Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Sjálfshjálparhópur særðra spegilmynda

     Hlátur og glaðværð var það sem tók á móti mér þegar ég kom fram í morgun.   kátína og ferskleiki útvarpsþáttagerðarmann er ekki akkúrat það sem ég vildi heyra þreyttur og  stirður.  Líðanin var eins og hjá klósettbursta rétt eftir notkun og útlitið í samræmi við það.  Lærdómur síðustu tveggja daga hefur tekið á því ég hef þurft að hafa svolítið fyrir þessu sem byggist þó aðeins á djúpum vangaveltum þar sem ég stari á skjáinn og  hugsa.  Getur það verið að ég sé bara svona illa gefinn og það sé vegna vorkunnsemi kennaranna eða greiðslu frá fyrirtækinu sem verkefnaeinkunnir séu góðar?   Það er allavega gott að ekki sé verið að gefa einkunnir fyrir morgunútlit því ég er ekki frá því að spegilmyndin hafi hreinlega litið undan í morgun annaðhvort af tillitssemi eða hreinlega til verndar sjálfri sér.  Þær eru jú réttindalausar með öllu og engir áfallahópar starfandi fyrir þær.  Nóg af bulli.  

    

Kaffi og nóg af því  verður að teljast góður startvökvi í morgunsárið og nú þegar er komin ein uppáhelling og önnur á leiðinni.   Merkilegt hvað þetta er góður vökvi en hinsvegar var ég rétt í þessu að uppgötva það mér til mikillar skelfingar að bollinn eini sanni er farinn að leka.  Fyrsta bloggfærslan mín fyrir 146 færslum síðan fjallaði einmitt um þá skelfingu þegar næst síðasti bollinn í þessu gamla setti frá mömmu gömlu fór í gólfið og mölbrotnaði.   Hann er enn í upp í skáp og bíður þess að ég raði honum saman.  Það er því áhyggjuefni að þessi sé farinn að leka.  Hvað gera svona sérvitringar þegar hætta steðjar að og einfeldninni stafar ógn af einhverju sem í augum flestra getur varla skipt miklu máli en er í ljósi einfeldni gríðarleg hætta sem gæti sett allt úr skorðum og jafnvel eyðilagt þær fáu unaðsstundir sem gömlum manni standa til boða.  Ég bið ykkur að fyrirgefa mér kæru bloggvinir hversu leiðinlegur ég get verið því ég var að lesa yfir þessa færslu og komst að því að hún er nánast ekki um neitt og hlýtur því að komast í 144 færslna úrtak um þær leiðinlegustu sem ég hef skrifað.

 

Jákvæðni dagsins er sú að þegar botninum er náð liggur leiðin aðeins upp á við og undirstaðan til spyrnu ein sú besta sem völ er á í stöðunni ekki satt.  Reyni að standa mig betur í blogginu næstu daga.  Unglingskúturinn minn var að koma fram rétt í þessu og staðfesti það sem ég hélt að ég væri ljótur og þreyttur með athugasemd sem ég svaraði auðvitað um hæl í sömu minnt, en ekki hvað.

 

Njótið dagsins kæru vinir og látið mig vita ef þið finnið á netinu sjálfshjálparhópa fyrir særðar spegilmyndir.


Leitin að vetrarblóminu

 

Mig dreymdi þig á þorra,

ég þekkti mig

við þennan klett,

og hér fann ég þig,

vetrarblóm!

 

Ó, gagnsæja lifrauða ljósdjúp!

Hún skín

og lýkst upp í brjósti mér

krónan þín,

vetrarblóm!

 

Föla unga vor

í fannanna bráð,

fullur himinn

af ást og náð.

Vetrarblóm.

 

Þorst.Vald

 

     Hann fer fallegur af stað þessi dagur.   Kyrrð yfir og í útvarpinu tekur á móti mér þegar ég kveiki á því  „Ég hef allt líf mitt, leitað að þér“ .  Kaffiilmur fyllir eldhúsið og værð gagntekur mig.  Ég sakna kútsins og varð varla svefnsamt í nótt sökum draumfara sem tengdust honum.  Ég var alltaf að vakna til að sinna honum en holan var tóm.  Aðeins lítill koddi og lítil sæng. 

    Í gærkveldi var unglingskúturinn óvenju heimakær og við lágum saman í sófanum í klukkutíma eða svo, þar til vinir og kunningjar urðu værðinni eftirsóknarverðari.  Eftir sat ég í sófanum og lærði. 

     Leitin að vetrarblóminu er hafin á ný þrátt fyrir kvöldið sem það var afskrifað í döprum huga en nýr eldmóður virðist risinn úr viðjum eymdar og  einmanaleika.  Það mun þó ekki taka hug minn allan, aðeins vaka og bíða eftir fallegu augnagoti eða rafrænum skilaboðum.  Fingurfléttingar og handabakastefnumót bíða vafalaust en ég mun njóta ilmsins þar sem ég finn hann.

 

Njótið dagsins kæru vinir.

 


Af hverju hittir hún mig ekki á förnum vegi?

     Ég sit í sófanum og skil ekki af hverju einmanaleikinn þarf að hitta mig í kvöld.  Áttu ekki fleiri vini eða stefnumót við einhverja aðra en mig?   Ég ætlaði bara að njóta kvöldsins einn í rólegheitunum.  Stökkva í ljós eftir vinnu, elda mér lambafille, opna einn bjór og hafa það náðugt.  Læra svo kannski aðeins.  Ekkert af þessu gekk eftir nema þetta með bjórinn.  Ég fór ekki í ljós, eldaði ekki fille og er ekki enn farinn að læra.  Júdas er snillingur í einmitt þessu.  Að ætla eitthvað en gera það ekki.  Lofa sér einhverju en svíkja sig.  Hann svíkst ekki um í vinnunni og ekki í náminu, svíkur ekki kútana sína eða vini.  Hann svíkur sjálfan sig.  Það er bara vani. 

     Þetta er fallegt kvöld og tilvalið til að deila því með einhverjum.  Rok og rigning úti en hlýtt og notalegt inni.  Tvö ættu að deila þessu kvöldi en það verður ekki þannig.  Möguleikinn á því að það verði aldrei þannig skelfir mig.  Líkurnar á því að það verði aldrei þannig aukast dag frá degi!    Af hverju hittir hún mig ekki á förnum vegi?  Lítur við  og mætir augum mínum.   Sér að það verður ekki aftur snúið og vill ekki missa af þessu tækifæri lífs síns.  Segir „sæll“  „hef ég ekki séð þig áður?“   og eitt leiðir af öðru. 

     Ég man kraftinn sem yfir mann kemur, orkuna sem leysist úr læðingi.  Svefn verðu aukaatriði, og andvökur hafa allt í einu tilgang.  Spenna og eftirvænting verður daglegt brauð og biðin eftir skilaboðum og hringingum verður óbærileg.  Aðdáun í hverju augnatilliti og þakklæti fyrir hverja mínútu.  Allt snýst við og hvert andartak hefur tilgang.   Ég man þessar stundir og ætti að minnast þeirra áfram því ef til vill verður minningin það eina sem  hægt verður að orna sér við.  Það eina sem haft verður með sér í sófann á kvöldi sem þessu.  Það eina sem fær mig til að brosa út í annað og rifja upp ilminn.......  Því skildi kona annars snúa sér við, gamli maður og hvað skildi hún sjá ef hún snéri sér við þreytti maður?  Hún myndi snúa sér hraðar til baka fullviss um það að hún hafi alls ekki átt að snúa sér við.  Hún sá fortíð manns sem fylgir honum en ekki nútíð og ekki framtíð, aðeins fortíð.   

     Þú fékkst það sem þú þráðir en vildir það ekki.  Þú fékkst það sem þú gast fengið hafnaði því.  Þú fékkst það sem þú sóttir en skilaðir því.  Þú sóttir það sem þér bauðst en kastaðir því frá þér.  Engin furða að þú sért þreyttur gamli maður og engin furða þótt þú hafir ekki trú á þess konar lífi.

     Kútarnir eiga sér framtíð og gamall maður mun fylgja þeim eftir.  Verða þeim innan handar um ókomin ár.  Gleðjast yfir hverju skrefi þeirra og hverjum áfanga.    Ef til vill verða skuggar framtíðar svalar en ég átti von á og ef til vill verða þeir ekki það skjól sem ég vænti.  Þá kemur ylur minninganna frá eldi fortíðarinnar til bjargar.  Hann laðar fram bros og framkallar værð.  En aðeins ef Guð lofar.

    Ég hlakka til morgundagsins og vona að hann komi fljótt......


Ofríki sumra fyrirtækja

     Þetta getur nú varla talist fréttnæmt lengur þegar búið er margsinnis að sýna okkur fram á að landbúnaðarpakkinn heldur þessu uppi að mestum hluta;  „refsitollar“ og gjöld og takmarkanir á innflutningi til verndar landbúnaðinum ásamt samkeppnishamlandi ofríki nokkurra fyrirtækja honum tengdum og þar sér samkeppniseftirlitið ekki ástæðu til að bregðast hart við eða hvað?
Höldum bara áfram að sparka í þá sem lægst bjóða þrátt fyrir þetta óvinveitta umhverfi og sökum þá áfram um að geta boðið betur en lægsta verð á Íslandi.  Við erum nú ekkert eðlileg í þessu.


mbl.is Matur og drykkur 64% dýrari en í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvöru draumar

 

     Það er best að gefa sig á vald drauma, loka augum og njóta þeirra fáu mínútna sem maður er sjálfur  við stjórnvölinn í hugsunum og væntingum, jafnvel síðustu dagdraumunum.  Fljótlega taka alvöru draumar við stjórninni og bera mig til fundar við fallega dali svefnsins sem enginn skilur og enginn veit tilganginn með.  Aðeins Almættið veit það og brosir vafalaust að því þegar litlar verur reyna að öðlast skilning á þessum sviðum sem öðrum.  Ætli það sé ekki eins og lítið barn að teygja sig eftir einhverju sem það kannski aldrei nær og aldrei fær.  Bláir skógar drauma í dölum svefnsins.

 

Á bláum skógum draumanna

í dölum svefnsins

þar skulum við mætast

meðan þú ert í burtu

og setjast undir krónurnar

sem krydda blæinn sætast.

 

Á bláum skógum draumanna

í dölum svefnsins

þar skulum við gleðjast

þangað til þú kemur.

Þá gleymir hvorugt ástinni

og engin þörf að kveðjast.

 

Hannes Pét.

 

     Hverjum ég mæti þar veit ég ekki en það er spurning hvort ég eigi að gleðjast þangað til Þú kemur, hver sem þú ert.  Er ég enn að bíða og vona án þess að vita heftir hverju ég bíð?  Er það uppfylling eigin væntinga eða væntinga einhvers annars?  Er það bið eftir eigin skugga eða skuggum annarra?

Hvar ertu og hver ertu?

 

Góða nótt.

 


Gjörbreytingaskeið karla

     Vinur minn, einn af þessum fáu hringdi.  Við hittumst sjaldan en vitum þegar við hittumst að við erum vinir.  Kaffibolli tvisvar til þrisvar í mánuði og létt spjall er meira en nóg.  Hann sagðist vera með furðulega beiðni, frá óþekktir konu.  Bíddu nú við.  Hvað var nú þetta?  Ég varð svolítið forvitinn en sýndi það þó með fálæti.  „Þannig háttar til, að ég kannast við konu frá gamalli tíð, reyndar kannaðist ég við manninn hennar fyrrverandi en vissi bara hver hún var í sjón.„  Þessi kona hafði hringt í hann og spurt hvort það væri ekki rétt að hann og Júdas væru kunningjar.  Hann játti því og hún spurði þá hvort nefndur Júdas væri konulaus, hún hafði séð hann oftar en einu sinni einan á rölti og fannst að það gæti verið.   „Rétt er það“ sagði félaginn og þá kom beiðnin.  „Vinkona mín frá útlöndum er í heimsókn hjá mér, búin að vera í hálfan mánuð og verður í nokkrar vikur til viðbótar og okkur langar svo til að hitta hann...........................heldurðu að hann sé til í það?“   Ég á ekki til orð.   „ Hvað viltu gera?“  Sagði vinurinn,  „á ég að láta þær fá símanúmerið þitt“.   Hmm, ég læt þig vita. Ætla að hugsa málið.  Ég má ekkert vera að einhverju svona.  Er með kútinn, er í mikilli vinnu og skóla að auki.   Svo skil ég ekki beiðnina.  Af hverju vilja þær hitta mig?   „Hún sagðist hafa séð þið og vitað af þér í nokkur ár og finnst þú svo myndalegur“.  Vinurinn hló.......“ertu hálfviti......þarftu að hugsa þig um.  Er ekki í lagi með þig?“   Jæja, láttu hana hafa númerið.  Ég get svo sem boðið þeim að drekka með mér kaffi heima í eldhúsi en ég nenni ekki að fara eitthvert út í bæ út af svona löguðu.   Málið dautt og við tókum upp léttara hjal.  

     Nú er liðin vika og engar fæ ég hringingarnar og ekki sms-in svo líklega verður ekkert af þessu en ég hlýt að vera að eldast úr því ég nenni ekki einhverju umstangi eða þá að breyta venjum mínum fyrir tvær myndalegar konur.  Líklega verð ég einn í langan tíma og sé bara fyrir mér forstofuástviðfyrstusýn eða máekkibjóðaþérvarðturninnástinni við þröskuldinn hjá mér.    Hvað er að mér?

Er ég á breytingaskeiðinu eða ættum við að kalla það  gjörbreytingaskeiðið?  

 

 

Hann trúði á trygglindi og ást

við taumleysi vild ekki fást,

Þótt þær væru tvær

þó hann væri ær,

Hann vild ekki utanhúss sjást.

 

Í forstofu frygðar var einn

með fordóma ekki við neinn.

Hann nennt'ekki út

og lifði í sút,

Hann var alltaf svolítið seinn.  

J.I


Þvílíkt veganesti út í þennan dag

     Hann var úfinn og krúttlegur kúturinn sem rölti fram í morgun með vatn í stútkönnu og grænan krókódíl sem hann dró á halanum eftir gólfinu. Stóð í holinu og ruggaði og beið eftir því að verða tekin og faðmaður.  Svo er hann sagður líkur pabba sínum, þvílíkt bull.  Ég verð seint talinn krútt úfinn og þreytulegur og svo man ég ekki eftir því að hafa komið með krókódíl fram á morgnanna. Inni í öðru herbergi var annar kútur heldur þreyttari en ég er ekki frá því að hann hafi komið fríðari undan feldi en við hinir.  Svo er hann sagður líkur móður sinni.  Þvílíkt bull.  Auðvitað er hann líkur okkur hinum.

 

Fríhelgi er að baki og alvara lífsins blasir við.  Við göngum allir ókeikir inn í hana sannfærðir um ágæti okkar og getur, fríðleika og fas.  Þvílíkt veganesti  út í þennan dag og þessa viku.

 

Það er greinileg að skuggar framtíðar verða aðeins skjól í hita leikjanna og tilhlökkunarefni að mæta þeim og njóta þeirra.  Hvenær það verður veit ég ekki en það verður...........

 

Njótið dagsins.


Ofmetin faðmlög

     Það verður erfitt að láta sér detta í hug Júdas þar sem rætt er um aukvisa í dag.  Slíkur var krafturinn seinnipartinn í gær og fram á kvöld allt til að róa hugann.  Þrifið var hátt og lágt, ryksugað, skúrað og meira að segja eldhúsinnréttingin þrifin að utan sem innan.  Það var kannski það eina sem ekki er gert reglulega, að minnsta kosti ekki að innan.  Nú vakna hjá mér efasemdir það hvort vinir mínir halda mig sóða og kjósi mig sóða mánaðarins eða ekki......... en það er ég sko ekki.  Ég opnaði meira að segja ísskápinn hjá mér og sá ekki ástæðu til að gera neitt því hann glansaði að innan.   Það myndi hann ekki gera ef hér byggju sóðar.  Litli kúturinn tók virkan þátt í þessu en áttir erfitt með að standast þá freistingu að fara ekki inn á nýskúruð gólfin en hann reyndi þó eins og hann gat.  Þvottar voru þvegnir og haugurinn í barnarúminu ónotaða af hreinum þvotti nálgast nú lofthæð og er að verða illkleyfur. Þegar ég fletti Fréttablaðinu í morgun leitaði ég að smáauglýsingu þar sem eitthvert fyrirtæki eða góðhjartaðar ömmur tækju að sér frítt eða gegn greiðslu að vinna niður svona taufjallgarða en gat ekki séð neitt um það.  Þetta er í rauninni það eina sem stendur í mér hvað varðar heimilisverk og ég hef líka minnst á það alloft hér á blogginu.  Samt skilur enginn þennan vanda hjá MÉR og býðst til að redda þessu.  Haugurinn nálgast nú þau mörk að brunaeftirlitið gæti fundið að þessu, bæði út af eldhættu og vegna þess hve nálægt loftinu hann er en mér skilst að skv. reglugerðum eigi að vera eitthvert bil eða öndunarrými þarna á milli.  Jæja, best að hætta þessu væli.  Fer í þetta ferskur seint í kvöld eftir  fund hjá SAUÞS , Samtökum áhugafólks um þvotta skrekk.  Fæ þar faðmlög og hvatningu.  (Vil taka það fram að ekki er verið að gera grín að fólki með geðraskanir eða vímuefnavanda á neinn hátt).

     Faðmlög já.  það er undarlegur pakki.  Fólk vefur sig hvað utan um annað, mislengi, segir eitthvað fallegt eða bara þegir, líður miklu betur á eftir og um það streyma hugsanir og tilfinningar að engu lagi er líkt.   Ég veit ekki hvort ég sakna faðmlaga við konu en núna þegar ég hugsa þetta nánar staldra ég við í skrifunum í bið eftir svari og verð að svara því játandi.  Ég sakna samt meira litlu snertinganna sem ég hef áður talað um, þessara sem ekki er gert ráð fyrir, finna fyrir handarbaki eða finna fingur vefjast utan um manns eigin fingur, jafnvel bara einn eða tvo.  Nóg er af faðmlögum við kútana mína en það er auðvitað allt annað þótt gefandi sé.  Við unglinskútur föðmumst nánast daglega og litlakút er ekki annað hægt en að faðma enda er hann eins og  sogblaðka utan á manni lögnum stundum.  Ef til vill eru þessi faðmlög bara ofmetin, eitthvað sem allir þrá og telja sig vanta en er bara dulin löngun í góðan kaffibolla og nokkur brot af 70% suðusúkkulaði með sem gæti leyst þessa tilfinningakreppu eftir fyrsta sopa.  Þvílíkur kraftur í þessum dýrðlega vökva og skildi engan undra hve hann hefur breytt meira að segja sögunni og venjum fólks.

Best að fá sér meira kaffi.

 

 

Ég sem ekki neina

sögu, úr stundum mínum.

Ein kemur

þegar önnur fer.

Ég dvel hér við sjóinn.

Læt syngja pennann minn.

 

Öfundsverðir hinir

sem á öllu standa fast

og eygja söguþráð

gegnum sjálfan tímann.

 

Hannes Pét.

 

 

Njótið dagsins og forðist ekki faðmlög.


Hún sýgur best er sagt

     Hann rann hratt upp þessi dagur, æddi hreinlega upp.  Mér fannst ég rétt farinn að sofa þegar ég vaknaði og greinilegt að mér var ekki ætlað að sofa lengur.  Ég var að læra í allt gærkveldi með kútinn klifrandi á mér í stofunni svo hann sofnaði líka seint.  Sofnaði í hnipri í fanginu á mér í samkeppni við fartölvuna sem var þar einnig.  Hann svaf því lengur í morgun og gamli maðurinn hafði heila tvo tíma út af fyrir sig og ætlaði aldeilis að nýta þá vel.  Ef það er talin góð nýting á tíma að sitja við eldhúsborðið með kaffibolla og dagblöð er ég í góðum málum en ef ekki, þá í slæmum.  Ég ætlaði að ryksuga hjá mér og skúra en er ennþá á leiðinni í það.  Lóar-flikkin eru orðin á stærð við meðalstóra heimilisketti og þótt það sé vinalegt að koma fram og finna þetta strjúkast við leggina ætla ég að fjarlægja flikkin í dag svo ég þurfi ekki að kaupa ólar á þau og borga einhver gjöld af þeim.  Nú væri ljúft að hafa eina GULLFALLEGA, STRAUMLÍNULAGAÐA, STORMANDI UM ÍBÚÐINA LYKTANDI EINS OG BLÓM Á ENGI.   HEYRA Í HENNI ÞAR SEM ÉG SIT VIÐ ELDHÚSBORÐIÐ OG VITA AÐ ENGIN....... JÁ ENGIN SÝGUR BETUR.   Þarna er ég auðvitað að tala um sjálfvirku, tæknilegu, forritanlegu róbótaryksuguna sem alltaf er verið að auglýsa annað slagið og ég bloggaði um 12.nóvember þá fullur áhuga og ímyndunar um það hvernig þetta tæki myndi breyta lífi mínu.  Best að láta færsluna bara fylgja hérna með því þetta gæti enn orðið að veruleika.   http://judas.blog.is/blog/judas/entry/363060     Kannski ætti ég bara að kaupa mér þessa þjónustu þótt mér finnist þrif ekkert leiðinleg og í sjálfu sér er aldrei drasl hjá okkur feðgum.  Vildi bara nýta tímann miklu betur en ég geri.

 Er þetta  nokkuð karlrembulegt?

Nú fer kúturinn að vakna eftir síðdegissvefninn svo það er best að setja sig í gírinn því við eigum enn eftir að fara á Mc Donalds í burger en það er fastur liður.

Bless á meðan, vinir.


Eru tveir betri en einn?

     Það er ekki laust við að kaffidrykkjan yrði örari í morgun vitandi af þessum kulda úti.  Vangaveltur um að flytja úr landi, klæða sig eins og geimfari, skríða undir sæng eða kveikja í sér leituðu árangurslaust upp á yfirborðið en voru slegnar út af borðinu jafn óðum.  Hvar ætti ég svo sem að fá geimbúning?  Ég vona að einhver hafi sett alla ofna í botn á skrifstofunni svo maður þurfi ekki að norpa yfir kaffikönnunni til að ylja sér.  Best væri að halda sig innandyra í dag.   Kúturinn var sá eini sem leit út eins og geimfari þegar farið var út úr húsi, gat varla hreyft sig og greinilegt að kaldur pabbinn hafði klætt hann fyrir tvo, eða þrjá.

     Framundan er fríhelgi með báðum kútunum, þrifaáætlun í gangi og spurning um að hengja miða á útidyrahurðina, nú eða út í eldhúsgluggann eins og gert er á Bylgju-dögum þar sem skýrt er tekið fram að þarna búi maður einsamall þótt „þrísamall“ sé nær lagi,  í von um að snörur verði lagðar fyrir fleiri konur en þessa sextugu sem les af rafmagninu hjá mér.  Held ég coolinu ef ég geri þetta?  Ég væri til í á láta það róa í nokkra hálftíma ef það skilaði árangri.  Ekki það að ég sé að verða úrkula vonar heldur vantar mig bara skemmtilegan kaffifélaga sem drykki með mér kaffi og færi svo bara fljótlega aftur en kæmi aftur fljótlega.  Betri eru tveir en einn og á það við t. d um kaffibolla og ef til vill um félaga líka.

Læt þetta duga.

Gangið svöl inn í þennan ágæta dag.


« Fyrri síða

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband