Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Slæmu dagarnir hafa góðan kost

     Ég er búinn að vera eitthvað svo ómögulegur í dag.   Engu áorkað og andlaus.  Annað hvort aldurinn að segja til sín eða bara ræfillinn.   Ætlaði á æfingu en fór ekki,  lærði reyndar svolítið en alls ekki nóg.   Þvoði tvær vélar en braut ekki saman.  Sjaldan verið jafn óánægður með mig.   Ég verð að fara að taka kúvendingu í líkamsræktarmálum ef þetta á ekki að enda illa.  Núll til tvisvar í viku eins og þetta hefur verið síðustu vikur er ekki að gera sig  .   Ég lék mér þó við kútinn og við fórum á rúntinn og tókum unglinginn með.  Komumst að því að kúturinn sem ummaði í mislágum tónum væri að fara með einhverskona indíánaþulur en erfitt var að fá hann til að hætta því.  Hefði getað gert hvern mann brjálaðan en við eldri feðgar ákváðum að hækka svolítið í útvarpinu og leyfa kútnum að söngla. 

Slæmu dagarnir hafa þó góðan kost og eru því í raun góðir dagar.   Þeir skapa viðmiðin sem við notum þegar við gefum góðu dögunum einkunnir og ef þeir slæmu væru ekki til staðar væru þeir góðu það ekki heldur.   Þeir bara væru..................


"Það héldu það fleiri"

 Ég las í gærkveldi yfir ljóðabók Kristjáns frá Djúpalæk  Í víngarðinum og datt þar inn á gott ljóð sem á við í svo mörgum tilfellum.  Þar hitti Kristján heitinn naglEinn á bekknumann á höfuðið og því ætla ég að deila með ykkur.

 

Á kvöldi sem þessu, jafn kyrru og björtu,

snart ástin og batt tvö einmana hjörtu.

 Þá hamingjustund var hjalað og fagnað

því heitur var dreyri:  Við unnumst til dauða jafn ástríðumagnað,

já ár eftir ár skal ást okkar meiri.

En höfundur lífsins hló við og sagði:  Það héldu það fleiri. 

 

 

Ætli ég hafi ekki verið einn af þeim?   Og ef til vill þú líka.

 


Í einfeldni trúði ég á þennan draum

     Ég vakti lengi í nótt, miklu lengur en ég ætlaði mér og hugsaði mikið um það af hverju  ég ætti ekki konu eins og mig langaði mikið til að eignast eigin fjölskyldu strax á unglingsárunum.  Ég var ekki nema 17 ára þegar ég keypti fyrstu íbúðina mína og setti strax í útleigu því ég bjó í föðurhúsum en varð að fara snemma af stað því konu og börn ætlaði ég að eignast.   Auðvitað sá ég fyrir mér að ég myndi kynnast konu og eignast með henni öll þessi börn, þrjú til fjögur stykki og eldast svo með þeirri elsku.   Íbarnslegri einfeldni trúði ég á þennan draum og vissi ekki þá að ég ætti eftir að taka mörg feilspor, hrasa, standa upp og hrasa aftur áður en ...........tja, áður en eitthvað myndi gerast.    Ég veit reyndar ekki hvort ég er enn að bíða eftir því að þessi draumur rætist en börnin eru komin eitt og tvö svo líklega á ég eitt inni eða það vona ég allavega og ætti sennilega bara að auglýsa eftir barnsmóður,  já og hengja upp auglýsingu í forstofunni hjá mér og við rafmagnstöfluna.   Þar eru jú heitustu deit staðirnir hjá mér þessar vikurnar og mánuðina.   Ég er búinn að ákveða það að í ljósi nafnleyndar ætla ég fljótlega að hripa niður smá pistil um þessar konur sem konu við sögu og voru áhrifavaldar í lífi mínu þótt aldrei næði það áratug en það munaði einu sinni litlu.  Íþróttakonan, margrabarna móðirin, rauðhærða konan og unga konan komu við sögu á tæplega 20 ára tímabili og þegar ég læt hugann reika sakna ég margra hluta frá þeim hverri og einni.   Stundum þegar ég hugsa mikið um þetta eins og ég hef gert undanfarna mánuði kemur yfir mig mikil hryggð og söknuður en ég veit ekki hvort ég sakna fallegra stunda og tímabila eða þessara fljóða sem komu við sögu.  Hvernig ætli ég fari inn í næsta samband og með hvaða hugarfari á ég að fara inn í það.   Á ég að stilla klukkuna vitandi það að niðurtalning er hafin um leið og sambandið byrjar eða á ég að bíða og vona að þarna sé komin konan sem rétti mér stafinn og styðji mig það sem eftir er?   Einn er líka möguleikinn og hann finnst mér bestur, að ég hugsi einfaldlega ekki neitt.  Gleymi stað og stund, verði blindur af hrifningu og ást, ýti frá með skynsemi og rökhyggju og fljóti bara um á vængjum ástarinnar.  Ég veit samt ekki af hverju ég er að skrifa þetta því mér líður þannig í dag að ég er fullur efasemda um að þetta gerist á þann veginn.   Ég útiloka meira að segja ekki það að ég búi einn með kútunum í mörg ár enn............Jæja, þetta gengur ekki.  Gerir mig bara dapran.   Best að hrista þetta af sér og elda morgunmatinn.


Sameinaðir á ný

 Pabbinn og kúturinn 2

Þá er loksins komin langþráð fríhelgi og við feðgar sameinaðir á ný því litli kúturinn er kominn frá mömmu sinni.  Reyndar er unglingurinn stokkinn út til vinar síns en þeir ætla víst að Lana fram á nótt eins og það heitir á tölvuslangri.  Við litli kútur hreiðruðum um okkur í sófanum og sungum krummalögin og allan pakkann og síðan leið kúturinn útaf á vit drauma sinna.    Þótt helgin fari eitthvað í lærdóm ætlum við í Laugar um hádegi og líklega á sunnudaginn líka.   Kringlan er vinsæl svo við tökum hring þar líka á morgun og rennum í Ikea.  Dagurinn var góður og rigningin æðisleg.   Ég þurfti úr bænum og finnst ekkert betra en að keyra í rigningu, heyra í regninu og öll hljóð dempuð.   Vonandi verður rigning á morgun líka.


Ég dáist að þeim

Ég tek ofan fyrir þessari fjölskyldu sem að mínu mati hefur tekið siðferðislega rétta ákvörðun i þessu máli eða hvað.  Þegar ég las þetta og fór að hugsa um það get ég alls ekki gert mér í hugalund hver mín ákvörðun hefði verið í sömu stöðu þannig að ég dáist að þessu fólki.  Hvað hefðir þú gert og hvar ætlum við að láta mörkin liggja?    Við höfum öll séð fólk með Downs-heilkenni og oft hefur maður brosað til þeirra eins og til barna enda börn í þroskuðum líkama þar sem einlægnin virðist allsráðandi.  Við getum vafalaust lært mikið af þeim og eins og með heilbrigð börn koma þau okkur án efa á óvart með marga hluti sem snúa að barnslegri einlægni en bara miklu miklu lengur.


mbl.is Foreldrarnir völdu fatlaða barnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hvað hefurðu sofið hjá mörgum konum pabbi"

Eldri kúturinn minn sem er reyndar unglingur svaf ekki heima í nótt en það má telja það á fingrum annarrar handa þau skipti sem hann hefur gist annars staðar.   Hann ætlaði út af skólafríi að gista hjá vinkonu sinni sem býr í næstu götu og hefur mikið verið hérna hjá okkur í heimsókn.   Þegar hann kvaddi mið í gærkvöldi var hann samt ekki viss um að hann gæti sofnað þarna og því kæmi hann ef til vill heim aftur.   Í morgun þegar ég vaknaði var ég einn í hreiðrinu en mér létti þegar ég sá að tannburstinn hans var ekki í glasinu.   Hann tók hann greinilega með svo ég reiknaði með því að þetta hefði verið í góðu lagi.   Hann fær bílpróf í febrúar og hormónastarfsemin og radarinn á fullu.

Um daginn leit hann inn í eldhús þar sem ég sat með tölvuna á eldhúsborðinu og sagði við þreyttan gamlan föður sinn.  „Pabbi.......“hvað hefurðu sofið hjá mörgum konum ? „  Púff hvað mér brá við þessa spurningu en leit rólegur og yfirvegaður á félagann sem stóð glottandi í dyragættinni eins og hann ætti heiminn.  „Finnst þér líklegt að ég fari að segja þér það?“   „ af hverju ekki? skammastu þín fyrir það hvað þær eru fáar?“  sagði hann hróðugur og greinilegt að það var farið að hall á mig.  „Eru þær færri en sextán?“ hélt hann áfram og nú gekk hann alveg fram af mér.  Gat það verið að svona ungur maður væri búinn að leggjast með sextán stelpum? Og hann aðeins sextán ára?  Hvað er í gangi?  Ég snéri nú vörn aðeins í sókn og spurði hann hvort hann væri búinn að sofa hjá sextán stelpum og hann játti því.    Heldurðu vinur að ég pabbi þinn fertugur sé það ekki búinn að leggjast með fleiri konum en þú sextán ára?“     „hehehe, miðað við hvað þú vinnur mikið og situr mikið einn hérna geta þær nú ekki verið margar“ sagði hann og lét sig hverfa sem betur fer því ég velti því lengi fyrir mér á eftir hvort mér væri vorkunn eða ekki úr því drengnum fannst líf mitt svona einfalt og einmanalegt.   Er þetta ísland unglinganna í dag?


Óþarfa áhyggjur

     Furðulegur dagur í gær.  Ég vaknaði kl 05:30 því í mér var eitthvert stress og etv áhyggjur en þegar svoleiðis er upp á teningnum minnka ég kaffidrykkju og geri allt sem ég get til að finna út hvað það er sem veldur.  Skulda ég einhverjum eitthvað?, hef ég sagt eitthvað særandi við einhvern?,  hef ég gert einhverjum eitthvað ?   Er ég latur í vinnunni?  eða heima fyrir ?   Er ég að sinna strákunum mínum illa?  eru sígildar vangaveltur sem ég fer yfir í huganum til að komast að hinu sanna.  Ókominn einkunn sem ég er búinn að bíða eftir lengi úr prófi sem mér gekk svo skelfilega í og var langt undir getu í gæti verið hluti af þessu.   Verkefni sem ég á að skila í kvöld er jafnvel hluti af þessu og fundarröð í vinnunni sem ég þarf að vera á í dag ca 3 eða 4  etv líka.  Nú svo sakna ég litla kútsins míns sem hefur það svo frábært hjá elsku mömmu sinni þessa dagana.   Margt af þessu leystist  á farsælan hátt þegar líða tók á daginn og áhyggjurnar greinilega óþarfar eins og þær eru yfirleitt þegar þær koma.   Fundirnir gengu frábærlega,  verkefnaskilin duttu í loftið kl 22:30 og loksins kom einkunnin sem hafði mestar áhyggjur af og hljóðaði upp á heilar 8,0.  Amen fyrir því.  Ekki datt mér þetta í hug og naga mig nú í handarbökin fyrir að hafa ekki verið yfirvegaðri og rólegri í prófinu og gengið betur.   Ferlega er maður furðulegur.  Skildi það vera þess vegna sem ég bý einn með kútunum?  Ætti ég að stækka forstofuna?    Jæja , nóg í bili.


Bónus gerir þetta líka!

Það eru ekki bara norski matvörumarkaðurinn sem gerir þetta því ég hef lent í því í tvígang að minnast á það í Bónusbúð að kjöt sem ég keypti í annað skiptið og morgunkorn í hinu tilvikinu,hafi verið vont.  Ég var samstundis rifinn inn á skrifstofu til verslunarstjóra,  eitthvað prentað út og varan endurgreidd á kassa.  Í kjöt tilfellinu tók verslunarstjórinn upp símann að auki, hringdi í framleiðandann og viti menn,  heim til mín um kvöldið kom maður og færði mér læri og helgarsteik í sárabætur.   Þetta er sko þjónusta í lagi ekki satt.   Svo bölva menn Bónusi ! 


mbl.is Matvaran endurgreidd þótt í magann sé komin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vondar barnsmæður en ljúfur dagur

Ferlega fallegur dagur í dag og minn risinn úr veikindum og slappleika beint og beint í vinnu.   Svo undarlega vildi til í gær að ég hafði  varla tíma til að fá mér kaffibolla eftir að hafa sett lofræðuna um barnsmóður mína fyrri á bloggið því konan hringdi í mig en ég hef ekki heyrt í henni í tvo mánuði.  Það skal tekið fram að unglingurinn okkar er auðvitað búinn að heyra í henni en hún veit ekkert um þetta blogg og veit varla nokkuð um tölvur eða netið.   Furðulegar svona tilviljanir.   Ég tek það fram núna að auðvitað eru vafalaust margar barnsmæður frábærar, ljúfar og allt það en full ástæða fyrir hverja og eina að velta því fyrir sér.   Ég  var hinsvegar bara með þær slæmu í huga í gær svo það sé á hreinu.

Nóg í bili.  


illskeyttar barnsmæður of margar

Lítill drengur m blóm     Þá er litli kúturinn kominn til mömmu sinnar og verður þar í viku að undanskildum einni eða tveimur nóttum þar sem hún þarf etv að vinna aukalega.  Það er ekkert nema gott um það að segja að fá kútinn í hreiðrið aukalega.  Ég fór yfir það í huganum áðan hversu gott það er að eiga 100% gott samband við barnsmæður þegar til skilnaðar kemur eða bara yfir höfuð.  Ég á því láni að fagna að mínar barnsmæður hafa reynst óaðfinnanlega í öllum samskiptum og sett barnið í fyrsta sæti.  Það hljómar vel og hljómar sjálfsagt eins og það sé alltaf þannig hjá fólki en það er alls ekki.  Reiði og biturleiki þar sem barninu er otað í fremstu víglínu óvopnuðu og óbrynjuð er í alltof mörgum tilfellum látinn yfir barnið ganga og þann sem ekki er með forræðið og vil ég fullyrða að þar eru mæður í rosalega mörgum tilfellum gerendur og illskeyttari en feður.   Þær bölva feðrunum og segja þá ekkert geta, engu nenna og ekkert skipta sér af barninu en gleyma öllum þeim beiðnum og hliðrunum sem þær ekki vildu líta við af þrjósku og eigingirni að því er virðist og njótandi þess „valds“ sem þeim var falið.   Auðvitað eru vafalaust til dæmi í hina áttina þar sem feður geta komið svona fram við mæðurnar en oftast eru það mæðurnar.  Mig hefur oft langað til að ganga í félag einstæðra feðra til að geta sýnt hina hliðina á þessum málum þar sem móðirin hugsar um barnið og samskiptin við föðurinn sem af alúð.   Þannig var það með eldri soninn sem er 16 ára í dag og hefur búið hjá mér í 11 ár.  Ég var aldrei með forræðið yfir honum enda ekki boðið upp á sameiginlegt forræði hér í denn heldur bara otað að mér blaði og mér sagt að skrifa undir „hérna“.   Ég bjó með þeirri konu í fjögur ár en drengurinn kom undir eftir tveggja ára sambúð í mikilli gleði og hamingju.   Tveimur árum seinna var sambúðin á enda og ég flutti út.  Þar sem drengurinn átti hjarta mitt óskipt og skilningur móðurinnar var algjör voru allar helgar pabbahelgar og þurfti ég aðeins tvisvar að hliðra því vegna vinnu en tók kútinn þá á virkum dögum í staðinn.   Allt gekk vel og stundum kom hún með hann á náttfötunum til mín seint um kvöld af því hann neitaði að fara að sofa og vildi sofa hjá pabba.  Aldrei fann ég til  afbrýðisemi, reiði eða neins þvílíks heldur alltaf vináttu og kærleika.  Auðvitað kom það fyrir þegar hann var hjá mér að hann vildi mömmu og þá var þetta gagnkvæmt.  Ég flutti nokkrum árum síðar á höfuðborgarsvæðið, burtu frá drengnum en þá flaug hann til mín helgi eftir helgi fyrsta hálfa árið en sagði svo stopp!  „Ég vil flytja til pabba“ var viðkvæðið og hún hringdi í mig og sagði mér frá þessu.  Þremur mánuðum seinna var hann fluttur til mín og enn og aftur sannaði hún hversu ljúf hún er og óeigingjörn.   Ég er alltaf að heyra sorgleg dæmi og veit einnig um þau úr kunningjahópnum þar sem reiðar mæður, bölvandi feðrunum bregða fæti fyrir góð samskipti við börnin með því einu að vera ósveigjanlegar og ósanngjarnar í framkomu gagnvart feðrunum.  Sá sem fer með forræðið er ekki lögregla eða dómari í samskipum barns við föður heldur erindreki og verndari barnsins einnig í samskiptunum við föður og ber að leita allra leiða til að barnið fá það sem því ber í þessum samskiptum.   Ég er lánsamur og þakka Guði fyrir það.   

Stöndum vörð um samskipti barna við báða foreldra.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Júdas

Höfundur

Júdas
Júdas

"Einn sem hefur allt en bíður þó eftir einhverju sem hann hefur ekki" Þetta á víst ekki við í dag.  Í dag væri nær að segja. Einn sem hefur allt en þarf að muna, viðhalda og sýna þakklæti. judas_@msn.com

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 48619

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ...0808_722078
  • Tröppur
  • Unga konan
  • Bekkurinn okkar
  • Lítill drengur með blóm

http://www.projectplaylist.com/myspace/20002550

Dire Straits - Romeo And Juliet

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband