Færsluflokkur: Bloggar

Ofnotaðasta orð samfélagsins

     Ég sit í stofunni hjá mér og það ekki af góðu á þessum tíma dags.  Auðvitað ætti ég að vera í vinnunni en það kom soldið upp á og ég verð líklega að nota orðið sem ég forðast að nota og tel það reyndar eitt af ofnotuðustu orðum samfélagsins.  Ég er líklega veikur, eða var það,  er að hressast og kannski var ég bara svona þreyttur.   Kann betur við það þannig.  Þegar ég kom heim á sunnudaginn og settist niður í stofunni við lærdóm fannst mér ég eitthvað slappur, verkjaði í augun og var flökurt en lét það lítið á mig fá.  Þegar líða tók á kvöldið versnaði þetta en ég hélt samt áfram að læra.  Sótti mér fötu og hafði við hliðina á mér ef illa færi. Og það fór illa.  Ég fór að æla eins og múkki og varð þróttlaus og ræfilslegur en lét mig þó hafa það og hélt áfram að lesa.  Var kominn með ágætis kerfi á þetta, fatan til vinstri og bókin til hægri, og svo var bara ælt í rétta átt.  Ég vaknaði svo við það í sófanum að unglingurinn vildi fylgja mér inn í rúm og það veitti ekki af því ég gat varla staðið í lappirnar, svimaði og hrasaði, púlsinn alveg á fullu og ég sá allt tvöfalt.  Unglingurinn hafði áhyggjur af mér, kom mér í rúmið, lét ljósin loga og vaktaði mig um nóttina af og til, var yndislegur. Daginn eftir var ég miklu skárri, kominn þó með hita en var ekkert á leiðinni að fara að gubba.  Ég hafði heimsótt kútinn um helgina til mömmu sinnar því hann hafði farið að æla en var hinn sprækasti þegar hann sá mig og vildi sýna mér alla hluti.   Líklega hefur þetta svo gripið gamla manninn með sólarhringspest.   Ég fór því ekki í vinnuna í gær og valdi mér það í dag að vinna bara heima og jafna mig fullkomlega.  Ég er samt ekki frá því að ég setji á mig aumingjastimpil en „ég er nú líka fólk“, svo sýnið mér sanngirni.   Mér finnst ég hafa verið undanfarin misseri allt of oft slappur og með einhvern skít þótt það hafi ekki bitnað á vinnunni sem betur fer.   Sem sagt harðjaxl.  Það minnir mig á þetta:

 

 

Ég gekk fótbrotinn fimm tíma leið

nema fyrst, þennan spöl sem ég reið,

og stund sem ég beið

og stíg sem ég skreið,

en ég stytti mér auðvitað leið!

 

 Ætli þetta sé ekki bara æfingaleysi, leti og refsing fyrir stanslaus svik við sjálfan mig.   Þarna kom það.  Ég reikna samt ekki með að það breytist.  


Ég vil hreint ekki neitt

 

 

Allt sem er kalt vil ég einmitt heitt,

allt sem er heitt vil ég reyndar kalt;

og hafi ég allt,

bæði heitt og kalt,

vil ég hreint ekki neitt!

 

Þorst.Vald


Líklega er ég kominn í hring

     Ég vaknaði mikið í nótt.  Hlustaði eða lagði handlegginn yfir í hina holuna, þá tómu.  Í eitt skiptið reis ég upp en mundi að kúturinn fór til mömmu sinnar í gær.  Furðulegt að ég skyldi gleyma því mörgum sinnum  í nótt en þegar ég fór á fætur í morgun var það augljóst.  Allt tómlegt og hljótt.  Ég leit inn í stofu og þar var enginn og ég vissi það auðvitað en kubbarnir hans voru á gólfinu í horninu og ég hugsaði með mér að þarna ætlaði ég að hafa þá alla vikuna og ganga ekki frá þeim í kassann.  Það er svo vinalegt að hafa þá þarna.  Ég rölti inn til unglingsins sem lá hreyfingarlaus undir sænginni en annar fóturinn stóð út undan.  Ég renndi fingrinum eftir ilinni og hann hreyfði sig.  Þá er allt í lagi svo ég fór fram og setti á könnuna.  Í tómlegu húsinu er þó ennþá svolítil værð og ég ætla að viðhalda henni út vikuna.  Einhver kraftur hljóp í mig og ég fór inn í þvottahús, setti í vél og þurrkara, bjó um, stökk í sturtu, þreif baðkerið,sturtuna og salernið og stökk svo leppana.   Flott byrjun á deginum, klukkan aðeins hálf átta, vinna framundan og fundur þar klukkan níu svo þetta er allt á góðri leið.

 

     Ég finn það á mér að dagurinn verður góður.   Vikan er búin að vera svolítið strembin, vinna, skóli og kútur þannig að dálítið hefur vantað upp á svefninn en ég leysti það mál í gærkveldi, svaf allt kvöldið og bætti svo nætursvefni við.  Mér finnst verst að hafa vanrækt bloggið því það er svo gott að geta bloggað um líðan og tilfinningar þótt lítið sé commentað en tilgangurinn er auðvitað að losa þetta úr hugardjúpinu frekar en að rogast með þetta út um allt.  Mér þykir svo vænt um þessa fáu bloggvini mína og finn það sérstaklega núna í þessum rituðu orðum.  Ég hefði aldrei trúað þessu þegar ég byrjaði að blogga því þótt ég hafi verið í miklum netsamskiptum síðustu 15-20 árin og gamall irkari þegar það var inn,  finnst mér þetta ekki síðra.

    Annað gengur sinn gang og virðist ætla að gera það óbreytt enda sé ég sporin og fylgi þeim eftir.  Ég er líklega kominn í hring því ekkert kemur á óvart lengur í þessu.

 

Njótið dagsins.


Konukenndirnar fuku

     Yndislegur dagur.  Ég náði í kútinn til ungu konunnar kl 8 í morgun en hún hringdi í mig og sagði að vinurinn væri að verða viðþolslaus.  Hann hefði í tvo daga kallað á pabba sinn í tíma og ótíma, óvenju mikið í gær og gærkveldi og í morgun var hann búinn að draga útifötin sín um alla íbúð og hrópandi á gamla manninn.   Það er furðulegt hvað þau eru nösk á þetta því hann virðist vita alveg upp á hár að á föstudögum verða vistaskiptin þótt ekkert sé talað um það sérstaklega, og það að ég skyldi ekki sækja hann í gær heyrir til algjörra undantekninga. Það er líka óvenjulegt að ég skuli aðeins vera búinn að hitta hann einu sinni síðastliðna viku en þó ánægjulegt því það sýnir mér að móðurinni líður vel og að hún hefur verið að höndla lífið og tilveruna með ágætum síðustu vikuna. 

     Við kútur byrjuðum því daginn snemma með kaffibolla hjá bróður mínum en héldum svo í Laugar og áttum góðar stundir þar á sitt hvorri hæðinni.  Svo ágætar að ég ætlaði varla að ná kútnum út úr Sprotalandi þegar halda átti út í borgina en það tókst þó og við tók vapp á hina og þessa staði, Elko og Kringlu og síðan heim í sófa með Ísöld 2 diskinn upp á vasann. Pissudúkkan í mér er eitthvað að vakna til lífsins á ný því þegar myndin er að enda, öll hjörðin komin saman og pokarotturnar hoppuðu upp á Tígra fékk ég gæsahúð og kökk í hálsinn en auðvita hristi ég svoleiðis konukenndir frá mér í hvelli til að halda coolinu þótt ekki væri nema fyrir sjálfum mér. Annars væri næsta skref líklegast að pissa sitjandi

Jæja, ætla að stökkva í búð og finna eitthvað handa okkur að borða.


Ég ætlaði sko að feisa ófétið

     Ég fylltist einhverri orku í gær en ég var að læra í allt gærkveldi.  Kúturinn kom í smá heimsókn sem og öldruð móðir mín en hún lagði upp í ferðalag í gær,  yfirgaf Þorpið og ætlar að vera hér á betri staðnum í nokkra daga.  Hún gistir reyndar ekki hjá mér og skil ég það vel.  Þessi gamla kona er samt ábyrg fyrir því að mörgu leyti hvernig ég er að upplagi og líklega er það þess vegna sem hún er svona blind gagnvart ókostum mínu og einfeldni en í hennar huga er ég samblanda af engli og gullkálfi, ekki slæmt það. 

     Það var sama sagan þegar ég vaknaði í morgun.  Spratt framúr eins og á leið í sérsveitarútkall, æddi fram, og setti á könnuna, hafragrjón í pottinn og fór svo beint að speglinum.  Ég ætlaði sko að feisa ófétið óhræddur sama hvernig hann liti út eða tæki því.  Augu mín horfðu rannsakandi á spegilmyndina og ég var ekki frá því að það örlaði fyrir gæsahúð eða hrifningarhrolli.  Hann var bara nokkuð myndalegur gamli garpurinn og þrekvaxinn líka, ekki svo slæmur.  Þetta boðaði ekkert annað en góðan dag og myndi ég segja að það hafi gengið eftir.  Ég varð hinsvegar að biðja ungu konuna að sækja kútinn á leikskólann og vera með hann í nótt því ég þurfti að læra eins og vitleysingur í kvöld, en ég sæki hann til hennar snemma í fyrramálið, afslappaður og rólegur.  Helgin er okkar og við kútur ætlum að njóta hennar.  Mér skilst að unglingskúturinn sé líka í fríi en reikna þó með því að hann sé búinn að skipuleggja sig alla helgina.

 

 

 

Í draumum, í hugsun

má hæstu fjöll lækka að vild.

Þar lyfti ég yfir þau fæti mínum

sem lágt þrep.  Auðsótt.

Legg tindajökul undir hæl

og hágöngu sólar.

 

Í draumum , í hugsun.

En heppnast mér að stíga

héðan þar sem ég dvel

út í daginn fyrir utan

hið stutta skref

sem skilur okkur sundur?

 

Þorst.Vald.

 


Engar andlitsfæðingar

     Það var þungur og stirður líkami sem staulaðist fram í morgun langt á undan huganum sem átti að fylgja honum og gjörsamlega eins og  ekið hefði verið yfir hann á flutningabíl með tengivagni.  Rosalega var þetta erfitt, óvenju erfitt og ég sem er yfirleitt svo ferskur á morgnana.  Náði nú samt fram á bað að losa tankinn og reyndi eftir bestu getu að líta ekki í spegil svona rétt til að ég þyrfti ekki á áfallahjálp að halda og til að ég þyrfti ekki að bæta einhverjum geðlyfjum við pensilínið og 100.000 mg verkjalyfin.  Ég er sannfærður um að þessi morgunýlda er lyfjakúrnum að kenna því þetta var óvenju slæmt.  Núna klukkutíma síðar og eftir eina könnu af kaffi ásamt pillum finnst mér ég til í nánast allt nema kannski að koma fram nakinn og þá meina ég nakinn í framan.   Samt voru engar andlitsfæðingar í gær þannig að þetta fer líklega skánandi og þessi hugmynd mín um að ég væri að taka fegurðarkipp féll um sjálfa sig í morgun þegar ég áræddi loks að líta í spegil.  Aðeins móðir mín hefði getað látið út úr sér einhverjar setningar um að ég væri svo fallegur á morgnana  en þó óvíst að læknavísindin væru komin fram með lyf sem gætu valdið þesskonar aukaverkunum.   En nóg um þetta.   Framundan er dagur og ef til vill bara venjulegur og hversdagslegur dagur og óvíst að hann bjóði upp á eitthvað betra en hann gerði í gær.

     Þetta veðurfar er auðvitað fyrir neðan allar hellur og það eru vonbrigði að hafa fyrir mörgum árum yfirgefið Þorpið meðal annars vegna ömurlegrar veðráttu til þess eins að fá þetta í andlitið í Borginni góðu.  Svona veðurfar á einfaldlega ekki heima hérna og er ábyggilega ekki á stefnuskrá borgaryfirvalda.  Ég ætla því að vera einrænn og fúll í dag,  ætla ekki að raka mig, ekkert að brosa og láta aðeins frá mér stuttar setningar sagðar í leiðinlegum tónum.  Semsagt,  vera eins og sannur Þorpsbúi er við ókunnuga og utanbæjarmenn.  Ég finn þó fyrir gleðitilfinningu við þessa ákvörðun en ætla að kæfa hana í fæðingu.

     Kútinn minn yngri hef ég ekki séð síðan á laugardag en þó heyrt í honum tvisvar í síma og í gærkveldi sagði unglingskúturinn mér að hann saknaði svo bróður síns og spurði mig hvort hann yrði í heila viku í burtu.  Við sækjum hann á föstudag svo það styttist í það.

Mæli með lyfjalausum degi ef hægt er og hafið hemil á gleðitöktum því þeir geta verið smitandi.


Fæða barn með andlitinu

     Þetta var nú meiri dagurinn.   Ég er búinn að vera eins og borðtuska með tennur í dag og um leið og ég kom á skrifstofuna í morgun fékk ég að heyra það að ég liti ömurlega út.  Flott veganesti það en síðan versnaði það bara.  Dúndrandi höfuðverkur og bólgið andlit öðrumegin, verkir í augum ofl ofl.  Ég er reyndar búinn að vera með höfuðverk og í slappari kantinum frá því fyrir helgi en ekkert í líkingu við þetta.  Og það versnaði bara.  Ég er lítið fyrir verkjatöflur og fer í vinnu sama hvað á dynur en ég var svo viðþolslaus að ég var að spá í neyðarmóttökunni á tímabili, spauglaust, en ákvað svo að þrauka til fjögur eða þar til opnir tímar væru á heilsugæslunni.  Og..............þá bara lagaðist þetta nánast á mínútunni kl 15:15.  Ég var að spá í að hætta þá við lækninn en mætti samt.  Var skoðaður hátt og lágt,  samt ekki neðar en nafla og hann komst á þá skoðun að ég væri með sýkingu í einhverjum holuræflum í andlitinu.  Hljómar ekki merkilega en ég hef ekki fundið svona til í mörg ár.  Jæja, ég fékk sýklalyf og svo skrifaði hann upp á einhver sterkari verkjalyf og sagði mér að ef þetta skánaði ekki á einni viku skyldi ég koma aftur.  KOMA AFTUR?   Ég kem sko aftur ef ég fer að finna svona rosalega til aftur, það er alveg á hreinu.   Konur fullyrða gjarnan að karlmenn hafi svo lágan sársaukaþröskuld og miðað við það að fæða barn sé þetta og hitt ekki neitt og svo bla bla bla.........það er auðvelt að segja þetta þegar það kemur aldrei til að við fæðum börn en í dag leið mér eins og ég væri að fæða barn með andlitinu.  Það flögraði reynda að mér líka að ég væri kannski bara að fríkka,  væri að taka fegurðarkipp svona eins og vaxtarkippir hjá börnum en það væri of gott til að geta verið satt.  Nóg um það.

     Kosturinn við svona dag er sá eins og ég hef margoft sagt að við notum slæmu dagana til viðmiðunar við þá góðu og njótum þeirra góðu því miklu betur fyrir vikið.  Miða við það gæti verið að ég upplifi mína bestu full............ehhh Blush á morgun, en ég er ekki viss.

Best að fara í pilluboxin.


Gleðin er fífill í garði manns

     Þessi dagur hefur liðið hratt.  Litli kútur kom í heimsókn áðan með ungu konunni til að sækja bleiur og lék hann á alls oddi, greinilega ánægður með bestu mömmu í heimi.  Það er gleðiefni dagsins í bland við tómleikatilfinningu sem einhvern veginn þarf að fylla upp í.   Ís væri bara fylling í klukkutíma eða svo,  svefn bara til morguns, kona bara í fjögur ár og svo dapurleiki í eitt ár. Það er úr vöndu að ráða svo ég ætla mér að leggjast í ljóðabækur og sjá hvað gerist.  Ekki slæmur kostur að verða fullur af ljóðum.  Hér kemur eitt gott.

 

Gleðin er fífill

í garði manns

og ljóð, sem vaknar

á vörum hans-

 

vaknar af leiknum

liðlangan dag,

þegar fífillinn sofnar

um sólarlag.

 

Þorst.Vald.


Grimmar barnsmæður

     Ég fékk mér kaffi með kunningja í gær sem sagði mér farir sínar ekki sléttar.  Ég á nokkrar gamlar bloggfærslur þar sem ég er dálítið grimmur gagnvart barnsmæðrum almennt en þó ekki mínum tveimur enda alltaf talið mig heppinn mann að geta verið einstæður faðir en ekki helgarpabbi.  Ég vona að ég hafi ekki sært neinn með þessum gömlu færslum en inngangspunktarnir voru þó aðallega þeir að konur með forræðið væru grimmari gagnvart barnsfeðrum sínum en karlmenn sem væru með forræðið og hjá þeim útbreidd óafvitandi ósanngirni þar sem réttindi barnsins víkja fyrir duttlungum móðurinnar.  Ég stend nú við þessar fullyrðingar mínar en alhæfi þó alls ekki og gott fyrir foreldra almennt að hugsa um þessi mál.  En inn í þetta aftur.  Kunninginn á kærustu sem hann er búinn að vera með í nokkur ár og fyrir nokkrum mánuðum eignuðust þau lítinn yndislegan dreng sem er auðvitað að heilla þau upp úr skónum.  Allir skilja það.  Fyrir nokkrum dögum komu upp deilur og leiðindi og unnustan fór að heiman og allt í uppnámi.  Þau töluðu saman í síma nokkrum sinnum en náðu ekki sáttum.  Hún tók auðvitað litla drenginn með sér enda enn á brjósti og hið eðlilegasta mál.  Þegar nokkrir dagar voru liðnir og pabbinn farinn að sakana litla hnokkans gríðarlega bjallaði hann í hana og vildi fá að sjá hann.  Allir skilja það líka ekki satt en þá byrjaði það sem mér finnst ótrúlegast af öllu en því miður útskýrir það svo margt í gömlu bloggfærslunum mínum.    Hún spurði hann til hvers...................til hvers.  Vinurinn hváði og varð eiginlega fátt um svör því honum fannst þetta svo afleit spurning.  „Nú auðvitað vegna þess að ég sakna hans,  hvað annað?“     Þá kom „konugrimmdin“ í öllu sínu veldi.   „Heyrðu,  við skulum bara hætta þessu.  Þú tekur bílinn og mátt hirða allt innbúið en ég tek barnið!   Kunninginn var svo hissa að hann vissi ekki hverju hann átti að svara.   Ætlaði hún að nota barnið sem skiptimynnt í sambúðarslitum eins og um hvert annað húsgagn væri að ræða?  Hann elskaði enn þessa konu og var staðráðinn í því að ná henni aftur og halda þessari fjölskyldu saman.   Ég frétti það svo í dag að hún hafi komið heim í gærkveldi og þau ætla að reyna lendingu í þessu öllu og byrja upp á nýtt sem er ekkert annað en yndislegt.

    Spurt er!   Hvaða líkur eru á því að maður hefði sagt þetta við konu og haldið að það myndi ganga? Af hverju halda konur  að þær Eigi börnin eða Eigi meira í þeim en karlmennirnir.   Af hverju fatta þær ekki að við elskum börnin til jafns við þær og af hverju allt þetta tal um móðurást sem þær sjálfar hampa öðru fremur en gleyma því að til er FÖÐURÁST     sem þær geta hvorki metið eða skilgreint hvað þá sett hana undir eða yfir móðurást...........Föðurást þarf ekkert að vera minni en móðurást.  Reynið að skilja það konur og hættið þessum metingi  og eigingirni gagnvart barnsfeðrum ykkar.  Ohhh hvað ég verð argur yfir svona.  Þið fyrirgefið mér samt konur sem eruð ekki svona en ættuð samt að leggja hugann í smá bleyti og íhuga hvaða skoðanir þið hafið og hvernig þetta er í raun og veru hjá ykkur.  Ef til vill bölvið þið barnsföður ykkar í sand og ösku því hann gerir ekki þetta eða hitt, er ómögulegur í þessu eða hinu, svíkur þetta og svíkur hitt og ætti því bara að eiga sig................en eru þetta ekki bara Ykkar kröfur sem hann gengur ekki að og þær ef til vill settar fram í algjörri eigingirni og í algjörum eiginhagsmunum án þess að þarfir og langanir barnsins komi þar nærri svo ég tali nú ekki um þau réttindi barna að fá að umgangast feður sína?

   Nóg í bili.


Enginn kútur

Þá er ég kominn heim í kotið...........einn.   Það fer sko ekki framhjá mér því ég er búinn að ganga um gólf í hálftíma en er nú loksins sestur niður.  Mamma kútsins sótti hann á leikskólann en hringdi hinsvegar í mig í dag og sagði mér að hún væri búin að vera ómöguleg og ekki getað unnið út af grátköstum og þess háttar í nokkra daga.  Ég hvatti hana til að taka kútinn en láta mig strax vita ef hún teldi sig ekki geta sinnt honum og þá myndi ég sækja hann.  Eins væri í góðu lagi að ég væri með hann á kvöldin og nóttunni en hún gæti sótt hann til mín á daginn.  Þetta kemur í ljós en ég vil þótt ég sakni hans að hann fái notið samvista við móður sína til jafns við mig því það er honum fyrir bestu.

Unglingskúturinn æddi hérna inn áðan, stökk í 15 sekúndna sturtu, klæddi sig og á leiðinni út aftur hrópaði hann upp stigann,  „hvar er kúturinn?“  Þegar ég svaraði því heyrði ég „ohh“  rétt áður en útidyrahurðinni var skellt og bíll félaganna spólaði af stað hérna fyrir utan.    

Ég er að hugsa um að henda mér í sturtu og leggjast svo upp í sófa og lesa jafnvel blogg frekar en ekki.  Ætli ég panti mér svo ekki bara mat?  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband