kúra, finna fyrir höndunum á honum þegar hann strýkur andlitið og hárið og þarf alltaf að vita af manni.  Hann stjórnar ekki bara því hvernig hann liggur heldur líka því hvernig ég ligg.  Ég á að liggja svona og svona til að hann geti verið svona og hinsegin.  Greinlega ekki jafn slétt sama og það hvar við lesum bækurnar eða kubbum.   Lendingin var „lulla pabba“ en þá klöngrast hann upp á mig með koddann og sængina og notar mig sem rúm.  Þannig sofnuðum við.

     Ég náði að læra aðeins áðan svona til að friða samviskuna en hugurinn hefur þrátt fyrir heimalærdóm verið dálítið fjarlægur námi og jafnvel fjarlægur vinnu síðustu daga.  Ekki veit ég hvar hann hefur verið en þó hafa dagdraumar ekkert verið á dagskrá heldur.  Ég hef bara verið.........sem hlýtur að teljast betri kostur en að vera ekki.   Mér líður eins og ég bíði eftir einhverju.

Best að koma sér í lúrinn.

Góða nótt.

 

 

Langt þangað til morgnar?

Myrkrið er kalt og þykkt.

Mig lengir í svölun hjartans

hina lifandi fegurð.

 

Hannes Pét.


Brimsins mjallhvíta lauf

     Komið kvöld og er einn í sófanum.  Ekki slæmt kvöld.  Lítill kútur var hérna áðan og eldaði  með stóra bróður og gamla manninum. Við elduðum tortillur og hann söng fyrir okkur „allur matur á að fara“ og það er eiginlega í fyrsta skipti sem við heyrum hann syngja heilt lag einn og óstuddur.  Við eldri feðgar vorum fullir aðdáunar og kúturinn lék á alls oddi.  Hann fékk alla þá athygli sem hann vildi.  Unga konan bað mig um að sækja hann á leikskólann og ánægjan öll mín megin.  Hann var yndislegur.  Nú er aðeins tveir dagar í að kútavikan hefjist og við eldri feðgar fullir eftirvæntingar.

 

        Það stefnir í fríhelgi hjá mér og þá meina ég fríhelgi.   Kútavikan gerir mig svo rólegan og því fylgir svo mikil værð.   Að sitja einn í stofunni kútalausu vikuna er einmanalegt og ég þarf að hafa fyrir því að vera rólegur en þegar kúturinn er hjá mér og þótt hann sofi og ég einn í stofunni er það allt annað.  Yfir mér er værð og ég er rólegur.  Mér finnst eins og ég hafi margsagt þetta og á klárlega eftir að gera það oftar.

 

    Ég hefði átt að læra í kvöld og jafnvel vinna því  nóg er af verkefnum þar en ég datt í ljóðalestur og ætlaði að henda inn á bloggið ljóði.  Ég stoppaði samt bara við dapurleg ljóð sem enduðu svo illa að mér fannst það ekki lýsa líðan minni nægilega vel.  Þau hafa jú gert það hingað til.  þetta var það eina sem mér fannst koma til greina svo ég læt það flakka.

 

 

Veturinn veit að ég bíð þín

veit að ég sakna þín stöðugt

og færir mér allt sem hann á

af ágætu skrauti:

Bind ég þér blómsveiga marga

úr brimsins mjallhvíta laufi

og rósum í rúðunnar hélu

svo raða ég stjörnum hjá

í nafn þitt, uns návist þín ríkir

og nóttin er hvelfd og blá.

 

     Komið nóg í kvöld, því ég fer nett í taugarnar á mér.  Hef lítið að gefa og alltaf eins og ég vilji ekkert þiggja heldur.   Spurning um að auglýsa opið hús um helgina, kaffi og með því.......gjörið svo vel.  Ég kæmi mér líklega að heiman til að þurfa ekki að kynnast fólki eða eignast vini?

Dreymi ykkur vel!


Sjálfshjálparhópur særðra spegilmynda

     Hlátur og glaðværð var það sem tók á móti mér þegar ég kom fram í morgun.   kátína og ferskleiki útvarpsþáttagerðarmann er ekki akkúrat það sem ég vildi heyra þreyttur og  stirður.  Líðanin var eins og hjá klósettbursta rétt eftir notkun og útlitið í samræmi við það.  Lærdómur síðustu tveggja daga hefur tekið á því ég hef þurft að hafa svolítið fyrir þessu sem byggist þó aðeins á djúpum vangaveltum þar sem ég stari á skjáinn og  hugsa.  Getur það verið að ég sé bara svona illa gefinn og það sé vegna vorkunnsemi kennaranna eða greiðslu frá fyrirtækinu sem verkefnaeinkunnir séu góðar?   Það er allavega gott að ekki sé verið að gefa einkunnir fyrir morgunútlit því ég er ekki frá því að spegilmyndin hafi hreinlega litið undan í morgun annaðhvort af tillitssemi eða hreinlega til verndar sjálfri sér.  Þær eru jú réttindalausar með öllu og engir áfallahópar starfandi fyrir þær.  Nóg af bulli.  

    

Kaffi og nóg af því  verður að teljast góður startvökvi í morgunsárið og nú þegar er komin ein uppáhelling og önnur á leiðinni.   Merkilegt hvað þetta er góður vökvi en hinsvegar var ég rétt í þessu að uppgötva það mér til mikillar skelfingar að bollinn eini sanni er farinn að leka.  Fyrsta bloggfærslan mín fyrir 146 færslum síðan fjallaði einmitt um þá skelfingu þegar næst síðasti bollinn í þessu gamla setti frá mömmu gömlu fór í gólfið og mölbrotnaði.   Hann er enn í upp í skáp og bíður þess að ég raði honum saman.  Það er því áhyggjuefni að þessi sé farinn að leka.  Hvað gera svona sérvitringar þegar hætta steðjar að og einfeldninni stafar ógn af einhverju sem í augum flestra getur varla skipt miklu máli en er í ljósi einfeldni gríðarleg hætta sem gæti sett allt úr skorðum og jafnvel eyðilagt þær fáu unaðsstundir sem gömlum manni standa til boða.  Ég bið ykkur að fyrirgefa mér kæru bloggvinir hversu leiðinlegur ég get verið því ég var að lesa yfir þessa færslu og komst að því að hún er nánast ekki um neitt og hlýtur því að komast í 144 færslna úrtak um þær leiðinlegustu sem ég hef skrifað.

 

Jákvæðni dagsins er sú að þegar botninum er náð liggur leiðin aðeins upp á við og undirstaðan til spyrnu ein sú besta sem völ er á í stöðunni ekki satt.  Reyni að standa mig betur í blogginu næstu daga.  Unglingskúturinn minn var að koma fram rétt í þessu og staðfesti það sem ég hélt að ég væri ljótur og þreyttur með athugasemd sem ég svaraði auðvitað um hæl í sömu minnt, en ekki hvað.

 

Njótið dagsins kæru vinir og látið mig vita ef þið finnið á netinu sjálfshjálparhópa fyrir særðar spegilmyndir.


Af hverju hittir hún mig ekki á förnum vegi?

     Ég sit í sófanum og skil ekki af hverju einmanaleikinn þarf að hitta mig í kvöld.  Áttu ekki fleiri vini eða stefnumót við einhverja aðra en mig?   Ég ætlaði bara að njóta kvöldsins einn í rólegheitunum.  Stökkva í ljós eftir vinnu, elda mér lambafille, opna einn bjór og hafa það náðugt.  Læra svo kannski aðeins.  Ekkert af þessu gekk eftir nema þetta með bjórinn.  Ég fór ekki í ljós, eldaði ekki fille og er ekki enn farinn að læra.  Júdas er snillingur í einmitt þessu.  Að ætla eitthvað en gera það ekki.  Lofa sér einhverju en svíkja sig.  Hann svíkst ekki um í vinnunni og ekki í náminu, svíkur ekki kútana sína eða vini.  Hann svíkur sjálfan sig.  Það er bara vani. 

     Þetta er fallegt kvöld og tilvalið til að deila því með einhverjum.  Rok og rigning úti en hlýtt og notalegt inni.  Tvö ættu að deila þessu kvöldi en það verður ekki þannig.  Möguleikinn á því að það verði aldrei þannig skelfir mig.  Líkurnar á því að það verði aldrei þannig aukast dag frá degi!    Af hverju hittir hún mig ekki á förnum vegi?  Lítur við  og mætir augum mínum.   Sér að það verður ekki aftur snúið og vill ekki missa af þessu tækifæri lífs síns.  Segir „sæll“  „hef ég ekki séð þig áður?“   og eitt leiðir af öðru. 

     Ég man kraftinn sem yfir mann kemur, orkuna sem leysist úr læðingi.  Svefn verðu aukaatriði, og andvökur hafa allt í einu tilgang.  Spenna og eftirvænting verður daglegt brauð og biðin eftir skilaboðum og hringingum verður óbærileg.  Aðdáun í hverju augnatilliti og þakklæti fyrir hverja mínútu.  Allt snýst við og hvert andartak hefur tilgang.   Ég man þessar stundir og ætti að minnast þeirra áfram því ef til vill verður minningin það eina sem  hægt verður að orna sér við.  Það eina sem haft verður með sér í sófann á kvöldi sem þessu.  Það eina sem fær mig til að brosa út í annað og rifja upp ilminn.......  Því skildi kona annars snúa sér við, gamli maður og hvað skildi hún sjá ef hún snéri sér við þreytti maður?  Hún myndi snúa sér hraðar til baka fullviss um það að hún hafi alls ekki átt að snúa sér við.  Hún sá fortíð manns sem fylgir honum en ekki nútíð og ekki framtíð, aðeins fortíð.   

     Þú fékkst það sem þú þráðir en vildir það ekki.  Þú fékkst það sem þú gast fengið hafnaði því.  Þú fékkst það sem þú sóttir en skilaðir því.  Þú sóttir það sem þér bauðst en kastaðir því frá þér.  Engin furða að þú sért þreyttur gamli maður og engin furða þótt þú hafir ekki trú á þess konar lífi.

     Kútarnir eiga sér framtíð og gamall maður mun fylgja þeim eftir.  Verða þeim innan handar um ókomin ár.  Gleðjast yfir hverju skrefi þeirra og hverjum áfanga.    Ef til vill verða skuggar framtíðar svalar en ég átti von á og ef til vill verða þeir ekki það skjól sem ég vænti.  Þá kemur ylur minninganna frá eldi fortíðarinnar til bjargar.  Hann laðar fram bros og framkallar værð.  En aðeins ef Guð lofar.

    Ég hlakka til morgundagsins og vona að hann komi fljótt......


Þvílíkt veganesti út í þennan dag

     Hann var úfinn og krúttlegur kúturinn sem rölti fram í morgun með vatn í stútkönnu og grænan krókódíl sem hann dró á halanum eftir gólfinu. Stóð í holinu og ruggaði og beið eftir því að verða tekin og faðmaður.  Svo er hann sagður líkur pabba sínum, þvílíkt bull.  Ég verð seint talinn krútt úfinn og þreytulegur og svo man ég ekki eftir því að hafa komið með krókódíl fram á morgnanna. Inni í öðru herbergi var annar kútur heldur þreyttari en ég er ekki frá því að hann hafi komið fríðari undan feldi en við hinir.  Svo er hann sagður líkur móður sinni.  Þvílíkt bull.  Auðvitað er hann líkur okkur hinum.

 

Fríhelgi er að baki og alvara lífsins blasir við.  Við göngum allir ókeikir inn í hana sannfærðir um ágæti okkar og getur, fríðleika og fas.  Þvílíkt veganesti  út í þennan dag og þessa viku.

 

Það er greinileg að skuggar framtíðar verða aðeins skjól í hita leikjanna og tilhlökkunarefni að mæta þeim og njóta þeirra.  Hvenær það verður veit ég ekki en það verður...........

 

Njótið dagsins.


Hún sýgur best er sagt

     Hann rann hratt upp þessi dagur, æddi hreinlega upp.  Mér fannst ég rétt farinn að sofa þegar ég vaknaði og greinilegt að mér var ekki ætlað að sofa lengur.  Ég var að læra í allt gærkveldi með kútinn klifrandi á mér í stofunni svo hann sofnaði líka seint.  Sofnaði í hnipri í fanginu á mér í samkeppni við fartölvuna sem var þar einnig.  Hann svaf því lengur í morgun og gamli maðurinn hafði heila tvo tíma út af fyrir sig og ætlaði aldeilis að nýta þá vel.  Ef það er talin góð nýting á tíma að sitja við eldhúsborðið með kaffibolla og dagblöð er ég í góðum málum en ef ekki, þá í slæmum.  Ég ætlaði að ryksuga hjá mér og skúra en er ennþá á leiðinni í það.  Lóar-flikkin eru orðin á stærð við meðalstóra heimilisketti og þótt það sé vinalegt að koma fram og finna þetta strjúkast við leggina ætla ég að fjarlægja flikkin í dag svo ég þurfi ekki að kaupa ólar á þau og borga einhver gjöld af þeim.  Nú væri ljúft að hafa eina GULLFALLEGA, STRAUMLÍNULAGAÐA, STORMANDI UM ÍBÚÐINA LYKTANDI EINS OG BLÓM Á ENGI.   HEYRA Í HENNI ÞAR SEM ÉG SIT VIÐ ELDHÚSBORÐIÐ OG VITA AÐ ENGIN....... JÁ ENGIN SÝGUR BETUR.   Þarna er ég auðvitað að tala um sjálfvirku, tæknilegu, forritanlegu róbótaryksuguna sem alltaf er verið að auglýsa annað slagið og ég bloggaði um 12.nóvember þá fullur áhuga og ímyndunar um það hvernig þetta tæki myndi breyta lífi mínu.  Best að láta færsluna bara fylgja hérna með því þetta gæti enn orðið að veruleika.   http://judas.blog.is/blog/judas/entry/363060     Kannski ætti ég bara að kaupa mér þessa þjónustu þótt mér finnist þrif ekkert leiðinleg og í sjálfu sér er aldrei drasl hjá okkur feðgum.  Vildi bara nýta tímann miklu betur en ég geri.

 Er þetta  nokkuð karlrembulegt?

Nú fer kúturinn að vakna eftir síðdegissvefninn svo það er best að setja sig í gírinn því við eigum enn eftir að fara á Mc Donalds í burger en það er fastur liður.

Bless á meðan, vinir.


Eru tveir betri en einn?

     Það er ekki laust við að kaffidrykkjan yrði örari í morgun vitandi af þessum kulda úti.  Vangaveltur um að flytja úr landi, klæða sig eins og geimfari, skríða undir sæng eða kveikja í sér leituðu árangurslaust upp á yfirborðið en voru slegnar út af borðinu jafn óðum.  Hvar ætti ég svo sem að fá geimbúning?  Ég vona að einhver hafi sett alla ofna í botn á skrifstofunni svo maður þurfi ekki að norpa yfir kaffikönnunni til að ylja sér.  Best væri að halda sig innandyra í dag.   Kúturinn var sá eini sem leit út eins og geimfari þegar farið var út úr húsi, gat varla hreyft sig og greinilegt að kaldur pabbinn hafði klætt hann fyrir tvo, eða þrjá.

     Framundan er fríhelgi með báðum kútunum, þrifaáætlun í gangi og spurning um að hengja miða á útidyrahurðina, nú eða út í eldhúsgluggann eins og gert er á Bylgju-dögum þar sem skýrt er tekið fram að þarna búi maður einsamall þótt „þrísamall“ sé nær lagi,  í von um að snörur verði lagðar fyrir fleiri konur en þessa sextugu sem les af rafmagninu hjá mér.  Held ég coolinu ef ég geri þetta?  Ég væri til í á láta það róa í nokkra hálftíma ef það skilaði árangri.  Ekki það að ég sé að verða úrkula vonar heldur vantar mig bara skemmtilegan kaffifélaga sem drykki með mér kaffi og færi svo bara fljótlega aftur en kæmi aftur fljótlega.  Betri eru tveir en einn og á það við t. d um kaffibolla og ef til vill um félaga líka.

Læt þetta duga.

Gangið svöl inn í þennan ágæta dag.


Passa mitt eigið barn?

     Hann var heppinn gamli maðurinn í gærkveldi.  Ungakonan hringdi ofurstressuð og  spurði hvort þau mætti koma í kaffi, hún og kúturinn.  Auðvitað máttu þau það , mín var ánægjan, en eftir nokkra bolla stökk hún á dyr í sama stressinu en eftir varð kúturinn og um það samið að hann yrði í nótt og svo myndi ég sækja hann á fimmtudag en ekki föstudag.  Alltaf er maður að græða en þó hafði ég svolitlar áhyggjur af kútnum því hann er bara búinn að vera hjá mömmunni í þrjá daga og fannst mér hann sakna hennar þegar hún fór.  Hann hljóp út í eldhúsglugga upp á stól og horfði á hana keyra í burtu.  Ég kallaði á hann eftir svolitla stund því hann var enn í glugganum að horfa út og ég ímyndaði mér að hann væri að bíða eftir fallegustu og bestu mömmu í heimi.  Hann kom inn í stofu og tók gleði sína á ný þegar hann sá kubbana sína á gólfinu akkúrat þar sem hann hafði skilið við þá síðast.  Við tók kubbaleikur sem aldrei ætlaði að enda.

     Mér finnst alltaf óþægilegt þegar sagt er við mig „ertu til í að hafa“ eða „viltu passa fyrir mig“, þótt ég viti auðvitað meininguna finnst mér þessar setninga óþægilegar þegar barnið manns á í hlut.  Þetta er jú kúturinn okkar og það á ekki að þurfa að fara samningaleiðina eða biðja mig að „hafa“ hvað þá „passa“ mitt eigið barn.  Þar fyrir utan er þetta hans heimili eins og mitt þótt hann eigi tvö en ég aðeins eitt.  Ég þarf að laga þetta aðeins til alveg eins og þegar ég bað ungu konuna að hætta að segja takk þegar ég legði inn á hana peninga sem nota átti fyrir kútinn.  Ég er svo viðkvæmur fyrir þessu og hún veit það þessi elska.  Við gætum breytt þessu í „ég þarf að skreppa aðeins, má ég skilja kútinn eftir hjá þér........“ eða „ertu til í að leika við hann......getur þú fylgst með honum....hefur þú tíma til að vera með honum í kvöld........“.    Þarna er sennilega komin lausnin.  „Getur þú verið með honum í kvöld og nótt.......“ ,  mér líst best á það.   Það hljómar ekki eins og byrði eða einhver ölmusa enda njóta báðir og í raun allir.   Ég man að ég var viðkvæmur fyrir þessu líka gagnvart margrabarnamóðurinni og hún fann það.  Hún hringdi bara og sagði að kúturinn vildi vera hjá mér í nótt eða eitthvað í þá veruna og ég var sáttur.

     Hvort ég er geðveikur eða klikkaður nú eða svona ofur viðkvæmur legg ég ekki dóm á en það væri gaman að fá skilgreiningu þeirra sem lesa hvað það er sem veldur þessu.  Neikvæð comment líka þegin að sjálfsögðu.

    Gangið glöð inn í þennan dag.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 48824

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband