Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Bloggtregða

     Ég finn að ég er haldinn enn einni bloggtregðunni sem lýsir sér þannig að mig langar til að blogga og er í mikilli þörf fyrir að hleypa út tilfinningum en kem engu niður.  Veit ekki hvort ég er glaður eða leiður, hamingjusamur eða óhamingjusamur, góður faðir eða slæmur faðir, jákvæður eða neikvæður.  Ég er enn einn daginn til hliðar við tilveruna, brosi út að eyrum og hleyp til þegar kútarnir mínir kalla á mig eða bregður fyrir en er samt tómur í hjartanu og bara Er.   Ég gæti líklega skrifað þetta með eintómum tilvísunum í eldri blogg því þetta er alltaf eins.  Sjá blogg 19 nóv kl 07:47 8.línu en síðan er góð skýring á hinu í bloggi 26. nóv kl 22:45 lína 5-10.......segi svona.

     Við litli kútur fórum í Laugar um hádegi og þótt við værum sitt í hvoru lagi höfðum við báðir óvenju gott af þess og ætlaði ég varla að geta náð honum úr Sprotalandi það var svo gaman.  Örlítil slagsmál við að klæða hann en það er eitthvað nýtt því ég er búinn að slást við hann í þau skipti síðan í gær sem ég hef þurft að klæða hann í föt.  Ég með þolinmæðisstillinguna í botni og hann með hrekkja og ólátastillinguna í botni líka.  Á ég að trúa því að hann verði líkur pabba sínum?

   Eftir æfingu fórum við í kringluna og þar röltum við í hringi horfandi á hamingjusamt fólk leiðast hönd í hönd, takandi saman ákvarðanir um alla hluti, hlægjandi, brosandi, leiðandi kúta og prinsessur eða keyrandi með þau í kerrum.  Eintóm hamingja, gleði og hlátrasköll.   Litli virtist skemmta sér ágætlega á meðan pabbi gamli í einhverskonar leiðslu horfði á úr nálægri fjarlægð.  Hvernig verða jólin?


Greinilega orðinn þátttakandi

      Enn einn dagurinn liðinn og þótt ég sé búinn að vera áhorfandi enn einn daginn var ég greinilega orðinn þátttakandi þegar lítill ljóshærður kútur hljóp á móti mér og upp um hálsinn á mér á leikskólanum seinnipartinn.  Babbi, babbi, og svo rigndi yfir mig orðum og setningum sem ég skildi bara alls ekki.   Hann bætir svo við sig orðunum í viku hverri að það tekur mig nokkra daga að komast til botns í þeim nýju  sem urðu til vikuna á undan.  Við sungum í bílnum krummavísur og fórum í allskonar orðaleiki eins og hvar er þessi og hvar er hinn og hermdum svo eftir húsdýrunum frá A til Ö.  Þegar heim var komið og kúturinn búinn að faðma bróður sinn og slefa hann allan út eins og lítill hvolpur fleygðum við okkur á stofugólfið, kubbuðum og lékum okkur þótt þreyttir værum.  Sá litli var alltaf að kalla á bróður sinn sem var nýkominn úr skóla og vinnu og var í óða önn að gæja sig upp til að geta farið á flandur með félögunum.  Við litli vöktum lengi, en hann sofnaði nánast í fanginu á mér örþreyttur og ég bar hann inn í holu.  Það er þetta sem gefur lífinu gildi og fyllir upp í flest tómarúm og er ég þakklátur fyrir það að eiga svona yndislegan kút og annan stærri til.  Við blasir óskipulögð fríhelgi sem við ætlum að njóta á rólegum nótum en ég þreif allt húsið eftir vinnu á miðvikudag svo það er ekkert svoleiðis sem truflar okkur.  Líklega verð ég þó að brjóta saman þvott um helgina eða auglýsa eftir einhverjum í það J.   Ég keypti mér ljóðabók í morgun og ætla að glugga í hana í von um að sofna á ljóðrænum nótum og ekki ósennilegt að þeim eigi eftir að rigna yfir bloggsíðuna ljóðunum um helgina.  Góða nótt kæru vinir.


Fiðrildið

      Ég heyrði það í gegnum svefninn að hann rigndi mikið því það dundi á svefnherbergisglugganum hjá mér.  Enn einn dagurinn í bið eftir einhverju sem ég veit ekki hvað er.  Minnir mig á myndbandaleigur þar sem maður stendur fyrir framan heilu fermetrana og afgreiðir í huganum hverja myndina á fætur annarri án þess svo mikið að handleika þær og lesa aftan á þær, hvað þá horfa á þær.  Þannig hafa vafalaust farið fram hjá manni heilu meistaraverkin þótt ég efist nú um það en einnig margar sem ekkert hafðu skilið eftir  og þaðan af síður verið þess virði að horfa á þær aftur.  Lífshlaup mitt er vafalaust þarna í flórunni og yrði seint talið til meistaraverka þótt stöku persónur hafi slysast til að horfa á hana aftur og aftur en fengið nóg.  

Ég sæki litla kútinn í dag og er í fríi um helgina svo lífið verður í lit næstu sjö daga eða svo.  um daginn setti ég inn eitt erindi af ljóði sem mér fannst umhugsunarvert en það sat í mér þegar ég vaknaði í morgun.

 

Þú gekkst út á engið græna

þá götu, sem margur fer.

Á leið þinni fiðrildi fannstu,

það flaug upp í hendur þér.

 

Þú luktir um fiðrildið lófum

og líf þess varð bundið þér.

En þú ert svo þungur í vöfum,

og það er svo létt í sér,

 

að þú mátt vara þig, vinur,

er vor yfir engið fer,

að fiðrildið fljúgi ekki

í frelsið úr höndum þér.

 

Júdas hefði þó tilhneigingu til að sleppa því og fanga ekki fleiri í bili.


Þaðan sem fuglar gleðinnar

       Ég er sestur við eldhúsborðið, einn og ljóðabók á borðinu.  Kaffiilmurinn fyllir eldhúsið og ör lítil kanillykt fylgir með því ég stóðst ekki mátið og setti örlítinn kanil út í.  Unglingurinn fór út áðan með vinum sínum og það síðasta sem ég heyrði áður en útidyrahurðinni var skellt voru hlátrasköll svo þar ríkir gleði og hamingja.  Ég renni augunum eftir veggjum, myndum og hlutum í íbúðinni og læt hugann reika.  Fer yfir orð liðinna daga og jafnvel skrif síðustu daga og velti því fyrir mér hvort sumt hefði betur verið ósagt og annað ekki ritað en þó ríkir friður í huga mér.  Ef til vill eru orðin beittari hverju tvíeggja sverði, nú eða skrifin og tími einhvers ekki kominn.  Tími fyrir þetta og tími fyrir hitt, lýtur þetta engum reglum nema reglum tímans og hverjar eru þær?  Við reiknum alltaf með því að við höfum nóg af honum en höfum þó ekki hugmynd um það.  Að ýta burtu rökhyggju er speki því hverju hefur hún skilað okkur á leið okkar Hingað.  Af hverju að bíða hennar eða leita ráða hjá henni sem hingað til hefur ekkert hjálpað?  Eltum ekki vindinn því hann vísar ekki leiðina.  „Betri er hnefafylli af ró en báðar hendur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi“.   Ég finn fyrir friði og ró, treysti því að ég hafi gert rétt fyrir sál mína.  Samviska mín kvartar ekki svo það hlýtur að vera.    Sannur hversdagsleiki.  Kaffið er gott en betra væri að deila því,  en það er samt gott.

 

 

Brjóst okkar musteri

þaðan sem fuglar gleðinnar

flugu út í vorið,

við höfum skilið eftir okkur

spor við ána þar sem dagarnir

stikla á steinum

 


Ég tók örlagaríka ákvörðun

      Ég tók áðan örlagaríka ákvörðun eftir hrókasamræður og mikil skoðanaskipti við sjálfan mig enda vaknaði ég enn og aftur uppúr kl 4 og var ég kominn á fætur rúmlega klukkutíma síðar til að skipuleggja þetta.  Ég ætla að kasta mér fyrir ljósastaur.  Þar liggja örlög mín.  Þar gætu hlutirnir verið að gerast eða hvað.  Menn kasta sér fyrir lestar og menn kasta sér fram af brúm, menn kasta steinum, jafnvel krónum en ég, ég ætla að kasta mér fyrir ljósastaur því þar er mér lifandi líst.  Og hvað gerist?  Við bæði verstu og bestu skilyrði gerist nákvæmlega ekki neitt sem er frábært og ætti að henta mér fullkomlega.  Engir sénsar teknir, engin sorg í vændum, engin óhamingja, engin áhætta, engar breytingar sem gætu leitt til ógæfu.  Að vísu fylgir því engin hamingja, engin ást, engin lífsfylling, engin gleði, ekkert óvænt og það skilur ekkert eftir sig, ekki einu sinni reynslu til að byggja á en er það ekki bara ég í hnotskurn?  Menn pissa upp í vindinn og aðrir stinga höfðinu í sandinn en þeir eru ekki margir sem gera hvoru tveggja og maður spyr sig, hvort sé betra að fá sand í augun eða hland nú eða hvort tveggja?  Ég í hnotskurn?   Fólk myndi ganga framhjá og jú, ég yrði ef til vill vel upplýstur í tilgangslausri meiningu. Ég veit það ekki.

     Ég hlakka samt til dagsins og veit að ég verð áhorfandi að honum.  Enn og aftur fæ ég tækifæri til að fylgjast með úr fjarlægð, hugsa og velta vöngum.  Ég í hnotskurn.

     Gærkveldið var indælt, uppskera glæsilegs frumkvæðis, frekar ólíkt mér, enda átti ég það ekki og á sjaldan eða kannski aldrei.  Ég í hnotskurn?  Ef til vill ætti ég að leggja til hliðar þessari hugmynd með ljósastaurinn og gera eitthvað róttæk.  Taka afleiðingum gjörða minna en ekki afleiðingum gjörða annarra.  Góð hugmynd.  Hugmynd sem ég ætti að ýta úr vör í logni til að taka enga sénsa..............  Það er ég.  

  Eigið góðan dag.


Ef til vill er gátan leyst

     Svefnlaus nóttin og spennuþrunginn dagurinn, allt náði hámarki sínu yfir kaffibolla.  Hún var sjarmerandi, seiðandi, lífsglöð og falleg, þroskuð en leitandi.  Hann var bara hann.  Spurningar og svör, vangaveltur og lífsspeki,  spurningarnar fleiri en svörin.  Þótt tvö leggist á eitt með að leysa lífsins gátur er ekkert víst að fleiri spurningum verði svarað.  Getur verið að svörin verði að finna með því einu að prófa og reka sig á?  Getur verið að þeir sem ekki prófi og þeir sem ekki reki sig á finni aldrei svörin?  Getur það verið áhættunnar virði að stíga fram í óvissu?   Getur það verið að ef aldrei yrði tekin nein áhætta og aldrei farið úr eigin sporum sé einfaldlega gengið í hringi og aftur og aftur komið að sömu sporum sem í versta falli dýpka en eru kunnugleg við hvert fótmál?  Getur það verið að ef manni líki ekki eigin farinn vegur sé eina leiðin sú að síga út úr eigin förum og feta ókunnar slóðir í von um bjartari  og sæluríkari tíma?  Getur það verið að hægt sé að  bæta ekki einungis slæmar stundir heldur líka þær góðu?  Getur það verið að þær góðu gætu orðið enn betri og verið áhættunnar virði eða hvað?   Júdas vaknaðu og lestu þetta yfir, ef til vill er gátan leyst.


Stattu þig Júdas

     Í mér er einhver prófskrekkur í dag, eða tilfinningin er þannig.  Eins og manni líður klukkutíma fyrir próf og maður veit að það verður engu við bætt og allur tíminn ætti að fara í slökun og hugarfarslegan undirbúning.  En undirbúning undir hvað?  Ég er búinn að taka þau próf sem ég þarf að taka fyrir áramót og þótt á mér hvíli nokkur verkefni tengd vinnunni eru þau þess eðlis að prófskrekkstilfinning á ekki við.  Ég er á heimavelli þar.  Jólin, nei þau eru ekki prófraun, þau líða hjá, já vinnan sér fyrir því.  Ég er á gati þótt ég viti það innst inni.  Það er bara tilfinningin sem er að stríða mér.  Ég leit í spegilinn í morgun og var ekki eins kátur með mig og í gær.  Getur það verið að spegilmyndir eldist hraðar, ég meina hefur einhver getað afsannað það ?  Ég vil nú ekki taka það stórt upp í mig að ég líti út eins og borðtuska með tennur en getur verið að öldruð móðir mín sé ekki dómbær á þetta þegar hún segir að ég sé yndislegur og gullfallegur?  Yndislegur fylgir bara því hún hefur ekki þann hæfileika að lesa hugsanir og hefur greinilega ekki séð allt myndbandið en gullfallegur fær mig til að efast.  Sjónin er kannski verri hjá henni en ég reiknaði með. 

    Jæja, gullfallegur dagur í vændum reikna ég með en ég finn að æfingar undanfarinna daga hafa tekið sinn toll hjá gamla manninum.  Kaffibollar morgunsins eru farnir að tikka inn svo þetta gæti lagast.  Ef til vill er fallhlutfallið ekki svo hátt en það er klárlega próftökurétturinn sem vefst fyrir mönnum.  

Stattu þig Júdas!   Betur en spegilmyndin!


Í rökkvuðum garði

  Í rökkvuðum garði

stakk rós sínum þyrni

í brjóst mér.

Skammvinn er sársaukans sæla.

Og næturlangt óttinn

mig nísti við þjáning

og dauða

 

En þistillinn sári

var sæði, og undur

mér birtist.

Ný rós hefur rót sinni skotið

í haustmoldir hjartans.

Sú rós er án þyrna,og rauður

mér ilmbikar andar

unaði komandi daga.

Í garðinum morgnar.


Pabbi hlýddu mér bara

     Ég var að máta nýja peysu rétt áðan og kalla á unglingskútinn til að gefa mér einkunn.  Hann kemur labbandi fram og er ekki fyrr kominn í holið og búinn að berja pabba sinn augum en hann hristir höfuðið og segir:  „nei nei pabbi, ekki þetta“  svo renndi hann niður peysunni nánast svo sá í leggina  á mér eða hér um bil.   Bíddu, ég er ekki að fara í hana til að fara svo nánast úr henni aftur góði.  „Pabbi hlýddu mér bara, þetta á að vera svona“.  Ég er ekki heldur að fara á grímuball ef þú heldur það..........“það mætti halda að þú værir að fara á date eða eitthvað“ sagði hann og hleypti í brýrnar.  Finnst þér það líklegt vinur minn sagði gamli með hneykslunarsvip.   Tja, þú ert búinn að vera að æfa á fullu síðustu daga svo................ertu að fara á date?  Vinur,  finnst þér það líklegt,  hugsaðu þig um í 15 sekúndur.................... Nei pabbi, líklega ekki en þú ættir að gera það, svo var hann horfinn inn í herbergi og hækkaði í tónlistinni.   Meira að segja hann hefur ekki trú á mér í þessu blessaður drengurinn.Wink


Værðardagur

     Þessi dagur er hljóður og værð yfir honum.  Áhyggjur af einsemd um jólin hafa vikið þótt ég viti stundum ekki hvort það eru áhyggjur eða þráhyggja sem snýst um það að upplifa slíka gleðistund einn og læra að meta allt sem ég hef miklu meira og betur.  Nú eða að vera bjargað á síðustu stundu.  Hann verður góður þessi dagur og lítill gleðineisti virðist hafa breyst í loga sem yljar mér.  Ég upplifi daginn í svolítilli fjarlægð eins og ég sé áhorfandi en þannig hef ég meiri yfirsýn og get tekið réttar ákvarðanir.   Góður dagur.  Værðardagur.

Njótið dagsins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband