Af hverju hittir hún mig ekki á förnum vegi?

     Ég sit í sófanum og skil ekki af hverju einmanaleikinn þarf að hitta mig í kvöld.  Áttu ekki fleiri vini eða stefnumót við einhverja aðra en mig?   Ég ætlaði bara að njóta kvöldsins einn í rólegheitunum.  Stökkva í ljós eftir vinnu, elda mér lambafille, opna einn bjór og hafa það náðugt.  Læra svo kannski aðeins.  Ekkert af þessu gekk eftir nema þetta með bjórinn.  Ég fór ekki í ljós, eldaði ekki fille og er ekki enn farinn að læra.  Júdas er snillingur í einmitt þessu.  Að ætla eitthvað en gera það ekki.  Lofa sér einhverju en svíkja sig.  Hann svíkst ekki um í vinnunni og ekki í náminu, svíkur ekki kútana sína eða vini.  Hann svíkur sjálfan sig.  Það er bara vani. 

     Þetta er fallegt kvöld og tilvalið til að deila því með einhverjum.  Rok og rigning úti en hlýtt og notalegt inni.  Tvö ættu að deila þessu kvöldi en það verður ekki þannig.  Möguleikinn á því að það verði aldrei þannig skelfir mig.  Líkurnar á því að það verði aldrei þannig aukast dag frá degi!    Af hverju hittir hún mig ekki á förnum vegi?  Lítur við  og mætir augum mínum.   Sér að það verður ekki aftur snúið og vill ekki missa af þessu tækifæri lífs síns.  Segir „sæll“  „hef ég ekki séð þig áður?“   og eitt leiðir af öðru. 

     Ég man kraftinn sem yfir mann kemur, orkuna sem leysist úr læðingi.  Svefn verðu aukaatriði, og andvökur hafa allt í einu tilgang.  Spenna og eftirvænting verður daglegt brauð og biðin eftir skilaboðum og hringingum verður óbærileg.  Aðdáun í hverju augnatilliti og þakklæti fyrir hverja mínútu.  Allt snýst við og hvert andartak hefur tilgang.   Ég man þessar stundir og ætti að minnast þeirra áfram því ef til vill verður minningin það eina sem  hægt verður að orna sér við.  Það eina sem haft verður með sér í sófann á kvöldi sem þessu.  Það eina sem fær mig til að brosa út í annað og rifja upp ilminn.......  Því skildi kona annars snúa sér við, gamli maður og hvað skildi hún sjá ef hún snéri sér við þreytti maður?  Hún myndi snúa sér hraðar til baka fullviss um það að hún hafi alls ekki átt að snúa sér við.  Hún sá fortíð manns sem fylgir honum en ekki nútíð og ekki framtíð, aðeins fortíð.   

     Þú fékkst það sem þú þráðir en vildir það ekki.  Þú fékkst það sem þú gast fengið hafnaði því.  Þú fékkst það sem þú sóttir en skilaðir því.  Þú sóttir það sem þér bauðst en kastaðir því frá þér.  Engin furða að þú sért þreyttur gamli maður og engin furða þótt þú hafir ekki trú á þess konar lífi.

     Kútarnir eiga sér framtíð og gamall maður mun fylgja þeim eftir.  Verða þeim innan handar um ókomin ár.  Gleðjast yfir hverju skrefi þeirra og hverjum áfanga.    Ef til vill verða skuggar framtíðar svalar en ég átti von á og ef til vill verða þeir ekki það skjól sem ég vænti.  Þá kemur ylur minninganna frá eldi fortíðarinnar til bjargar.  Hann laðar fram bros og framkallar værð.  En aðeins ef Guð lofar.

    Ég hlakka til morgundagsins og vona að hann komi fljótt......


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

..mm..gladdi mig að sjá blogg.. ég er greinilega ekki ein í einmanaleikanum..iss..ég myndi örugglega brosa til þín á förnum vegi...en verð að láta næga að brosa til þin hér....er að hugsa um að einbeita mér að nútíðinni þannig að hún verði fortíð sem yljar...góðar stundir

múmínstelpan

múmínstelpan (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 23:34

2 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Þú þarft bara góðan nætursvefn og lýsi....ekkert ljúft eða rómó hérna....bara praktík..... góða nótt

Jónína Dúadóttir, 9.2.2008 kl. 00:05

3 identicon

Mikið er ég fegin með síðustu setninguna!!  Því þér er viðbjargandi     Ég hef farið í gegn um þetta allt ...  og ég get bara "lofað" þér að það kemur að þér -fyrr eða síðar - ef það verður síðar - mundu þá bara að halda alltaf í drauminn. Hann mun rætast

Edda (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 01:50

4 Smámynd: Sigga

:)

Falleg færsla.

Sigga, 9.2.2008 kl. 09:49

5 identicon

Þú ferð einstaklega fallega með orðin og alltaf jafn notalegt að kíkja við hjá þér. Sendi þér ljúft bros

Salka (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 17:05

6 Smámynd: Júdas

Takk fyrir falleg comment yndislegu konur.  Stundum langar mann til að eyða því sem maður skrifar en lætur það samt flakka vegna einlægni sem á jú alltaf rétt á sér.  Á sama hátt og maður heyrir rödd sína öðruvísi en aðrir hefur maður oft aðra skoðun á því sem maður skrifar og því koma svona athugasemdir á óvart.   Þessi dagur var þó ljúfur en annasamur.

Júdas, 9.2.2008 kl. 19:34

7 identicon

Já einlægni á alltaf rétt á sér.

Gott að heyra að dagurinn var ljúfur

Óla Maja (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 19:46

8 Smámynd: Fiðrildi

Já Júdas . . . þú svíkur sjálfan þig og örugglega engan annan.  Hættu því strákur.  Þú ert meira en meðal myndarlegur, góður og skemmtilegur.  Þú hittir hana . . . en ekki fyrr en þú hefur sæst við sjálfan þig :)

Þú ert yndislegur . . gefðu þér spark í rassinn og trúðu mér.  Efnafræðin er flókin og þó svo einföld ef hún bara stemmir.  Það er það sem þú ert að bíða eftir og ef þú ert sáttur við allt þín megin þá laðast sú rétta að þér.

Áttu yndislegt kvöld

Fiðrildi, 9.2.2008 kl. 22:29

9 identicon

         Kærar kveðjur, E.

Edda (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 23:09

10 identicon

Alveg sammála Örnu hér að ofan (hef reyndar ekki hitt þig svo ég get ekki fullyrt um myndarleikann  ) En þegar þú ert orðinn rétt "stilltur" þá kemur þetta.. sem hljómar meira eins og bifvélavirkjun heldur en efnafræði  

Óla Maja (IP-tala skráð) 10.2.2008 kl. 01:51

11 identicon

 uuu ertu búinn að "stilla"?...finn einhvern aðdráttarkraft....

kv. múmínstelpan

múmínstelpan (IP-tala skráð) 10.2.2008 kl. 02:10

12 Smámynd: Júdas

, hehe, stilla já............ég er líklega bara vanstilltur frá fæðingu.  Þrá eftir ást og öllum litlu fallegu hlutunum er þarna en vellíðan einn með sjálfum mér skelfir mig.   Ég umgengst mikið fólk í starfi mínu og er yfirleitt þakklátur fyrir þögnina og rólegheitin heima fyrir.  Getur verið að mig vanti einhvern til að þegja með?  Ég er ekkert sérstaklega skemmtilegur.

Júdas, 10.2.2008 kl. 07:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 48679

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband