Kútamoppa

     Þá er ég loksins kominn fram, kaffið á leiðinni og óþægasti kútur norðan suðurpóls kominn inn í sófa.  Ég er búinn að slást við hann frá kl 6 í morgun en þá vildi hann fara fram en pabbinn taldi það  full snemmt bæði fyrir lítinn kút og gamlan þreyttan mann.  Bæði í morgun og gærmorgun var þetta svona, kúturinn barðist um, kastaði sér í svefnherbergisgólfið og hamaðist á hurðinni og var ekki á því að gefa sig.  Fram skyldi hann fara og taka þennan andstyggilega gamla mann með sér úr því að hann væri dæmdur til að dröslast með þessa skemmtanabremsu með sér hvert sem hann færi næstu 15 árin eða svo.  Þvílík byrði að bera.  Ætli það verði ekki það fyrsta sem hann googlar þegar hann lærir á tölvu hvernig losna megi við svona leiðindapúka.   Gæti best trúað því að hann ætti eftir að auglýsa mig á Ebay fyrr en mig grunar.

     Hann er líka búinn að láta til sín taka í verslunum borgarinnar.  Þessi annars gríðarlega dagfarsprúði engill er að breytast í lítinn frekjudall og pabbinn fer geys um veraldarvefinn í leit að lausnum.  Það er sama í hvaða verslun við fórum í gær, kúturinn endaði alltaf í gólfinu eins og moppa sannfærður um að hann ætti versta pabba í heimi og að klárlega væri verið að brjóta á honum samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðuþjóðanna og jafnvel Stjórnarskránni.  Hann náði að velta heilli rennibraut og tveimur reiðhjólum í Toys‘R us, og kastaði sér í gólfið þar þegar hann mátti ekki fara á rafmagnsbíl ofan af sýningarpalli og út á búðargólfið, kastaði sér í gólfið þegar hann mátti ekki rífa upp þriðja kexpakkann í Bónusverslun og lét öllum illum látum í hjólabúð af því hann mátti klifra upp á hjól sem hann langaðu upp á en var bara fyrir 25 ára og eldri.  Hvað er að gerast.  Stökkbreyting gena var það eina sem mér datt í hug í hvert skipti sem ég þrammaði með hann út í bíl og barðist við að óla hann niður í barnastólinn en svo þegar ekið var af stað varð hann aftur eins og engill, vildi syngja og klappa og fór að líkjast pabba sínum aftur.  En hann sefur eins og engill.............svo hljóður og ljúfur.  Hann var ekki fyrr kominn fram í morgun í fangi pabba síns og inn í stofu en hann faðmaði gamla manninn og vildi kúra í sófanum með honum.  Er hann bara svona klár þessi drengur og séður?   Sannar þetta ekki bara að hann á líka mömmu  J.............

 

     Jæja, hinn kúturinn sefur og ég búinn að fara inn til hans og horfa á hann.  Hann er að fara burtu frá mér í nærri tvær vikur allt skipulagt af honum sjálfum, var búinn að fara þangað og græja alla hluti í kringum sig áður en  hann settist niður með pabbanum og sagði honum leyndarmálið.  „Af hverju ertu að segja mér þetta núna?“ , „af hverju hélstu ekki áfram?“ , „pabbi, ég vil ekki að verða aumingi“, „ég vil ekki bregðast þér og litla kútnum“,  „ég vil halda áfram í námi og standa mig vel því ég ætla að verða eitthvað.“  Samviskan hefur talað!  Þegar ég var ungur fannst mér ég hafa sterkustu samvisku í heimi, ekki það að ég hlustaði alltaf á hana en hún var stöðugt að „ergja mig“, minna mig á og leggja mér línurnar.  Ég er þakklátur Guði fyrir það í dag og sé að unglingskúturinn minn fékk svipaða samvisku í vöggugjöf.  Alltaf að velta fyrir sér hlutunum og reyna að gera þetta og hitt til að öðlast innri frið.  „Mér líður ekki vel nema ég.......“  segir hann oft og reynir alltaf að leiðrétta alla þá hluti og athafnir sem íþyngja honum.  Hringir í mig og vill segja mér frá því sem íþyngir honum og hvað hann ætli að gera til að laga það.  Ég held að þetta sé kostur og eigi eftir að reynast honum gott veganesti út í lífið.

     Í gær fór hann að hitta mömmu sína og bróður sem stödd voru í borginni.  Hann sagði mér að hann langaði alls ekki en ætlaði samt að fara fyrir mömmu sína.  Þegar hún gifti sig í fyrra ákvað hann að mæta óboðinn því hann heyrði af því að enginn bræðra hans ætlaði að láta sjá sig.  Hann sagði mér að það væri virðingarleysi að mæta ekki og að móður hans myndi kannski sárna það.  Hann  mætti því í Þorpið í hvítum jakkafötum og ég neita því ekki að ég var mjög stoltur af honum.  Hann er góður unglingskútur á hraðri leið í það að verða fullorðinskútur með öllum þeim reglum og skyldum sem því fylgir.  Uppeldinu er næstum lokið,  innrætingin á síðustu metrunum.  Hver útkoman verður er óskrifuð saga þar sem samviskan og uppeldið spila stórt hlutverk.

 

     Úti  er farið að snjóa og greinilegt að reynt er að halda aftur af vorinu sem þó er á næsta leiti.  Það breytir þó ekki þeim vorhug sem svífur yfir vötnum og þeim ilmi sem berst mér að vitum.  Fullur af þakklæti og von fer ég inn í þennan dag í leit að skafti á litlu „kútamoppuna“ mína.

 

Njótið ilmsins.

 

 

Frá efstu lindum

ljóssins og hingað

er langur vegur

og langt er héðan til ósa.

 

Í breiðum streng

streymir það nú fram hjá

borginni, og ég krýp

á bakka þess og dýfi

þakklátur höndum

í hlýjan straum

lauga vanga mína

og augu.

 

lauga sál mína lífi.

 

Hannes Pét.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

... þetta var góð byrjun á deginum mínum . .

.fislétt múmínknús...

múmínstelpan (IP-tala skráð) 13.4.2008 kl. 10:14

2 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Góðan daginn væni minn Ég sé að þú ert í eðlilegri foreldrakrísu með litla "skrímslið" Vertu alveg rólegur hann er bara að prófa pabba gamla og gá hvað hann getur komist langt. Um að gera að þreyja Þorrann og Góuna bara líka og láta ekki undan, af því að ef þú gerir það þá ertu í verulega vondum málumMikið líst mér vel á unglinginn þinn, hann ætlar að verða góður og vandaður maður eins og pabbi hans Og það er bara eitt moppuskaft og það ert þú, þú þarna skemmtanabremsan þín

Jónína Dúadóttir, 13.4.2008 kl. 10:54

3 Smámynd: Rebbý

Yndislegt að lesa hvað unglingskúturinn virðist heilsteyptur þó einhverjir hnökrar komi af og til í ljós, en get ekki annað en hlegið að litla kútnum og köstunum hans ... þakka fyrir að hafa ekki gengið í gegnum svona sjálf (svo ég muni) en rosalega brosi ég þegar ég sé þetta gerast í verslunum landsins.
Einstakt ljóð líka,  takk fyrir morgunlesninguna

Rebbý, 13.4.2008 kl. 10:55

4 identicon

Júdas minn. Kútamoppan þín er að prófa sig áfram um hvar mörkin eru og ég er hrædd um að eina skaftið sem þú finnur og mun passa - er kallað agi - ekki heragi, heldur alveg óumdeilanleg mörk sem hann þráir að finna.

Gangi þér vel í leitinni    Vorkveðjur, E.

Edda (IP-tala skráð) 13.4.2008 kl. 10:59

5 Smámynd: Guðný Bjarna

skemmtileg lesning um viðfangsefni lífsins... gangi þér vel

Guðný Bjarna, 13.4.2008 kl. 12:31

6 Smámynd: Linda Lea Bogadóttir

Hehe ég get nú ekki annað en hlegið af þessu...
Yndisleg færsla hjá þér þó maður skynji smá þreytu og pirring þá sé ég samt fyrir mér að bros hafi laumast fram á varir þínar yfir þessu uppátæki sonarins litla.
Öll þurfum við að kanna hvar mörkin liggja og ekki seinna vænna en byrja við 2ja ára aldurinn.
Gangi þér og ykkur vel - þú er greinilega að gera rétta hluti og á réttri braut þó það séu 16 ár eftir. 

Linda Lea Bogadóttir, 13.4.2008 kl. 13:39

7 identicon

Hegðunarmynstur yngri sonar þíns hefur verið kallað ,,terrible two" í minni heimasveit    Það jákvæða er að það gengur tiltölulega fljótt yfir og skilur eingöngu eftir skemmtilegar minningar.  Tek undir lokaorð þín og nýt svo sannarlega ilmsins.  Gangi ykkur feðgum vel í öllum ykkar baráttum.

Salka (IP-tala skráð) 13.4.2008 kl. 17:46

8 Smámynd: Sporðdrekinn

Ég hef nú ekki lent í þessu moppu dæmi nema einu sinni að mig minnir. Við elsti unginn vorum í búð og ég var ekki að fara að kaupa það sem að hann langaði í. Þegar að hann henti sér á gólfið gerði ég bara hið sama. Já ok ég ekki með jafn miklum stæl og hann en ég endaði samt sitjandi á gólfinu, ég man ekki hvort að ég þóttist skæla líka. Unganum kross brá við þessi viðbrögð mín. Reyndar var þarna fullorðið fólk líka sem leit á mig eins og ég væri klikkuð, mér var slétt sama, ég ætlaði ekki að enda eins og hinar mömmurnar og pabbarnir, pirruð með vælandi barn í haldi.

Allavega þetta virkaði fínt fyrir mig, unginn sá að ef að hann vildi fá mig upp af gólfinu yrði hann að standa upp fyrst, sem hann og gerði. Ég þarf valla að taka það fram að hann bað ekki um neitt annað í þessari verslunar ferð

Þú hlýtur að vera einstaklega stoltur af unglingnum þínum, og mátt líka vera stoltur af þér því að það sem að hann kann lærir hann frá þér

Sporðdrekinn, 13.4.2008 kl. 17:58

9 Smámynd: Júdas

Takk fyrir commentin kæru vinir.  Ég örvænti ekkert þótt litli kútur reyni svo takta við gamla manninn og spurning hvort ég fari að ráðum þínum næst Sporðdreki og geri slíkt hið sama.

Júdas, 13.4.2008 kl. 22:36

10 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Ég mundi hiklaust prófa það Ég þóttist stundum ekkert vita hver átti argandi frekjudýrin í búðinni... mín börn samt, svo þegar þau urðu eldri þá fór ég að syngja hástöfum í búðum þegar þau voru að frekjast. Þau hættu að nenna að fara með mér inn í búðir Ég var aldrei kosin Fyrirmyndarmóðir ársins sko....

Jónína Dúadóttir, 13.4.2008 kl. 23:12

11 Smámynd: Ein-stök

Það er alveg yndislegt að lesa um samskipti ykkar feðganna  Samband þitt við unglingskútinn er greinilega mjög sterkt og náið og þú mátt svo sannarlega vera stoltur af stráknum - og það er greinilega raunin. Ég kannast alveg við svona "sjálfstæðisbaráttu" í verslunum. Mitt eldra barn átti þetta til um tíma og þó ég hafi ekki farið "sporðdrekaleiðina" (sem er þó ansi góð) þá held ég að mér hafi tekist að tækla þetta ágætlega. Ég gaf aldrei eftir og á endanum var þessi hegðun úr sögunni. Ég þurfti samt tvisvar að hætta við að versla og labba út með krógann undir hendinni til að sýna að mér væri full alvara með að samþykkja ekki hegðunina

Ein-stök, 13.4.2008 kl. 23:16

12 identicon

Blessaður ! Já ég stóðs ekki mátið að kíkja hér inn og lesa smá sem endaði í helling. Enda er frásögn þín svo falleg að maður verður heillaður. Þú ert ríkur maður og vinir þínir er ríkir að þekkja mann eins og þig. Af skrifum þínum að dæma ertu mjög heillandi persóna og "kútarninr" þínir eru ríkir að eiga þig að. Langaði bara að kvitta fyrir innlitið og þakka fyrir þessa frábæru lesningu. Kveðja Ókunnuga konana sem er heilluð eftir lesturinn.

Ókunnuga konan (IP-tala skráð) 13.4.2008 kl. 23:47

13 Smámynd: Grace

upplifun af samskiptum föður og sona á þessarri síðu er heillandi ...og val hans á ljóðum finnst mér smekklegt og lýsandi fyrir vel hugsandi mann gangi þér vel Júdas......

p.s. ég held að nafn þitt sé ekki lýsandi fyrir manngerðina

Grace, 14.4.2008 kl. 01:27

14 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Góðan daginn kútapabbi

Jónína Dúadóttir, 14.4.2008 kl. 08:29

15 Smámynd: Júdas

Góðan daginn Jónína mín.

Júdas á glettilega mikið við enda hef ég þurft að útskýra það nokkrum sinnum.  Sennilega var hann ekki verri lærissveinn en hinir en lét freistast og var kannski bara mannlegri en hinir...............Ætli það sé ekki svolítill Júdas í okkur öllum?

Júdas, 14.4.2008 kl. 19:51

16 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Já og útskýrðu svo fyrir mér kæri minn, hvað er að því að vera mannlegur ?

Jónína Dúadóttir, 14.4.2008 kl. 20:00

17 Smámynd: Ein-stök

Ég held að við séum öll svo föst í því að Júdas sé = svikari allra svikara og að þess vegna detti flestum það ósjálfrátt í hug. Ég skil miklu betur þetta val hjá þér á notendanafni þegar þú útskýrir það svona (eins og þú útskýrðir þetta líka einu sinni fyrir mér). Spurning hvort þú ættir að setja þessa útskýringu þarna uppi hjá höfundarlýsingu svo við hættum að bögga þig með þessu

Ein-stök, 14.4.2008 kl. 20:05

18 Smámynd: Júdas

Þið böggið mig ekkert elskurnar, langur vegur frá því.

 Jónína, það er ekkert að því að vera örlítið mannlegur..........en bara ekki svona mikið eins og ég...........

Ókunna kona..........velkomin!

Júdas, 14.4.2008 kl. 23:21

19 identicon

..nett múmínspor....tja svo að maður týnist ekki í þessum kvennafansi..

múmínstelpan (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 23:48

20 Smámynd: Júdas

Alltaf velkomin Múmínstelpa 

Júdas, 14.4.2008 kl. 23:50

21 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Jæja væni minn er hægt að mæla það í prósentum hversu mannlegur maður má vera ? Ég sé það þannig að þess meira mannlegur þess betra

Megi dagurinn vera þér góður

Jónína Dúadóttir, 15.4.2008 kl. 07:07

22 identicon

Fiðrildi sendi ég þér kæri Júdas beint í hjartað! Bara svona af því bara :)

Nilla (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 10:11

23 Smámynd: Júdas

Erfið spurning Jónína. Maður fer í vigtina, er fitumældur, mittismældur, sjónmældur, lungnaþol mælt..........hitamældur, hæðarmældur, gráu hárin talin, mældur í árum.............mældur út í sturtuklefunum en ég veit ekki hvernig hitt er mælt. Getur verið að það séu loforð/efndum *kærleikur ?? Júdas kemur ekki vel út úr því

Takk Nilla, minnir mig á fallegt ljóð:

Þú gekkst út á engið græna

þá götu, sem margur fer

á leið þinni fiðrildi fannstu

það flaug upp í hendur á þér

Þú luktir um fiðrildið lófum

og líf þess varð bundið þér.

En þú ert svo þungur í vöfum

og það er svo létt í sér,

að þú mátt vara þig vinur

er vor yfir engið fer,

að fiðrildið fljúgi ekki

í frelsið úr höndum þér.

Júdas, 15.4.2008 kl. 18:42

24 identicon

Ljúft - takk    K.kv. E.

Edda (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 20:57

25 identicon

Snilldarljóð Júdas! Og getur átt við svo margt í lífinu. Það er hægt að gefa fiðrildum svo margar merkingar :) Það sem er svo lítið og viðkvæmt en jafnframt litrík og töfrandi :)

Nilla (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 23:04

26 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Júdas minn, þú ert fullur af kærleika, samviskusemi, réttsýni og ég gæti haldið áfram að telja og þú stendur með þér og þínum... er hægt að fara fram á meira af venjulegri manneskju ? Enga frekju sko...

Jónína Dúadóttir, 16.4.2008 kl. 06:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 48796

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband