Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Þvílíkur okrari

     Þetta er sko fallegur dagur þótt ekki rigni.  Hvítt yfir öllu, sólin lágt á lofti, himininn bjartur og einstaka hvít drífa á annars fagurbláum himninum.  Er það ekki á svona dögum sem maður verður öruggur með það að almættið sé á bak við þetta allt saman.  Við litli kútur fórum snemma á fætur en höfum enn ekki farið neitt út.  Hann var orðinn svo þreyttur eftir leiki morgunsins að ég fór með hann nauðugan inn í rúm og hann sofnaði eftir að hafa troðið höndunum inn fyrir hlýrabolinn minn og flækt sig einhvern veginn þannig utan um mig.  Það síðasta sem ég heyrði hann segja var „babbi lulla“ og síðan bara uml. 

     Ég ákvað að koma unglingnum á lappir fyrir hádegi og setti brauð í ofninn en það er besta aðferðin við að lokka þennan aldurshóp úr rúmi, fyrir utan innleggsnótu upp á 46 þúsund í tískuvöruverslun en það kom aldrei til greina.   Nú verður engin miskunn sýnd, stærðfræði skal það vera í allan dag og fram á kvöld.   Einnig þarf ég að fara samningaleiðina að honum með að koma aðventuljósi og seríu í gluggann hjá honum en ég man að það var ekki sérlega vinsælt í fyrra þótt ég hefði betur.  Þá var mér hótað á léttu nótunum að gist yrði í athvarfi yfir jólin ef sér yrði aftur misboðið með þessum hætti aftur því ekki má coolið hverfa.   Mér datt í hug að leigja gluggann hjá honum og gerði honum tilboð áðan upp á  100 kr leigu á dag á glugganum og hélt að hann væri of þreyttur fyrir gangtilboð en það kom leiftursnöggt eða 44 kr á hverja peru sem færi í gluggann.    Þetta skiptir svolitlu máli því eldhúsglugginn og herbergisglugginn hans snúa út að götu og verða því að fylgjast að  í þessu.   Þvílíkur okrari.   Sex aðventuperur og 30 ljósa sería eru 36*44 kr per dag eða 1.584 á dag í fjórar vikur samtals  44.352 kr.  Getur verið að hann sé Smárason eða Jóhannesson.   Mitt tilboð hefði endað í 2800 kr.  Hann vill gjarnan skreyta út um allt nema þennan glugga en málið er í vinnslu.  Ætli það séu til útiaðventuljós sem ég gæti skrúfað í gluggasylluna að utanverðu ásamt útiseríu og komist þannig hjá því að eiga viðskipti við svona „okrara“ eða er til einhver gjaldskrá yfir þetta.   Ég veit ég næ þessu fyrir rest enda búinn að gera samninga við hann frá því hann var smákútur.  Upp á loft verður farið á eftir og dótið tekið niður svo þetta er allt að gerast. 

     Kaffibolli og Laugar eru inni í myndinni líka en er ekki í forgangi.

     Njótið dagsins eða hvers annars.


Viðsjála stóra veröld

     Ég fór sterkur á fætur í morgun, leit í spegil og fannst ég bara nokkuð góður.  Sumir morgnar lofa ekki góðu og engu líkara en að maður hafi frosið fastur í svelli að kveldi og hafi verið að losna en svo lagast það þegar líða tekur á daginn.  Þessi var ekki þannig. Útlitið spilar samt ekki stóra rullu úr því ég tók þá ákvörðun snemma á lífsleiðinni að vinna ekki sem fyrirsæta og í rauninni sem betur fer því líklega hefði tilboðum ekki rignt yfir mig.  Ég get því farið tiltölulega ljótur út úr húsi án þess að tapa á því peningum eða missa af einhverjum tækifærum, vinnutengdum, en ég útiloka þó ekki að það geti truflað mig á öðrum sviðum og svipt mig annarskonar tækifærum.   Nóg um það.    

     Dagurinn gekk ágætlega fyrir sig og ég náði í kútinn minn á leikskólann kl 17 og þvílíkir fagnaðarfundir.  Ég veit ekki hvað ég fékk marga kossa frá honum og við vorum varla sestir inn í bílinn þegar hann vildi fara að syngja með mér krummavísur en þær eru í miklu uppáhaldi. „Þinga kumma“ eins og hann orðaði það af sinni alkunnu snilld.  Þegar heim var komið byrjaði hann strax í forstofunni að kalla á bróður sinn og stormaði inn í tómt herbergið og síðan inn í stofu í leit að honum.  „ Bói......BÓÓiii.....ka e bóiii....“ vonbrigðin leyndu sér ekki og mér tókst ekki að útskýra fyrir honum að brói kæmi heim seinna í kvöld.  Hann spurði að þessu af og til alveg þangað til brói kom heim um níuleytið og þá elti hann stórabróður út um allt hús, fram og til baka eins og lítill hvolpur og gleðin skein úr andlitum beggja.  Fjórtán ár eru á milli þeirra kúta og þegar ég hugsa til þess að ég gæti horfið frá þeim báðum fyllist ég samt öryggiskennd yfir því að vita að stóri bróðir eigi eftir að standa vaktina gagnvart litlabróður og vafalítið verða góð föðurímynd, ef ég yrði kallaður frá því ekki veit maður hvenær kallið kemur. 

    Unglingurinn stökk í sturtu, græjaði sig og var svo rokinn út en við litli tannburstuðum okkur og síðan lá leiðin inn í rúm.  Vinurinn var orðinn þreyttur og farinn að nudda eyrun eins og hann gerir alltaf þegar hann er þreyttur.  Við gáfum okkur þó tíma til að biðja bænirnar en þar nefnir hann öll nöfn sem hann man eftir og eru þar nefnd bæði tuskudýr og teiknimyndafígúrur.  Ekkert má gleymast og augnabliki síðar var hann þotinn inn í veröld drauma svo fallegur og yndislegur að ég kveikti á lampa bara til að horfa á hann.  Þvílík forréttindi að fá að ala upp svona kút öðru sinni.  Ég er ekki fá því að ég hafi tárast en þar sem ég er karlmaður bið ég ykkur um að líta fram hjá því.  Sennilega hafa þetta verið svitadropar af enni mínu sem enduðu í augnkrókunum.

     Það er værð yfir heimilinu og værð í hjarta mínu.  Tilgangur með öllu og ekkert óyfirstíganlegt. 

Nú skal ég sýna þér nokkuð,

sem nýtt er svo litlum kút. 

Við skulum ganga fram göngin

og gægjast um dyrnar út.

 

Þeir geta þröskuldinn sigrað,

sem þrauka fast við sinn keip.

En vertu aðgætinn vinur,

því varinhellan er sleip.

 

Og svo koma þyngri þrautir.

Sko, þetta er nú , kútur minn,

hin viðsjála, stóra veröld.

Æ, við skulum koma inn.

 

K.Djúp.


Ný spor

     Þá er einu fíflinu færra því ég afklæddist því í morgun og hélt út í nokkuð fallegan dag.  Fáein loforð flökkuðu á milli heilasella en þó vottaði fyrir efasemdum því hversu áreiðanlegur getur Júdas orðið gagnvart sjálfum sér svo ég tali nú ekki um með ágæta reynslu að baki í að svíkja sjálfan sig.   Svikin í gær náðu þó ekki út í fingurna aða aðra útlimi, náðu ekki til málstöðvar eða dónastöðva heldur eingöngu til löngunar, væntinga og hugrenninga.  Slæmt samt.  Í þessu er enginn dónaskapur svo það valdi ekki misskilningi en það að rölta í hringi og rekast á eigin spor skilar manni ekki á áfangastað og maður nálgast ekki skugga framtíðar heldur skugga fortíðar.  Villtur maður í blindbil missir baráttuþrek við það að  rekast á eigin slóð og komast að því að hann hafi rölt í hring.  Ég ætla samt ekki að gera úr þessu einhvern sérstakan drama því ég er ekki lagstur nakinn í kuðung undir eldhúsborðið grátbólginn, langur vegur frá því, og í raun er ég ekki langt frá því að vera glaður en þó gramur við sjálfan mig.   

     Á morgun sæki ég litla kútinn minn og kútavikan byrjar.  Þá magnast allur tilgangur og værð færist yfir heimilið.  Unglingskúturinn fór úr bænum í dag en kemur aftur á morgun.  Hann ætlar að votta móður sinni smá virðingu á merkum tímamótum í lífi hennar, en aðeins þess vegna.  Við ætlum að leggjast í stærðfræðilestur um helgina vegna prófa í næstu viku og síðan verður jólaskreytt um helgina í góðu tómi, við feðgar sameinaðir.  Bara það að skrifa þetta fyllir mig gleði og hamingju þótt fjórða hjólið vanti undir vagninn, hjól gleði, uppörfunar, umhyggju og natni.  Hin þrjú eru góð svo ef einhvern vantar þrjú góð hjól, eitt að vísu sólað nokkrum sinnum, algjörlega óneglt en með grófu munstri þá  commentið með dulinni meiningu sem menn af ætthvísl Júdasar einir skilja.

Njótið dagsins,  fegurð hans er sýnileg þeim sem vilja.


Að vera fífl

     Það fer mikil orka í það að vera argur við sjálfan sig en það fer líka mikil orka í að vera fífl svo ég verð að láta af öðru hvoru til að brenna ekki upp fyrir aldur fram.  Ég reiknaði með því að ég geti slegið tvær flugur í einu höggi, hætt að vera fífl og því hætt að vera argur við sjálfan mig en þar skjátlaðist mér.  Sumt er bara eðlislægt og greinilegt að ég get hvorugu hætt.  Er alltaf á byrjunarreit, alltaf á byrjunarreit...................Ætla að bölsótast fram á kvöld og verð vonandi hressari á morgun.

 

Að lokum eftir langan, þungan dag,

er leið þín öll.  Þú sest á stein við veginn,

og horfir skyggnum augum yfir sviðið,

eitt andartak.

 

Og þú munt minnast þess,

að eitt sinn, eitt sinn, endur fyrir löngu

lagðir þú upp frá þessum stað.

 

 

Steinn Steinarr


Nóttin er ástmey

 

Nóttin er ástmey og ekkja dags,

því unnusti hennar nár

sefur í dánarvoð sólarlags

á sömu stund og þau mætast.

Dimman er harmur, döggin tár

yfir draumum , sem aldrei rætast.

K.Djúp

----------------------------------------------------

 

Ég leita þín, þú leitar annars manns,

og loksins týnist okkar beggja þrá

í órafjarlægð út í dægrin grá

og eygir hvergi veg til sama lands.

 

Ó, þú og ég, sem höfum aldrei hist,

mitt hjarta er þreytt á því , sem var og er.

Ég , sem þú ekki þráðir, hlotnast þér,

þig, sem ég gat ei fengið, hef ég misst.

 

Steinn Steinarr


Hamingju hamlandi?

     Rigning í dag og því frostlaust,  það er ekkert nema gott.   Rokið er hinsvegar ekki á óskalistanum en þetta helst svo oft í hendur að taka verður því slæma sem fylgir með hinu góða.  Þvílík speki. 

     Ég dottaði aftur við eldhúsborðið hjá mér í gærkveldi og er alveg hættur að skilja þetta.  Vil gjarnan kalla þetta langt blikk því ég hef hvergi séð einhverja tímaskilgreiningu á augna-blikki og augnabliki en í jarðsögunni og eilífðinni væri þetta vart mælanlegt.  Ég var samt kominn á æfingu um áttaleytið og trimmaði þar eins og óður og leið vel á eftir.  Þetta er ávísun á vellíðan og ég var hissa á því hve margir eru að trimma eftir klukkan átta á kvöldin.  Þegar heim var komið kom ég unglingnum mínum í áframhaldandi próflestur en þar má ekkert slaka á.

        Það var svo sem auðvitað að ég skildi fara af stað út í lífið í morgun með einhverjar vangaveltur um lífið og tilveruna en það er eins og almættið hengi á mig slíkar birgðir um leið og ég stend upp úr rúminu.  Reyndar byrja þær um leið og ég losa svefn svona klukkutíma áður en ég fer á fætur.  Í dag voru það vangaveltur um það hvort „prinsipp“ eða einstrengingsháttur sem hefur fylgt mér í gegnum lífið væri ekki bjargræðið í lífi mínu heldur hreint og beint hamingju-hamlandi og ætti þá sökina á slæmri líðan minni af og til í gegnum tíðina.  Þessi tímabil eru alls ekki löng og tengjast því alltaf af slíta sambúð og jafna sig tilfinningalega eftir volkið, en þau eru óþægileg og fá mig til að hugsa of mikið og jafnvel sofa of lítið.  Þótt ég hafi slitið þessum sambúðum og samböndum neyddur af „prinsippum“ lífs míns upplifi ég ástarsorgina greinilega lengur en þessar konur svo það hlýtur að vera eitthvað mikið að mér.   Þau prinsipp að ganga ekki á eftir konum, fara ekki á miðin í leit að konum osfrv. gæti svo verið mjög hamingjuhamlandi og einnig það að reyna ekki við sextuga konu sem les af rafmagninu hjá mér en líklega er hún sú eina sem kemur inn í forstofu til mín þessa mánuðina.  Þetta virðist vera einhverskonar hamingjufötlun á sviði þesskonar hamingju en ég veit um mörg dæmi þar sem menn hafa fengið höfnun en ekki gefist upp og haft erindi sem erfiði að lokum.  En ekki ég. 

     Ég ætlaði að fara á kaffihús í miðbænum eftir æfingu í gær, ganga um miðin og skima en ég skammaðist mín fyrir hugsunina eina og hætti við eftir að hafa keyrt framhjá nokkrum.  Fyrsta hugsunin sem kom upp hjá mér var að ég legðist ekki svona lágt.  Þetta getur ekki verið eðlilegt.  Það vantar í mig kæruleysisgenið svo ég þarf alltaf að hugsa alla leiki fyrirfram og vil koma til dyranna eins og ég er klæddur en ekki í dýrðarljómabúningi sem fellur svo af eftir nokkurra daga eða vikna ljóma.

Réttur og sléttur ræfill, eða kannski ekki alveg sléttur því aldurinn segir til sín.

Það verður prinsippið í dag að ganga sléttur inn í daginn en til þess þarf ég að taka hárið í hnút og herða að.


Söknuður og tilgangur

     Þegar ég vaknaði í morgun fann ég að mikið yrði hugsað í dag og ekki síst um söknuð og tilgang en það voru þær tilfinningar sem bærðust í brjósti mínu á þessum annars ágæta mánudegi.  Að byrja daginn með svona vangaveltum er ekki ákjósanlegt en það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem það gerist.  Hugsanirnar um söknuð og sorgir sunnlensku foreldranna í gærkveldi hafa vafalaust ýtt þessu úr vör og það að geta ekki faðmað litla kútinn minn í gærkveldi og morgun hafa vafalaust magnað þetta.  Unglingurinn þurfti ekki í skólann og svaf því sem fastast svo ekki gat ég faðmað hann,  og konan í lífi mínu er ekki fundin og vekur ekki furðu þar sem leit að henni hefur ekki farið af stað eða var hætt áður en hún byrjaði.  Ég skil þetta varla sjálfur.  Þetta er eins og að keppa í þrístökki með atrennu en labba bara að sandinum og róta í honum með lyklaborði.   Það er varla vænlegt til ávinnings en ég sjálfur í hnotskurn.

      Ég náði því einstaka afreki þegar ég kom heim úr vinnu í gær að sofna sitjandi við eldhúsborðið með tölvuna opna fyrir framan mig og opna bók í kjöltunni.  Greinilega þreyttur því ég var ákveðinn í því  að fara á æfingu eftir vinnu en þetta fór alveg með það.  Ég vel mér yfirleitt eldhúsborðið til vinnu og íhugunar frekar en stofuna einmitt til að halda mér vakandi og við efnið en eitthvað snérist þetta við svo ég er settist inn í stofu síðar um kvöldið með öllu óhræddur um að  missa af kvöldinu og upplifa það á lendum drauma.  Vangavelturnar urðu hinsvegar of þungar en það vissi ég ekki fyrr en í morgun.   Jólin eru ofarlega í huga mér enn og aftur en ég þarf að draga eldri kútinn með mér í ljósaskreytingar í vikunni því það er aldrei nóg af ljósum í öllu þessu myrkri og það verður gaman að fylgjast með litla kútnum þegar hann kemur á föstudag og sér þessa ljósadýrð.  Þetta er allavega planið og nóg um það.

    Ég sé að maður á að segja minna, þegja meira og ef tilvill skrifa minna.............eða meira,  ég veit það ekki alveg en það kemur í ljós á næstu dögum.

   Munið að hjarta mannsins upphugsar vegu hans en Drottinn stýrir gangi hans.  Gæti það verið?


Ég votta þeim mína dýpstu samúð

 

     Ég er búinn að hugsa mikið um það frá því í gærkveldi hve takmarkalaus sorg það hlýtur að vera að missa barnið sitt.  Þar sem ég sit í stofunni og renni augum yfir sé ég allskonar hluti og dót sem kúturinn minn á og hefur skilið eftir,  uppáhalds bíllinn hans, lítill blár, sjónvarpsstóllinn hans sem hann var svo glaður að eignast, passar honum algjörlega og þegar ég kom með hann heim stökk hann strax í hann og vissi upp á hár að þennan stól átti hann einn og enginn annar.  Tuskukrókódíllinn hans sem er ljótari en allt en hann elskar hann og tók hann með á leikskólann þegar það voru bangsadagar um daginn.  Allir með bangsa mjúka og fallega en félaginn með forljótan krókódíl sem heitir Kiddi krókó og hann elskar hann skilyrðislaust.  Dótakassinn hans þarna í horninu og mynd í ramma sem ég tók af honum horfandi út um eldhúsgluggann með blómvönd sér við hlið.  Í bókaskápnum er búið að ýta öllum bókum langt inn í skápinn í hillu tvö og þrjú en lengra upp nær hann ekki.  Ég veit að ég sé hann í vikunni og sæki hann á leikskólann á föstudaginn og við verðum saman í viku.  En auðvitað bara ef Guð lofar..................það er skilyrðið en maður gengur út frá þessu vísu.

     Það gerðu líka foreldrar litla drengsins í Reykjanesbæ sem klæddu hann til útiveru og reiknuðu með því það hann kæmi inn aftur og kossar á enni og kinnar ásamt faðmlögum yrðu áþreifanlegir að kveldi , breitt yfir og boðið góða nótt.  En það virðist ekki hafa verið vilji Almættisins eða að minnsta kosti rættist ekki sá draumur að sjá kútinn vaxa og dafna og feta hvert þroskaskrefið á fætur öðru.   Blessuð sé minning þessa drengs sem nú hvílir á nokkurs efa í faðmi Guðs, öruggur og sæll.   Eftir sitja foreldrar og aðstandendur sem þrumu lostnir og bíða eftir því að vakna af þessari skelfilegu martröð.    Vafalaust minna allir hlutir innanhúss og utan þau á drenginn litla. 

      Ég votta þeim mína dýpstu samúð en get þó aðeins gert mér þetta í hugalund og nær sá skilningur engan veginn þeirri dýpt og þeim tilfinningum sem þau ganga í gegnum en ég mun minnast ykkar í bænum mínum.

 


Minn skuggi féll um stund

 

Ég geng í hring

í kringum allt, sem er.

Og innan þessa hrings

er veröld þín.

 

Minn skuggi féll um stund

á gluggans gler.

 

Ég geng í hring

í kringum allt, sem er.

Og utan þessa hrings

er veröld mín.

 

Steinn Steinarr


Hin dökka, þögla borg

     Ég vaknaði óvenju snemma í morgun og fór strax fram.  Ég á ekki svo auðvelt með að liggja í fletinu eftir að ég er vaknaður og sprett því strax á fætur eins og gormur.  Ég fékk kútinn minn óvænt í gærkveldi og var hann hjá mér í nótt, þvílík sæla.  Við lágum í sófanum og skiptumst á skoðunum, lékum okkur að kubbum og lásum bækur.  Síðan kom þreytan yfir kútinn og hann hagræddi sér vel ofan á mér með kodda og sæng, færði til handleggi og fótleggi þangað til allt í hinu manngerða rúmi passaði honum fullkomlega og steinsofnaði.  Ég hugsaði um það í morgun þegar ég sat við eldhúsborðið hve viss ég var um það að ég fengi lítinn kút á heimilið.  Þegar ég var í framkvæmdum á heimilinu fyrir þremur árum rúmum og var að „hanna“ eldhúsið meðal annars með tilliti til þæginda var tekið tillit til hans.  Þar sem ég sit alltaf er flest innan seilingar.  Gluggi þar sem ég sé veður og vinda, útvarp sem ég næ til,  kaffikannan sem ég næ líka til á eldhúsbekknum, skúffur með blöðum, skriffærum og fleiru, tölvutaskan til hliðar við mig og ekki fyrir neinum, sjónlína inn í stofu beint á sjónvarpið ef svo ber undir og það sem aðal máli skiptir, rúningur á eldhúsbekksborðplötunni til að höfuð lítils kúts sem ég sit með á hægra læri rekist ekki í hvassa brún og meiði sig.............  

     Ég man að þeir sem smíðuðu plötuna sögðu að þessi rúningur ætti eftir að vera til vandræða í smíðinni og það gekk eftir.  Gera þurfti tvær tilraunir með þetta áður en það tókst og þetta hefur sýnt sig.  Þegar ég sit með kútinn á þessum stað sem er mjög oft gerir þetta gæfumuninn því platan er alveg við höfuðið á honum.  Á þessum tíma hefur “ skuggi framtíðar“ gert vart við sig, það er ljóst, og hver veit nema þetta nýtist fleirum á sama hátt.

     Keyrði kútinn til mömmu sinnar áðan og sit á kaffihúsinu góða með tölvuna og bollann en er á leið út í lífið í hinni dökku, þöglu en fallegu borg tækifæranna.  Ég held að ég sé til í allt.............

     Njótið dagsins kæru vinir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 48675

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband