Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Hann var bara siðblindur

     Ég átti kunningja fyrir mörgum árum sem mér þótti vænt um.  Hans akkilesar hæll var sá að hann var siðblindur og reyndar svo slæmur að við félagarnir töluðum um að hann væri siðdauður.  Það var samt ekki þannig að hann væri alvondur því hann var vinur vina sinna, barngóður og elskaði konur svo ég tali nú ekki um þær sem vildu sænga hjá honum.  Hann var ekki einn þeirra sem for illa með þ ær og ekki einn þeirra sem barði þær og ekki einn þeirra sem æpti á þær, alls ekki.  En hann var einn af þeim  sem eyddi peningunum þeirra.  Hann bara vissi ekki hvað var rétt og hvað var rangt.  Hann var til í að lána þér alls kyns hluti sem hann átti ekkert í en voru í hans höndum tímabundið og vegna blindunnar sá hann ekkert athugavert við það.  Sumir félagar hans notuðu hann,  gerðu óspart grín að honum, níddu hann jafnvel niður í fjölmenni og hann lét sig alltaf hafa það.  Einn vinur hans stundaði það til dæmis og nánast undantekningarlaust í sturtuklefunum eftir æfingar að pissa utan í hann um leið og sá siðblindi var kominn með sápu í hárið og pírði aftur augun.   Þetta gerði hann fyrir framan alla og allir hlógu að þessu.  Okkar maður vissi ekkert hvað var í gangi.  Við töluðum frekar frjálslega um hann, ég meina hann var siðblindur og við sögðum það bara okkar á milli.  Með árunum ágerðist þetta, hann komst í kast við lögin vegna ölvunaraksturs og þjófnaðar á peningum sem hann átti að hafa milligöngu um og þar fram eftir götunum þannig að hann var auðvitað bara orðinn bófi......

     Mér þótti samt alltaf vænt um hann en passaði mig á því að lána honum aldrei peninga og notaði þá aðferð að þegar hann barmaði sér vegna peningaleysis og hvað hann væri svangur þá barmaði ég mér með honum.  Tilfellið var samt að oft var hann svangur og þegar ég yfirgaf hann, en ég heimsótti hann mikið í vinnuna fór ég rakleitt upp á pizzustað sem var ekki langt frá , borgaði og lét senda honum pizzu, nafnlaust auðvitað en hann nefndi þetta aldrei.  Líklega ekkert spáð í samhenginu að oft þegar ég var búinn að vera hjá honum fékk hann senda pizzu.  Seinna var hann settur í grjótið fyrir einhver brot og ég heimsótti hann þangað tvisvar sinnum.   Eldri strákurinn minn sem þá var fimm ára þekkt hann vel og fór oft með mér til hans í vinnuna.  Þegar við vorum allt í einu hættir að fara þangað vildi kúturinn vita af hverju og ég sagði honum auðvitað að hann væri í fangelsi því hann væri góður strákur en væri samt bófi því hann hefði gert ranga hluti.   Einhverju seinna rakst ég á vininn inni í verslun, greinileg sloppinn úr fangelsinu og með nýja konu upp á arminn.  Ég var með litla kútinn með mér eins og alltaf og meðan ég og vinurinn féllumst í faðma og spjölluðum var sá litli alltaf að reyna að segja eitthvað en komst ekki að.  Í einni þögninni glumdi allt í einu í kútum.  "Herru......ertu bófi....pabbi minn segir það." "Af hverju ertu það"..............púfff.  Mér til mikillar furðu varð ég ekkert vandræðalegur, náði að skella svolítið upp úr og sló á öxlina á honum.   Þessir kútar maður, þeir leggja bara saman tvo og tvo.........

     Ég flutti úr Þorpinu og heyrði svo í útvarpinu að vinurinn hefði verið dæmdur í margra ára fangelsi fyrir mjög alvarlegt brot þannig að siðblindan hafði greinilega leitt hann á ljótari brautir.  Um daginn frétti ég að hann væri kominn út en ég hef ekki séð hann í ca 12 ár.  Mér þótti vænt um hann og er að bræða það með mér hvort ég eigi að koma við hjá honum þar sem hann vinnur til að taka í höndina á honum nú eða hvort ég ætti bara að senda honum pizzu og sleppa því að hitta hann.


Þú gekkst út á engið græna

     Þetta er dagurinn, ég finna það. Spenna í loftinu og ég stoppaði óvenju lengi fyrir framan spegilinn áðan eins og til að sannfæra mig um eitthvað.  Svaf vel, æfði alla helgina og vann hana reyndar líka.  Er búinn að vera á léttu fæði líka svona til að kóróna þetta.  Loftið er læviblandið.  Ég er að bræða það með mér að fara á tvær æfingar í dag en veit ekki hvort vinnan bíður upp á það.  Litli kútur kom augnablik í heimsókn í gærkveldi en ég hef ekki séð hann alla helgina.  Gat það verið betra og  svo auðvitað rafrænu samskiptin.  Þau voru mér í hag.  Getur það verið?  Eða er þetta mér í óhag? Einhver heldur í þræðina þessa dagana.  Unglingurinn var að koma fram og það er alveg ljóst á þessu heimili hver fer snemma að sofa og hver seint en það er líka alveg ljóst hver er sá gamli og hver er sá ungi.  Kaffibolli er ef til vill lykillinn að þessum degi.

Þú gekkst út á engið græna 

þá götu sem margur fer.

Á leið þinni fiðrildi fannstu

það flaug upp í hendur þér.

K.Djúp.


Hver hlutur og líðan hefur sinn tíma

     Morgnarnir eru minn tími og þá líður mér best.  Ég sit á kaffihúsinu með espresso hlusta á blásturinn frá kaffivélinni og horfi yfir tómt kaffihúsið.  Rósir í blómavösum á borðunum eru við það að ná hátindi fegurðar sinnar en  óvíst hvort þær lifi til kvölds.  Það er dapurlegt að ég skuli vera sá eini sem sé þær, nýt þeirra og tek eftir þeim en það gæti breyst.  Þegar ég tek ákvörðun eins og í gærkveldi að sitja heima þrátt fyrir sáran söknuð og vanlíðan en taka ekki þátt í „gleði“ lífsins, jólahlaðborði félaganna, eða fjöri skemmtistaðanna eru það morgnarnir sem ég set á vogaskálarnar og þeir einfaldlega vega þyngra. Þá líður mér vel, þá er ég glaður og þá ráfa ég ekki um í huganum eins og dýr í búri.  Mér líður ekki svona þegar kúturinn er hjá mér,  þótt hann sofi og ég á verði.  Þá er tilgangur með öllu og sál mín róast.  Mér leið ekki heldur svona þegar hún var hjá mér, þá var líka tilgangur með öllu.  Sá eldri var heima hjá félögunum að spila og kom glaður heim þannig að ég þarf ekki að hafa áhyggjur af honum.  Hann er glaður og ég er glaður Núna.

     Ég gæti barið í borðið og hætt allri depurð,  ákveðið að stökkva út og njóta lífsins,  fundið konu og notið hennar, fundið „gleði“ og hlegið dátt.  En veit að það væri eins og að hætta að drekka á hnefanum einum og ég trúi því að ég hafi ekki þjáðst nóg.  Ég trúi því að ég sé að taka út mótvægið við gleði og hamingju undanfarinna ára því fyrir ekki svo ýkja löngu sagði ég við dapra konu sem var konan í lífi mínu, að ég þekkti varla depurð og vanlíðan nema af afspurn.  Ég fullyrti það að ef ég fyndi ekki til gleðitilfinningar minnst einu sinni til tvisvar á dag færi ég að hafa áhyggjur og yrði verulega hræddur.

     Ég er samt ekki hræddur, mér líður bara ekkert sérstaklega vél á sumum stundum og það gengur yfir og um það er ég sannfærður.  Ég ætla að taka út þetta tímabil því ég hef átt svo mörg ár í gleði og hamingju svo ef til vill læri ég góða lexíu, verð skilningsríkari og tillitsamari en ég var.  Betri maður og betri faðir,  minni svikari og virði umhverfið enn meir.  Elska hversdagsleikann ennþá meira og fæ fleiri og lengri sælutilfinningu en nokkru sinni.  Ég þakka góðum Guði fyrir hvert skref, bæði í gleði og sorg og rifja upp feril Jobs sem fór úr gleði í sorg, alsnægtum og auðlegð í skort og fátækt en til baka aftur í margfalda gleði og allsnægtir.  Ég hendi í loftið ljóði sem góður maður orti til mín og setti á vatnslitamynd sem hann gaf mér fyrir mörgum árum og læt staðra numið í bili.  Gangið vongóð inn í þennan dag og munið að hver hlutur og hver stund hefur sinn tíma.

Hvort heldur vindurinn leikur í laufi,

eða næðir um naktar greinar,

Syngi þér söngfugl hjartans,

sönginn um gleðina.


Ekki sá besti en ekki sá versti

      Ekki sá besti en ekki sá versti, þetta á bæði við um daginn í dag og sjálfan mig í dag og ef til vill alla daga.  Er það ekki meðalmennskan í hnotskurn?   Ég veit stundum ekki hvers ég sakna en eitthvað nagar mig að innan og dregur úr mér allan þrótt.  Þegar ég hugsa til drengjanna minna líður mér betur þá stundina en illa hina.  Þetta er klisja svo flettið fram hjá þessu frekar en að láta þetta ergja ykkur.  Þetta er skrifað fyrir sjálfan mig og er endurtekning á endurtekningu ofan.  Ég íhugaði að hætta að blogga af skömm því þetta er alltaf það sama en þetta eru samt bara hugsanir mínar og líðan.  Það er alveg klárt að annan helminginn vantar en það er ekki ljóst af hverju ég tapa þeim alltaf með staðföstum vilja.  Það er ráðgátan.


"samvisku þinnar,var svarið"

      Það var einmanalegt að leggjast einn til hvílu og hafa ekki kútinn til að hjúfra sig upp að og engan til að annast í nótt.  Þegar sá eldri kom heim úr vinnunni í gærkveldi dauð þreyttur hafði hann orð á því hvað allt væri hljótt, en þetta eru jú endurtekningar því okkur líður svona aðra hverja viku.  Framundan er ferð í Laugar og síðan vinnudagur en draumurinn að geta tyllt sér í tuttugu mínútur á kaffihúsi og sopið einn tvöfaldan espresso.  Það er ekki flókið að gleðja einfeldninginn og ómögulegt að segja nema að hámarkinu  eina sanna væri hreinlega náð með því einu að drekka tvöfaldan espresso í rigningu.  Það væri reynandi því annað er ekki upp á teningnum hjá honum þessar vikurnar og mánuðina.   Ætli verði fjallað um það í næstu bók hjá Þorgrími Þráins, hvernig gleðja á karlmann?  Ég er hinsvegar sallarólegur yfir þessu og ætla að bíða, bíða eftir einhverju, bíða eftir  leyfi frá samviskunni.

Framundan er góður dagur og fallegur þótt ég viti ekki veðurspá eða annað en það er ljóst að tómleikatilfinninguna ætla ég að hrista af mér á fyrstu metrunum svo mikið er víst.  Hlakka til. 

Áðan lagði

ókunn hönd

laufblað fölnað

í lófa minn.

 

Boð hvers, ég spurði,

berð þú mér?

Samvisku þinnar,

var svarið.


Sjáir þú myrkrið mæna

 

Sjáir þú myrkrið mæna

mann, sem greinir engan veg,

þreytulotinn, þöglan, einan.

Það er ég

 

Mann, sem hefur launveg leitað

ljóss, er öðrum skærra brann,

ævilangt en ekki fundið.

Ég er hann.

 

Eru frosin orð á tungu,

augu sljó og brosin treg.

Þú munt ekki þekkja manninn.

Þetta er ég.

K.Djúp.


Ég elska þig

     Er loksins kominn heim og sestur við eldhúsborðið eftir ágætan dag.  Ég er enn að gera það upp við mig hvort ég eigi að henda mér á æfingu eða ekki.  Kúturinn er kominn til mömmu sinnar og engu verið hent í eldhúsgólfið,  enginn sem segir mér að bíða og réttir upp fingurinn eða að koma og þvælir mér um allt húsið í duttlungaleit.  Ég er ekki frá því að ég sé bara óöruggur með mig og eirðarlaus þegar litla stjórnandann vantar á heimilið.  Unglingurinn var að koma heim úr sinni vinnu, en hann vinnur mikið með skólanum, og eftir að hafa farið í ísskápinn gekk hann að mér, tók utan um mig og sagðist elska mig. Það er ekkert óvenjulegt á þessum bæ og hugsaði mikið um það í dag hversu misjafnlega fólk tjáir sig við hvert annað og við börnin sín.  Sumstaðar er aldrei sagt „ég elska þig“ við börnin en ég hugsa að það sé frekar óvenjulegt að 16 ára gamall sonur sem veður í töffaraskap faðmi pabba sinn í einlægni og segi  „ég elska þig pabbi“ .  Ég veit það samt ekki.   Við höfum verið nánir alla tíð og talað hreint út um alla hluti, engin feimni í neinu.

       Í mínum föðurhúsum í þorpinu þröngsýna var þetta orð „elska“ aldrei notað svo ég muni.  Ég efaðist þó aldrei um það að ég væri elskaður en mamma notaði orðin „rosalega vænt um“ og „yndislegustu strákar í heimi“ og alúðin, kærleikurinn  og fórnfýsin fór aldrei framhjá okkur.  Pabbi hinsvegar sagði aldrei neitt, máttarstólpinn sem færði björg í bú, þögull, sterkur, harður, þreyttur.  Alltaf tilbúinn að hjálpa, reddaði öllu, lagaði allt sem bilaði, en sagði lítið og sýndi ekki tilfinningar nema þegar við gerðum eittvað af okkur þá varð hann þögulli og augnaráðið stingandi.  Það dugði og fljótlega var allt  fyrirgefið.  Það er ekki fyrr en í seinni tíð að hann varð meyrari og kemst ekki upp með annað en að taka fast utan um okkur og segja sömuleiðis þegar við segjum eitthvað fallegt við hann.  Í bræðrahópnum var ekki heldur sagt „elska þig“ og reyndar ekki „mér þykir vænt um þig“ heldur en við vorum nú líka bara strákar.  Maður efaðist þó ekki um það eitt augnablik að bræðrunum þætti vænt um mann því ef einhver annar en við sjálfir gerði eitthvað á hlut einhvers okkar var samhugurinn algjör og snúist til varnar eða stóri bróðir sendur af stað.

     Ég veit ekki hvort þetta orð er ofnotað í dag en líklega hefur það lítið verið notað hér áður nema á sína heitt elskuðu eða sinn heitt elskaða.  Auðvitað er það misjafnt hvernig fólk tjáir tilfinningar en það ætti aldrei að spara orðin og klárlega ekki við börnin okkar sem virkilega þurfa á því að halda að heyra ásamt því að finna.

    Ekki satt?


Í einfaldleika mínum

     Það er berst að ganga jákvæður og glaður inn í þennan dag því samkvæmt tölfræðinni ætti hann að verða miklu betri en sá í gær.  Eftir erfiðan gærdag og eldhúsþrif ákvað ég að setja kútinn snemma í rúmið í von um að draumalöndin væru ekki langt undan.  Í einfaldleika mínum trúði ég þessu en hann var með önnur plön og reyndi á pabba gamla til hins ýtrasta.  Nokkrum sinnum hélt hann að áformin um að svæfa þann gamla hefðu tekist og rólega var reynt að fikra sig aftar og aftar í rúmið en þá var gripið í hann og hann dregin aftur upp og undir sæng.  „Pabbi þinn er nú eldri en tveggja vetra liti púki „ en honum hefur nú reyndar oft tekist þetta en ekki í þetta skiptið.  Síðan upphófst langur tími þar sem koddinn var settur upp á pabbann, lagst endilangur ofan á karlinn og sængin dregin yfir.  Augnabliki síðar rúllaði hann af honum en þá var þetta bara endurtekið.  Þvílík þolinmæði.  Að lokum sofnaði kúturinn en ekki pabbinn.

     Framundan er löng vinnuhelgi en kúturinn litli fer til mömmu sinnar í dag og ég farinn að sakna hans nú þegar.  Mér gengur illa þessa dagana að koma tilfinningum mínum á blogg en ef til vill er það bara kostur.  Það er aldrei að vita nema ég nái af mér þessum hýra pissudúkkustimpli  sem hlýtur að vera komin á mig en ég lofa þó engu.  Sumt endurtekur sig bara.

     Ég er búinn að lofa sjálfum mér því í huganum að æfa grimmt þessa helgi þrátt fyrir vinnuna en  það verður víst að segjast að Júdas hefur svikið sjálfan sig í einfaldari loforðum en þessum svo við skulum bara sjá til með þetta.   Einnig ætlaði ég að rölta mér inn á bókasafn eftir áratuga fjarveru frá þess lags stofnun og ekki til að upplifa Susssið sem ég fékk ævinlega hér í denn heldur í leit að ljóðabókum.  Þetta má ég ekki svíkja Júdas.

Eigið góðan dag og munið að rigningin sefar.

Ps.  Samkv. orðabók hefur orðið sefar þessar merkingar en ég tengi bara fyrstu fjögur orðin við rigninguna svo misskiljið mig ekki. Blush

róa, friða, draga úr, hugga, fróa
sefa grát


og hlaust að koma til baka.

Nú skil ég stráin, sem fönnin felur
og fann þeirra vetrarkvíða.
Þeir vita það best, sem vin sinn þrá,
hve vorsins er langt að bíða.

Að haustnóttum sá ég þig sigla burtu,
og svo komi hinn langi vetur.
Þótt vald hans sé mikið, veit ég þó,
að vorið, það má sín betur.

Minningin talar máli hins liðna,
og margt hefur hrunið til grunna...
Þeir vita það best, hvað vetur er,
sem vorinu heitast unna.

En svo fór loksins að líða að vori
og leysa mjallir og klaka.
Ég fann, að þú varst að hugsa heim
og hlaust að koma til baka.

Þú hlýtur að vera á heimleið og koma
með heita og rjóða vanga,
því sólin guðar á gluggann minn,
og grasið er farið að anga.

Davið Stef.


Fann þetta á mér

     Eitthvað hef ég fundið á mér í morgun að dagurinn yrði þungur því hlutir tengdir vinnunni minni dundu á okkur í dag eins og súrt álegg á myglað brauð því ekki fór ég nú beint ferskur að heiman.      Ég þurfti að bregða mér strax kl 9 úr bænum og bara rigningin ein og  sér náði að róa huga minn og  sá ég ástæðu til að stöðva bílinn, rölta út í rigninguna og draga andann nokkrum sinnum.  Hvað er þetta eiginlega við rigninguna sem hefur svona mikil áhrif á mig?   Þegar til baka var komið tóku vinnuvandamálin við og hefði ég betur rölt áfram úti í rigningunni og látið mig hverfa en það var víst ekki í boði.

Það er eins og  litli kúturinn hafi fundið þetta á sér þegar ég sótti hann í dag og einsett sér að tæma nú rafhlöðu föður síns algjörlega því það er nánast allt búið að fara í gólfið af matarborðinu sem hægt er að henda í gólfið og subba sem mest.  Kostirnir við svona dag eru samt þeir að líkurnar á tveimur svona dögum í röð eru ekki miklar og ef við gefum okkur að þeir séu fimm svona slæmir á ári erum við að tala um ca 1,096% líkur á því ef við tökum það ekki inn í reikninginn að árslokin nálgast.  Guði sé lof.  

Tölvupóstur eins og sendur af himnum færði mér vellíðan og ró.  Ég ætla að baða kútinn minn og koma honum niður.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 48663

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband