Verður hvíslið ljúfara ?

Ég held að Júdasarblogg hljóti að heyra sögunni til því útrás gamals manns á erfiðum stundum virðast ganga út á rökræður við sjálfan sig bæði upphátt og í hljóði en áður var útrásin fólgin í skrifum og stöku ljóði.  Júdas er greinilega að breytast.  Hér áður gat hann hent út þeim sem honum þótti vænst um til að standa vörð um eitthvað sem hann trúði á en í dag væri hann vís með að henda sjálfum sér út til að vernda alla þá sem jafnvel bregðast honum og særa hann djúpt.  Undarlegt er þetta líf sem virðist upp teiknað af manni sjálfum þar sem öllu er haganlega fyrir komið bæði í orði og á borði.  En handritið virðist ekki ganga upp og hvíslarinn …… hvar er hann ?  Júdas skilur þetta ekki.

Ilmandi ung kona sem allt virtist snúast um, jafnvel áður en hún kom til sögunnar gengur þvert á handritið og fylgir ekki línunum að minnsta kosti ekki þessa dagana.  Júdas heyrir samt orðin „ég elska þig“ en þau virðast máttlaus í bugaðri sál, skynjun þess særða sem átti samt ekki einu sinni skilið að heyra þau í upphafi.  Fyrirgefning, hvar er hún og af hverju heyrist ekki hvísl hennar ?  Verður ljúfara að heyra þau orð hvísluð en fallega ástarjátningu fullum rómi ? 

Hún er samt hans en hann trúir því ekki.  Hún sagði það en hann heyrði það ekki .  Hún segir það og hann skilur það ekki.  Hún segir það aftur og hann fyllist efasemdum.  Efasemdir virðast hafa hreiðrað um sig í huga hans.  Skyldu þær vera komnar til að vera ?  Hjá Júdasi virðist upp vera niður og niður vera upp.

Þessi dagur er liðinn og Kútínan sest í fangið á Júdasi og kyssir hann góða nótt.  Kúturinn vill fá hann upp til að breiða yfir sig.    Líklega var tilganginum náð.  Líklega er þetta sagan öll og nóg sagt.


Júdas finnur ilminn allsstaðar

Hvenær er þessi draumur á enda, hvenær vaknar Júdas og sér að þetta var bara draumur.

Júdas hefur aldrei elskað svona heitt og aldrei verið svona hræddur um að missa frá sér það sem hann hefur haft.  Gamall ástsjúkur maður gæti einhver sagt og Júdas myndi bara kinka kolli.  Hann sér hana fyrir sér hvert sem hann fer og hvar sem hann er.  Greip almætið inn í hugsar hann með sér og tók frá honum það sem hann átti ekki skilið?  Tók frá honum það sem hann hafði ekki áunnið sér?  Svipti hann því sem hann höndlaði ekki rétt? Sofnaði Júdas kannski á verðinum og lagði niður vopnin sem honum voru gefin, heiðarleikann, hreinskilnina, kærleikann og bænina ?  Er það leyndadómurinn við þetta allt saman, eða var þetta í raunveruleikanum aldrei það sem átti að vera?  Var þetta aðeins fallegur kafli í lífi Júdasar sem nú tilheyrir fortíð hans, kafli í sögu sem skrifuð var af öðrum og Júdas aðeins ein af persónunum. Því skyldi Júdas njóta annars en ávaxtanna sem hann hafði líka þráð svo heitt og fengið. Þarna ætti aðeins að vera þakklæti fyrir það sem er og þakklæti fyrir hana sem huggaði og gaf, og ilmaði svo vel.

En Júdas finnur ilminn allsstaðar, tíminn mun ekki lækna þetta sár nema að brotunum verði raðað aftur saman………..

Líklega er þetta ekki endirinn en hver veit

Af hverju getur Júdas aldrei grátið?


Einmanaleg heimkoma

Einmanaleg heimkoma hjá Júdasi.  Peysan hennar hangir á stólnum og jakkinn frammi í forstofu, tölvan hennar á sófaborðinu og síminn í eldhúsinu en hún er ekki þarna og enginn ilmur.  Ekki það að Júdas hafi ekki vitað það heldur fyllir tómleikatilfinning hann því hann vissi að hún yrði ekki til staðar.  Unga konan var farin, farin að leita sér að ferskum vindum svo hún gæti haldið áfram að vera þessi ferski andvari hreiðursins sem hún var áður en svikulir straumar hrifu hana á braut.  Allir héldu að þeir væru ekki lengur til en það var aðeins gróið yfir þá.  Það var þá sem Júdas stóð upp.  Hann hafði ekki barist fyrir ungu konuna, litla Júdas, kútinn og kútínuna til að láta taka eitthvert  þeirra frá sér.  Aldeilis ekki. Og ekki voru spilin gefin á þann veg sem ætla mætti heldur kom óvinurinn eins og þjófur að nóttu.  Aldrei aftur mun Júdas gleyma því að unga konan þrátt fyrir alla þessa fegurð, móðurást, elsku og endalausan ilm var á sínum tíma hrifin úr hyldýpinu af almættinu til að fylgja eftir gömlum manni og uppfylla þannig værðina sem þeim hafði verið lofuð.

Júdas hefur áður beðið værðar og mun gera það hér og nú þar til hlutirnir renna saman á ný enda í dag talsmaður bæði kúts og kútínu sem eiga rétt á sömu værð og við.

Sársaukinn verður látinn víkja og sting hjartans ekki gefinn gaumur, hreiðrinu skal haldið opnu enda kalla ungarnir á ilminn og Júdas bíður.


Júdas hefur "allt"

     Er það svona að eiga þrjú börn?

     Vakna klukkan hálf fimm og hlusta á þögnina.

 

 

     Finnast biðin vera á enda.  Finnast allir hlutir fengnir.  Finnast lífið jafnvel of stutt til að geta notið þessara gjafa.  Finna fyrir þakklæti af öllu hjarta til almættisins.  Finna fyrir ró.  Finna fyrir frið.  Finna fyrir værð.

 

 

     Hann var hversdagslegur  morguninn þegar lítil kútína leit dagsins ljós.  Svo falleg og nett með mikið svart hár.  Hversdagsleikinn lét undan og dagur tilfinninga var tekinn við.  Hún vakti lengi þennan morgun eins og til að gefa sér góðan tíma til að virða fyrir sér þessi tvö brosandi andlit sem á hana störðu stolt með gleði tár í augum.

 

 

     Mér er það ljóst að fyrirsögnin á Júdasarblogginu á ekki lengur við en ég ætla þó að láta það standa.  Biðin er á enda og Júdas hefur fengið það sem hann þráði. Júdas hefur „allt“. Einn kútur er kraftaverk, tveir kútar eru þakkar verðir, þrjú börn eru náð.  Óverðskulduð gæska almættisins.


Stundin nálgast

Stundin nálgast.

 

Ef til vill var þetta frá upphafi áætlun þess en bráðlæti ungs manns og tilraunir hans til að flýta þessu bættu engu við það.

 

 

Gleðin og eftirvæntingin í kotinu er mikil, litli kúturinn með allt á hreinu og sá eldri dæsir og brosir út í annað.  Litli búinn að týna til allskyns dót sem honum þykir vænt um handa litlu systur og sá eldri ætlar að standa vörð um hana síðar.

 

 

Unga konan, bæði þreytt og þrútin, þolinmóð og tilfinningarík. 

Hvað ef kútínan væri svo bara kútur!

 

Gleðin yrði jafn mikil.

 


"Kútína"

Það eru undarlegar tilfinningar sem bærast innra með gamla manninum..............“kútína“...........

 Og ég sem hélt að þetta væri kútur! 

 Ertu viss? 

 Greinilegt já....... svo greinilega þarf að rýma í kútahópnum fyrir lítilli kútínu. 

Það er ekki laust við að gamall maður finni fyrir miklum straumum innra með sér, hörkutólið,  og ekki laust við að hann hafi fundið fyrir tárum..........sem engin sá eða heyra má......

 Það er eins og allir draumar á bið séu  farnir að streyma út í raunveruleikann ljóslifandi.

Unga konan brosir eins og skilningurinn  sé allur hennar megin;  hún sá!?

Kútarnir ljóma þótt enn sé langt í land, lítill kútur ber fram dótið sitt og bangsa handa henni eins og það sé á morgun, hinn brosir glaður og segir "loksins" .

 

Við þökkum almættinu.

 

Blessun Drottins.........hún auðgar,

og erfiði mannsins bætir engu við hana.


Látlaus gleði

Ég datt inn á bloggið mitt snemma í morgun og rótaði það aðeins í gömlum færslum og hef reyndar gert það áður.  Mér datt í hug að endurvekja þær af og til en þegar ég les þær yfir langar mig ekkert sérstaklega til þess.  Einmanaleiki einkennir þær og ég sem er ekkert einmana.  Dapurleiki virðist alsráðandi og einhver tjáningarþörf sem mér finnst ég ekki hafa þessa dagana.  Mér þykir samt svo vænt um Júdas og veit að hann er stór hluti af mér og hefur verði það til margra ára.  Oft hef ég valið mér hann til að vera í forsvari fyrir mig og enn oftar hefur hann bara komið fram sjálfur með bresti sína og galla, svo ekki sé talað um tilhneiginguna sem einkennir hann svo mjög, tilhneigingin til að svipta sig „klæðum“ fullkomnunar og heilagleika og vera bara mannlegur.............eins og það sé það sem við viljum.  Sem betur fer kemur þetta ekki oft fyrir en glíman við hann í huganum getur verið löng og ströng og fátt sem kemur að gagni á meðan nema auðvitað rigning og samtöl við almættið.  Hafi einhverjum dottið í hug þunglyndi þá slæ ég á það því það er ekki málið, að minnsta kosti ekki sjúklegt en sjálfsóánægja væri þó nær lagi.  Einhver meðvitund um eigin ófullkomleika og þá tilhneigingu til að vera stöðugt að svíkja sjálfan sig og gefin loforð gagnvart sjálfum sér, flest reyndar ómerkileg og varla tilefni til að tala um þau. 

Loforð samt! 

Ungu konunni finnst ég reyndar vera fullkominn og er sannfærð um að ég geti bókstaflega allt og það sama er að segja um kútana mína svo ég ætti að vera ánægður og er það reyndar í látlausri gleði.

Sumarið var yndislegt og tímanum að mestu eytt úti á lóð.  Sameinuð fjölskylda naut lífsins í einfaldleika hversdagsins við blómarækt, trjárækt og grasrækt........því ekki veitti af að hressa uppá sjálfa grasflötina.  Þótt ég hafi búið hérna í mörg ár hafði ég vanrækt lóðina og því var þetta nauðsynlegt og kærkomið viðhald sem hún fékk í bland við kærleiksstrauma og ást.Haustið............rigningin..........það er best að eiga bara sér færslu um það. 

kv Júdas


Gömul færsla endurvakin

Ég datt í leit minni að gleði niður á gamla færslu sem gaf mér von en um leið sá ég að tilvera hans er dýpri í dag en hún var þá.  Engu að síður er fjölskyldan stærri og sterkari, heimilið hamingjuríkara og hlýrra, stuðningurinn meiri, vonin sterkari og bænirnar heitari. 

 

Síminn hringdi og dapur eldri kútur var á línunni.  Depurðin og svartsýnin var algjör, „pabbi, hvað er að mér?“  „Af hverju get ég ekki verið glaður eins og þú?“  Gamli maðurinn skellti aftur tölvunni, „farinn“ og spólaði út í umferðina.  Nokkrum mínútum síðar sátum við kútafeðgar við eldhúsborðið og skeggræddum allar hliðar lífsins.  Baráttuna, tilganginn, myrkrið, ljósið, dagrenninguna og hjálpina sem væri alltaf innan handar.  Við sátum þarna við borðið í nærri tvo tíma og á eftir var ekki að sjá annað en að dökkur drunginn væri á bak og burt og gleðin og vonin væri tekin við.  Þessi vinur er bara spegilmynd pabba síns.  Samviskan stór og þung en ljós hans á öllum vegum og það ekki af tilviljun.  Hann var reiður við sig og ósáttur,  fannst hann gera alla hluti rangt, fannst hann lofa sér þessu og hinu en ekki standa við það, setti sér takmörk en færi ekki eftir þeim, alltaf að svíkja sig, alltaf að svíkja eigin loforð og það sem hann gerði rétt gerði hann ekki nógu vel.  „Af hverju er ég svona pabbi?  Af hverju er ég ekki eins og þú?“  „ Veistu það vinur-Þú ert eins og ég?  Meira að segja allt of líkur mér.  Það er bara lítill Júdas í okkur öllum sem gerir okkur mannleg og það er þess vegna sem við þurfum á Honum að halda og stuðningi hvors annars!“  „Við megum bara aldrei gefast upp og verðum að muna eftir því að rifja upp góðu stundirnar þegar „illa viðrar“, og stefna á þær aftur.“  Í miðju samtalinu sagði þessi yndislegi, hjartahlýi vinur: „Ég vildi að það færi að rigna!!“  og ég gat ekki annað en hlegið................“Það er alltaf svo gott að tala við þig pabbi, þú ert algjör sálfræðingur.“ 

     Hann ljómaði í gær og hann ljómaði í morgun.  Drunginn yfirstaðinn, gleðin og vonin allsráðandi.   Það verður ekki dregið í efa að litli Júdas líkist þeim stóra, hugsar mikið, veltir hlutunum mikið fyrir sér og telur sig alltaf geta gert betur.  Þeir sem þekkja Júdas af blogglestri gætu talið það Akkilesarhæl kútsins að líkjast föður sínum en sjálfur veit ég að sú sterka samviska sem okkur var blásin í brjóst og trúin á Guð sé það ljós sem lýsir okkur daga og nætur, í gleði og sorg, í von og vonleysi og leiðir okkur til þeirrar værðar sem við leitum.

 

     Hvort litli kútur sé þessum hæfileikum gæddur er of snemmt að segja til um en flest í fari hans minnir mig á þann eldri þegar hann var á sama aldri.  Ef til vill verður hann gjörólíkur okkur og búið að sníða af honum helstu galla „eldri árgerða“ og það gæti verið þakkarvert. Við treystum Almættinu í þeim málum.

 

     Dagurinn er fallegur og verður það hvernig sem viðrar.  Við ráðum ekki veðrinu en við getum haft áhrif á þá storma sem blása hið innra svo njótið dagsins.

 

Það er mér framandi að finna fyrir tárum en þessi færsla kallaði fram tár sem ég gat þó ekki skilgreint.

Gleði.............sorg 

Við ætlum okkur að sameinast og sigra.

 


Sá dagur mun koma

     Vindurinn blæs úti og regnið vonandi ekki langt undan.  Sólin mætti svo sem verma okkur á morgun.  Annars breytir veðrið ekki svo miklu þegar aðrir hlutir stjórna líðaninni.  Hugurinn er klofinn og hamingjan leiðir óhamingjuna og virðist ekki ætla að sleppa henni.  Faðmlög hér og faðmlög þar.  Einn birtist og færir gleði og fjör í bæinn, önnur birtist og fyllir allt af fegurð og værð, hinn birtist og  með honum skuggi vanlíðunar en það dregur ekki niður birtuna í bænum.  Aðeins sársauki í hjarta gamals manns og meðaumkun og skilningur Ungrar konu sem veit hvað er og trúir því sem verður.  Sannfæring gamla mannsins er þó algjör og bænir margra eru heyrðar.  Nú er bara að bíða og vaka.

Þakka ykkur sem munið eftir okkur.

Kúturinn litli er sofnaður í sófanum hjá mér og bráðum kemur fegurðin og værðin.  Ég læt hana ekki aftur frá mér svo mikið er víst.  Hjá henni er þrautseigjan, þolinmæðin og biðlundin.  Takk fyrir það.

Fjarlægur  kemur hann þó alltaf heim í vonina og er alltaf velkominn.

Sá dagur mun koma sem við ætlum,  að týndur kútur finni gleðina á ný og sameinist okkur hinum.


Að sitja hjá og horfa á.....og vona

     Þá er þessi fallegi dagur farinn af stað.  Ég vaknaði við fuglasögn og sólargeisla lífs míns, yfirgaf þá um stund og staðnæmdist við spegilinn í holinu.  Furðulegt!  Það virðist vera nýtt upphaf allt í kringum mig en samt virðist spegilmyndin ekkert breytast!  Gamall maður situr hjá og horfir á.  Það er þó þakkarvert að fá að horfa.  Ung kona með lokuð augun er fallegri en nokkru sinni.

 

     Lítill kútur vex svo hratt, heilbrigður og glaður.  Fjögur ár hafa þotið framhjá en þó man ég hvert andartak.  Stærri kútur, óx svo hratt en hvað varð um gleðina?  Þrettán ár þutu framhjá en fjögur ár án gleði og útgeislunar silast  áfram.  Og nú er komið að því!  Hann vill byrja upp á nýtt og ekki í fyrsta skiptið.  Þau eru orðin nokkur upphöfin en ég verð þó alltaf jafn glaður þegar hann kemur til mín og segir mér það sem ég veit.  „Þú hafðir rétt fyrir þér pabbi“.  Ég hefði allt eins getað leitað að eldri færslu og sett hana inn aftur.

     Hvað er betra en nýtt upphaf með reynslu í farteskinu og ferskar vonir í bland við fallega drauma sem áður voru horfnir.  Ég mun styðja hann eins og venjulega en ég er þó sannfærður um það að hann þarf eitthvað meira en áður.

 Hann þarfnast þess að sem flestir minnist hans í bænum sínum og þætti mér vænt um það.  Ef einhver veit um bænahóp þá minnist á hann þar kæru vinir.

 

     Við kútar erum ekki á þeim buxunum að gefast upp.  Vandræði okkar eru vafalaust smá í augum margra en í huga þess sem misst hefur gleðina og vonina er vandinn mikill og virðist illkleyfur.

 

Við lofum þó almættið og beinum vonum okkar að Honum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 48636

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband