Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Júdas dregur sinn eigin djöful

      Hann var góður kaffibollinn í morgun og líklega óvenju góður.  Stress og annir undanfarinna daga verða til þess að ég dreg úr kaffineyslunni til að skapa ákveðið jafnvægi og því stressaðri sem ég verð því minna kaffi drekk ég.  Ég tek reyndar stundum aðeins of seint í taumana en á öðrum stressdegi er komið á þetta böndum.  Mest sakna ég kvöldsopans en hann  er látinn fjúka við þessar aðstæður og þessir millimála sopar sem þó eru líka yndislegir.  Morgunuppáhellingin fýkur aldrei en blandan veikist og magnið minnkar.  Nú fer ég þó að auka þetta hægt og hljótt. 

      Ég þurfti aðeins að taka í hnappadrambið á mér í gær og lesa mér svolítinn pistil í hljóði þegar ég uppgötvaði það hvað vinnufélagi truflaði mig mikið, jafnvel „ofsótti mig“ svo jaðraði við hugarfarslegt hatur.........mitt.    Svona hugsum við ekki Júdas,  samviskan reis upp á afturfæturna og löðrungaði á mér geirvörturnar.   Geirvörturnar?  myndi nú einhver segja en þessi er frekar lávaxin en þó þétt og sterk svo ekki verður hjá því komist að taka eftir henni.  „Biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður“ stóð upp úr eftir pistilinn og þar gæti lausnin legið.  Menn eins og hann sem leggja sig hart fram, reyna eins og þeir geta, eru fyrirtækinu trúir og tryggir jafnvel þótt gengið sé utan í stöku veggi og stigið á stöku tær, eiga ekki skilið óvægnar og undirförlar hugsanir frá vinnufélögum sínum ef til vill sprottnar af öfund og eigin óöryggi sem eru hættulegar hvatir sé ekki unnið á þeim í snatri.  Ég tek á þessu og bið ykkur sem á hlýðið að fyrirgefa mér mannlega þáttinn sem oft verður Júdasi að falli en þó aldrei nema niður á hnén. Júdas vill ekki vera í þeim hópi og gerði sér því ferð til viðkomandi með nokkur hól í farteskinu.  Ég sá gæsahúð á viðkomandi og gleði í andlitinu sem hann átti erfitt með að halda aftur en vinir segja mér að hann óttist mig meira en allt.  Óttinn gæti þó verið mín megin þegar öllu er á botninn hvolft.  Þessu er ekki lokið því við tekur tiltekt  í djúpum hugarfylgsnum gamals einmana manns sem nagar sig í handabökin aftur og ný búinn yfir því að hafa í gegnum árin ekki gert eitthvað sem hann gerði eða gert eitthvað sem hann gerði ekki.  Þetta eru viðjar Júdasar sem eru líklega léttbærar saman borið við viðjar margra annarra ef þetta er það versta.  Það er þess vegna sem ekki er pláss í lífi mínu fyrir illindi og deilur, öfund og lygi, undirförli og svartsýni.   Það er þess vegna sem Júdas leitast alltaf við að hafa alla hluti á hreinu, hugsar alla leiki til enda og situr frekar heima en vaða út í óvissuna.   Er frekar einn og særir þá ekki neinn.   Júdas dregur sinn eign „djöful“ sem er það mannlega í fari hans.  Þess vegna er ég Júdas!  og hjálpi mér Guð.    Í auðmýkt held ég áfram og lofa að verða betri maður.

 

Gangið auðmjúk inn í þennan dag.


Breið blæju húms

      Mér líður óvenju vel og þarf ekki annað en að líta til hægri og virða fyrir mér lítinn yndislegan kút, hold mitt og blóð, liggjandi í sófanum dreymandi fiðrildi og kanínur og þar er skýringin fundin.  Hjarta mitt tekur auka slag og kökkur kemur í hálsinn.  Þakklæti fyllir hjarta mitt að ég, Júdas skuli fá að njóta samvista við þennan kút og ég þakka það hvern dag  góðum Guði. 

 

Unglingskúturinn kom inn í stofu áðan og saman dáðumst við að  þeim litla.  Sá eldir faldi ekki tilfinningar sínar og áður en hann þaut út fékk ég faðmlag og lítið „elska þig pabbi—sjáumst“ . 

Sjálfur er ég að þreytast, búinn að vera í lestri laga og rétta svo réttast væri að láta undan.

Svefns hjarta sært

saknar um næturstund.

Tungl, skin þitt skært

skamman því leyfir blund.

 

Djúps nýtur drótt

draumhöfga allt um kring.

Lát höfði hljótt

hallað á skýjabing.

 

Náttröðull, rúms

runninn um langan stig,

breið blæju húms

blástirnda yfir þig.

Þorst.Vald

 

**Góða nótt vinir!**

 

 


Hver segir svo að svik séu ekki umhverfisvæn!

      Mér skilst á útvarpinu að úti sé nærri 10 stiga frost.  Og ég sem hélt það yrði rigning!  Það var reyndar ekkert í veðurfréttum sem benti til rigningar en ef maður þráir eitthvað nógu heitt.......eða etv á það ekki við í þessu.  Það er allavega kominn nýr dagur, ný tækifæri og ný loforð.  Það er það góða við tímamót hversu lítil sem þau eru að hægt er að endurnýja loforðalistann, henda út þeim sviknu nú eða færa þau í hvítar gærur og beygja þau að getu og vilja svo þau virðist  vera auðveld að standa við þau nú eða velja sér loforð sem auðveldara er að standa við.  Þessi listi er vafalaust til í hugum allra og menn ættu að hafa vit í því að koma honum ekki á blað því það telst ekki umhverfisvænt að taka hvert blaðið á fætur öðru, vöðla því saman og henda í ruslið.  Júdas þekkir það og því löngu hættur að hripa þetta niður því aukin umhverfisvernd er eitt af sviknu loforðum Júdasar.  Annars sé ég það strax í hendi mér að blá tunna gæti tekið alla þessa lista og þá færu þeir í endurvinnslu svo ef til vill er það umhverfisvænt eftir allt saman.  Hver segir svo að svik séu ekki umhverfisvæn! 

 

     Það var ekki slæmt að koma heim á laugardaginn.  Unglingskúturinn búinn að þrífa allt hátt og lágt svo litli frítíminn fer ekki í þrif þessa helgina, svo það var stokkið á skrifstofuna aftur og unnið þar fram á nótt.   Í gær var minn því þreyttari en oft áður og þótt dagurinn væri tekinn snemma náði ég lendingu í sófanum kl 16 og sofnaði svefni hinna réttlátu þar til síminn vakti mig.  Lítill kútur sem kominn er með gríðarlegan símaáhuga var á  línunni og að mér skildist hljóp með hann um alla íbúð hjá móður sinni til að sýna mér hitt og þetta.  Ætli við verðum ekki að fá okkur 3G síma svo hægt sé að sýna alla þessa hluti litla kútsins.  Símtalið endaði svo með orðinu „koma“ og síðan var skellt á.  Ekki löngu seinna kom vinurinn í heimsókn með Ungu konunni mér til mikillar gleði.  Sökum anna hjá henni verðum við kútur mikið saman í vikunni svo það gæti ekki verið betra.

 

   En, við er tekinn hversdagsleikinn.  Njótið dagsins.


Hún má fara og vera meðan ég er og fer

     Merkilegt hvað morgnarnir eru mér miklu auðveldari til allra verk en kvöldin.  Ég hef þetta líklega frá móður minni sem var mikil morgunmanneskja og sat gjarnan við skriftir þegar maður trítlaði fram í eldhús á yngri árum.   Brosmild og vinarleg tók hún á móti manni og virtist aldrei eiga slæma daga.  Vafalaust hefur það þó verið en hún bar það aldrei á borð fyrir okkur ungviðið.  Hún var aldrei þreytuleg eða syfjuleg ámorgnana en þótt ég hafi fengið morgunferskleikann frá henni fékk ég greinilega ekki þetta ferska morgunútlit hennar því einhvernvegin fylgir skrokkurinn oft ekki með í þessum andlega morgunferskleika mínum.  Að minnsta kosti ekki spegilmyndin.  Á kvöldin var hún ekki alveg jafn fersk og sofnaði gjarnan með okkur snemma á kvöldin eða jafnvel inni í stofu.  Það hef ég klárlega fengið frá henni því þar sofna ég býsna oft en nokkrum sinnum hef ég sofnað við eldhúsborðið fyrir framan tölvuna og það skil ég ekki með nokkru móti.

 

     Pabbi var öðruvísi.  Vinnuþjarkur mikill, þögull og alvarlegur en öruggur sem klettur og með lausnir á öllum vanda.  Þreytulegur var hann og oft náðu dagarnir saman hjá honum enda fyrirtækjaeigandi og sló aldrei slöku við þar.  Við þvældumst mikið með honum og líklega hef ég lært af honum að njóta þagnarinnar og hlusta.  Klöppin á bakið voru hæg og innileg en ekki var mikið um faðmlög eða tilfinningar tjáðar í sama mæli og hjá mömmu.  Lífsspekin og lífsleiknin kom þó frá honum hvað varðar rétt og rangt í allri umgengni við menn og málefni en réttlætiskennd, skilvísi og heiðarleiki sem og hjálpsemi einkenndu hann.  Allt fyrir alla og einskis vænst að launum.  Frá mömmu kom hinsvegar allt í sambandi við umgengni við einlægni, bæði við Guð og menn, hún kynnti okkur fyrir kærleikanum, samviskunni og þar fengum við mikið af faðmlögum og mikla tilfinningatjáningu.  Þau voru eins og svart og hvítt, kynntust sem unglingar og voru saman alla tíð svo ólík að þau virtust ekkert eiga sameiginlegt. 

 

     Ég er hinsvegar sannfærður um það að alveg eins og í fyrirtækjum felst mannauðurinn í breiddinni svo einn geti stutt hinn, vakað meðan hinn sefur, tekið við þar sem hinn rekur í stans.  Sjálfur hef ég alltaf litið á þetta þannig og því aldrei verið að leita mér sérstaklega að förunaut sem líkist mér eða er með sömu áhugamál og áherslu og ég.  Þvert á móti leita ég að einhverri sem getur bætt mig, stutt mig og sýnt mér hluti sem ég þekki ekki.  Hún má vaka meðan ég sef og sofa meðan ég vaki,  Horfa á rigninguna meðan ég dansa í henni og baða sig í sólskini meðan ég  fylgist með.  Hún má fara og vera, meðan ég er og fer ef hún aðeins elskar mig eins og ég er.   Ég er!

 

Við lágum í grasinu

og ég leit í augu þín

og þú svaraðir, já.

Það var á miðju sumri

og drottinn hafði lagt grænt teppi á jörðina

og ég kyssti rauð berin

á brjósti þér,

leit í augu þín

og þú svaraðir, já.

 

Og stjörnurnar hlógu á himninum,

þegar ég mætti vörum þínum.

Svo litum við upp í nóttina

stóðum á fætur

litum upp í nóttina

horfðumst í augu á ný

og þú svaraðir, já.

 

Það er farið að hausta

og nóttin liggur svört á milli okkar

og það er langt til stjarnanna

-----en lengra til þín.

 

Matt.Joh.


Blindur maður finnur ilminn

     Fagur dagur, blíðlynd borg, ótal annir.  Kútur kemur og Kútur fer.  Við erum alltaf að kveðjast.  Varla búin að fagna nýjum degi þegar við keðjum hann að kveldi.  Nóttin tekur yfir og þegar við opnum augun aftur er kominn nýr dagur og ný augnablik.  Við ættum að njóta hvers augnabliks til hins ýtrasta áður en það hverfur með öðrum augnablikum inn í fjötraða  fortíðina.  Framundan er urmull augnablika sem flæða framhjá og við tökum varla eftir þeim og gleymum að njóta þeirra vegna löngunar í augnablik framtíðar eða þrá eftir horfnum augnablikum fortíðar.

 

Njótum alls, njótum regnsins og finnum ilminn.

 

Gangið glöð inn í hin mörgu augnablik dagsins.

 

 

Eins og blindur maður

finnur regnið

falla á hendur sínar

í myrkrinu

 

og sér ekki

himininn

 

eins og blindur maður

finnur ilminn

berast að vitum sínum

í myrkrinu

 

og sér ekki blómið

 

sjáum við

ásýnd þína

Guð!

Ingimar E. Sig


Upp kemur tungl

     Það var þreyttur kútur sem kastaði sér í eldhúsgólfið fyrr í kvöld.  Enginn skildi hann og enginn vildi láta hann fá það sem hann vildi.  Og hvað er pabbi að hugsa, lætur mig bara gráta á gólfinu!  Hann var yfir sig þreyttur og ég tók hann upp og fór með hann inn í rúm. Hann var ekki sáttur við það en nuddaði eyrun eins og hann gerir alltaf þegar hann er þreyttur og gat ekki hætt að gráta.  Við lögðumst upp í rúmið með pelann en hann gat varla drukkið því hann snökti svo.  „Við skulum biðja til Guðs vinurinn minn“, og svo bað ég hægt.  Vinurinn bað með mér en grét á milli orðanna,  sem hann endurtók þó á eftir mér. Amenið passaði alveg inn í grátinn og var eiginlega það lengsta amen sem ég hef heyrt.  Augnabliki síðar hætti hann að gráta strauk á mér andlitið, tautaði eitthvað og sofnaði.  Ég er þess fullviss að Guð heyrði bæn litla kútsins sem bað þótt hann gæti það varla sökum þreytu og gráts.  Hverjir draumar hans verða veit ég ekki en þar er einfaldleikinn og einlægnin vafalaust í fyrirrúmi því gleðin bara yfir engjaþykkni með karamellu sem hann fær bara um helgar er þvílík.  „Nema þér verðið eins og börn“ sagði Hann!  Við getum heldur betur lært af þessum elskum.

 

Nóttin nálgast óðfluga og bíður eftir mér.  Kyrrðin ræður ríkjum og það vottar fyrir værð þótt framundan séu annasamir dagar.  Fullkomin værð næst þó ekki því ilminn vantar.  Ég mundi það ekki fyrr en ég varð einn aftur hvað ilmurinn spilar stóra rullu í samskiptunum við fljóðin.  Snerting og ilmur eru fullkomnun á fallegri þögn og næturkyrrð verðu tilhlökkunarefni og morgnarnir fallegri.  Meira að segja skuggar framtíðar fölna og regnið glitrar, hvar ertu ljúfan mín?

 

 

Upp kemur sól

án þess ég sjái

augu þín,

 

upp kemur tungl

án þess ég heyri

orð þín,

 

upp koma stjörnur

án þess ég finni

atlot þín.

 

Upp kemur sól

upp kemur tungl

upp koma stjörnur.

 

Enn mun ég stara

enn mun ég hlusta

enn mun ég leita.


Ég var og ég er

     Mér nægir að líta út um gluggann og sjá göturnar blautar og hjarta mitt fyllist gleði.  Vonin um rigningu gagntekur mig eins og yfirfærð þrá eða þráhyggja sem hefur villst einhversstaðar  í sálartetrinu.  Við kútar áttum yndislega helgi og fórum reyndar ekkert út úr húsi í gær því værðin var svo mikil.  Enduðum í baði kl 11 í gærkveldi áður en við fórum í rúmið.  Unglingskúturinn nennti auðvitað ekki þessari leti og var horfinn á vit vina sinna og drauma strax og hann vaknaði kl 15 eins og þreyttum hormónabolta sæmir.  Sólarhringnum er reglulega snúið við og umferðin um herbergisdyrnar hjá honum minnir stundum á umferðarmiðstöð svo margir eru vinirnir og kunningjarnir.

 

    Við tekur ljúf vinnuvika og kútavika sem gefur lífinu þá fyllingu sem þarf til að fullkomin værð haldist hjá gömlum þreyttum pabba.  Talsverðar annir eru þó framundan, nýtt erfitt verkefni í vinnunni sem þarf að vinna vel á borði áður en því er hleypt af stokkunum og lokaáfangi í náminu um miðja viku og ekki laust við smá titring undirniðri þótt best sé að mæta því af fullkominni yfirvegun frekar en með yfirlestri og óðagoti.

 

  Ég Óska ykkur ljúfs dags og vona að þið Óskið ykkur þessa sama.

 

 

Ég er óskin,

aleiga hins snauða,

bænin heilaga,

hjartarauða,

umvafin fegurð

og ást í lífi og dauða.

 

Ég var

og ég er.

Kynslóð kemur

og kynslóð fer.

Ungir og gamlir

unna mér.

 

Ég er óskin,

ákallið hljóða,

bæn hins veika

og vegamóða:

friður á jörðu

og frelsi allra þjóða.

 

Gestur Guðfinnsson


Ég sem orðum ann

     Það var lítill kútur sem  dró mig á fætur óheyrilega snemma í morgun.  Í fyrstu tilraun mistókst honum því klukkan vara aðeins hálf sex og ég rétt náði í fótinn á honum og gat dregið hann til baka og undir sæng.  Næsta tilraun var gerð klukkutíma seinna og hún tókst.  Hann var svo snöggur út úr rúminu að gamli náði ekki að grípa í hann og ég sem ætlaði að sofa út alveg til klukkan átta eða jafnvel til hálf níu.  Líklega var þetta bjartsýni hjá mér að ímynda mér svona lúxus en þó var þetta aðeins byrjunin á gríðarlega góðum degi.  Kubbaleikir, bókalestur,lærdómur, Laugar og  Sprotaland svo eitthvað sé nefnt, jú og Borgarbókasafnið, við enduðum þar í ljóðabókadeildinni og svo auðvitað í barnabókunum.  Það var því þreyttur kútur sem lagðist til hvílu í kvöld en gleymdi þó ekki að biðja bænirnar. 

     Eftir sat gamall maður og beið.  Ég settist fram í eldhús þar sem allt er innan seilingar.  Þar sem ég sit við eldhúsborðið sé ég inn í stofu og  sé á sjónvarpið.  Aftan við mig er útvarp í eldhúsglugganum og kaffikannan á hægri hönd á eldhúsbekknum.  Nokkrar skúffur eru líka á hægri hönd og næ ég í þær allar án þess að standa upp.  Getur það verið betra?  Tölvan á borðinu og bunki af ljóðabókum vinstra megin við hana.  Kaffibollinn, þessi eini sanni er svo hægra megin.  Þetta er lítill heimur og einfaldleikinn ræður ríkjum og stundum má vart á milli sjá hvort það er einfaldleiki eða einfeldni.  Það er allavega ekki mannblendni svo mikið er víst.

  Það þýðir samt ekki að ég þrái það ekki, bíði ekki og voni ekki.  Mundu það!

 

 

Ég sem orðum ann

nefndi einatt í auðmýkt

konu, mann

líf mold vatn,

á vörum brann

veikasta sögnin

að elska,

fann mér hóglega

á hjarta lagt:

án mín fær skáldið

ekkert sagt.

 

Hver ert þú?

Ég er þögnin.

 

Einar Bragi


Mig lengir í svölun hjartans

        Þeir eru ljúfir þessir föstudagar og rigning síðustu daga hefur svo sannarlega gert okkur gott.  Nú er ég nýkominn heim með litla kútinn og við tekur fríhelgi í friði, ró og værð.   Við ætlum að hafa það rosalega notalegt og spurning hvort við pöntum ekki bara mat á eftir.   Ég reikna með að við verðum einir í matnum því Unglingskúturinn er á leið í Bíó með vinum sínum og kemur ekki heim fyrr en um miðnætti.

         Þeir vekja furðu þessir kútar.  Við sátum áðan á gólfinu við svefnherbergis hurðina ég og litli kútur vegna þess að þar skellti hann bókunum sínum niður og þar áttum við að lesa þær.  Ég stakk upp á sófanum nú eða bara rúminu en hann tók það ekki í mál.  Á gólfinu skyldum við vera og þótt það væri í miðjum dyrakarminum var það ekkert verra en hver annar staður.   Við fullorðna fólkið þurfum alltaf að gera svo mikið mál úr öllu.   Fara með hlutina hingað eða þangað og það tekur okkur margar mínútur að koma okkur fyrir í t.d sófanum með okkar hafurtask en kútar eru ekkert að spá í svoleiðis smáhlutum.  Það er bara leikið sér þar sem hlutirnir fara í gólfið og málið dautt. 

 

     Auðvitað sofnaði ég með honum og vaknaði svo um miðnætti.  Það er bara svo notalegt að kúra, finna fyrir höndunum á honum þegar hann strýkur andlitið og hárið og þarf alltaf að vita af manni.  Hann stjórnar ekki bara því hvernig hann liggur heldur líka því hvernig ég ligg.  Ég á að liggja svona og svona til að hann geti verið svona og hinsegin.  Greinlega ekki jafn slétt sama og það hvar við lesum bækurnar eða kubbum.   Lendingin var „lulla pabba“ en þá klöngrast hann upp á mig með koddann og sængina og notar mig sem rúm.  Þannig sofnuðum við.

     Ég náði að læra aðeins áðan svona til að friða samviskuna en hugurinn hefur þrátt fyrir heimalærdóm verið dálítið fjarlægur námi og jafnvel fjarlægur vinnu síðustu daga.  Ekki veit ég hvar hann hefur verið en þó hafa dagdraumar ekkert verið á dagskrá heldur.  Ég hef bara verið.........sem hlýtur að teljast betri kostur en að vera ekki.   Mér líður eins og ég bíði eftir einhverju.

Best að koma sér í lúrinn.

Góða nótt.

 

 

Langt þangað til morgnar?

Myrkrið er kalt og þykkt.

Mig lengir í svölun hjartans

hina lifandi fegurð.

 

Hannes Pét.


Brimsins mjallhvíta lauf

     Komið kvöld og er einn í sófanum.  Ekki slæmt kvöld.  Lítill kútur var hérna áðan og eldaði  með stóra bróður og gamla manninum. Við elduðum tortillur og hann söng fyrir okkur „allur matur á að fara“ og það er eiginlega í fyrsta skipti sem við heyrum hann syngja heilt lag einn og óstuddur.  Við eldri feðgar vorum fullir aðdáunar og kúturinn lék á alls oddi.  Hann fékk alla þá athygli sem hann vildi.  Unga konan bað mig um að sækja hann á leikskólann og ánægjan öll mín megin.  Hann var yndislegur.  Nú er aðeins tveir dagar í að kútavikan hefjist og við eldri feðgar fullir eftirvæntingar.

 

        Það stefnir í fríhelgi hjá mér og þá meina ég fríhelgi.   Kútavikan gerir mig svo rólegan og því fylgir svo mikil værð.   Að sitja einn í stofunni kútalausu vikuna er einmanalegt og ég þarf að hafa fyrir því að vera rólegur en þegar kúturinn er hjá mér og þótt hann sofi og ég einn í stofunni er það allt annað.  Yfir mér er værð og ég er rólegur.  Mér finnst eins og ég hafi margsagt þetta og á klárlega eftir að gera það oftar.

 

    Ég hefði átt að læra í kvöld og jafnvel vinna því  nóg er af verkefnum þar en ég datt í ljóðalestur og ætlaði að henda inn á bloggið ljóði.  Ég stoppaði samt bara við dapurleg ljóð sem enduðu svo illa að mér fannst það ekki lýsa líðan minni nægilega vel.  Þau hafa jú gert það hingað til.  þetta var það eina sem mér fannst koma til greina svo ég læt það flakka.

 

 

Veturinn veit að ég bíð þín

veit að ég sakna þín stöðugt

og færir mér allt sem hann á

af ágætu skrauti:

Bind ég þér blómsveiga marga

úr brimsins mjallhvíta laufi

og rósum í rúðunnar hélu

svo raða ég stjörnum hjá

í nafn þitt, uns návist þín ríkir

og nóttin er hvelfd og blá.

 

     Komið nóg í kvöld, því ég fer nett í taugarnar á mér.  Hef lítið að gefa og alltaf eins og ég vilji ekkert þiggja heldur.   Spurning um að auglýsa opið hús um helgina, kaffi og með því.......gjörið svo vel.  Ég kæmi mér líklega að heiman til að þurfa ekki að kynnast fólki eða eignast vini?

Dreymi ykkur vel!


Næsta síða »

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 48601

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband