Færsluflokkur: Ljóð

Ég beið hennar án afláts

     Ég náði loksins að sofa til kl 8:00 og hvílík sæla.  Ég hef verið að vakna á bilinu 5-6 síðustu þrjár vikur og svei mér þá ef það er ekki bara lengri tími.  Það er engin ástæða til að nefna það í þessu samhengi að kúturinn er búinn að senda mig tvisvar fram í eldhús í nótt eftir mjólk en ég finn það að svefn var eitthvað sem ég þurfti. 

     Hann er búinn að vera svo yndislegur litli kúturinn, orðaforðinn æðir upp og  koppurinn að verða daglegt mál þótt bleian sé enn ráðandi.  Hann sofnaði inni í sófa í gær og við eldri kútur lágum hjá honum og dáðumst að þessari litlu veru sem umlaði upp úr svefni og hefur fært svo mikla gleði inn í líf okkar að það verður aldrei hægt að meta.  Aldurinn á milli þeirra bræðra er auðvitað mjög mikill og því metur sá eldri þetta svo mjög í líkingu við mig.

     Það var furðuleg tilfinning að koma heim úr vinnu á föstudag og vera kominn í sumarfrí og dagurinn búinn að vera mjög annasamur þar sem mér fannst ég þurfa að klára svo mikið og segja mönnum svo margt áður en ég færi í þetta tveggja vikna frí.  Tvær til þrjár vikur ætla ég svo að taka seinna í sumar annaðhvort í samfellt eða í hlutum en það verður tekin ákvörðun um það í samráði við aðra.  Á þessum tíma í fyrra fannst mér sumarfrí ekki koma til greina og vera tilgangslaust, orðinn einstakur og engin kona í spilinu.  Ég man ekki nákvæmlega hvenær en finnst eins og það hafi verð fljótlega eftir páska eða snemma vors.  Vorið var því ekki eins bjart og fallegt og mér finnst það núna og þótt ég hafi verið sá sem tók ákvörðunina og slitin í ljósi aðstæðna sem ég hef áður bloggað um var það eins og drungalegur draumur sem ég hafði ekki reiknað með fyrr en mörgum árum seinna.  En ég trúði því samt að það yrði!  Ung kona og gamall maður geta aðeins átt samleið um stund eða það taldi ég en sú unga trúir því enn að hún hafi átt að fylgja mér allt til enda.  Guð einn veit.

     Rúmt ár og ég held svei mér þá að einveran með kútunum sé komin til að vera og ég óska þess að sú Unga megi finna sér sálufélaga til framtíðar.  Við eldri feðgar vorum að hjálpa henni í búslóðarflutningum í vikunni og þar var einnig myndarlegur ungur maður sem hún hefur nefnt nokkrum sinnum sem vin sinn.  Mjög ljúfur og þægilegur, hjartahlýr og myndarlegur og raunar sá eini í vinahópnum hennar sem gat hjálpað henni í þessum flutningum auðvitað fyrir utan okkur kútafeðga.  Það var greinilegt að félaginn var hrifinn af henni og ég nefndi það við hana daginn eftir þegar ég heyrði í henni að mér hafi líkað vel við hann, hvað standi í veginum fyrir meir vináttu?  „Hann er bara ekki nógu þroskaður og tja, gamall held ég „   sagði hún og við hlógum af þessu.  Hún er góð ung kona í einhverskonar viðjum sem ef til vill er skólabókardæmi um eitthvað sem menn fella snemmbúna dóma yfir og þá helst miðaldra konur en á sér miklu dýpri rætur og því ættu menn og miðaldra konur að spara orðin og dómana yfir málum sem þessum.

 

     Það styttist í ferð okkar feðga, sólarhringur til stefnu og spennan mikil.  Hvað bíður okkur vitum við ekki, farið verður víða en ég hlakka ekki síst til ljúfra værðarstunda fallegra kvölda þar sem við sitjum einir og spjöllum, tökum í spil og njótum nærveru hvors annars.  Nokkrar ljóðabækur verða teknar með og einnig verður bloggað af og til.

 

     Tólf ára drengur hugsaði sig um í nokkra daga fyrir nokkrum áratugum skilst mér og sagði svo já sem breytti lífi hans til framtíðar.  Það eru litlu orðin sem vega svo þungt en ekki langar ræður og orðaflaumur, málskrúð og orðaglamur.  Loforð eru léttvæg og svikin handan við hornið.   Vöndum okkur,  því smátt getur vegið svo þungt.  Kannski bíður þín blessun?

 

 

Ég bað um blessun

og beið hennar án afláts

uns mér kom í hug

 

Hversu duldir eru vegir þínir

og miðaðir við eilífðina

 

og blessun þín

sú er mig síst varir

vísast löngu fallin mér í skaut.

 

Þóra Jónsdóttir

 

Njótið sumarsins.


Hver er Júdas

     Hafi ég sest niður andlaus til að skrifa þá er það í dag.  Frosinn í hlutlausum og líklega ofurþreyttur og sjaldan argari við sjálfan mig en einmitt núna.  Ég velti því samt fyrir mér í hvaða línu ég verð sáttari við mig því við Júdas erum farnir að þekkjast svo vel.  Þið vitið það kannski ekki en við erum búnir að þekkjast í vel á annan áratug en reyndar á öðrum vettvangi rafræns heims.  Þar fyrir utan reikna ég með því að hann hafi fylgt mér alla tíð en bara ekki verið greindur.  Ég get því ekki hatað hann en þreyttur verð ég á honum reglulega. Ég er orðinn vanur honum og vafalaust er hann orðinn vanur mér.  Við erum sem sagt orðnir vinir eða bræður í vananum sem margir gætu haldið að væri leiðigjarn, það er að segja vaninn og það er hann vissulega á köflum en hann eldist vel og talsvert betur en ég.  Mér þykir vænt um Júdas sem auðvitað er aðeins tákngervingur þess mannlega í mér og túlkar þessa tilhneigingu til að víkja út af beinu brautinni í hlutum sem mörgum fyndist vafalaust ekki skipta neinu máli því ekki er ég í vímuefnum, áfengi, reykingum eða spilafíkn hvað þá afbrotum en það verður hver að dæma fyrir sig með það hvað hægt er að flokka undir svik við sjálfan sig.  Þar kem Júdas sterkur inn!

 

 

Þegar maðurinn hefur lengi

verið þræll vanans

hættir hann að einkennast

af vana sínum

þess í stað fer vaninn að bera

ofurlítil persónueinkenni.

 

Vaninn hefur það umfram mig

að hann eldist vel

og nýtur því meiri virðingar

sem hann verður steinrunnari.

 Ólafur Haukur

 

     Dagurinn fer fallegur af stað.  Kúturinn hjá móður sinni, Ungu konunni og því svífur andi tómleika og tilgangsleysis yfir vötnum.  Eldri kúturinn kastaði sér í sófann hjá mér í gærkveldi og sagðist sakna litla kútsins.  Svo lágum við þegjandi í sófanum í svolitla stund uns hann rauf þögnina og sagði mér að ef ég félli frá myndi hann taka kútinn aðra hverja viku áfram því hann elskaði hann svo mikið.  Ég hef nú ábyggilega sagt frá þessu áður því hann hefur sagt þetta áður og jafnvel nokkrum sinnum.  Við féllumst í faðma og til að halda coolinu hvíslaði hann að mér að ég væri samt ræfill og að hann myndi selja mig á ebay til einhverrar háskólarannsóknarstofu ef ég vogaði mér að hrökkva upp af.  En hver veit!

     Nú er vika til ferðarinnar ef allt gengur upp og þá verður tíminn afstæður.  Fegurðin ræður ríkjum og við eldri feðgar hverfum á vit ævintýra og upplifana.  Værðin verður með í för en Júdas líklega skilinn eftir heima og væri það þá í fyrsta skipti.

 

Nóg komið í dag en greinilegt að það lengist á milli pistlanna í sumarönnum en ljóst að nauðsynlegt er að koma annað slagið upp til að anda.

 

Kæru vinir, njótið daganna!

 


Gjöf sem ei sér til gjalda

        Endalaus fegurð blasti við mér þegar ég leit út um gluggann í morgun.  Rigning hafði í nótt lagt glitrandi dropa yfir allt og værðin í umhverfinu leyndi sér ekki eitt augnablik.  Gróðurinn mettur og trén líklega sofandi eftir svo góða næringu.  Það er eins og hugur minn og sál verði líka mett við það eitt að sjá þetta eins og ég hef svo oft talað um.    Þvílík gjöf frá almættinu.

Ég vil gefa þér gjöf

sem ekki þyngir

Hugsjón minningu kærleika

gjöf sem ei sér til gjalda

 

Þú segir mér

að gjöf sjái æ til gjalda

Vöxtur

Smátré

vaxa í garðinum

 

Í kyrrþey

bætast við árhringir

utan á stofninn

 

Ef þau lánast

verða allar árstíðir grænar.

Þóra Jónsd.

    

      Kúturinn kom til okkar hinna í gær og tvær eldbakaðar á eldhúsborðinu nokkrum tímum seinna við hlátrasköll og leikræna tilburði, hurfu á rúmum hálftíma.  Við eigum að vera sameinaðir það er greinilegt og ekki lengra síðan en í gær að eldri kúturinn spurði um þann litla og var farinn að sakna hans.  Þá voru samt ekki nema tveir dagar frá því hann kom með mömmu sinni í kaffi til okkar.  Sá eldri minntist líka á það hvort við ættum ekki að fara bara þrír í þetta tveggja vikna ferðalag en þetta verður svo mikil útilega að það væri ekki ráðlegt og svo veitir okkur eldri kútunum ekki af því að fara saman út í heim á vit ævintýra og  falinna fjársjóða.

     Dagurinn er óráðinn að mestu, engin garðvinna og ekki hægt að mála grindverkið, allt þvegið og brotið saman og eldri kúturinn ryksugaði, skúraði og þurrkaði af í gær.   Húsdýragarðurinn, bókasafn, kolaportið....................... ? 

Það verða spor víða í dag!

 

Mér finnst rigningin góð.


Er vegurinn hér?

     Kominn á fætur og á leið út í regnið.  Hugsanir héldu fyrir mér vöku og þögnin í lífvana íbúðinni minnti mig á hjarta mitt.   Allir hlutir á sínum stað, gólfin hrein en allt svo tómlegt.  Ekki vanlíðan en ekki heldur vellíðan.  Ég er samt ekki viss um það.   Ég reikna með að hún komi þegar regnið fellur á mig.  

     Ég þarf að sinna nokkrum erindum í dag og fara á æfingu.  Síðan heldur leitin áfram að veginum en gæti það hugsast að ég sjái hann bara þegar ég lít til baka?  Ég leggi hann jafnóðum og ég geng hann!  Ég ætla að hugsa þetta í dag því ég hallast á þetta. 

 

 

 

Er vegurinn hér?

Þú svarar:

Þinn vegur er ekki hér.

 

Er vegurinn þar?

Þú svarar:

Enginn vegur er þar.

 

Og ég spyr:  En hvar?

Þú svarar:

Þinn vegur var.

 

Sigríður Einars

 

Njótið dagsins


Og myrkrið hefur fundið nóttina

     Ég sit í sófanum með kútinn sofandi við hliðina á mér.  Einhver mynd um eitthvert fólk.  Hann gamall, hún ung.  Kunnuglegt?  Það gengur samt ekki upp.  Hún fallegt og í blóma lífsins.  Hann gamall og komið fram á haust.  Fólk að faðmast. Fólk að elskast.  Hann hafði víst haldið henni í fjarlægð til að hann saknaði hennar ekki þegar leiðir skildu en gáði ekki að því að þess vegna skildu leiðir.  Hún fann það, hann var hræddur.  Ég lít upp og hlusta!  Þögn í húsinu.

      Ég sakna þess að finna aldrei óvæntan kaffiilm og sakna þess að einhver hvísli að mér eða færi mér kaffibolla.  Ég sakna þess að horfa og dást, sakna ilmsins og fegurðarinnar.  Ég sakna atlota og blíðu.   Ég hef sagt þetta allt áður og það er farið að pirra mig.   Ætli ég verði ekki bara að dunda mér úti á lóð í sumar.  Það gerist hvort eð er ekkert þótt ég bíði. 

     Ég er að spá í utanferð í sumar og velti því fyrir mér núna hvort ég fari ekki bara einn.  Það er annaðhvort að fara einn eða þá að fara ekki neitt. 

     Ég finn til depurðar en kannski er ég bara þreyttur.  Ég ætla á æfingu á morgun með kútinn og síðan verðum við líklegast bara úti á lóð nú eða hjólum um Laugardalinn.

 

Hvar er hún sem hjarta mitt þráir?  Ég bið bara um einfaldan hversdagsleika!

 

Eftir starf dagsins

kemur þú,

hljóðlát og björt,

með sólskin í hárinu.

Andartak ljómar bros þitt

og rómur þinn kitlar hjarta mitt:

Fallegt kvöld!

Úti er regn og vindur,

en sól skín á kollinn þinn

og himinn augna þinna er blár.

 

Ég leita til þín,

eins og myrkrið leitar næturinnar

og ljósið dagsins.

Við sitjum saman,

hönd mín snertir þig,

sólskinshár við öxl mína,

hálflokuð augu,

lítið bros á vörum þínum

og allt er harla gott.

 

Svo einföld er hamingjan:

blátt tillit,

bros á rauðum vörum,

angan úr gulum kolli.

Og myrkrið hefur fundið nóttina,

ljósið daginn.

 

Kristmann Guðm.


Litla stúlkan

 Það sem einn sér er öðrum hulið.  Það sem hrópar á einn, hvíslar á annan.   

Stundum sjáum við og stundum heyrum við en látum það ekki trufla.

 

Það var einu sinni hvítt ský

á bláum himni

og lítil stúlka lyfti örmum sínum

til að faðma það.

Gleði, sagði hún, komdu!

 

En gleðin kom ekki.

Og þegar kvöldaði

voru augun hennar tárablá

 

Kristmann Guðm.

 

Örvænting er ávallt sár.

Alfaðir hinn mildi,

lát þú hennar heitu tár

höfð í dýru gildi.

 

Jakob Thor

 

Láttu ekki hugfallast!


Í hvora áttina á ég að ganga?

     Þetta eru þöglir dagar.  Kúturinn hjá Ungu konunni og sá eldri lítið heima.  Ég dormaði í sófanum í gærkveldi, einn en velti því fyrir mér hvort mér liði vel eða venjulega!  „Illa“ er ekki inni í myndinni en eftir að leið á kvöldið komst ég að þeirri niðurstöðu að mér liði bara vel en væri að bíða.  Ég horfið á sjónvarpið en hugurinn var þó annarsstaðar.  Tvær ljóðabækur lágu við hliðina á mér en þær freistuðu mín ekki.  Það er ljóst að ég þarf á bókasafnið í dag til að finna einhverjar bækur sem brúa þetta bil sem ég er við, á milli þess að fjalla um depurð og gleði.  Ég fann það mjög heitt í gær að biðin sem ég hef bloggað um er líklega biðin eftir sjálfum mér.  Þið voruð kannski búin að sjá það út fyrir löngu en í gærkveldi varð mér þetta svo ljóst.  Ég gæti gengið í kringum þetta „vatn“ því ef til vill var það ísinn sem alltaf gaf sig!   Spurningin er jafnvel hvort ég á að setjast niður og bíða í von um að einhver finni mig á undan mér.  Er það hægt?  Hugsunin um það hvað ég gæti sært margar áður en ég fyndi mig gerir það þó að verkum að ég hallast á það að setjast niður og bíða en óttinn við það að vita ekki hvað sú bið verður löng veldur mér pínu lítilli óværð.  En bara pínu lítilli. 

Ég væri til í rigningu, tómlegt kaffihús, lítið kerti, blauta glugga og dempuð hljóð.  Fallegt bros myndi ég samt þiggja en borgar það sig?

 

 

 

Land drauma þinna er hinum megin við vatnið.

Langa, sólríka bernskudaga

starðirðu þangað

uns augu þín urðu þreytt

og sólin vara gengin til viðar.

 

Í svefnrofunum

sagðistu einhvern tíma ætla þangað.

 

Skemmsta leiðin liggur kringum vatnið

en þú veist ekki

í hvora áttina þú átt að ganga.

 

Nú er vatnið á ís

en farðu varlega

--farðu varlega

því ísinn er veikur.

 

Hjörtur Pálsson


Þá gæti "alltaf" orðið að veruleika

 

Seint um kvöld rís nóttin upp úr gjánni

neðst í dalnum, tygjar sig til ferðar:

dustar myrkurpilsin, hnýtir dimma

hyrnu um axlir, kveinkar sér og felur

inni á barmi brunasára fingur

og stikar svo af stað

 

með gusti nokkrum, þrammar upp með ánni

til að inna þunga skyldu af höndum,

með djúpa skugga í augum, myrkar brúni

og hrafnsvart hár í síðum, þungum fléttum,

og dregur yfir vötn og kjarr og engi

dimman slóða,

 

ein og þögul, stefnir upp til fjalla,

þar sem loga sólskinsbál á tindum,

og kæfir eldinn hvern á fætur öðrum,

beygir sig og dýfir sviðnum höndum

á kaf í sindrið, réttir úr sér , eys

hnefafylli af stjörnum út  í geiminn.

 

Jón Dan

 

 

   Við sofnuðum allir kútarnir snemma í kvöld en sá gamli hrökk upp aftur enda ólokið nokkrum verkefnum.  Ég sit við eldhúsborðið og gat ekki stillt mig um að hella upp á eins og eina könnu og tók mér ljóðabók í hönd.  Hún virkar einmana nóttin, að minnsta kosti í þessu ljóði Jóns Dan og þannig er mér innanbrjóst þótt því fylgi ekki sá sársauki sem nísti mig inn að beini á dimmum liðnum vetri. 

     Nú er það bara einmanaleiki eða söknuður eftir einhverju sem ég vil þó bara njóta um stund, einmanaleikastund, eða hvað?  Orðið „alltaf“ er ekki trúverðugt og öllum slíkum væntingum ýtt til hliðar og framaf.  Orðið „stundum“ vekur von og litla drauma sem enn eru þó of fjarlægir til að njóta megi þeirra utan drauma.   En þegar Nóttin leggur svörtu hyrnunni fyrir þá gráu gætu dagur og nótt mæst með mjúka vanga væntinga og tíminn tekið völdin.  Þá gæti „alltaf“ orðið að veruleika!

 

Góða nótt!

 


Við nafnleysingjar erum líka fólk!

     Ég velti því fyrir mér áður en ég byrjaði að skrifa hvernig ég ætti að byrja.  Ekki óalgengt en ef ég hugsaði mig ekki um myndu allir pistlarnir byrja eins.  „Enn einn yndislegi dagurinn runninn upp!“  Þeir geta ekki allir byrjað eins svo ég ætla að geyma þessa byrjun þar til síðar.  Ljóðin hafa bjargað þessu því gjarnan tengi  ég pistlana við ljóð eða öfugt; hugrenningarnar koma fyrst síðan pistillinn og þá ljóðin.   Stundum bara hálfur pistill og þá kemur ljóðlína upp í huga minn og þá hefst leitin að því ljóði sem í mér situr því mér finnst lóðin alltaf segja meira og orða betur líðan og vangaveltur en einfeldnislegur, einsleitur textinn í dágóðan hring þar sem ekki tekst að sýna allar þær tilfinningar sem bærast í brjóstinu.  Ég held að það væri lífsins ómögulegt að þekkja mig af skrifum mínum, því efn einhver teldi sig kannast við efnistök og lýsingar gæti ég samt verið settur til hliðar af lista grunaðra því allir eru í raun tveir menn, annar hið ytra og hinn hið innra.  Þetta er þó aðeins það sem ég held því upp í huga minn koma strax mörg atvik þar sem Júdas, bljúgur og miskunnsamur, heiðarlegur og tilfinningaríkur hefur komið upp á yfirborðið og setningar eins og „þú ert sjálfum þér líkur“ hafa staðið í brjósti mínu en vafalaust er hann öðrum ókunnur með öllu og jafnvel aldrei inni í myndinni.  Ég segi þetta vafalaust til bloggvina minni, því ég finn að mörgum þeirra þykir vænt um mig ókunnan manninn en látum ekki blekkjast.  Tálsýnir eru hættulega og Júdas er einn sá mannlegasti í það minnst af þeim sem ég þekki. 

     Að vera góður við börnin sín er ekki dyggð.  Það er flókið  tilfinningaspil sem vaknar daginn sem lófinn finnur fyrsta sparkið og hugurinn nemur að þarna er lifandi vera af Guði sköpuð en okkur gefin til skemmri tíma en við sjálf viljum.  Að horfast svo í augu við sjálfan sig og sína og meðtaka þetta kraftaverk lífsins getur aldrei annað en fyllt mann djúpum tilfinningum sem fá mann til að uppgötva það að þetta er af náð en ekki verðskuldað.  Ég held að þar komi Júdasinn til sögunnar hjá mörgum, af hverju ég en um leið löngunin til að gera alla hluti betur og réttar en hingað til.  Móðurást er óútskýranleg og eitthvað sem enginn skilur nema móðir.  Föðurást er það líka!  Þótt mörgum feðrum sé bölvað þarf það ekkert að vera að ást þeirra sé lítil eða ekki til staðar.  Ef til vill er það hæfileiki föðurástar að geta stígið til baka og haldið sig til hlés svo móðurástin blómstri og ekki komi til átaka en sprettur svo upp þar sem móðurástin hefur orðið undir eða aðstæður örðuvísi en væntingarnar.   Reynum ekki að skilgreina þetta en hugsið þetta aðeins.

     Umfram allt er Júdas aðeins miðlungsmaður,  „sekur“ hversdagsmaður.  Sekur við sjálfan sig og sekur gagnvart Guði.  Heiðarlegur við menn og heiðarlegur bloggari.   Við nafnleysingjar erum líka fólk!  Þess vegna bið ég sjálfskipaðan dómstól „æðri“ bloggara að hugsa sinn gang.

 

 

 

Nú er brostið band,

brugðust vonir þér.

Eftir ljúfan leik

lokið öllu var.

Hófstu yfir allt,

ein í sælli trú,

kosti miðlungsmanns,

meðan dýrðin stóð.

 

Þar sem goðið glæst

gnæfði fyrst í stað

sástu síðar meir

sekan hversdagsmann.

Hann var samur samt,

sínu eðli trúr.

Hitt var hugarsýn,

henni giftist þú.

 

Heiðrekur Guðm.

 

Njótið samt þessa fallega dags, einnig miðlungsmenn, sekir hversdagsmenn

og jafnvel nafnleysingjar.


Við hjarta míns innstu rætur

     Hann gat ekki verið betri sumardagurinn fyrsti.  Regndropar féllu og þegar þeir fyrstu féllu á rúðurnar hjá mér fylltist ég ólýsanlegri gleði.  Þannig er vorið og án regns er ekkert vor.  Loftið verður hreint og tært og ljósbrotin í dropunum engu lík.

     Unglingskúturinn minn kom heim í gær með ný strauma og nýjar vonir.  Háleit markmið og greinilegt að hann fékk það sem hann vildi og þurfti.  Ég fékk tár í augun þegar ég sótti hann og sá hann standa í vegakantinum með tösku eins og í amerískri bíómynd.  Einn með tösku og eitthvað svo berskjaldaður.  „Pabbi,  ég tek bara einn dag í einu, þú veist það!  Ég er bara fæddur svona! „   „Nákvæmlega vinur.“  Hann er góður strákur og í raun hafa aldrei verið vandræði með hann.  Hann hefur alla tíð virt útivistartíma, alltaf svarað mér í síma, aldrei tekið það sem hann á ekki,  alltaf verið mjög samúðarfullur og samviskan mjög sterk.   Allaf þurft að tala um alla hluti, hugrenningar sýnar, langanir og meira að segja trúað mér gömlum manninum fyrir vandamálum sínum tengdum „kvennamálum“ og áhyggjum þeim tengdum.  Minn er góður í því.  Hann er yndislegur.

     Litli kútur kom til okkar í gær og þá hafði ég ekki séð hann í nokkra daga sem er mjög sjaldgæft.  Orðaforðinn hafði aukist rosalega og hann stækkar svo ört.  Kútarnir voru einir heima í gærkvöldi og þegar ég kom heim lágu þeir í faðmlögum og sváfu.

Við munum standa saman í blíðu og stríðu og þrír erum við  sterkari!  Við erum greinar á sterkum stofni samvisku okkar og við vitum hvar rætur okkar liggja.  Við þökkum Guði.

 

 

Þú færðir mér litla græna grein

með geislandi hvítum blómum.

Þá brosti vorsól og við mér skein

en veröldin fylltist hljómum.

 

Þótt laufin féllu og fölnuðu blóm -

ég finn um koldimmar nætur -

ilm þeirra höfgan-sem helgidóm

við hjarta míns innstu rætur.

 

Og þannig lifir mín ljósa þrá

lauguð vitund þinni-

síðan ég greinina fékk þér frá

forðum - í draumsýn minni

 

Steingerður Guðm.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 48633

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband