Grimmar barnsmæður

     Ég fékk mér kaffi með kunningja í gær sem sagði mér farir sínar ekki sléttar.  Ég á nokkrar gamlar bloggfærslur þar sem ég er dálítið grimmur gagnvart barnsmæðrum almennt en þó ekki mínum tveimur enda alltaf talið mig heppinn mann að geta verið einstæður faðir en ekki helgarpabbi.  Ég vona að ég hafi ekki sært neinn með þessum gömlu færslum en inngangspunktarnir voru þó aðallega þeir að konur með forræðið væru grimmari gagnvart barnsfeðrum sínum en karlmenn sem væru með forræðið og hjá þeim útbreidd óafvitandi ósanngirni þar sem réttindi barnsins víkja fyrir duttlungum móðurinnar.  Ég stend nú við þessar fullyrðingar mínar en alhæfi þó alls ekki og gott fyrir foreldra almennt að hugsa um þessi mál.  En inn í þetta aftur.  Kunninginn á kærustu sem hann er búinn að vera með í nokkur ár og fyrir nokkrum mánuðum eignuðust þau lítinn yndislegan dreng sem er auðvitað að heilla þau upp úr skónum.  Allir skilja það.  Fyrir nokkrum dögum komu upp deilur og leiðindi og unnustan fór að heiman og allt í uppnámi.  Þau töluðu saman í síma nokkrum sinnum en náðu ekki sáttum.  Hún tók auðvitað litla drenginn með sér enda enn á brjósti og hið eðlilegasta mál.  Þegar nokkrir dagar voru liðnir og pabbinn farinn að sakana litla hnokkans gríðarlega bjallaði hann í hana og vildi fá að sjá hann.  Allir skilja það líka ekki satt en þá byrjaði það sem mér finnst ótrúlegast af öllu en því miður útskýrir það svo margt í gömlu bloggfærslunum mínum.    Hún spurði hann til hvers...................til hvers.  Vinurinn hváði og varð eiginlega fátt um svör því honum fannst þetta svo afleit spurning.  „Nú auðvitað vegna þess að ég sakna hans,  hvað annað?“     Þá kom „konugrimmdin“ í öllu sínu veldi.   „Heyrðu,  við skulum bara hætta þessu.  Þú tekur bílinn og mátt hirða allt innbúið en ég tek barnið!   Kunninginn var svo hissa að hann vissi ekki hverju hann átti að svara.   Ætlaði hún að nota barnið sem skiptimynnt í sambúðarslitum eins og um hvert annað húsgagn væri að ræða?  Hann elskaði enn þessa konu og var staðráðinn í því að ná henni aftur og halda þessari fjölskyldu saman.   Ég frétti það svo í dag að hún hafi komið heim í gærkveldi og þau ætla að reyna lendingu í þessu öllu og byrja upp á nýtt sem er ekkert annað en yndislegt.

    Spurt er!   Hvaða líkur eru á því að maður hefði sagt þetta við konu og haldið að það myndi ganga? Af hverju halda konur  að þær Eigi börnin eða Eigi meira í þeim en karlmennirnir.   Af hverju fatta þær ekki að við elskum börnin til jafns við þær og af hverju allt þetta tal um móðurást sem þær sjálfar hampa öðru fremur en gleyma því að til er FÖÐURÁST     sem þær geta hvorki metið eða skilgreint hvað þá sett hana undir eða yfir móðurást...........Föðurást þarf ekkert að vera minni en móðurást.  Reynið að skilja það konur og hættið þessum metingi  og eigingirni gagnvart barnsfeðrum ykkar.  Ohhh hvað ég verð argur yfir svona.  Þið fyrirgefið mér samt konur sem eruð ekki svona en ættuð samt að leggja hugann í smá bleyti og íhuga hvaða skoðanir þið hafið og hvernig þetta er í raun og veru hjá ykkur.  Ef til vill bölvið þið barnsföður ykkar í sand og ösku því hann gerir ekki þetta eða hitt, er ómögulegur í þessu eða hinu, svíkur þetta og svíkur hitt og ætti því bara að eiga sig................en eru þetta ekki bara Ykkar kröfur sem hann gengur ekki að og þær ef til vill settar fram í algjörri eigingirni og í algjörum eiginhagsmunum án þess að þarfir og langanir barnsins komi þar nærri svo ég tali nú ekki um þau réttindi barna að fá að umgangast feður sína?

   Nóg í bili.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Jess, góður pistill og alltaf umhugsunarvert ! Ég þurfti aldrei að vera sár yfir svikum barnaföður míns, vegna þess að ég fór aldrei fram á neitt af honum. Vildi bara leyfa honum að vera með, hvenær sem hann teldi sig vera reiðubúinn til þess og það verður vonandi einhverntímann.....

Jónína Dúadóttir, 12.1.2008 kl. 11:37

2 identicon

Það er alveg full þörf á að velta þessu fyrir sér. Ég þekki líka mörg svona dæmi, þar sem móðirin virðist telja sinn rétt til barnsins sterkari en föður þess og ég á alltaf erfitt með að kyngja því. Ég er sjálf ekki í þessari stöðu, enda gift mínum barnsföður en við höfum gengið í gegnum erfiða tíma og þá m.a. rætt um skilnað og þetta er eitt af því sem okkur finnst allt að því óyfirstíganlegt. Búseta okkar í dag ræðst af atvinnu minni og ef kæmi til skilnaðar myndi hann að öllum líkindum vilja flytja og þá erfitt að vera með sameiginlegt forræði  Hvorugt okkar getur hugsað sér að vera helgarforeldri og mér finnst ég ekkert hafa meiri rétt á börnunum en hann. Verð samt að nefna það að ég þekki líka dæmi (tvö) um einstæðar mæður sem eru í eilífum vandræðum með sína barnsfeður sem, því miður, beita börnunum fyrir sig til að fá sínu framgengt. Í báðum tilfellum er um að ræða "helgarfeður" sem ekki hafa sóst eftir meiri umgengni en það og annar þeirra er reyndar ekki einu sinni að sinna þeim skyldum sínum.

Ætlaði aldrei að hafa þetta svona langt  En ég er alveg sammála því að við megum ekki troða á tilfinningum hvors annars til barnanna, hvað þá nota þau gegn hinu foreldrinu. Tilfinningar feðra til barna sinna eru ekki "ómerkilegri" eða "minna virði" en tilfinninga móðurinnar. Börnin eiga allan rétt á að njóta samveru með báðum foreldrum á meðan viðkomandi foreldri er ekki í svo vondum málum að það sé skemmandi fyrir barnið (sbr fíkniefni, áfengisdrykkju eða eitthvað slíkt)

Óla (IP-tala skráð) 12.1.2008 kl. 12:03

3 Smámynd: Signý

Óla: Auðvitað eru til alskonar ástæður fyrir því afhverju og hversvegna feður geta ekki tekið þátt í uppeldi barna sinna. Og auðvitað eru líka til karlmenn sem eru algjörir skíthælar og vilja ekkert með börn sín gera og allt þar fram eftir götunum, en ég held að það sé ekki umræðan. Það gera sér allir grein fyrir þessum frávikum. Þau eru allsstaðar.

Það eru hinsvegar til, ótrúlegt en satt, alveg ótrúlega mikið af virkilega góðum mönnum, feðrum, sem fá ekki að hafa börn sín nema aðra hverja helgi afþví að móðirinn segir það. Ég tala um það á mínu bloggi. Ég skil ekki afhverju það er í hendi móður að ákveða það hvernig faðrinn umgengst barnið, og ég skil ekki hvernig það gat orðið þannig að mæður séu heilagari en feður.

Mér finnst að þessi umræða aldrei snúast um rétta hluti. Þetta er engin pissukeppni, um hver sé betri eða hæfari sem foreldri, hvort það séu fleiri skíthælar meðal feðra eða mæðra. Staðreyndin er sú að það er minna talað um mæðurnar sem eru óhæfar eða tilbúnar til að ljúga hverju sem er upp á barnsfeður sína. Mér finnst að það verði að færa umræðuna upp á það plan að finna lausn á þessu vandamáli. í staðinn fyrir að tala bara um það endalaust, það leysist ekkert þannig.

Feður eru réttindalausir gagnvart börnunum sínum kemur til skilnaðar, skiptir litlu um hæfni þeirra til uppeldis. Því þarf að breyta. Fyrir mér er það jafnréttismál og grundvallar mannréttindi að allir sitji við sama borð þegar kemur að börnunum okkar. 

Signý, 12.1.2008 kl. 19:04

4 Smámynd: Júdas

Eitt finnst mér líka gleymast í þessari umræðu og það er réttur barnsins til að umgangast pabba sinn þótt hann sé "skíthæll", svíki loforð, standi ekki við skuldbindingar oþh.  Auðvitað er þetta slæmt en oftast fáum við bara þessar upplýsingar frá móðurinni en sjáum þetta sjaldnast með augum "vonda pabbans" sem barnið hættir ekkert að elska þrátt fyrir þetta og á sinn fulla rétt á því að fá að hitta hann en ekki bara þegar móðurinni hentar það.

Réttur barnsins verður að vera í öndvegi og ekki má gleyma því að sá sem fer með forræðið er umboðsmaður barnsins sem gæta þarf á óeigingjarnan hátt að velferð þess en þar hnjóta margar þessara "grimmu mæðra" .  Þeirra eigin vilji og eigin biturleiki gagnvart barnsföðurnum verður ráðandi.  Í raun ætti sameiginlegt forræð að vera allsráðandi og þriðji aðili að koma inn ef illa gengur.

Júdas, 12.1.2008 kl. 19:13

5 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Kæri Júdas, þakka þér fyrir hvað þú minntist föður míns fallega í blogginu mínu og fyrir að senda mér ljóðið hans til þín.

Ég veit svo sannarlega að föðurástin getur verið alveg jafn mikil og dýrmæt og móðurástin, því ég var alla tíð mikil pabbastelpa. Ég var komin hátt á fullorðinsár þegar ég gerði mér grein fyrir að hann pabbi minn væri ekki alvitur!

Greta Björg Úlfsdóttir, 12.1.2008 kl. 22:33

6 identicon

Signý: Já það er alveg rétt hjá þér og alveg óþarfi að nefna þá staðreynd að til séu óhæfir feður - alveg eins og óhæfar mæður. Við höfum öll heyrt svo margar sögur af óhæfum feðrum en hitt er meira tabú.. eins og það megi ekki nefna að óhæfar mæður eru líka til. Pistill Júdasar fjallaði nú einu sinni um aðra hlið á málunum .. og mjög þarft að koma þessari umræðu á.

Fyrst og fremst snýst þetta að sjálfsögðu um rétt barna til að umgangast báða foreldra sína.

Óla (IP-tala skráð) 12.1.2008 kl. 22:55

7 Smámynd: Júdas

Gaman að fá þig hingað inn Greta og vertu velkomin.  Sem einstæðum föður finnst mér svo fallegt að heyra talað svona fallega um feður og að lesa upplifun Signýjar á föður sínum finnst mér yndislegt og hversu mikið hún stendur með honum. Ef til vill er það vegna þess að oftar hallar á feðurna þótt það geri það ekki í mínu tilfelli.  Maður gerir sér fulla grein fyrir því að maður kemur aldrei í staðin fyrir móður og móðurást verður ekki uppfyllt með öðru en móðurást.  Föðurástina ætti hinsvegar ekki að vanmeta því hún er sterk og mikil og tilbúin í allar þær fórnir sem til þarf og rúmlega það. 

Júdas, 12.1.2008 kl. 23:04

8 Smámynd: Júdas

Þetta eru mjög góðir punktar sem þið eruð að koma með og vildi ég óska að við fengjum fleiri komment á þetta efni.

Júdas, 12.1.2008 kl. 23:06

9 Smámynd: Jónína Dúadóttir

É gerði mitt besta til að vera bæði faðir og móðir fyrir börnin mín, eftir skilnaðinn við pabba þeirra, en það er aldrei nóg fyrir þau. Ég var í þeirri aðstöðu að þurfa að ganga á eftir pabbanum og margbiðja hann að umgangast börnin okkar, en hann virtist ekki hafa.... eitthvað.... sem þurfti til þess. Þau hættu smám saman að leita til hans, þau fundu áhugaleysið og sárnaði það rosalega. Í dag 14 árum eftir skilnaðinn, eru þau auðvitað orðin fullorðin og aðeins farin að heimsækja hann, en enn eru það þau sem þurfa að hafa frumkvæðið.... Kannski hefði ég átt að hafa vit á að banna honum bara að hitta þau, þá hefði honum fundist sér misboðið og reynt að sækjast eftir því......

Jónína Dúadóttir, 13.1.2008 kl. 07:57

10 Smámynd: Júdas

Varla hefði það borgað sig en ég held að á ákveðnum tímapunkti  í lífinu reyni báðir aðilar þótt að sé ekki á sama tíma að hafa samband. Auðvitað er ekkert algilt í þessu en við vitum oftast ekki hvað veldur vanrækslunni og vitum ekki hvað tilfinningar eru í brjósti þess sem vanrækir.  Ef til vill er grátið í laumi vegna þess eða sjálfsásakanir og hræðsla svo það ætti aldrei að reikna með því versta og aldrei skyldi sá sem fer með forræðið halda að það sé í hans verkahring að refsa viðkomandi fyrir eitt eða neitt.   Auðvitað er það í þessu eins og öllu að jaðartilfellin eru mörg og misjöfn en það eru dómgreindabrestirnir því miður líka.  Kærleikur er svo stórt orð og á klárlega við þarna.

Júdas, 13.1.2008 kl. 08:17

11 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Það er rétt hjá þér að refsingar eiga alls ekki við í þessum málum, þær bitna langoftast á þeim sem síst skyldi, þ.e. börnunum... Ég hef aldrei skilið af hverju minn x umgekkst ekki börnin okkar, kannski til að ná sér eitthvað niðri á mér og það náttulega svínvirkaði, það tók í hjartað að sjá börnunum líða illa..... En hann virtist ekki skilja að hann sjálfur missti af svo agalega miklu í lífinu !

Jónína Dúadóttir, 13.1.2008 kl. 18:21

12 Smámynd: Júdas

Sammála því.

Júdas, 13.1.2008 kl. 20:55

13 identicon

Ég er ánægð með þessa umræðu og þessi skrif þín júdas eru mjög góð.  þú dæmir hinsvegar barnsmæður dálítið hart er það ekki?  Við erum ekki allar svona grimmar er það nokkuð?

Beta (IP-tala skráð) 13.1.2008 kl. 21:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 48678

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband