Þarf ég nálgunarbann á nýja nágrannann?

     Það var bankað á útidyrahurðina hjá mér!  Kallað innan úr herbergi:  „Áttir þú von á einhverjum pabbi??“  Ekki laust við smá hæðni í röddinni en um leið undrun.   „Neibb, farðu til dyra vinur, þetta hlýtur að vera til þín.“  Eldri kúturinn var eitthvað tregur því hann sagðist ekki hafa átt von á neinum en við kútafeðgar erum svolítið furðulegir með þetta.  Við förum nefnilega ekkert endilega til dyra þótt bankað sé því í 97% tilfella erum við látnir vita af því fyrirfram  ef einhver er að koma og af þessum 97% eru 96,2% vinir kútsins.  Ég hef áður bloggað um þá sem koma til að hitta mig en fyrir utan barnsmóður mína sem droppar stundum inn, þó meira þegar ég er ekki heima til að ná í eitthvað vegna litla kúts eru það kona á sjötugsaldri að lesa af rafmagnsmælunum, Vottar Jehova með áhyggjur af því að ég sé ekki einn þessara rúmlega 200.000 einstaklinga sem komist til himna og áhyggjufullir nágrannar með einhverjar fáránlegar spurningar um það hvort ekki þurfi grenndarkynningu fyrir stálþilinu sem verið er að reka niður í garðinum hjá mér!!.  jú og brósi sem farinn er að koma af og til úr Þorpinu og rúllar þá við hjá mér en hann lætur vita af sér og hringir í mig þegar hann kemur í götuna.  Það sama á við um vini eldri kútsins.  Hann veit alltaf hvenær von er á einhverri kútarós eða öðrum pörukútum svo það er ekkert skrítið þótt við stökkvum ekkert til.  Ég sagði honum þó að drífa sig bara til dyra sem hann gerði en lét þó þau orð falla að það væri allavega klárt mál að þetta væri ekki sín.  „PABBI, ÞAÐ ER TIL ÞÍN!“.   Hjartað í mér tók kipp og ég spratt upp en þegar ég sá hver það var gat ég varla leynt vonbrigðum mínum.  Ég lét þó ekki á neinu bera enda leikarar í fjölskyldunni.  „Sæll Vinur.  Hvernig gengur“.  Er von að maður spyrji nýjan ofvirkan nágranna að því þegar lóðin hans er að breytast í verðlaunagarð og Guð má vita hvað hann gæti verið að bralla núna.  „ Heyrðu, ég er að fara að háþrýstiþvo grindverkið hjá mér og búa það undir málningu og datt í hug hvort þú vildir vera með í því???!!!  Hvað er að manninum!  Þarf hann félaga í öllu sem hann er að gera eða er hann hræddur um að það lækki hjá honum fasteignamatið ef ég dubba ekki upp húsið mitt um leið og hann tekur sitt í gegn?  Eða á manndrjólinn enga vini?  Veit hann ekki að ég er að leita að konu en ekki framkvæmdafélaga sem sér mér fyrir verkefnum sumar eftir sumar.  Það var ekki laust við að ég skimaði eftir falinni myndavél eða einhverju svoleiðis.   Þarf ég að reka niður stálþil framan við húsið líka, síki, krókódílar........hvað þarf að gera til að fá bara frið.....!!   Ég þarf ekkert aðra til að skipuleggja fyrir mig verkefni, viðhald og því um líkt.  Næst verður það ábyggilega út að bóna jeppana saman eða horfa á stjörnurnar.  Hringdu í vinalínuna eða kannski viðhaldslínuna og láttu mig í friði...........................Ég bið um nálgunarbann............

 Svo margt þaut í gegnum kollinn á mér áður en ég sagði honum kurteislega að þessi helgi hentaði mér ekki og að þetta væri á áætlun í sumar en ég gæti bara ekki tímasett það.  Ég hældi honum fyrir dugnaðinn og hann fór.   Hjúkk.  Hann er ábyggilega einn af þessum „félagsverum“ og mér skilst að það sé jafnvel ólæknandi svo það er ekki við hann að sakast.  Íslensk erfðagreining er víst búin að finna þetta stökkbreytta gen sem veldur þessari skelfingu en lækning ekki í sjónmáli.  Minni á styrktarreikning  í Glitni 0525-26-224433111111  fyrir þá sem vorkenna þesskonar sjúklingum.

 

     Að öðru leyti gekk dagurinn bara vel fyrir sig hjá okkur kútafeðgum.  Vangaveltur um sumarfrí og utanferðir eru ofarlega í huga mér sem og æfingarnar sem fóru af stað þann 1. maí en þá snéri ég algjörlega við mataræðinu og fór að taka verulega á því í ræktinni.  Eldri kúturinn er einnig með sumarfrísvangaveltur en eitthvað gæti þurft að samræma þetta.

Látum þetta gott heita af bulli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Æjjj knús á þig kúturinn. Já það er gott að búa í sveitinni og þurfa ekki að vera með nágranna nasandi í koppnum hjá manni, ekki einu sinni í garðinum hehe....  Maður getur bara verið kærulaus ef manni sýnist svo. Jæja nú er manni ekki til setunnar boðið vegna anna. Kveðja úr sveitinni. Njótið vorsins.

Ókunnuga konan (IP-tala skráð) 12.5.2008 kl. 22:26

2 Smámynd: Rebbý

nágrannar geta verið erfiðir ... ég bý í húsi með fyrrum löggu sem hefur örugglega verið í rannsóknardeildinni því hann er með skráð hjá sér hvenær ég fæ heimsókn og er ekkert að fela það

Rebbý, 12.5.2008 kl. 22:30

3 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Þessi heimsókn hefur tekið á ég skil það.....Annars er nú gaman að horfa á stjörnurnar... samanEigðu ljúfan og áreitnilausan dag minn kæri vin

Pé ess: Hvernig gengur með stálþilið annars ?

Jónína Dúadóttir, 13.5.2008 kl. 05:39

4 Smámynd: Fiðrildi

Ég kann vel við þessa hlið á Júdasi   Kæmi mér bara ekkert á óvart að við værum sömu ættar.

Láttu þá ekki vaða yfir þig . . . . nágrannana. 

Gó kútar

Fiðrildi, 13.5.2008 kl. 15:49

5 identicon

Æji.. þú mátt bara senda þennan óða nágranna til mín í smá garðvinnu... sumarsólargeisla sendi ég til ykkar kútanna og eins fiðrildi, lítil, nett og litrík

Nilla (IP-tala skráð) 14.5.2008 kl. 15:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 48636

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband