Færsluflokkur: Ljóð

Kvöldið bíður í grípandi dulúð

Þvílík fegurð. 

     Þótt þessi morgunn sé ekki eins bjartur og í gær er hún björt sólin sem rennur upp milli rifja og lýsir upp þreytt hjarta gamals manns. 

     Þessi sól klifraði reyndar upp á gamla manninn í morgun hossaði sér og vildi fara fram.  Svo kom faðmlag og slefblautur koss.  Við feðgar sváfum óvenju lengi og fórum ekki fram fyrr en hálf átta en sá gamli var búinn að vita af sér í klukku tíma eða svo.

     Við heltum okkur í eldamennsku klukkan átta í gærkveldi með tilheyrandi látum og kúturinn tók fullan þátt í því enda um einn af uppáhaldsréttum kútsins að ræða.  Unglingurinn stóð við eldavélina og skipaði gamla fyrir eins og herforingi og síðan settumst við allir að snæðingi.  Unglingskútur er búinn að vera óvenju mikið með okkur þessa helgi, fór út með okkur kút í gær og var með okkur í þrjá klukkutíma.  Sagðist vera þreyttur á vinum sínum og svo var kærastan auðvitað að vinna en hann ætlaði að hitta hana seinna um kvöldið.

     Framundan er bjartur og fallegur dagur en kvöldið bíður í grípandi dulúð.  Þá mun ég mæta fortíðinni í húsi fortíðar og nútíðar.  Hvort skuggar framtíðar láti sjá sig skal ég ekki segja en líklegt er að skuggar fortíðar láti til sín taka.

 

 

 

Í skjóli skugga bíður

sól og morgunstund.

Í takti tímans líður

tók sér lítinn blund.

 

Í bljúgir værð ég bíð

og bið um vin.

Fortíð,nútíð, framtíð!

fagurt skin.

J.I


Ég fann mig ríkari en nokkru sinni

     Enn einn fallegur dagur, sól og birta.  Er hægt að biðja um eitthvað meira.  Hún er farin að hafa áhrif á mig og alla í kringum mig, birtan og menn eru farnir að tala um að vorið sé að koma. 

     Við byrjuðum daginn snemma við feðgar.  Lítill kútur vildi fara fram kl 6:30 í morgun og ég var meira en lítið til í það.  Með það á hreinu að unglingskútur stæði vörð um draumalandið trítluðum við feðgar fram í kaffiuppáhellingu og weetabix. þegar kúturinn var búinn með diskinn sinn kveikti ég á sjónvarpinu eins og venjan er en kútur vildi ekki sjónvarpið.  „Sitja pabba“  var það sem hann vildi og meðan ég fletti blöðum, drakk kaffið og ræsti tölvuna vildi hann bara sitja í fanginu hjá og hjúfra sig að mér.  Við sátum þannig í eldhúsinu í rúman klukkutíma en af og til komu lítil comment um það sem fyrir augu bar í blöðunum. 

     Kútavikan byrjaði í gær þegar ég náði í vininn á leikskólann og hann kom á harðahlaupum til mín, búinn að vera í tvo tíma í sandkassanum með, með tvo eplabita og vildi gefa mér með sér.  Eplabitar og sandkassi eiga ekkert sérlega vel saman og því litu þeir ekkert sérlega vel út en ég lét mig samt hafa það.  Verri hlutir hafa farið í gegn um hugskotið svo varla skaðar það að borða sandborin epli.  Þau voru allavega ekki sleip á tungunni svona sandborin.

     Í gærkvöldi sátum við inni í sófa með pizzu Ég, kútarnir og eldrikútakærasta og auðvitað átti minnsti kúturinn alla athygli.  Þetta var hans stund og þann vissi það alveg upp á hár.  Það var mikið hlegið, ennþá bjart úti og ég fann mig ríkari en nokkru sinni.  Þegar ég skrifa þetta verð ég meir og fæ meira að segja kökk í hálsinn.  Er það skrítið að ég vilji skrifa í nafnleynd eins svalur og ég er. 

     Nóttin var samt furðuleg.  Ég hef drukkið lítið kaffi undanfarið, meðvituð ákvörðun og alls ekki drukkið kaffi á kvöldin en ég var alltaf að vakna í nótt.  Svaf lítið og stutt, var með miklar draumfarir þess á milli en vissi af mér á klukkutíma fresti.  Kannski var ég eftir mig eftir svona mikla hamingjustund og hlátrasköll en daginn vildi ég samt byrja snemma.   Við feðgar ætlum að vera duglegir í dag, fara víða, þrífa um kvöldmatarleytið og elda eitthvað gott á eftir.  Kringlan, bókasafnið, heimsókn og listasýning eru á listanum og ekki ólíklegt að við gefum okkur tíma í einn burger inn á milli.

     En hér kemur leirburður sem kom upp í hugann í gær þegar ég þurfti að bregða mér af bæ og keyrði í blíðunni yfir fallega heiði í nágrenni borgarinnar. 

 

 

Fagur dagur drottinn minn

depurð víkur, gleðin inn

Kemur til mín kúturinn

knúsar gamla pabbann sinn

 

Ber á hurð hjá bróanum

bljúgur tekur króganum

Ljúfur strýkur lófanum

leiðis ekki kjóanum.

J.I


Áfengur ilmur vatns

     Ég á erfitt með að blogga þessa dagana.  Veit ekki hvort það er tímaleysi eða  andleysi.  Lærdómur á hugann allan og meira að segja vinnan  er látin víkja örlítið þessa dagana.  Kúturinn kom í heimsókn áðan og vildi ekki fara aftur.  Var ný farinn þegar hann hringdi því hann þurfti að segja svo mikið en auðvitað skildi ég ekki helminginn af því.  Ég sæki hann á föstudag og er farinn að hlakka til.  Unglingskúturinn  er bara glaður en hann svaf tvær ætur í Þorpinu eins og ég en lagði svo á flótti.  Kom þanagað að kveldi og farinn um hádegi á öðrum degi.  Alveg eins og ég.  Við erum greinilega borgarbörn báðir tveir,  jú og feðgar.   Ég gaf mér tíma áðan til ljóðalesturs og datt niður á gott ljóð en ég er eitthvað svo sérvitur á þau og reyndar á allt!   Ég óska mér samt ekki margra hluti og er einfaldur í þeim.  Einfaldleikinn gerir hversdagsleikann viðráðanlegan.

 

 

Ósk mín er regn-

dropar sem detta á gras

dropar sem falla í mold

fræs, sem er falið þar

---geymt gróðurmold.

 

Ósk mín er vatns-

ilmur um dimma nótt,

seytl oní bikar blóms

áfengur ilmur vatns

---rósailmur regns.

 

Ósk mín er ljóss-

birta í morgunmund,

miðdegis bræddir snjó-

bólstrar úr mjúkri mjöll

---skýjafalls regn.

 

Ósk mín er lífs-

frjósemd framhald mergð

fjölgun úr smæð í stærð

ólgandi iðustraums

---óþrotlegt líf.

 

Sigríður Einars.


Tær og blár einfaldleiki

 

 

Þegar blár hreinleiki

fjarlægðarinnar

hafði þvegið nálægðina

úr andliti þínu

þráði ég að hjúfra mig

að fjarlægð þinni

geta ekki snert þig

geta ekki átt þig

aðeins varðveitt þig

í tærum og bláum einfaldleika.

 

Birgir Sig.

 

     Hjá sumum er þetta eini möguleikinn í stöðunni.   Eini möguleikinn í stöðu sem þeir komu sér sjálfir í.  Jafnvel besti möguleikinn af aðeins einum möguleika.  Er þá nokkuð annað að gera en að sætta sig við það?  Fjarlægðin verður jafnvel enn fjarlægri þegar tíminn líður og þegar litið er tilbaka er þar jafnvel ekkert að sjá nema óskýr reikul spor og löngu byrjað að fenna yfir þau.  Það hefur líka ekkert upp á sig að líta til baka, nóg að hugsa þangað og draga af því lærdóm.

Góða nótt

 


Land drauma þinna

     Auðvitað sprakk ég.  Pakkaði saman á 10 mínútum, kvaddi og æddi með kútinn burtu úr Þorpinu.  Hvílíkur léttir bara af því að keyra og keyra og keyra.  Það er eitthvað að mér það er alveg ljóst.   Unglingurinn minn hringdi reyndar og sagðist sakna okkar svo mikið og hvort við færum ekki að koma.  Það er svo furðulegt að vera einn hérna sagði hann.  Ég sakna ykkar.   Skömmu síðar vorum við á leiðinni til hans.  Það verður langt þangað til Þorpið verður heimsótt næst.

 

     Það var gott að sofna í sófanum í gærkveldi með kútnum og yndislegt að vakna heima í morgun.  Þetta hlýtur að vera einhverskonar fötlun að vilja bara vera heima og  að það skuli setja allt á annan endann hjá manni tilfinningalega ef eitthvað bregður út af.   Við tekur lærdómur og kúr með kútnum og unglingskútnum sem gat ekki leynt gleði sinni þegar hann tók á móti okkur snemma í ærkveldi.  Það er greinilegt að hann er ennþá pabbakútur og pabbi hans líklega kútapabbi svo mikið er víst.  En nú ætla ég að segja ykkur eitt konur.  Í þorpinu rakst ég á myndarlega konu sem var með mér í skóla þar í denn og átti hreinlega í erfiðleikum með að „hrista“ hana af mér svo mikil var aðdáunin.  „Þú ert alltaf svo sætur“ ,  „þú lítur svo vel út“  og „þú ert svo myndarlegur“ voru orð sem ég heyrði í orðaflaumnum svo þið skuluð ekki vera með einhverjar ranghugmyndir um gamlan miðaldra mann sem skýlir sér á bak við nafnleynd hér í bloggheimum og hana nú.

     Jæja, það er best að setja á könnuna og vita hvort hún kemur í dag, vonin mín.

 

 

Land drauma þinna er hinum megin við vatnið.

Langa, sólríka bernskudaga,

starðirðu þangað

uns augu þín urðu þreytt

og sólin var gengin til viðar.

 

Í svefnrofunum

sagðistu einhvern tíma ætla þangað.

 

Skemmsta leiðin

 liggur kringum vatnið

en þú veist ekki

í hvora áttina þú átt að ganga.

 

Nú er vatnið á ís

en farðu varlega

farðu varlega

því ísinn er veikur.

 

Hjörtur Pálsson


Breið blæju húms

      Mér líður óvenju vel og þarf ekki annað en að líta til hægri og virða fyrir mér lítinn yndislegan kút, hold mitt og blóð, liggjandi í sófanum dreymandi fiðrildi og kanínur og þar er skýringin fundin.  Hjarta mitt tekur auka slag og kökkur kemur í hálsinn.  Þakklæti fyllir hjarta mitt að ég, Júdas skuli fá að njóta samvista við þennan kút og ég þakka það hvern dag  góðum Guði. 

 

Unglingskúturinn kom inn í stofu áðan og saman dáðumst við að  þeim litla.  Sá eldir faldi ekki tilfinningar sínar og áður en hann þaut út fékk ég faðmlag og lítið „elska þig pabbi—sjáumst“ . 

Sjálfur er ég að þreytast, búinn að vera í lestri laga og rétta svo réttast væri að láta undan.

Svefns hjarta sært

saknar um næturstund.

Tungl, skin þitt skært

skamman því leyfir blund.

 

Djúps nýtur drótt

draumhöfga allt um kring.

Lát höfði hljótt

hallað á skýjabing.

 

Náttröðull, rúms

runninn um langan stig,

breið blæju húms

blástirnda yfir þig.

Þorst.Vald

 

**Góða nótt vinir!**

 

 


Upp kemur tungl

     Það var þreyttur kútur sem kastaði sér í eldhúsgólfið fyrr í kvöld.  Enginn skildi hann og enginn vildi láta hann fá það sem hann vildi.  Og hvað er pabbi að hugsa, lætur mig bara gráta á gólfinu!  Hann var yfir sig þreyttur og ég tók hann upp og fór með hann inn í rúm. Hann var ekki sáttur við það en nuddaði eyrun eins og hann gerir alltaf þegar hann er þreyttur og gat ekki hætt að gráta.  Við lögðumst upp í rúmið með pelann en hann gat varla drukkið því hann snökti svo.  „Við skulum biðja til Guðs vinurinn minn“, og svo bað ég hægt.  Vinurinn bað með mér en grét á milli orðanna,  sem hann endurtók þó á eftir mér. Amenið passaði alveg inn í grátinn og var eiginlega það lengsta amen sem ég hef heyrt.  Augnabliki síðar hætti hann að gráta strauk á mér andlitið, tautaði eitthvað og sofnaði.  Ég er þess fullviss að Guð heyrði bæn litla kútsins sem bað þótt hann gæti það varla sökum þreytu og gráts.  Hverjir draumar hans verða veit ég ekki en þar er einfaldleikinn og einlægnin vafalaust í fyrirrúmi því gleðin bara yfir engjaþykkni með karamellu sem hann fær bara um helgar er þvílík.  „Nema þér verðið eins og börn“ sagði Hann!  Við getum heldur betur lært af þessum elskum.

 

Nóttin nálgast óðfluga og bíður eftir mér.  Kyrrðin ræður ríkjum og það vottar fyrir værð þótt framundan séu annasamir dagar.  Fullkomin værð næst þó ekki því ilminn vantar.  Ég mundi það ekki fyrr en ég varð einn aftur hvað ilmurinn spilar stóra rullu í samskiptunum við fljóðin.  Snerting og ilmur eru fullkomnun á fallegri þögn og næturkyrrð verðu tilhlökkunarefni og morgnarnir fallegri.  Meira að segja skuggar framtíðar fölna og regnið glitrar, hvar ertu ljúfan mín?

 

 

Upp kemur sól

án þess ég sjái

augu þín,

 

upp kemur tungl

án þess ég heyri

orð þín,

 

upp koma stjörnur

án þess ég finni

atlot þín.

 

Upp kemur sól

upp kemur tungl

upp koma stjörnur.

 

Enn mun ég stara

enn mun ég hlusta

enn mun ég leita.


Ég var og ég er

     Mér nægir að líta út um gluggann og sjá göturnar blautar og hjarta mitt fyllist gleði.  Vonin um rigningu gagntekur mig eins og yfirfærð þrá eða þráhyggja sem hefur villst einhversstaðar  í sálartetrinu.  Við kútar áttum yndislega helgi og fórum reyndar ekkert út úr húsi í gær því værðin var svo mikil.  Enduðum í baði kl 11 í gærkveldi áður en við fórum í rúmið.  Unglingskúturinn nennti auðvitað ekki þessari leti og var horfinn á vit vina sinna og drauma strax og hann vaknaði kl 15 eins og þreyttum hormónabolta sæmir.  Sólarhringnum er reglulega snúið við og umferðin um herbergisdyrnar hjá honum minnir stundum á umferðarmiðstöð svo margir eru vinirnir og kunningjarnir.

 

    Við tekur ljúf vinnuvika og kútavika sem gefur lífinu þá fyllingu sem þarf til að fullkomin værð haldist hjá gömlum þreyttum pabba.  Talsverðar annir eru þó framundan, nýtt erfitt verkefni í vinnunni sem þarf að vinna vel á borði áður en því er hleypt af stokkunum og lokaáfangi í náminu um miðja viku og ekki laust við smá titring undirniðri þótt best sé að mæta því af fullkominni yfirvegun frekar en með yfirlestri og óðagoti.

 

  Ég Óska ykkur ljúfs dags og vona að þið Óskið ykkur þessa sama.

 

 

Ég er óskin,

aleiga hins snauða,

bænin heilaga,

hjartarauða,

umvafin fegurð

og ást í lífi og dauða.

 

Ég var

og ég er.

Kynslóð kemur

og kynslóð fer.

Ungir og gamlir

unna mér.

 

Ég er óskin,

ákallið hljóða,

bæn hins veika

og vegamóða:

friður á jörðu

og frelsi allra þjóða.

 

Gestur Guðfinnsson


Ég sem orðum ann

     Það var lítill kútur sem  dró mig á fætur óheyrilega snemma í morgun.  Í fyrstu tilraun mistókst honum því klukkan vara aðeins hálf sex og ég rétt náði í fótinn á honum og gat dregið hann til baka og undir sæng.  Næsta tilraun var gerð klukkutíma seinna og hún tókst.  Hann var svo snöggur út úr rúminu að gamli náði ekki að grípa í hann og ég sem ætlaði að sofa út alveg til klukkan átta eða jafnvel til hálf níu.  Líklega var þetta bjartsýni hjá mér að ímynda mér svona lúxus en þó var þetta aðeins byrjunin á gríðarlega góðum degi.  Kubbaleikir, bókalestur,lærdómur, Laugar og  Sprotaland svo eitthvað sé nefnt, jú og Borgarbókasafnið, við enduðum þar í ljóðabókadeildinni og svo auðvitað í barnabókunum.  Það var því þreyttur kútur sem lagðist til hvílu í kvöld en gleymdi þó ekki að biðja bænirnar. 

     Eftir sat gamall maður og beið.  Ég settist fram í eldhús þar sem allt er innan seilingar.  Þar sem ég sit við eldhúsborðið sé ég inn í stofu og  sé á sjónvarpið.  Aftan við mig er útvarp í eldhúsglugganum og kaffikannan á hægri hönd á eldhúsbekknum.  Nokkrar skúffur eru líka á hægri hönd og næ ég í þær allar án þess að standa upp.  Getur það verið betra?  Tölvan á borðinu og bunki af ljóðabókum vinstra megin við hana.  Kaffibollinn, þessi eini sanni er svo hægra megin.  Þetta er lítill heimur og einfaldleikinn ræður ríkjum og stundum má vart á milli sjá hvort það er einfaldleiki eða einfeldni.  Það er allavega ekki mannblendni svo mikið er víst.

  Það þýðir samt ekki að ég þrái það ekki, bíði ekki og voni ekki.  Mundu það!

 

 

Ég sem orðum ann

nefndi einatt í auðmýkt

konu, mann

líf mold vatn,

á vörum brann

veikasta sögnin

að elska,

fann mér hóglega

á hjarta lagt:

án mín fær skáldið

ekkert sagt.

 

Hver ert þú?

Ég er þögnin.

 

Einar Bragi


Leitin að vetrarblóminu

 

Mig dreymdi þig á þorra,

ég þekkti mig

við þennan klett,

og hér fann ég þig,

vetrarblóm!

 

Ó, gagnsæja lifrauða ljósdjúp!

Hún skín

og lýkst upp í brjósti mér

krónan þín,

vetrarblóm!

 

Föla unga vor

í fannanna bráð,

fullur himinn

af ást og náð.

Vetrarblóm.

 

Þorst.Vald

 

     Hann fer fallegur af stað þessi dagur.   Kyrrð yfir og í útvarpinu tekur á móti mér þegar ég kveiki á því  „Ég hef allt líf mitt, leitað að þér“ .  Kaffiilmur fyllir eldhúsið og værð gagntekur mig.  Ég sakna kútsins og varð varla svefnsamt í nótt sökum draumfara sem tengdust honum.  Ég var alltaf að vakna til að sinna honum en holan var tóm.  Aðeins lítill koddi og lítil sæng. 

    Í gærkveldi var unglingskúturinn óvenju heimakær og við lágum saman í sófanum í klukkutíma eða svo, þar til vinir og kunningjar urðu værðinni eftirsóknarverðari.  Eftir sat ég í sófanum og lærði. 

     Leitin að vetrarblóminu er hafin á ný þrátt fyrir kvöldið sem það var afskrifað í döprum huga en nýr eldmóður virðist risinn úr viðjum eymdar og  einmanaleika.  Það mun þó ekki taka hug minn allan, aðeins vaka og bíða eftir fallegu augnagoti eða rafrænum skilaboðum.  Fingurfléttingar og handabakastefnumót bíða vafalaust en ég mun njóta ilmsins þar sem ég finn hann.

 

Njótið dagsins kæru vinir.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 48796

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband