Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007
30.11.2007 | 19:07
Ei skaltu stormur stæra þig
Mér fannst þetta eiga eitthvað svo vel við í dag svo ég fletti upp á því áðan þegar ég kom heim.
Ei skaltu stormur stæra þig,
því stráið, sem þú braust
var allra jarðar-grasa grennst
á grund, og varnarlaust.
Og burt var sumar-safi þess
og sveigja, undir haust.
Það hafði barist vinda við
og vorkul nætur svalt.
Þó skini sólin sterkt á storð,
varð stundum nokkur kalt.
En lífið á þann leyndardóm
og líkn-að þola allt.
Þú hverfur, eyðist. Enginn man
þín áhlaup grimm og skjót.
En grasið rís úr gröf á ný
og grær á sinni rót.
Það stemmir enginn stigu þess,
sem stefnir himni mót.
K.Djúp
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.11.2007 | 11:18
Sami dagurinn?
Nýr dagur og nýjar vonir. Ef til vill er þetta dagurinn...................dagur efnda. Kúturinn fer til mömmu sinnar í dag svo þetta gæti orðið dagur saknaðar eða dagur biðar. Tæplega verður þetta dagur hryggða því hún hefur verið fjærri mér undanfarði og þar af leiðandi verður þetta ekki dagur depurðar því þær vinkonur haldast gjarnan í hendur. Dagur ótta verður þetta ekki því hvað ætti ég að óttast og ekki sé ég fyrir mér dag skelfingar þótt vafalaust sé hann það einhversstaðar. Dagur mæðu verður þetta ekki og dagur böls varla heldur því böl hefur verður blessunarlega fjærri mér alla tíð, og dag erfiðleika óttast ég ekki. Í erfiðleikum hefur hinn þriðji óslítanlegi þráður haldið tilverunni í samhengi og reikna ég með því að svo verði áfram. Varla dagur dulúðar því flestir hlutir eru ljósir eða hafa verið gerðir það. Dagur væntinga verður þetta ekki því hvers ætti ég að vænta á degi eins og þessum?
Getur verið að þetta séu alltaf sömu vonirnar og þá spyr maður sig hvort verið geti að þetta sé alltaf sami dagurinn!
Við feðgar eldri göngum vængbrotnir inn í þessa helgi eins og fleiri en Ég valdi það og stend við það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.11.2007 | 21:40
Loforð fuku
Þá er ég loksins kominn heim, og þvílík sæla. Það er ekki slæmt að koma heim eftir að unglingurinn hafði verið einn heima í nærri tvo sólarhringa og íbúðin fullkomin. Það féll niður flug í þorpið í allan dag og ég tók þá ákvörðun nógu snemma að bíða ekki heldur leigja mér bíl og bruna heim. Brjálað rok, geðveik hálka en það var ljúft. Vera á leiðinni heim og geta talað við sjálfan sig og almættið í rúma sex klukkutíma. Ekki slæmt það og niðurstaða fékkst, loforð fuku og staðfestingar einnig. Getur verið að skugga framtíðar hafi brugðið fyrir?
Kom á hárréttum tíma í bæinn til að sækja kútinn minn í leikskólann og hann hljóp upp um hálsinn á mér og bablaði á kútísku heilu setningarnar en ég náði bara orðunum pabbi og bói. Fórum því næst að sækja stóra bróður sem vildi fara beint að borða og versla því hann sagðist ekkert hafa borðað frá því ég fór. Fengum okkur taco og versluðum svo í ísskápinn.
Nú er kúturinn sofnaður, unglingurinn horfinn á öldur veraldarvefsins og ég gamli maðurinn sestur inn í eldhús, búinn að deyfa ljósin, kanilkaffi á leiðinni og vantar ekkert nema þá kaffifélaga........ Tók með mér úr búðinni áðan vænan blómvönd svona til að hressa upp á eldhúsið og piparkökur en ég er ekki frá því að kaffi og kanillyktin eigi vinninginn. Úr hátölurunum hljómar ljúf sinfónía og því getur þetta varla verið betra, eða hvað?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.11.2007 | 21:38
Ég fékk sting í hjartað
Það gerðist svolítið óvænt í lífi mínu í dag. Og eiginlega í fyrsta skipti á ævinni, svo ég muni þótt gleyminn sé. Ég, heimalningurinn, kútapabbinn, eldhúsborðslyddan, ljóðalestursrottan og bloggpissudúkkan veðurtepptur úti á landi. Þvílíkt áfall. Ég fékk sms frá flugfélaginu um að öllu flugi frá þorpinu hefði verið aflýst og það ætti að athuga með það í fyrramálið. Ég fékk sting í hjartað og fór yfir allar flóttaleiðir í huganum en vegna myrkurs og roks er skynsamlegast að halda kyrru fyrir og taka stöðuna í fyrramálið. Þetta átti að vera dagsferð og ég ætlaði að vera kominn snemma til baka, ná í kútinn á leikskólann og eiga fallegt kvöld heima, hlustandi á bassadynki úr unglingaherberginu, svefnhljóð og stöku babbi dekka úr svefnherberginu og lesa ljóð við eldhúsborðið. Sötra kaffi og hugsa. Í staðinn enda ég einn á hótelherbergi, einmana, með heimþrá og skil ekkert í því að ekki skuli vera lestasamgöngur um allt Ísland, nú eða kafbátaáætlunarferðir. Ef ekki verður flogið í fyrramálið stekk ég upp í bílaleigubíl og keyri suður. Það er alveg á hreinu. Heim ætla ég á morgun. Ég bað móðurina um að sækja kútinn en unglingurinn er einn heima og hugur minn er hjá honum. Hann kann ekki heldur við þetta því við erum búnir að heyrast nokkrum sinnum frá kl 17 en við erum eitthvað svo háðir hvor öðrum og báðir þannig að heima hjá okkur viljum við vera. Hvað á ég að gera?
Það sýnir einfaldleikann í geði, fasi og lífi mínu að ekki þurfi meira en þetta til að raska því en þetta á fyrst og fremst við um það að vera heima og sofa heima. Heima er þó bara þar sem ég og synir mínir megum næðis njóta og getum hvílst og endurnærst. Einhver sagði að heima væri bara þar sem dótið manns væri og það getur vel verið rétt. Ég elska heima . Blessaður sé hversdagsleikinnBloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.11.2007 | 12:17
Skuggi framtíðar
Viðfangsefni mitt í dag gæti verið það að finna skugga framtíðar. Ég stend mig iðulega og oft að því að láta skugga fortíðar væflast um sálarfylgsni mín í gremju og depurð yfir því að hafa brugðist svona og hinsegin við hinu og þessu, ekki gert hlutina af sannfæringu eða ekki lagt í þá alla þá alúð og þolinmæði sem til var ætlast af mér. Þetta gerir það að verkum að þrátt fyrir ágætis daga liggur þetta alltaf rétt undir yfirborði sálarinnar tilbúið að rísa upp og minna á sig við margvísleg tækifæri. Á sumum stundum þótti mér þetta hið mesta skrímsli en kom á það böndum og gat með því einu að brosa og klappa því á kollinn haldið því undir yfirborðinu án vandkvæða. Síðustu mánuði hefur það risið hærra en venjulega og ég jafnvel ekki nennt að amast við því, leyft því að koma upp og æpa á mig því margt af því sem heyrist þar og ef til vill allt, er alveg rétt. Ég veit hins vegar að sá dagur kemur að það verður barið niður og jafnvel kafkeyrt dýpra en það hefur nokkru sinni farið en þetta er aðeins spurning um tíma.
Við tölum oft um skugga í voveiflegu samhengi tengdu ótta og getum varla ímyndað okkur hvað í þeim leynist en gleymum því að skuggar eru líka kærkomnir og verða oft uppspretta leikja lítilla kúta. Þeir elta þá, reyna að ná þeim og skilja ekkert í þessum furðulegu fyrirbærum sem eru svo nálægt þeim, herma eftir þeim í öllu, fylgja þeim eftir en leggja svo á flótta ef reynt er að nálgast þá. Í sjóðheitri veröld verða skuggarnir að sælureitum þar sem þeir jafnvel verða eini griðastaður nálægðarinnar og veita þreyttum og sveittum þann svala sem þarf til að endurnærast og búa sig undir að takast á við næstu áskoranir eða komandi verkefni. Þannig virðast skuggar hafa tvær hliðar og kannski fleiri úr því þeir líkna og leika, endurnæra og gleðja, ásamt því að valda ótta og skelfingu því fáir vita hvað í skuggunum leynist eða hvað?
Skuggi framtíðar er mér hinsvegar algjörlega hulinn og því leita ég hans. Ég hélt fyrst þegar ég heyrði um hann að hann væri ekki til og síðan að þetta væri slæmt fyrirbæri en tel núna að hann sé ef til vill til og sé góður, jafnvel eftirsóknaverður. Getur verið að hann eigi eftir að gleðja mig og kæta, faðma mig og strjúka, líkna mér og hjúkra? Verður hann kannski eina athvarf mitt og eina skjól mitt? Verður hann kútunum mínum góður? Á ég eftir að þrá hann og leita til hans öllum stundum, Jafnvel elskast með honum? Verður hann alltaf nálægt mér og fylgir mér eftir í blíðu og stríðu? Verður hann vinur minn? Eða verður hann beiskari en allt sem ég áður hef kynnst? Undir niðri finnst mér eins og ég leggi þessar línur sjálfur, og skapi mér minn eigin skugga.
Segir ekki máltækið Hver er síns skugga smiður , eða var það ekki þannig? Við skulum allavega velta upp þessari hugmynd og þessum möguleika að hann sé skapaður af okkur í nútíð frekar en fortíð og þá höfum við þetta algjörlega í okkar höndum...........
Júdas er samt ekki alveg viss.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.11.2007 | 22:16
Ljóðabækur í poka
Þessi dagur á enda. Furðulegheitin fjöruðu hægt og sígandi út og ég endaði í Elkó til að kaupa þvottavél handa kútnum og mömmu hans. Sótti svo kútinn á leikskólann og við fórum saman á bókasafnið í Tryggvagötu. Hann var nú ekki alveg á því að vera rólegur og spakur því það var svo margt annað að skoða en bækur svo við röltum út um allt og skoðuðum. Nokkrar ljóðabækur enduðu þó í poka og gerður samningur um það að næsta ferð yrði eingöngu farin í barnabókadeildina. Þegar heim var komið tók á móti okkur hreingerningalykt því unglingurinn hafði þrifið gólfin, þurrkað af og hent í þvottavélar svo við ákváðum að panta okkur mat. Litli kútur er búinn að vera svo ærslafenginn síðustu daga að í gærkveldi og nú í kvöld var farið í rúmið klukkan hálf átta og vinurinn farinn á flakk með Óla lokbrá fyrir átta. Þá var bara eftir að brjóta saman þvottinn en ég mæli með því að upp verði tekin mælieiningin rimlarúm yfir magn af þvotti því þangað er honum hellt og þetta var einmitt eitt rimlarúm af þvotti sem ég braut saman. Það er ábyggilega margt verra til en það að brjóta saman þvott þótt ég muni ekki eftir neinu í augnablikinu en þetta er bara í boði hússins og það væri helber dónaskapur að taka ekki slíku boði. Kvöldinu verður svo eitt í ljóðalestur, kaffidrykkju, vangaveltur og bið. Bið eftir hverju?
Við biðum, við biðum
og brjóst okkar titruðu
í ögrandi þögn.
Eftir örstutta stund
skal það ske.
Eins og kristalstær goðsögn
mun það koma
og fylla líf okkar
óþekktri angan.
við biðum, við biðum
og að baki okkar reis
einhver hlæjandi ófreskja
og hrópaði:
Aldrei!
Það skeður aldrei!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.11.2007 | 11:36
Ég átti samtal við Guð
Þetta er einn af þessum dögum sem ég skil ekki. Allt gengur sinn vana gang í morgunsárið þar til ég keyri af stað í vinnuna, þá er eins og ég fyllist tómleika sem engan enda ætlar að taka. Þegar ég segi þetta upphátt er þetta kunnuglegt og ég hef heyrt þetta áður? Ekki ólíklegt en það er líka ekkert ólíklegt að þessi tómleiki sé í hjörtum margra en þeir eru bara ekki sérmerktir eins og þeir ættu að vera. Jólaundirbúningurinn fer að fara af stað en um mánaðarmótin ætti maður að hella sér í þetta. Ég veit ekki hvort það verður þannig núna. Kannski maður ætti að draga þetta fram desember því það dreifir ábyggilega huganum en ef allt væri nú tilbúið of snemma verður of mikill tími til að hugsa.
Ég átti samtal við Guð, um daginn og veginn, dagana og vegina sem í ónefndri bók voru bara tveir en mér hefur einhvernvegin tekist að gera slóðirnar fleiri og það var einmitt það sem ég vildi ræða við hann. Hann þagði en ég talaði, afsakaði þetta og afsakaði hitt en hann þagði. Ég sagði í spaugi eða hugsaði ég það........að ef til vill hefði ég átt að vera farþeginn og hann við stýrið en eftir að hafa hlegið svolítið með sjálfum mér held ég að ég hafi hitt naglann á höfuðið. Hver veit? Mér skilst að þú sért þolinmóður, heyrt það eða lesið, en það þarf nú gott betur en það við mig. Getur það verið að miðjubarna-syndrumið hafi stjórnað þessu eða röð af einhverjum atburðum, en þegar ég lít til baka var aldrei nein röð af neinu. Ég valdi og ætlaði að standa við það. Ég valdi en stóð ekki við það. Ég valdi..........en valdi aftur. Eða valdi alltaf einhver fyrir mig? Hvað má maður gera oft í svona spili?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.11.2007 | 23:43
Og falin sorg mín
Frá vitund minni
til vara þinna
er veglaust haf.
En draumur minn glóði
í dulkvikri báru,
meðan djúpið svaf.
Og falin sorg mín
nær fundi þínum
eins og firðblátt haf.
Góða nótt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.11.2007 | 07:54
Íþróttamaður í fjölskyldunni?
Það var kalt þegar ég kom fram í morgun, búinn að heyra í vindinum úti í klukkutíma eða svo og því var hrollur í mér. Ég fór varlega framúr, setti á könnuna og hafragraut í pottinn áður en ég stökk í sturtu. Það var galsi í kútnum í gærkveldi svo ég vonaði að hann gæti sofið lengur. Það voru allar aðferðir reyndar til að koma honum niður en við enduðum uppi í sófa þar sem hann setti án efa íslandsmet í 400 metra brölti í 6 sæta hornsófa bæði með og án atrenu sem verður að teljast nokkuð gott. Pabbi hans og bróðir voru jú ekki atkvæðamiklir í íþóttum hér áður svo þarna var ef til vill komin ljósglæta íþóttamannsins í fjölskyldunni. Ég settist með kaffibollann en ég þarf alltaf að hita mig aðeins upp áður en ég fer í hafragrautinn, kveikti á tölvunni og handlék morgunblöðin. Nokkru síðar vakti ég unglinginn og ekki löngu seinna barst neyðarhróp úr svefnherberginu þar sem konungsborinn kúturinn vildi láta sækja sig og halda á sér fram. Ég er ótrúlega lunkinn við að vafra um fréttavefina, fletta dagblöðum, borða hafragraut og drekka kaffi með kútinn hangandi utan á mér en líklega telst það ekki til sérstöðu svo þar bankar meðalmennskan tíðrædda upp á. Það stefnir í fallegan dag þótt ég viti ekkert um veður annað en vinda svo er á meðan er.
Eigið góðan dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.11.2007 | 10:57
Dagur vonar
Ég fann fyrir hræðslu í gærkveldi. Hræðslu einsemdar og brostinna vona. Ég velti því fyrir mér því ég hef alla tíð verð þakklátur maður og gert mér vel grein fyrir heilbrigði og alsnægtum mínum og minna nánustu, hvort það væri því verði goldið á vogaskálum lífsins að ég skuli vera einn síðustu áratugi lífs míns. Það fór um mig hrollur og yfir mig kom nístandi hræðslutilfinning þrátt fyrir sumar stundir þar sem þráhyggja einsemdar lýgur yfir sig dýrðarljóma sem aðeins er tálsýn uppgjafar og reynir hvað hún getur að skemma það sem okkur var gefið í upphafi þau skulu vera eitt. Einsemd og Uppgjöf haldast því í hendur og við ættum að forðast þær systur. Að vakna saman, vera saman, borða saman, brosa saman, búa saman, plana saman, hryggjast saman, sættast saman, búa að hreiðri saman, njótast saman, sofna saman, sofa saman, dreyma saman, það er eina rétta. Því ástin er ekki bara það að horfast í augu heldur horfa saman fram á veginn og betur sjá tveir en einn.
Ég man eftir Orðum á þá leið að sá sem sífellt gáir að vindum, sáir ekki og sá sem sífellt horfir á skýin, uppsker ekki. Og túlki svo hver sem vill. Er verið að tala um hræðsluna sem tefur för okkar til sæluríkrar framtíðar eða er verið að tala um draumaheima sem seðja okkur um stundarsakir en koma í veg fyrir áþreifanlegar gleðistundir? Það má enginn efast um börnin í þessu. Gleðin og hamingjan sem þeim fylgir verður hvorki lýst með orðum, sögðum eða rituðum. En þau koma þó aldrei í staðin fyrir maka enda var þeim það aldrei ætlað.
Það er fallegur dagur framundan, dagur vonar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Júdas
Eldri færslur
Færsluflokkar
Bloggvinir
- tilfinningar
- tolliagustar
- lindalea
- kisabella
- siggasin
- saxi
- svavaralfred
- ein
- gisgis
- totally
- mofi
- vilborgo
- rebby
- scorpio
- gurrihar
- erla1001
- stormsker
- aslaugh
- jensgud
- eggmann
- blossom
- gretaulfs
- limran
- malacai
- arabina
- toshiki
- gurkan
- gelin
- asarich
- kona
- neytendatalsmadur
- myndamen
- brandarar
- little-miss-silly
- rose
- hebron
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar